Færsluflokkur: Kjaramál
10.12.2010 | 00:45
Ríkisstjórnin er Hómer Simpson
Þegar þjóðin kolfelldi Svavarssamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu þá fóru þau djöflaskötuhjú Jóhanna og Steingrímur af hjörum og fullyrtu að nú væru dagar okkar taldir og að himinn og jörð myndu líða undir lok innan fárra vikna því betri díl væri ekki hægt að fá. Annað kom á daginn. Það eina sem leið endanlega undir lok var trúverðugleiki þessara afglapa. Á þessum tímapunkti átti þeim að skiljast að dagar þeirra sjálfra væru taldir og þau áttu einfaldlega að pakka saman öllu sínu pípuhattsdrasli og kanínum og láta sig hverfa aftur inní hólinn sem þau skriðu út úr.
En þau þráuðust við, umboðslaus, getulaus og vitlaus, og héldu áfram að grenja í Bretum og Hollendingum að fá að leggja spilaskuld einkaglæpafyrirtækis á bak almennings. Nú liggur nýr samningur á borðinu, (að þessu sinni uppá borðinu), 200 milljörðum hagstæðari en sá fyrri, ef á annað borð er hægt að tala um "hagstæðan" ánauðarsamning.
Í ljósi þess að fyrri samningurinn hefði stórskaðað þjóðina liggur þá ekki nokkuð ljóst fyrir að þau hafa gerst sek um stórfelld embættisafglöp. Ætti þessi nýi samningur ekki sjálfkrafa að kalla á skilyrðislausa afsögn þeirra og rannsókn á öllu ferlinu?
Ríkisstjórnin og hennar setuliðar minna mig soldið á fávitann Hómer Simpson sem leggur höndina á rauðglóandi hellu og öskrar DOH! og leggur höndina aftur á brennandi helluna og öskrar DOH! og leggur svo höndina aftur á brennandi helluna og öskrar DOH! og svo aftur og aftur í það óendanlega þangað til lúkan er orðin skaðbrennd og well-done. Alveg fyrirmunað að læra nokkurn skapaðan hlut. Viðkvæðið er alltaf: "Já en við vissum ekki betur...Það er auðvelt að vera vitur eftirá."
Hversvegna geta þessir heyrnarlausu heilasteiktu hallardraugar ekki komið því inní hausinn á sér að þjóðin hafnaði fyrri aftökusamningnum vegna þess að hún tók það ekki í mál að borga upp ránsfeng stórglæpamanna, en ekki afþví að hún væri svona sólgin í að fá hægara andlát með "hagstæðari" aftöku?
Hvað er svona flókið við þetta? Það er deginum ljósara og margsannað af heimsþekktum spesíalistum svo sem Evu Joly og allrahandanna nóbelsverðlaunahöfum að það er akkúrat enginn grundvöllur fyrir greiðsluskyldu íslenska ríkisins.
Ég held það væri ágætis ráð að byrja á því moka skælbrosandi bankaræningjunum í dýflissu uppá hitaveituvatn og grjótharðar tvíbökur og fara vandlega oní saumana á eignasafni þeirra og grafa upp allar þeirra gullkistur áður en gerður er enn einn þjóðaránauðarsamningurinn uppá drápsklifjar til fleiri ára beint ofaná þindarlausar skattahækkanir steingeldrar ríkisstjórnarinnar.
Ég hélt ég ætti ekki eftir að gefa forsetanum high five en nú reynir enn einu sinni á bjargvættinn á Bessastöðum. Ríkisstjórninni gef ég high one. Löngutöng.
Býsna góð niðurstaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.11.2009 | 13:17
Nor-rænulausa helferðarstjórnin
Það fer að verða soldið erfitt að botna í illa þefjandi ríkisstjórninni. Ögmundur stekkur í ofboði úr henni haldandi fyrir nefið en styður hana hinsvegar heilshugar. Hann er svo hrifinn af þessari ríkisstjórn að hann getur ekki fengið af sér að sitja í henni mínútunni lengur. Guðfríður Lilja vill sömuleiðis ekki sjá að taka sæti í þessari ríkisstjórn og kúgast við tilhugsunina en styður hana hinsvegar alveg af alefli. Hugsunin er einhvernveginn svona: "Ég vil engan þátt eiga í ykkar heimskulega glæpapukri og vil ekki bendla mig við ykkar rugl, en ég styð ykkur hinsvegar af heilum hug því frekar vil ég hreina vinstri óstjórn en óhreina hægri óstjórn." Ég veit ekki hver nennir að reyna að skilja þetta. Það er einsog hvert sæti í þessari ríkisstjórn sé rafmagnsstóll sem enginn vill tylla sér í nema fársjúkir valdafíklar.
Steingrímur J. er löðursveittur á harðahlaupum útum allan heim til að redda snúrum og drasli í öndunarvél þessarar ríkisstjórnar sinnar og snýst einsog vindhani í ofsaroki og sturtar niður hverju kosningaloforðinu á fætur öðru enda hefur hann sagt að stefna flokks síns samræmist ekki raunveruleikanum.
Ráðríkið, það er ég
Jóhanna Skjaldborg Sigurðardóttir forsætisráðherfa er líklega illskiljanlegust þeirra sem nenna að sitja í þessari nor-rænulausu helferðarstjórn. Henni finnst best að stjórna með kúgunum og hótunum einsog yndislegi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hennar og hún heimtar samstillta samvillta samspillta ríkisstjórn sem er til í að láta ALLT yfir sig og þjóðina ganga til að tryggja inngöngu í ESB sem fyrst. Einkunnarorð Jóhönnu eru: Ráðríkið, það er ég. Þetta er ráðríkisstjórn Jóhönnu. Hún flæmdi Ögmund burt afþví hann hafði sjálfstæða hugsun og vildi halda í þann mikilvæga fyrirvara að við gætum leitað réttar okkar fyrir dómstólum varðandi Icesave ruglið. Skömmu eftir að hafa sparkað Ögmundi út á götu snerist hún 180 gráður og sagði að "það væri auðvitað ekki ásættanlegt ef okkur væri bannað að leita rétta okkar síðar meir, ef í ljós kemur að okkur hafi ekki borið þessi greiðsluskylda á icesave láninu."
Og núna snýst hún aftur 180 gráður og vill ásamt villta spillta vinstrinu samþykkja að ákvæðið um dómstóla verði gert marklaust og einskisvert! Hvað er að? Ég er ekki alveg nógu þroskaheftur til að skilja þennan hringlandahátt. Fyrir örfáum mánuðum vildi hún troða þessum ánauðarsamningi ólesnum í gegnum þingið án ALLRA fyrirvara. Hún hendir Ögmundi út og tekur síðan undir allt sem hann sagði sem var orsök þess að hún henti honum út. Og núna snýr hún aftur við blaðinu og samþykkir að ef málið fari fyrir dómstóla þá töpum við því jafnvel þótt við vinnum. Eru ekki til einhver lyf við þessu?
Hring eftir hring eftir hring eftir hring fer flokkurinn
Afhverju ganga ekki allir úr þessari ríkisstjórn úr því að verið er að framkvæma þar hluti sem allir virðast vera ósammála? Meiraðsegja Jóhanna er ósammála sjálfri sér. Steingrím J. væri að vísu ekki hægt að losa úr stólnum með járnkarli og kúbeini og 50.000 volta rafstuði því hann er jú hugsjónamaður. Hugsjón hans er að sitja sem fastast. Hann er einsog farþegi í strætisvagni sem fer með honum hring eftir hring mánuðum saman án þess að vita hvert hann er að fara og hvort hann sé yfirleitt í réttum vagni, en vill ekki standa upp og fara úr á næstu stoppustöð af ótta við að sjálfstæðismaður setjist í sætið hans. Jóhanna situr rammvillt og samvillt við stýrið í vagúmpökkuðum stjórnklefa. "Viðræður bannaðar við vagnstjóra í akstri." Kleppur - Hraðferð.
Óskastjórn pottaglamraranna
Endurtek: Fyrir örfáum mánuðum reyndu dýrðlingarnir gegnsæu þau Jóhanna Skjaldborg og Steingrímur Gjaldborg að lauma Icesave ánauðarsamningnum ólesnum í gegnum Alþingi, án allra fyrirvara, og töluðu um "frábæran samning" sem Svavar-ég-nenni-þessu-ekki-Gestsson og einhver Mr. Bean krotuðu annarshugar undir í útlandinu að beiðni Steingríms, góðvinar þeirra. Samfylkingarforkólfarnir töluðu þá um að þeir myndu samþykkja hann blindandi einsog kettlingar og voru skýjum ofar í einfeldni sinni, fákunnáttu og ábyrgðarleysi.
Þetta er óskastjórnin sem búsáhaldabyltingin vildi sjóða saman í pottunum sínum. Hér er hún komin: "Hrein" vinstristjórn. Hreinn viðbjóður. Þessi nor-rænulausa helferðarstjórn veit samt ekki hvort hún er að koma eða fara en hún mætti gjarnan fara, - fara ein og óstudd til heljar án þess að draga þjóðina með sér í fallinu.
Við þurfum að fá hér utanþingsstjórn, - neyðarstjórn skipaða óklíkutengdum, klárum, heiðarlegum, frjálsum og óháðum fagmönnum. Ef engir slíkir innlendir fagmenn finnast þá mega þeir allir vera erlendir mín vegna. Jafnvel helst erlendir. Allavega kæri ég mig ekki um fleiri gjörspillta, vanhæfa, vankaða, eiginhagsmunapotandi, keypta og illa þefjandi stjórnmálaviðvaninga í boði Baugs, kúluvambabankanna og FL-Group, hvar í flokki sem þeir hanga.
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2009)
19.6.2009 | 14:20
Icesave-samningurinn er ekki til, að sögn Steingríms J.
Horfði á áhugaverða heimildarmynd um græðgi í gærkvöld, - "Leitina að týndu öxlinni" eða eitthvað svoleiðis eftir Steven Carlsberg. Þegar hún var búin hugsaði ég:
"Ætli það séu engir svona fágætir hlutir sem hægt er að leita að á Íslandi fyrir utan viðskiptaheiðarleika? Voðalega er Klakinn eitthvað boring."
Ég skrapp í netheima í Indjána Dow Jones fíling með hattinn og svipuna í huganum og fór að leita að einhverju trúverðugu og sönnu sem stjórnmála - og leyndarmálamaðurinn Steingrímur J. hefði sagt undanfarna mánuði. Hætturnar leyndust víða og oft erfitt að komast í gegnum lygavefinn og blekkingaholræsin. Í Kastljósi þann 3. júní síðastliðinn fann ég loksins sönn orð. Þar sat Steingrímur fyrir svörum og undir leyndarhjúp hjá Helga Seljan. Hér er þetta orðrétt:
Helgi: "Er eitthvað til í því sem hefur verið fleygt í dag að það líti allt út fyrir það að við þurfum að fara að taka á okkur að óbreyttu einhverja fleiri hundruð milljarða út af Icesave sem er mun meira heldur en gert var ráð fyrir og það sé verið að fara að ganga frá því, afþví að svona hefur þetta verið presenterað soldið í dag?"
Steingrímur: "Það eru algjörðar sögusagnir og þvert á móti gerum við okkur vonir um það að það sé kannski í sjónmáli miklu hagstæðari lausn í þeim efnum heldur en fyrri ríkisstjórn var búin að undirbúa."
Nákvæmlega. Alveg kórrétt. Það sem við erum að upplifa í dag í sambandi við Icesave samninginn eru bara sögusagnir og það meiraðsegja "algjörðar sögusagnir." Þar höfum við það. Við þurfum ekkert að óttast því Icesave-samningurinn er ekki til. Við þurfum fleiri svona stjórnmálamenn. Sérstaklega á tímum sem þessum.
Icesave: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 20.6.2009 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.4.2009 | 09:36
Vinstri grænir á leið í Heims(k)metabókina
Kolbrún Halldórsdóttir er þungavigtarmanneskja í Vinstri grænum, enda ráðherfa. Hún væri ekki ráðherfa ef hún væri ekki ein af hæfustu manneskjunum sem Vinstri grænir hefðu uppá að bjóða.
Hún sagði í fréttum í gærkvöld, líklega eftir samráð við aðra í forystu flokksins, að Vinstri-hreyfingin grænt framboð leggðist gegn olíuleit á Drekasvæðinu vegna þess að olíuvinnsla væri í andstöðu við stefnu flokksins.
Ef að fleiri tonn af gulli finndust í jörðu, jafnvel heilt gullfjall einhversstaðar í óbyggðum Íslands, þá væru Vinstri grænir að sjálfsögðu mótfallnir nýtingu þess, jafnvel þótt þjóðin væri að svelta í hel, vegna þess að jarðrask og náttúruspjöll væru í andstöðu við stefnu flokksins. Þetta er nákvæmlega það sem hún er að segja.
Að lifa af er í andstöðu við stefnu flokksins. Þetta er fólk sem myndi drepa þjóðina úr hungri ef að ekkert annað væri í boði nema áldósamatur og ólífrænt ræktað grænmeti, vegna þess að það væri í andstöðu við stefnu flokksins að leggja sér svoleiðislagað til munns.
VG er annar stærsti flokkurinn á Íslandi í dag. Þetta eru snillingarnir sem Íslendingar vilja fá yfir sig næstu 4 árin, jafnvel næstu 40 árin.
Og ég sem hélt að botninum væri náð og að leiðin gæti bara legið uppávið úr þessu. Ekki aldeilis. Förum endilega undir Vinstri græna torfu.VG gegn olíuleit á Drekasvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt s.d. kl. 09:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (61)
16.1.2009 | 14:41
Forsetinn bað um að stjórnarskráin yrði brotin
Þetta er mjög einfalt. Ég skal reyna að orða þetta kurteislega: Annaðhvort er maðurinn fábjáni eða trúður. Ég hallast að því síðarnefnda. Ólafur er stjórnmálafræðingur og ætti því að þekkja stjórnarskránna jafnvel betur en útrásarvíkingana.
Kannski að fjármálaráðherrann geti aðstoðað hann við launalækkunina, en ef Ólafur er svona gasalega sólginn í að lækka laun sín og bæta þannig fyrir afglöp sín í starfi sem útrásarmella og lírukassaapi fyrir Baugsveldið þá á hann bara að gera það þegjandi og hljóðalaust og skrumlaust og hræsnislaust og slaka hinum og þessum góðgerðarfélögum millu á mánuði og svo gæti kannski hans betri helmingur bætt einhverju við. Hún hlýtur að mega missa einn lítinn demant úr námunni. Þetta er ekkert flókið
Það er svakalega lásí og idjótískt af honum að biðja Kjararáð að lækka laun sín þegar hann veit nákvæmlega hver niðurstaðan verður. Nema náttúrulega að hann hafi ekki vitað það og þá hefur hann þá einu afsökun að hann sé fábjáni og því kannski alveg tilvalinn sem samnefnari og sameiningartákn þjóðarinnar.
Forsetaembættið kostar þjóðarbúið nokkur hundruð milljónir á ári og þessari fúlgu væri án nokkurs vafa betur varið í styrkingu mennta - og heilbrigðiskerfisins og í aðstoð við þá sem hafa ekki til hnífs og skeiðar. Ef Ólafur vill raunverulega koma að gagni og spara þá færi vitaskuld best á því að hann segði af sér og leggði til í leiðinni að þetta tilgangslausa fokdýra snobbembætti yrði lagt niður í snarhasti.
Þessar endalausu leiksýningar forsetans fara að verða álíka þreyttar og hallærislegar og hárgreiðslan. Hann er búinn að koma embættinu niður í forarpytt sýndarmennsku, auðmannadekurs og ótrúverðugleika og í þeim skít situr hann sem fastast.
Ólafur er sannkallaður "for-seti."
Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjaramál | Breytt 22.3.2009 kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)