Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Dæmigert alíslenskt fullkomið smábæjarbullshit

Það er mikið búið að vera að rugla um það á Facebookí gærkvöld og í dag að ég hafi verið að safna meðmælendum fyrir Ástþór Magnússon hjá drukknum ungmennum í miðbænum uppúr hádeginu í gær.

Fyrir það fyrsta þá er Ástþór fyrir löngu búinn að skila inn sínum meðmælendalistum. Í öðru lagi hef ég ekki komið nálægt undirskriftasöfnunum fyrir þessar kosningar, hvorki fyrir Ástþór né aðra frambjóðendur. Sorry. Skal reyna að gera eitthvað í málunum næst, nú eða að bjóða mig fram, einsog restin af þjóðinni.

DV, sem oft og iðulega er fyrst með "fréttirnar," sendi fyrir klukkutíma svohljóðandi fyrirspurn til Ástþórs: 

 2012/4/28 Aðalsteinn Kjartansson <adalsteinn@dv.is>

Sæll Ástþór,

FacebookMyndMig langar að fá viðbrögð þín við mynd og gagnrýni sem gengið hefur um á samskiptasíðunni Facebook (sjáhttps://www.facebook.com/photo.php?fbid=3492303820585&set=a.1149535252835.23587.1061193730&type=1&theater).

Á myndinni sést þú safna undirskrifta á meðal ungra einstaklinga sem eru með áfengi um hönd.

Er eðlilegt að biðja þá sem neytt hafa áfengis að skrifa undir meðmælalista vegna forsetaframboðs?

Hverju svarar þú gagnrýnni þeirra sem segja það óeðlilegt?

Bestu kveðjur,

Aðalsteinn Kjartansson

Blaðamaður DV
 
 
Hér kemur svar Ástþórs:
 
"Ekki sá ég áfengi á neinum manni er ég gekk niður laugarveginn með hendur í vösum í gær ásamt hinum ágæta félaga mínum Sverri Stormsker um kl. 14 eftir jarðaför vinar okkar og öðlings Geira á Goldfinger. 

Hinsvegar fannst mér alveg bráðfyndið að vera beðinn um að skrifa á stuðninglista fyrir Þóru Arnórsdóttur.

Ef börn og unglingar eru í miðbæ Reykjavíkur undir áhrifum áfengis um miðjan dag er það alvarlegt mál. Vímuefnaneysla og vaxandi ofbeldi meðal unglinga er áhyggjuefni og vandamál sem þjóðfélagið þarf að leysa. Það er alls ekki eðlilegt að ungt fólk lendi í slagsmálum og á slysavarðstofu eftir böll."

Ástþór Magnússon
 
 
Þar sem þetta Facebook-bull beindist einnig að mér þá sendi ég blaðamanni DV eftirfarandi sannleika í sama pósti:
 
"Ég frétti að það væru gasalega miklar umræður um þetta ekkisensrugl á fésinu. Við Ástþór vorum einfaldlega að koma úr jarðarför góðvinar míns Geira gullputta og ætluðum að fá okkur þarmastíflulummu á veitingastaðnum Ítalíu. Ástþór lagði bílnum og ég skaust inní Mál og menningu til að fá skiptimynt í stöðumæli. Þegar ég kom til baka sá ég hvar Ástþór var umkringdur unglingum, líklegast framhaldsskólanemum, sem vildu alveg hreint endilega fá myndir af sér með friðarhöfðingjanum. 

Gaukur Úlfarsson, spunameistari Þóru Arnórs, var eitthvað að dylgja um það á fésinu í gærkvöld að ég hafi verið að safna meðmælendum fyrir Ástþór og jafnvel að láta þessa unglinga skrifa undir víxla. Alveg kostulegt. Hið sanna er að þetta er að sjálfsögðu dæmigert alíslenskt fullkomið smábæjarbullshit. Ég átti engan orðastað við þessa krakka. Ekki eitt einasta orð. En það má vera að spunakallar Þóru haldi að þetta geti komið höggi á Ástþór. Þeir hefðu gjarnan mátt velja sér annan dag til þess en útfarardag vinar okkar."

Bestu kveðjur,
Sverrir Stormsker
 
 
Fyrir hálftíma eða svo birtist þetta svar mitt í DV, allt vel og vandlega sundurklippt að sjálfsögðu. Sjá hér: 
http://www.dv.is/frettir/2012/4/28/astthor-segist-ekki-hafa-safnad-undirskriftum-hja-ungmennum-undir-ahrifum/
 
Þá vitiði það.
Nóg um þessa þvælu.
 
Er ekki kominn tími til að fjölmiðlar, sérstaklega RUV, fari að kynna alla frambjóðendur jafnt af einhverju viti svo við kjósendur vitum hvað við erum að fara að kjósa yfir okkur?
RUV, vinnustaður Þóru Arnórs til margra ára, er gjörsamlega að bregðast lögboðnu hlutverki sínu. 
 
Þetta einkennilega ríkisfjölskyldufyrirtæki, þar sem allir eru undan öllum, með allan sinn nefskatt og 4 milljarða ríkisfjárforskot sitt, á að taka sig til í vel sminkuðu andlitinu og sinna skyldu sinni og taka hvern frambjóðanda í þriggja gráðu gagnrýna yfirheyrslu svo við kjósendur fáum að vita nákvæmlega fyrir hvað þeir standa. Er það nokkuð til of mikils mælst? Það erum jú við sem borgum fyrir þetta... - blæðum fyrir þetta. 
 
Það er ekki nóg að dæla bara út skoðanakönnunum í það óendanlega og hafa þannig áhrif á hið dæmigerða íslenska leiðitama hjarðmenni sem lifir fyrir það eitt að vera í sigurliðinu.
Það þarf að upplýsa kjósendur svo þeir hafi einhvern grunn undir vali sínu á æðstastrumpi þessa klíkusamsetta glataða þjóffélags sem virðist fyrirmunað að læra af einu stærsta hruni heimssögunnar. 
 

mbl.is Ætluðu að fá sér „þarmastíflulummu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband