Færsluflokkur: Evrópumál
9.11.2009 | 13:17
Nor-rænulausa helferðarstjórnin
Það fer að verða soldið erfitt að botna í illa þefjandi ríkisstjórninni. Ögmundur stekkur í ofboði úr henni haldandi fyrir nefið en styður hana hinsvegar heilshugar. Hann er svo hrifinn af þessari ríkisstjórn að hann getur ekki fengið af sér að sitja í henni mínútunni lengur. Guðfríður Lilja vill sömuleiðis ekki sjá að taka sæti í þessari ríkisstjórn og kúgast við tilhugsunina en styður hana hinsvegar alveg af alefli. Hugsunin er einhvernveginn svona: "Ég vil engan þátt eiga í ykkar heimskulega glæpapukri og vil ekki bendla mig við ykkar rugl, en ég styð ykkur hinsvegar af heilum hug því frekar vil ég hreina vinstri óstjórn en óhreina hægri óstjórn." Ég veit ekki hver nennir að reyna að skilja þetta. Það er einsog hvert sæti í þessari ríkisstjórn sé rafmagnsstóll sem enginn vill tylla sér í nema fársjúkir valdafíklar.
Steingrímur J. er löðursveittur á harðahlaupum útum allan heim til að redda snúrum og drasli í öndunarvél þessarar ríkisstjórnar sinnar og snýst einsog vindhani í ofsaroki og sturtar niður hverju kosningaloforðinu á fætur öðru enda hefur hann sagt að stefna flokks síns samræmist ekki raunveruleikanum.
Ráðríkið, það er ég
Jóhanna Skjaldborg Sigurðardóttir forsætisráðherfa er líklega illskiljanlegust þeirra sem nenna að sitja í þessari nor-rænulausu helferðarstjórn. Henni finnst best að stjórna með kúgunum og hótunum einsog yndislegi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hennar og hún heimtar samstillta samvillta samspillta ríkisstjórn sem er til í að láta ALLT yfir sig og þjóðina ganga til að tryggja inngöngu í ESB sem fyrst. Einkunnarorð Jóhönnu eru: Ráðríkið, það er ég. Þetta er ráðríkisstjórn Jóhönnu. Hún flæmdi Ögmund burt afþví hann hafði sjálfstæða hugsun og vildi halda í þann mikilvæga fyrirvara að við gætum leitað réttar okkar fyrir dómstólum varðandi Icesave ruglið. Skömmu eftir að hafa sparkað Ögmundi út á götu snerist hún 180 gráður og sagði að "það væri auðvitað ekki ásættanlegt ef okkur væri bannað að leita rétta okkar síðar meir, ef í ljós kemur að okkur hafi ekki borið þessi greiðsluskylda á icesave láninu."
Og núna snýst hún aftur 180 gráður og vill ásamt villta spillta vinstrinu samþykkja að ákvæðið um dómstóla verði gert marklaust og einskisvert! Hvað er að? Ég er ekki alveg nógu þroskaheftur til að skilja þennan hringlandahátt. Fyrir örfáum mánuðum vildi hún troða þessum ánauðarsamningi ólesnum í gegnum þingið án ALLRA fyrirvara. Hún hendir Ögmundi út og tekur síðan undir allt sem hann sagði sem var orsök þess að hún henti honum út. Og núna snýr hún aftur við blaðinu og samþykkir að ef málið fari fyrir dómstóla þá töpum við því jafnvel þótt við vinnum. Eru ekki til einhver lyf við þessu?
Hring eftir hring eftir hring eftir hring fer flokkurinn
Afhverju ganga ekki allir úr þessari ríkisstjórn úr því að verið er að framkvæma þar hluti sem allir virðast vera ósammála? Meiraðsegja Jóhanna er ósammála sjálfri sér. Steingrím J. væri að vísu ekki hægt að losa úr stólnum með járnkarli og kúbeini og 50.000 volta rafstuði því hann er jú hugsjónamaður. Hugsjón hans er að sitja sem fastast. Hann er einsog farþegi í strætisvagni sem fer með honum hring eftir hring mánuðum saman án þess að vita hvert hann er að fara og hvort hann sé yfirleitt í réttum vagni, en vill ekki standa upp og fara úr á næstu stoppustöð af ótta við að sjálfstæðismaður setjist í sætið hans. Jóhanna situr rammvillt og samvillt við stýrið í vagúmpökkuðum stjórnklefa. "Viðræður bannaðar við vagnstjóra í akstri." Kleppur - Hraðferð.
Óskastjórn pottaglamraranna
Endurtek: Fyrir örfáum mánuðum reyndu dýrðlingarnir gegnsæu þau Jóhanna Skjaldborg og Steingrímur Gjaldborg að lauma Icesave ánauðarsamningnum ólesnum í gegnum Alþingi, án allra fyrirvara, og töluðu um "frábæran samning" sem Svavar-ég-nenni-þessu-ekki-Gestsson og einhver Mr. Bean krotuðu annarshugar undir í útlandinu að beiðni Steingríms, góðvinar þeirra. Samfylkingarforkólfarnir töluðu þá um að þeir myndu samþykkja hann blindandi einsog kettlingar og voru skýjum ofar í einfeldni sinni, fákunnáttu og ábyrgðarleysi.
Þetta er óskastjórnin sem búsáhaldabyltingin vildi sjóða saman í pottunum sínum. Hér er hún komin: "Hrein" vinstristjórn. Hreinn viðbjóður. Þessi nor-rænulausa helferðarstjórn veit samt ekki hvort hún er að koma eða fara en hún mætti gjarnan fara, - fara ein og óstudd til heljar án þess að draga þjóðina með sér í fallinu.
Við þurfum að fá hér utanþingsstjórn, - neyðarstjórn skipaða óklíkutengdum, klárum, heiðarlegum, frjálsum og óháðum fagmönnum. Ef engir slíkir innlendir fagmenn finnast þá mega þeir allir vera erlendir mín vegna. Jafnvel helst erlendir. Allavega kæri ég mig ekki um fleiri gjörspillta, vanhæfa, vankaða, eiginhagsmunapotandi, keypta og illa þefjandi stjórnmálaviðvaninga í boði Baugs, kúluvambabankanna og FL-Group, hvar í flokki sem þeir hanga.
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2009)
4.5.2009 | 14:00
Þjóðlegur heiðarleiki Vinstri grænna
Steinríkur J. Sigfússon hefur margsagt að hann myndi frekar troða sér ofan í trjátætara en að samþykkja aðildarumsókn í ESB. Klippingin sem hann er með á hausnum virkar einsog hann hafi reynt það einhverntíma, þannig að ég trúi honum fullkomlega.
Enginn stjórnmálamaður hefur talað meira um heiðarleika undanfarna áratugi en Steinríkur, nema ef vera skyldi kollegi hans, Stalin. Ef hann samþykkir draum Jóhönnu um aðildarumsókn í ESB í skiptum fyrir ráðherrastóla þá er hann einfaldlega að svíkja kjósendur sína. Það er ekki flóknara en það. En auðvitað gerir Steinríkur það ekki. Hann er heiðarlegur stjórnmálamaður. Á íslenska vísu. Að vísu.
Draumur Steinríks er og hefur alltaf verið að einangra landið gjörsamlega fyrir umheiminum. Helst með gaddavír, hringinn í kringum landið. Við megum nefnilega ekki glata þjóðlegum einkennum okkar frekar en górilluaparnir í Amazon-frumskóginum. Við eigum að ríghalda í okkar þjóðlegu krónu og séríslenska hagkerfi og flytja aldrei inn í landið svo mikið sem eina erlenda radísu án þess að ofurtolla hana uppí hæstu hæðir, til að vernda alíslenska þjóðlega framleiðslu. Erlend samkeppni er frá djöflinum komin einsog allt sem viðkemur frelsi.
Allt sem gæti skapað atvinnu er stórhættulegt þjóðarhag. Það á allsekki að finna olíu og hvað þá að vinna hana. Kvótakerfið ber að styðja vegna þessa að auðlindir hafsins eiga að vera í sterkum séríslenskum sægreifakrumlum. Einstaklingsfrelsi er hreinn og tær viðbjóður sem ber að hefta eins mikið og kostur er.
Kjósendur hafa getað gengið að þessari draumsýn Steinríks vísri og þessvegna kusu þeir hann og VG.
Kvöldið fyrir kosningar talaði hann um heiðarleika sinn ca 10 sinnum og þá fór ég að skilja afhverju hann neitar að skila 15 millunum sem hann fékk útúr eftirlaunafrumvarpinu sem hann samþykkti skælbrosandi, og sýna þannig gott fordæmi. Það er jú vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá fór ég líka að skilja afhverju hann styður kvótakerfið og hið vel heppnaða sjávarauðlindarán. Það er vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá áttaði ég mig líka á afhverju hann dældi út bændastyrkjum í þau kjördæmi sem flokkur hans var valtur í, korteri fyrir kosningar. Það er jú vegna þess hvað hann er stálheiðarlegur. Þá rann líka upp fyrir mér afhverju hann lagði ekki öll spilin á borðið varðandi Evrópusambandið FYRIR kosningar og gerði kjósendum sínum það kristalskýrt að hann myndi aldrei svíkja stefnuskrá flokks síns og kjósendur sína með því að kvitta undir draum Jóhönnu og ekki kvika svo mikið sem hænufet frá einangrunarstefnu sinni. Það er náttúrulega vegna þess hvað hann er alveg hreint makalaust heiðarlegur alíslenskur þjóðlegur stjórnmálamaður.
Maður á alltaf að treysta fólki sem klifar á því hvað það sé heiðarlegt. Þessvegna eru bílasalar, lögfræðingar og stjórnmálamenn fólkið sem maður á að treysta fullkomlega. Helst í blindni. Þegar ég heyri einhvern segja: "Ég er heiðarlegri en Lalli Johns og Stalin, báðir til samans," þá kikna ég alltaf í hnjáliðunum og beygi mig í duftið og kýs manninn samstundis til forseta eða á þing eða til hvers sem vera skal.
Ísland mun aldrei svo mikið sem blikka ESB meðan Steinríkur situr á ráðherrastóli og hvað þá á þremur ráðherrastólum samtímis. Ef einhver maður svíkur ekki kjósendur sína þá er það Steinríkur því hann er maðurinn sem talar mest um séríslenskan þjóðlegan heiðarleika sinn, og við vitum jú öll hvernig íslenskur heiðarleiki er?
Ný ríkisstjórn um næstu helgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 5.5.2009 kl. 02:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)