Séntilmaðurinn Gunnar Nelsson

Nelsson og JúbanÞað skal tekið fram að ég hef ekkert vit á þessari MMA íþrótt og veit ekkert um hvað þetta sprikl snýst en ég vona samt að mér leyfist að lýsa upplifun minni af leiknum í gær á milli þeirra Gunnars Nelssonar og Alans Júban eða hvað hann nú heitir sá ágæti maður.

 

Margir vilja meina að þetta sé ekki íþrótt heldur bara ógeðslegt ofbeldi og pjúra villimennska. Ég get ekki lagt neinn dóm á það þar sem ég veit ekkert útá hvað þetta gengur og hef aldrei horft á þetta áður en ég get þó sagt það að þessi leikur í gær á milli Gunnars Nelssonar og Anals Túrban sýndi og sannaði, allavega fyrir mér, að MMA getur seint talist til ofbeldisíþrótta.

 

Leikurinn byrjaði þannig að þeir félagar dönsuðu við hvorn annan í níðþröngum nærbuxum einum fata í nokkra stund. Mér fannst þetta frekar vandræðalegt en ákvað samt að horfa áfram og gefa þessu séns.

 

Gunnar var frekar ágengur og dansaði þétt uppvið gæann en Anal Jogvan færðist undan og vildi greinilega fá að vera í friði. Gunnar hélt áfram að elta Anal um dansgólfið og áreita hann og stugga við honum og pota í hann alveg þangað til það fauk í Anal og hann hreinlega sparkaði í Gunnar. Gæinn greinilega ekki alveg í andlegu jafnvægi.

 

Ég var mjög hissa á þessum harkalegu viðbrögðum Anals en Gunnar virtist ekkert kippa sér upp við þetta og hélt áfram að dansa og hoppa í kringum Anal og ýta við honum og dangla í hann og pirra hann á alla lund. Ekki veit ég afhverju en kannski að það sé hluti af leiknum að vera með smá stæla og leiðindi. Ekki spyrja mig.

 

Gólffélagarnir Gunnar og AnalSvona hélt þetta áfram þangað til þeir voru orðnir vel heitir og rjóðir í kinnum. Þá allt í einu skrikaði Anal fótur og var alveg við það að detta en Gunnar greip hann í fallinu og forðaði honum frá meiðslum og lagði hann mjúklega á gólfið. Gunnar lagðist ofaná Anal og þeir fóru að láta vel hvor að öðrum og skiptast á svita og hvísla einhverju í eyra hvors annars sem ég heyrði ekki.

 

Ég leit undan því mér fannst þetta orðið aðeins of persónulegt og eitthvað sem mér kæmi ekki við – þetta væri þeirra einkamál - en ég ákvað að harka af mér og taka þessu eins og fordómalaus hvítur miðaldra ófatlaður forréttindakarlmaður og halda áfram að horfa til að vera viðræðuhæfur um þessa íþrótt þó ég hafi reyndar aldrei verið par hrifinn af rómantískum ljósbláum myndum.

 

Einmitt þegar fjör var farið að færast í leikinn þá klingdi í bjöllu og dómarinn sagði þeim að slaka aðeins á og kæla sig niður og fara í sitthvort hornið svo að þessi sýning yrði ekki bönnuð innan 16 ára. Sminkurnar þeirra í horninu þurrkuðu af þeim svitann, púðruðu þá í framan, settu á þá augnskugga eða eitthvað og helltu ísmolum oní nærbuxurnar.

 

Í annarri lotu æstust leikar og leikmenn enn frekar. Anal Súpan, eða hvað hann heitir nú annars sá ágæti maður, þykir nú ekki beint á pari við Einstein og því ákvað Gunnar að reyna að koma vitinu fyrir hann og hrista aðeins upp í hausnum á honum með því að gefa honum smá vink. Eða kannski að Anal hafi spælt Gunnar með orðum eins og: "Heyrðu elskan, við skulum bíða meðetta þangað til í fyrramálið uppá hótelherbergi. Ég er með hausverk."  Ég bara hreinlega veit það ekki. Allavega sló Gunnar til hans og það var kannski ekki mjög íþróttamannslega gert í leik sem þessum en það er sama. Ætli hann hafi ekki bara verið að svara fyrir sparkið sem hann fékk í fyrstu lotu. Hvað veit ég? Þetta var allavega ekki gert til að meiða hann því hann miðaði á gagnaugað á honum en ekki beint á trýnið.

 

KlofbragðÞetta kom Anal mjög á óvart og hann vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga og í sömu svifum stökk Gunnar Níelsson einsog kirkjuslanga á Anal og vafði arminum nokkra hringi um háls hans og faðmaði hann þétt að sér. Svo vöðlaði hann honum saman og sneri uppá hann allan þannig að andlit Anals var eins og harmonikka í klofi Gunnars. Þetta er víst kallað klofbragð og Anal fékk að finna það.

Næst þegar hann fer útí ísbúð þá biður hann örugglega um sjeik með klofbragði. (Smá djók).

Ég verð að segja að ég hef aldrei séð aðrar eins aðferðir í nokkurri klámmynd og er ég þó búinn að sjá þær margar.

 

Á þessu augnabliki hélt ég að leikurinn væri fyrst að hefjast fyrir alvöru en kemur þá ekki einhver afskiptasamur leiðinda siðgæðisvörður askvaðandi inná dansgólfið og slítur þá úr faðmlögunum og baðar út höndunum einsog vitfirringur til merkis um að þetta sé alltsaman búið og það sé ekkert meira að sjá.

 

Það fannst mér einkennilegt helvíti því rétt áður en hann flautaði leikinn af þá þuklaði hann af ákefð á rassi Gunnars (eins og sjá má á mynd) og handlék kinnarnar fagmannlega eins og hann hefði aldrei gert neitt annað um sína daga, þannig að þessi dúddi hafði nú ekki beint efni á að vera að leika einhverja siðgæðislöggu.

 

Hvað um það. Í morgun sá ég viðtal á útlensku við Gunnar um leikinn. Þar spurði einhver ofbeldissinnaður blaðamaður Gunnar að því afhverju hann hefði ekki kýlt Anal sundur og saman og flatt út á honum smettið í restina þegar hann hafði kjörið tækifæri til þess.

 

Ég skildi ekki þessa spurningu og líklegast ekki Gunnar heldur því hann svaraði eitthvað á þá leið að það hefði ekki verið nein ástæða til þess - Anal þessi Rjúpan væri myndarlegur náungi og ynni fyrir sér sem ljósmyndafyrirsæta og nærbuxnagína og jakkafataherðatré og því engin ástæða til þess að vera að hræra eitthvað í andlitinu á honum – og sem friðelskandi og umhyggjusamur maður hafi hann því ákveðið að hengja hann.  "Það er hreinna og fallegra en að vera að djöflast á honum eins og graður hundur," sagði Gunnar.

 

Það er rétt. Það var alveg kominn tími til að hann hætti því. Það er nefnilega svo mikið mikið hreinna og fallegra og hjartnæmara að hengja menn og kyrkja þá með berum höndum en að djöflast og riðlast á þeim eins og spólgraður hundur eða hjólgraður karlmaður. Það þarf ekkert að deila um það. 

 

En jæja, ég er allavega einhverju nær um þessa íþrótt þó ég misskilji hana kannski eitthvað ennþá. Get allavega sagst hafa horft á einn leik og ég verð að segja að ég er bara alveg ágætlega ánægður með þetta erótíska sport þó það mætti kannski vera aðeins meira um smá pústra og átök og svoleiðis í þessu og minna um faðmlög og knús.

Ég hef ekki hugmynd um fyrir hvað skammstöfunin MMA stendur en ég myndi skjóta á: Mannúð. Munúð. Aðgát.


mbl.is Magnaður sigur Gunnars (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Frábær lýsing, ég myndi ekki missa af bardaga, ef Stöð 2 myndi ráða þig sem meðlýsanda. Þú yrðir klárlega ekki meðvirkur lýsandi. cool

Theódór Norðkvist, 19.3.2017 kl. 15:28

2 Smámynd: Sverrir Stormsker

Theódór, takk fyrir það. Ég skil ekki afhverju sumir eru að æsa sig yfir svona soft pornói.

Sverrir Stormsker, 19.3.2017 kl. 16:03

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Góður að venju.  Ég tek undir með Thedóri meira að segja myndi ég íhuga það alvarlega að gerast áskrifandi að "sportpakkanum" ef þú yrðir lýsandi.

Jóhann Elíasson, 19.3.2017 kl. 16:16

4 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jóhann, ég þarf greinilega að fara að sækja um hjá þessum lífeyrissjóði sem á Stöð 2 og sorppakkann og allt það.

Sverrir Stormsker, 19.3.2017 kl. 16:47

5 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sverrir.

Þú klikkar aldrei. Þvílur snilldarpenni sem þú ert.

En ég tek undir með þér varðandi hvað MMA stendur fyrir.

Er það,......

Menn Með Athygli..??

Menn Með Aðhald...??

Menn Með Aftruenda...??

Eða bara

Menn Með mönnum og Alveg sama...??

coolcoolcool

Sigurður Kristján Hjaltested, 19.3.2017 kl. 19:45

6 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurður, þetta eru fínustu uppástungur hjá þér. Þetta gæti allt komið til greina.

En á ensku þá held ég að MMA standi ekki fyrir Morons, Motherfuckers, Assholes og ég held að UFC standi ekki fyrir Useless Fucking Clowns því þetta er greinilega ekki íþróttagrein fyrir einhverja leppalúða.

Sverrir Stormsker, 19.3.2017 kl. 21:57

7 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Bara bros..ha,ha,ha,...winkwink

Sigurður Kristján Hjaltested, 20.3.2017 kl. 05:46

8 Smámynd: Jens Guð

Loksins fékk ég skýringu á þessu undarlega fyrirbæri sem MMA viðureign er.  Ég veit að það þarf tvo til að dansa tangó.  Þetta er ekki tangó en samt.  Ekki heldur tveggja manna bridge eða vist.  En eitthvað svona tveggja manna hjal.  Á tímabili datt mér í hug að þetta væri einhverskonar trúarleg athöfn (með kaþólsku ívafi).    

Jens Guð, 21.3.2017 kl. 17:37

9 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jens, já þetta er tveggja manna eitthvað, en það er nú samt rík ástæða til að óska Gunnari til hamingju með glæstan sigur. Þetta er örugglega pollrólegasti hengingarmeistari sem til er. Kallinn er verulega góður í sínu fagi. Vona að hann verði heimsmeistari.

Sverrir Stormsker, 21.3.2017 kl. 22:14

10 Smámynd: Sigurður Andrés Jónsson

Er ekki tilvalið að kalla manninn Gunna goða, hann er verulega goður i þessu sporti og svo er hann vist afbragðs manneskja lika, sem sagt drengur goður. Fint hja þer Sverrir að gefa þessari iþrott sma gaum, skemmtilegra sjonvarps efni en td.leiðinleigir sjonvarpsþættir.

Sigurður Andrés Jónsson, 22.3.2017 kl. 01:17

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurður Andrés, Gunnar tilheyrir góða fólkinu - í jákvæðum skilningi. Hann er ekki bara topp íþróttamaður heldur virðist hann líka topp náungi.

Ég er sammála þér um það að þessi íþrótt sé mun skemmtilegra sjónvarpsefni en leiðinlegt sjónvarpsefni. :)

Sverrir Stormsker, 22.3.2017 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband