Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Fjórflokkurinn bjó til Besta flokkinn

 

sofandi nautSlagorð Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum er: Vekjum Reykjavík! Broslegt að flokkur sem svaf á verðinum í aðdraganda hrunsins skuli velja sér þetta slagorð. Samfó er stærsta svefnherbergi landsins. Þeir mættu nú alveg byrja á því að rumska sjálfir. Svo eru þeir með svæfingalækni í forsvari. Sá gæi er svo fær í sínu fagi að hann gæti talað naut í svefn og jafnvel svæft það svefninum langa. Þetta eru svefnpillurnar sem ætla að "vekja Reykjavík." Einmitt. Þeir tala einsog flokkur þeirra sé ekki í ríkisstjórn. Þetta lið er ennþá allt steinsofandi á sínu vinstra græna eyra. Þeir skilja ekki að Reykjavík er vöknuð. Hroturnar í Fjórflokknum hafa vakið okkur. Stór hluti borgarbúa hefur opnað augun og er búinn að fá uppí kok af svefndrukknum Fjórflokknum og öllum hans innantómu svæfandi froðufrösum og er tilbúinn að sýna það í verki í dag. Þeir sem þurfa virkilega að vakna og rífa sig upp á rassgatinu eru atvinnustjórnmálamennirnir.

 

Glens er ekkert grín

Íslenskt dýralíf.Þegar ég heyrði fyrst um framboð Jóns Gnarrs og hans ísbjarnarblús hugsaði ég: "Enn ein þvælan. Ekki meiri dellu takkfyrir. Ætlar þetta rugl í Íslendingum engan endi að taka? Það ætti að læsa alla þjóðina inní búri í húsdýragarðinum með hinum svínunum."

En svo fór ég að skoða dæmið galopnum huga. Á heimasíðu Besta flokksins er að finna fjölmargt skynsamlegt og skemmtilegt, einsog t.d. hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar um að flytja húsin í Árbæjarsafni í Hljómskólagarðinn og lífga hann við, gera listir að grunnþætti í skólastarfi, o.s.fr., og svo er alvaran krydduð með dágóðu spaugi, t.d. skotum á femínistajafnrétti: "Við erum eini flokkurinn á Íslandi sem er með þá kröfu að næsti forseti Íslands verði einhver þroskaheft kelling."

Margt gott fólk er á lista Besta flokksins, t.d. Einar Örn Benediktsson og ég veit að þar fer ljónklár og hugmyndaríkur framkvæmdamaður, þó hann sé tónlistarmaður. Enginn þarf að efast um að þetta fólk muni ekki gera sitt besta til að koma mynd á borgarómyndina. Eitt er víst að ljótari og leiðinlegri getur hún varla orðið. Ég vil mun frekar sjá spaugsamar ráðdeildarsamar húsmæður og húskarla í borgarstjórn með brjóstvitið í lagi en háalvarlega bannaglaða félagsvísindamenntaða talíbana og hélaðar skýrslukynjagreinandi femínistabullur. Og hver segir að greindur skapandi grínisti þurfi endilega að verða verri borgarstjóri en t.d. svæfingalæknir eða geimréttarhagfræðingur?

 

Fjórflokkurinn er kominn til að fara

deaf_blind_dumbFólk er búið að horfa uppá VG og Samfó í landsmálunum svíkja kosningaloforðin á færibandi og klúðra öllu sem hægt er að klúðra eftir hrun með fádæma klunnaskap, óheiðarleika, heimsku, vanhæfni og landráðatilburðum og fólk er búið að horfa uppá bakhnífasirkus og óheilindi Fjórflokksins í borginni og er skiljanlega búið að fá æluna út um báðar nasir. Hroki atvinnupólitíkusanna bætir ekki úr skák: "Við erum ábyrgir fagmenn. Látið okkur alvöru  proffana um að losa ykkur úr ógöngunum sem við komum ykkur í."

Fjórflokkurinn er í fílabeinsturni og hlustar ekki á fólk. Hann er blindur og heyrnarlaus. Fjölfatlaður. Neitar að breyta vinnubrögðum sínum og reita arfann í eiginn garði. Hann vinnur á móti fólkinu og hefur gert sig að óvini þess númer 1. Þessvegna varð Besti flokkurinn til. Besti flokkurinn er í raun alfarið í boði Fjórflokksins. Þetta er faktískt eini valkostur þeirra sem vilja gefa Fjórflokknum langt frí og ennþá lengra nef. Fólk kýs tvíhöfðagæa til að snýta fjórhöfða.

 

Lifi leiðindin!

formadurinnEf alvarlega þenkjandi fólk gæti reynt að gleyma því eitt augnablik að Jón Gnarr hafi húmor, sem virðist stórhættulegt að hafa í dag, og myndi lesa aðgerðaráætlun Besta flokksins fordómalaust, þá sæi það bestu og skemmtilegustu stefnuskrána sem boðið er uppá fyrir þessar kosningar. Þó að stefnuskrár stjórnmálaflokka séu þau plögg í þessum heimi sem minnst er farið eftir þá gefa þær engu að síður vísbendingu um það hvernig landið liggur í viðkomandi flokki og á hvaða nótum hann hugsar.

Jón Gnarr er frumlegur og frjór og vonandi kjarkaður og kann að hugsa út fyrir pappakassann, og því fyrirtaks borgarstjóraefni í alla staði, þrátt fyrir að hafa þann hræðilega galla að vera fyndinn. Georg Bjarnfreðarson er nú orðinn George Best. Það er alveg ástæðulaust fyrir fólk að vera hrætt við nýtt blóð og nýja vendi í borgarstjórn. Fjórflokkurinn þarf ráðningu. Nýir vendir sópa ekki bara best. Þeir flengja líka best.

 

 (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband