Sjálfseyðingarflokkurinn

geir_haarde.jpgForysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið í frekar miklu hakki eftir að Don lét af störfum. Ætti eiginlega að kallast Sjálfseyðingarflokkurinn. Geir Haarde var ekki alveg sá sprækasti í bransanum og átti það til að skjálfa einsog lauf í vindi þegar honum voru sagðar fréttir af þessu svokallaða “hruni.” Var einhvernveginn fæddur til að grillast. Var kastað frá völdum og dreginn á strýinu fyrir Landsdóm, vel pungsparkaður og bakstunginn af andstæðingum sínum. Var grillaður alveg innað beini og snæddur af “sorgmæddu” samverjunum í VG og “samherjunum” í Samfó.

 

Og nú er farið að kynda undir Bjarna Ben. Andstæðingar hans hafa verið að kasta í hann logandi eldspýtum einsog hverja aðra áramótabrennu frá því hann tók við þessu eldfima leiðindadjobbi en að þessu sinni eru það sjálfir samflokksmenn hans, nánir samstarfsmenn Hönnu Birnu, sem sjá um að reka formann sinn í bakið og þræða hann uppá tein og heilgrilla hann með epli í kjaftinum einsog hvern annan drullugölt. Frekar ódrengileg og ókræsileg kokkamennska. Kallinn verður líklega orðinn well done um miðnætti. Það er nefnilega siður sómakærra Sjálfstæðismanna að græða á daginn og grilla á kvöldin.

 

Feillinn sem Hanna Birna gerði í aðdraganda Landsfundarins, sem hún bauð sig fram til formanns á, var að segjast myndu hreinsa til í þingflokknum næði hún kjöri. Maður heillar ekki kafskítugar klóakrottur með grænsápu. Maður boðar ekki líf í grafhvelfingu. Auðvitað var hún ekki kosin af landsfundarmönnum. Það var hinsvegar þeirra feill. Þeir kusu sér hinn umdeilda og miður vinsæla en vansæla Bjarna Ben, með vafning sér um háls, – góðan gæa en ekki beint líklegasta aflakónginn á míglekum dallinum. Það hefur komið á daginn að fiskarnir flýja undan honum einsog fætur toga.

 

bjarni_ben.jpgNú er Bjarni kominn með nokkra vel brýnda kjöthnífa í bakið frá flokksfélögum sínum, stuðningsmönnum Hönnu Birnu, m.a. fyrrum kosningastjóra hennar, algerlega án hennar vitneskju, að sjálfsögðu. Einmitt. Maður talar aldrei um alvarlega hluti við kosningastjórann sinn.

 

Hanna Birna er hinsvegar ekki alls ókunnug hnífum því ég man að samstarfsmaður hennar og fyrrum borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, kvartaði sáran undan þrálátum eymslum í baki í hvert skipti sem hann snéri í hana bakinu. Loks snéri hann endanlega við henni baki en þá var hann líka kominn með heilu hnífasettin og kjötsöxin og keðjusagirnar í bakið og sagðist hafa verið plataður og svikinn af henni, í bak og fyrir. (Sjá t.d. HÉR)  Það má vera að kallinn hafi eitthvað verið að misskilja hlutina en þetta vildi hann nú meina. Núna vinnur Ólafur sem læknir á einhverri heilsugæslustöð, baki brotnu.

 

Á morgun vinnur Bjarni Ben kannski á Grillinu á Hótel Sögu, og þá meina ég ofan á grillinu, nú eða sem bíldælingur á einhverri bensínstöð, hugsanlega N1, þó það sé áreiðanlega ekki mjög heilsusamlegt fyrir svona logandi hræddan mann að vinna nærri bensínstöð. Ef aðförin virkar og hann er svældur burt með þessum hætti þá má reikna með að það reki fleyg í gegnum flokkinn, sem þýðir að þó að aðförin "virki" þá getur hún ekki virkað. Hönnu Birnu verður skiljanlega kennt um og varla verða stuðningsmenn Bjarna innan flokksins sælir með hana og þessar lyktir mála. Þetta lúalega athæfi mun gera flokknum meiri óleik en leik þegar upp er staðið.

 

Það getur verið skammvinn sigurvíma að kljúfa flokk í herðar niður og mikill Bjarna(r)greiði við flokkinn og kjósendur og sjálfan eftirmanninn (konuna), jafnvel þótt tilgangurinn sé gasalega góður og göfugur. Maður getur óvart rotað drukknandi mann (og flokk) með því að henda til hans björgunarhring. Ef maður rekur hníf í bak einhvers þá getur það komið í bakið á manni. Ég tek undir með Oscar Wilde: “A true friend stabs you in the front.”     


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband