Má bjóða þér Edduverðlaun?

GR...EDDAEitt af skringilegustu fyrirbrigðum íslenskrar menningar eru íslensku kvikmynda – og sjónvarpsverðlaunin, semsé Edduverðlaunin, sem verða veitt n.k. sunnudag. Hér á landi er svo lítið framleitt af sjónvarpsefni og svo fáar myndir gerðar árlega að duglegt kvikmyndafólk má heita fáránlega óheppið ef það fær ekki verðlaun.  Það eru t.d. tilnefndar þrjár myndir í flokknum  “bíómynd ársins”  og það voru kannski bara þrjár myndir framleiddar á árinu. Þetta er svolítið einsog að velja gáfaðasta mann ársins og það eru aðeins þrír sem koma til greina, - þeir Gísli, Eiríkur og Helgi. Mynd sem kosin er besta myndin þarf ekki að vera góð mynd. Hún þarf bara að vera íslensk.

 

(Íslensku Tónlistarverðlaunin eru ekki sambærileg þar sem fleiri hundruðir titla koma út á hverju ári, en sú hátíð er hinsvegar fötluð að því leiti að þar er plantað í dómarasæti Eiði Arnarsyni útgáfustjóra Senu, stærsta tónlistarútgáfufyrirtækis landsins, sem er svona álíka greindarlegt og hlutlaust og að fara að setja forstjóra Paramount í Oscarsverðlaunaakademíuna. Gerist ekki íslenskara og þroskaheftara).

 

Úr því enginn vill klappa íslenskum kvikmyndagerðarmönnum á bakið þá er svo sem allt í lagi mín vegna að þeir geri það sjálfir. Þetta er áræðanlega skemmtileg hátíð því þarna eru svo gott sem allir tilnefndir til verðlauna sem hafa með einhverjum hætti komið nálægt kameru á árinu: Leikarar, aukaleikarar, fréttaaukaleikarar, sjónvarpsfréttamenn, veðurfréttamenn, klipparar, nefháraklipparar, skriftur, símadömur, ræstitæknar, bókhaldssérfræðingar, húsverðir o.s.fr. og flestir fara út með verðlaun fyrir vel unnin störf. Ég segi ekki endilega vel unnin störf en allavega unnin störf, og allir fara glaðir út, allavega góðglaðir, og það er kannski ekki svo lítill hluti af leiknum.

 

Að sjálfsögðu eru veitt verðlaun fyrir “besta leikna sjónvarpsefnið” því það er nefnilega svo gríðarlega mikið um leikið sjónvarpsefni hér á landi, bókstaflega allt fljótandi í íslenskum þáttaröðum, menningarlegum menningarlegnum menningarleiknum sjónvarpsseríum og sápuóperum og framhaldsþáttum og guð má vita hverju. Lágmark ein stytta á mann - í hausinn. Ríkissjónvarpið hefur ekki nema um 3 milljarða í nauðungaráskriftargjaldaforskot á hinar stöðvarnar svo það er ekki nema von að flest leikið efni komi frá Stöð 2 og Skjá 1. (Sem betur fer ætlar Björgólfur Guðmundsson að styrkja Ríkissjónvarpið enn frekar til innlendrar dagskrárgerðar og það er þá líklega í eina skiptið sem borgari styrkir ríkið í samkeppnisrekstri við einkaaðila. Nú eigum við semsé á hættu að Spaugstofan lengist í 30 mínútur eða að Randver verði endurráðinn!!)

 

Í bíómyndabransanum eru kannski um 100 fastamenn sem koma með einum eða öðrum hætti nálægt öllum íslenskum myndum sem eru gerðar og þeir hljóta allir að vera búnir að fá verðlaun, og því sé ég ekki alveg tilganginn með því að halda þessum leik mikið lengur áfram þó hann sé ekki endilega verri en sá leikur sem verið er að veita verðlaun fyrir.

 

Fyrstu árin voru ekki veitt Edduverðlaun fyrir “besta handrit,” og það er kannski skiljanlegt þegar nánar er að gætt, en ég þori nokkurnveginn að lofa að Eddan hafi til skamms tíma verið eina kvikmyndahátíðin í heiminum sem sá ekki ástæðu til að veita verðlaun fyrir handrit. Hélt að allir vissu að gott handrit væri grunnur góðrar myndar, en þó að flestir hafi alltaf vitað þetta þá vissu íslenskir kvikmyndasérfræðingar þetta ekki fyrr en fyrir fáeinum árum og þessi nýi skilningur verður vonandi til þess að ennþá betri myndir verði gerðar hér í framtíðinni.

 

skideoÞað má auðvitað margt gott um þessa hátíð segja, t.d. hvetur hún menn til dáða, hmm, og þarna geta íslenskir leikarar fengið það á tilfinninguna að þeir kunni að leika, og sú tilfinning er örugglega betri en sú sem þeir hafa fyrir leiklist. Því auðvitað verður að segjast einsog er að þó að íslenskur ofleikur geti virkað þokkalega á sviði þá dettur hann yfirleitt dauður niður í bíómynd og getur á stundum framkallað svo heiftarlegan hausverk og svo skelfilega ógleði og ólýsanlegar iðrakvalir að allt það popp og allt það kók sem maður innbyrði sæll og glaður í upphafi sýningar stendur uppúr manni einsog strókur niðrá klósetti í hléi.

Hilmir Snj�r GudnasonEn vissulega eru til nokkrir mjög góðir leikarar hér á landi, einsog t.d Hilmir Snjór Guðnason sem hefur reddað margri myndinni og mörgum áhorfandunum frá bráðum bana, og ég segi Margri myndinni, því ég man ekki í svipinn eftir neinni íslenskri mynd undanfarin 60 ár sem hann hefur ekki leikið í, en hann getur náttúrulega ekki reddað misgóðum samleikurum sínum.

 

Þegar ég sé illa leikna mynd þá blóta ég yfirleitt leikstjóranum því endanleg útkoma verksins er náttúrulega á hans ábyrgð, en samt eiginlega vorkenni ég honum í bland, því hvernig á hann að fara að því að breyta svínum í veðhlaupahesta? Ég hef það nefnilega einhvernveginn á tilfinningunni að margt liggi betur fyrir Íslendingum en að leika og standi þeim nær, - t.d. að gera við sprungna hjólbarða, sjóða ýsur og sendast með pizzur, svo dæmi séu tekin.

 

Kyntaknid SkippyÍ bandarískum bíómyndum er algengt að sjá þriggja, fjögurra ára krakka leika betur og eðlilegar en fjörgamla íslenska leikara með próf úr öllum skólum, hvernig sem á því getur staðið. Í erlendum myndum hef ég meiraðsegja séð hunda og kétti og kengúrur leika betur en margan íslenskan sprenglærðan leikarann. Ég vil meina að leikarinn Skippy, sem var kengúra, hafi ekki verið verri leikari en t.d. Rúrik Haraldsson, með fullri virðingu fyrir honum og öllum hans gráðum. Hesturinn hennar Línu langsokks og apakötturinn hennar, Níels, eða hvað hann nú hét, útskrifuðust aldrei úr Leiklistarskóla Ævars R. keikoCANKvaran svo vitað sé, en þessar skepnur sýndu engaðsíður mun meiri leiklistarleikni en flestir þeir Íslendingar sem í þeim skóla hafa ofreynt sig við ofleik. Mér þætti gaman að sjá íslenskan leikara standa hundinum Lassie og hrossinu Trigger snúning í hárfínum svipbrigðum og sálrænu næmi. Segir það ekki allt um innlenda leiklist að frægasti íslenski leikarinn skuli vera hvalur, - einhver Keikó eða Kakó eða Sækó eða hvað hann nú hét þessi leiðinda ofverndaði fjölfatlaði háhyrningur sem hafði það að aðal atvinnu að ríða hjólbörðum í Vestmannaeyjum. Dó svo úr þunglyndi við Noregsstrendur þegar sprakk á kærustunni hans og endaði sem dósamatur í Bónus.

 

Ég endurtek enn og aftur að það eru til góðir íslenskir leikarar en það má telja þá á hornum nauts. Þó það megi eflaust segja að lélegur leikur sé leikstjóranum að kenna þá virðumst við Íslendingar yfir höfuð bara einhvernveginn ekki hafa þetta í blóðinu, ekki frekar en takt. (Þegar Íslendingar klappa með í lagi þá klappa þeir alltaf á bassatrommuslögunum, semsé á 1. og 3. en aldrei á snerilslögunum 2. og 4. Það vantar “niggarann” í okkur). Við getum ekki einusinni snýtt okkur í bíómynd tilgerðarlaust og án þess að ofleika það og dramatísera úr hófi fram. Við erum alltaf að Leika svo Mikið, við höldum að við séum ekki að vinna fyrir kaupinu okkar nema við Leikum hverja einustu hreyfingu og islenskur leikurhverja einustu setningu í botn með gríðarlegum tilþrifum. Íslenskir leikarar hljóta að hugsa sem svo að það geti nú allir verið eðlilegir en það geti ekki allir Leikið og nú skuli þeir sko sýna þjóðinni hvað þeir geti; þeir skuli sko svoleiðis Leika af þvílíku alefli að annar eins kraftur og dramatískur rembingur hafi ekki sést síðan Magnús Ver Magnússon skeit næstum því í buxurnar þegar hann var að lyfta 400 kílóa bjórkút á síðasta heimsmeistaramóti.

 

Flestir íslenskir leikarar eru alltof duglegir. Sjálfur held ég að það sé mun minni vandi að Leika af þessum séríslenska dugnaði en að vera nokkurnveginn eðlilegur og tilgerðarlaus. Því minni Leikur, því betra, en í áreynsluleysinu “leikleysinu” er náttúrulega fólginn góður leikur. Þeir eru ekki margir íslensku leikararnir sem ná að láta áhorfandann gleyma því að þeir séu að leika og ná að falla það vel inní persónuna að leikurinn virki áreynslulaus og með öllu tilgerðarlaus. Þeir eru ekki margir, en þeir eru til, og sem betur fer hefur þeim fjölgað með árunum. Bestir eru Íslendingar í að leika þroskahefta fáráðlinga, á sama hátt og dvergur er góður í því að vera lítill.

 

Ég held að það sé ekki erfitt að skilja að handritið skipti sköpum þó sérfræðingar Edduverðlaunanna hafi ekki botnað í því fyrstu árin. Maður vorkennir oft leikurum að þurfa að böggla útúr sér þessu óþjála tilgerðarlega bókmáli sem er skrifað ofaní þá trekk í trekk, sérstaklega hér áður fyrr. Sumt er skrifað af svo miklum skáldlegum belgingi og þvílíku ónæmi fyrir mannlegum normal tjáskiptum að meiraðsegja Robert de Niro gæti ekki komið þessu útúr sér skammlaust.   

Það er því allsekki hægt að klína Öllum drullukökunum á leikarana eina sér; íslenskir handritshöfundar eiga sinn skerf því þeir hafa í gegnum tíðina einfaldlega ekki haft mjög næma tilfinningu fyrir eðlilegu talmáli, en mér sýnist það nú reyndar vera að breytast til hins betra í seinni tíð einsog svo margt í íslenskri kvikmyndagerð. Maður er meiraðsegja farinn að heyra hvað fólkið á tjaldinu er að segja.

 

fatlafolFlestar ef ekki allar íslenskar bíómyndir fara á kvikmyndahátíðir erlendis og þar keppa þær og því er frekar erfitt að sjá pointið í því að tilnefna hverja einustu mynd hér á klakanum, - semsé báðar tvær. Ég held að allar sjónvarpsseríur sem voru gerðar á árinu séu tilnefndar nema Örlagabyttan með Sirrý. Menn hljóta að sjá að það er frekar aulalegt að þurfa bara að gera eitt stykki bíómynd til að eiga nær 50% líkur á tilnefningu. Viðar Eggertsson bendir á í athugasemd hér að neðan að á Íslandi séu frumsýndar árlega 70-90 leiksýningar atvinnumanna og að þær komi allar til álita þegar kemur að Íslensku leiklistarverðlaununum, Grímunni. Miðað við þessa staðreynd þá legg ég til að Eddan verði haldin á 5 ára fresti. Allt annað er hjákátlegt og eiginlega hálf aumkunarvert og broslegt í senn. Annars ráða menn náttúrulega hvernig þeir hafa þetta. Þessi Edduverðlaun voru víst hugsuð til að ýta aðeins undir egó kvikmyndagerðarmanna og kitla aðeins hégómagirnd þeirra og vissulega gera þau það en ég held þau kitli að sama skapi hláturtaugar margra kaldhæðinna Íslendinga. Það á ekki að veita þeim íþróttamanni verðlaun sem engan hefur keppt við og sá íþróttamaður hefur ekki unnið til neins sem ekkert hefur sigrað nema stimpilklukkuna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Þú gleymdir að taka eitt fyrir í þessari frumlegu úttekt og það er sjálf framkvæmdin í sjónvarpssal. ég bíð spennt.

María Kristjánsdóttir, 10.11.2007 kl. 13:31

2 Smámynd: Hákon Unnar Seljan Jóhannsson

Þessi hátið er þá meira einsog Special Olympics heldur en Óskarsverðlaunin?

Allir vinna!

Hákon Unnar Seljan Jóhannsson, 10.11.2007 kl. 13:37

3 Smámynd: Gulli litli

Hver er þessi Edda sem allir eru að tala um? Er Sena komin í Eiði? Fínn pistill!!!

Gulli litli, 10.11.2007 kl. 13:43

4 Smámynd: Viðar Eggertsson

Skemmtileg og umhugsunarverð ádrepa.

Svona til að halda öllu til haga, þar sem einnig er minnst á Íslensku tónlistarverðlaunin, þá eru 70 - 90 leiksýningar atvinnumanna frumsýndar árlega á Íslandi og koma allar til álita þegar kemur að Íslensku leiklistarverðlaununum, Grímunni. Engin þurrð þar... í magni!

Og svo til Maríu: Eddan er haldin á Nordica hóteli, en ekki í sjónvarpssal.

Viðar Eggertsson, 10.11.2007 kl. 15:04

5 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Góður pistill !

Jónína Dúadóttir, 10.11.2007 kl. 15:13

6 identicon

Er ekki aðalspennan að sjá hverjir fá að afhenda?

Már Högnason (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 15:47

7 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég ætla að kjósa Síðast bæinn í dalnum

Pálmi Gunnarsson, 10.11.2007 kl. 16:45

8 identicon

Einn sannasti pistill sem ég hef lesið lengi. Það er líka dálítið fyndið til þess að hugsa að íslenskir leikarar á sviði kunna bara eina samtalsstellingu, sem minnir dálítið á  Hringjarinn frá Notredame að taka af skarið hjá Morfís.  Og svo hefja menn ræðuna, mismunandi eftir því hvaða verk er verið að leika í.  Auðvitað.

Heyrðu, ekki í fjandanum skil ég hvernig þér dettur í hug að taka Hilmi Mjöll út úr okkar dálítið hæfileikalausa leikarafansi og tromma upp með þann apakött sem alheilagan vin RómaGenesiusar - það skil ég ekki. Skil það bara alls ekki. En þið eruð sjálfsagt kviðmágar eða frændur eða hann kom þér í kynni við réttan hest eða eitthvað slíkt. Jafnvel meri. Eða þá - og þetta gæti vel verið ástæðan - að þetta er raunveruleg skoðun þín. Gæti líka verið. En hún er dálítið undarleg. Heyrðu, þú og Hallgrímur Helgason ættuð að gefa út bók saman, það er í ykkur sami húmorinn og þessi innlífa þörf á orðaleikjum. Og svo þurfið þið auðvitað aukasjálf, er það ekki?: Grim Skerí. Nei, segi svona. Andskotans aukasjálf annars. Er það ekki annars merki um að menn trúi á magnið frekar en gæðin ef menn eru alltaf að hampa einhverju aukasjálfi? En hvað með Ólaf Ragnar og Dorrit - gætu þau ekki verið: Herra Ó og frú Dó. Og saman, svona rétt einsog Brangelina, kallað sig Ódó. Nei, ég er kominn í sama rugl og þið Hallgrímur. Hérna nem ég því staðar - enda líka lens.

Bið að heilsa yfirvaraskegginu. Þessu sem minnir mig alltaf á augnabrýrnar á Groucho Marx.

Egon (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 17:28

9 Smámynd: Rannveig Bjarnfinnsdóttir

Færslan hefði alveg skilað sínu hefði hún verið svona 75% styttri.  Ég var lööööngu hætt að lesa.  En það er bara ég kannski.  Svo tímabundin '

En ég skellti uppúr á nokkrum stöðum þó en vil bæta því við að síðustu Íslensku myndirnar sem ég sá voru Köld slóð (sem er afbragðs góð að mínu mati) og Little Trip to Heaven en Hilmi Snæ sá ég hvergi í þeim... minnir mig

Annars segi ég bara við erum við... bjóðslega happy!

Rannveig Bjarnfinnsdóttir, 10.11.2007 kl. 17:32

10 Smámynd: Elfar Logi Hannesson

Já þetta er skemmtileg pæling og vangavelta. Verðlaun í listum eru og verða alltaf til vandræða sjaldan hægt að gera svo öllum líki, Astopía í fílu og líka heimildarmyndin um Bjólfskviðu sem mér fannst reyndar gott. En það sem hlýtur þó að skipta mestu er það að dómnefndin í hvaða verðlauna listageira sem er horfi á öll verkin sem gerð eru á verðlaunaárinu, veit ekki hvernig það er í Eddunni, en í Grímudæminu er það hinsvegar svo að dómnefndin sér ekki öll verkin og það hlýtur að vera soldið skrítið. Reyndar er það nú svo að sýningar á hverju ári eru svo margar að það er ekki leggjandi á eitt stykki dómnefnd að mæta á þær allar, þyrftu þá sennilega að vera 5 sinnum í viku í leikhúsinu til að ná að ná öllu. Hvernig fer þá valið fram? Það er spurningin?

Elfar Logi Hannesson, 10.11.2007 kl. 17:33

11 identicon

Þversumman af ní og sautján er 26.

Hver  ertu maður svona víðsfjarri allri ákvarðatöku ?En orðið er frjálst.

Halllgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 20:54

12 Smámynd: Yngvi Högnason

Til athugunar, til hvers að verðlauna fólk fyrir að sjá um vinnuna sína? Þetta er með því hallærislegasta sem sést í sjónvarpi, fyrir utan náttúrulega leikið íslenskt efni.

Yngvi Högnason, 10.11.2007 kl. 22:14

13 identicon

Frú Rannveig

 þú ferð með vitlaust mál 

í fyrsta lagi er Köld slóð afsprynuslöpp

 í öðru lagi var Hilmir Snær í henni 

 við eigum nú samt alveg fínar myndir eins og 

 Magnús,nýtt líf,dalalíf,löggulíf,engla alheimsins,Mýrin,Sódóma,

Jón oddur og Jón Bjarni,Bíódagar,með allt á hreinu,Stella í orlofi,Djöflaeyjan,101 reykjavík,óskabörn þjóðarinar,íslesnki draumurinn,hafið,nói albínó,börn,foreldrar og eflaust margar fleiri....

þó svo að listinn yfir slæmar íslenskar myndir séu mun fleiri þá meigum við ekki gleyma því sem gott er ...  

TipTop (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 23:26

14 identicon

Fín hugleiðing ágæti Skormger. Þetta er afar klént alltsaman. Mér þætti gaman að sjá þig taka saman 5 lélegustu íslensku kvikmyndirnar. Ég sá nefnilega á dögunum alveg hryllilega leiðinlega mynd. Mynd sem er í rauninni alger demantur og ég spái að nái kult-status fyrr en síðar. Það er myndin Foxtrott. Bjánalegri kvikmynd er vandfundin nema skyldi vera Hvíti víkingurinn eða Myrkrahöfðinginn. Ofboðslega eru þessar myndir vondar!.

Hefur þú samt tekið eftir að alltaf fær íslensks mynd 3 stjórnur af kvikmyndagagnrýnendum. -Hvað er það eiginlega?

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 01:12

15 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna...

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 11.11.2007 kl. 01:16

16 Smámynd: Neopúritaninn

Gættu þín á félagsrétthyggjumafíunni!

Neopúritaninn, 11.11.2007 kl. 02:19

17 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka gott boð, en ég á ein, sem ég nota til að halda herbergishurðinni minni opinni.  Ekki skaltu hæðast að því þarfaþingi.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2007 kl. 05:13

18 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Annars tek ég undir með þér í ýmsu og hef sjálfur sagt íþessum kreðsum að þetta sé kjánalegt nema að við gerum þetta 3. - 5. hvert ár. Réttlæting á góðu partýi er annars alltaf góð og gild.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2007 kl. 05:19

19 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Fattarðu ekki plottið?

Þetta snýst allt um að vera með eina stór flotta glamurveislu fyrir þá sem sjá um að veita fé inn í þennan bransa. Þetta er líklega eitt flottasta PR dæmi sem greinin getur farið út í til að vekja athygli á sér og sínum í fjölmiðlum!

Mæli með því að fleiri fagfélög reyni að gera svipaða hluti, eins og ræstitæknar, bifvélavirkjar, húsverðir ...

Kjartan Pétur Sigurðsson, 11.11.2007 kl. 08:47

20 identicon

Hallgerður, þversumman af níu og sautján er sautján. Summa og þversumma er ekki sami hluturinn. Bara aðeins að wesserbisserast.

Pétur (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:06

21 identicon

Svo ég leiðrétti nú sjálfan mig væri kannski réttara að segja að þversumman af níu og sautján sé átta. Kom nú vel á vondan að hlaupa svona á mig þegar ég ætla að þykjast vita betur.

Pétur (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:10

22 identicon

Það vekur alltaf upp aulahrollinn að horfa á þetta sjálfumglaða fólk hampa hvort öðru í hallærislegum tilgerðarleikþætti Edduverðlaunanna. Þessi skemmtilega hátíð ætti að hlífa sjónvarpsáhorfendum við eða senda út á hliðarrás. Sleikjarar og egóískir menningaralvitringar allir samankomnir á einn stað þar sem allir eru að reyna að vera fyndnir og hressir en eru svo aumkunarverðir fyrir vikið fyrir utan að vera að þiggja verðlaun fyrir 0,2% áhorf. Samt held ég að það þyrfti að skrifa gott handrit að GrEddunni svo hægt væri að glápa á dæmið. Ég vorkenni líka pínu nokkrum leikurum sem fatta hvað þetta er allt lummó en eru með til vera með.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:43

23 Smámynd: Freyr Hólm Ketilsson

Voðalega eru neikvæðir straumar hér... við eigum fullt af góðum myndum og hæfileikaríku fólki.
Er sjálfur gjörsamlega óháður þessum bransa en mér finnst t.d Astrópía, Mýrin og Köld slóð fínar myndir.

Það er að brá af mönnum að vera með sviðsleik í bíómyndum.

Við erum að tala um að það eru jú hvað 50 - 60 ár síðan síðustu moldarkofabúarnir skriðu út úr þeim.

Hvernig getum við ætlast til þess að öll okkar menning sé á pari við umheiminn þegar þannig er?

Maður spyr sig. 

Freyr Hólm Ketilsson, 11.11.2007 kl. 14:36

24 Smámynd: Darri Rafn Hólmarsson

"Þegar Íslendingar klappa með í lagi þá klappa þeir alltaf á bassatrommuslögunum, semsé á 1. og 3. en aldrei á snerilslögunum 2. og 4."

Vá þetta er eitthvað sem ég minnist á við fólk ótrúlega oft og allir bara "hmm?". Ég þooooli ekki þegar fólk gerir þetta! Klappar á kickinu, það er svo fáránlegt.

Darri Rafn Hólmarsson, 11.11.2007 kl. 16:02

25 identicon

Eitthvað sem er alíslenskt er íslenst og þroskaheft. En núna er það altalað til að allt sé pottþétt að fá Edduna þurfi ekki annað en að fá Hilmi Snæ til að láta sjást aðeins í sperðilinn á sér.

spritti (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 17:32

26 identicon

Sá einu sinni viðtal við Clint Eastwood og hann var að tala um hættuna á að ofleika í bíómyndum.  Hann sagði að myndavélin væri svo næm að oft þyrfti varla meira en hvasst augnaráð eða smá andlitshreyfingu til að gefa eitthvað mikið til kynna.

Vandamálið hér er að íslensku leikararnir eru ekki að leika fyrir myndavélina heldur fyrir gamla sjónskerta og heyrnarlausa karlinn á aftasta bekk í leikhúsinu.

En fyrst að þessi verðlaun eru á annað borð í gangi þá væri upplagt að veita Clint Eastwood verðlaunin fyrir hógværustu og eðlilegustu framistöðuna í bíómynd.  Mér finnst að Baltasar hafi náð því í Englum Alheimsins.  Hann lék geðsjúkan mann án þess að ofleika.  Frábær framistaða. 

Oddur Ólafsson (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 21:13

27 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

þetta er Stormsker

Einar Bragi Bragason., 11.11.2007 kl. 23:29

28 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kannski bara Stormsker í glasi?

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2007 kl. 23:37

29 identicon

Segir það ekki allt um innlenda leiklist að frægasti íslenski leikarinn skuli vera hvalur, - einhver Keikó eða Kakó eða Sækó eða hvað hann nú hét þessi leiðinda ofverndaði fjölfatlaði háhyrningur sem hafði það að aðal atvinnu að ríða hjólbörðum í Vestmannaeyjum. Dó svo úr þunglyndi við Noregsstrendur þegar sprakk á kærustunni hans og endaði sem dósamatur í Bónus.

þessi setning er nú með betra bulli sem ég hef heirt frá þér

heirumst félagi

Gunnar (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 23:50

30 Smámynd: Karl Tómasson

Djöfull eru þetta alltaf langar færslur hjá þér gamli snóker bani. Ef einhverjum á að takast að stytta mál sitt þá hefði ég haldið þér minn kæri.

Hver á að fá Eddu verðlaunin fyrir besta leik á Eddu hátíðinni?

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó minn kæri.

Karl Tómasson, 12.11.2007 kl. 00:25

31 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég hef ekki getað borðað Brodd síðan bóndakonan  í sveitinni reyndi að koma honum ofan í mig, en eftir þriggja tíma setu við diskinn ældi ég því litla sem ég hafði sett ofan í mig + saltfisknum.

Á hverju ári ber íslensk kvikmyndagerð og síðan er hafist handa að handmjólka þann litla brodd sem er að finna í kvikmyndagerðin sem nægir í eina ósgeðslega máltíð.

Benedikt Halldórsson, 12.11.2007 kl. 08:39

32 Smámynd: Kári Harðarson

Þrettán ára sonur minn er farinn að sjá hvað eyjan er lítil.  Hann fékk svo mikinn aumingjahroll þegar hann sá Edduna í sjónvarpinu að hann sagði "pabbi, ég hlakka svo til að skreppa til útlanda".

Kári Harðarson, 12.11.2007 kl. 09:40

33 Smámynd: Villi Asgeirsson

Mikið er leiðinlegt að vera í útlöndum og geta ekki séð Edduna. Það er svo gaman að sjá fallegt fólk í fallegum fötum tala fallega um hvort annað. Svo eru bíómyndir svo spennandi og gaman að sjá þær íslensku því maður skilur þá hvað sagt er án þess að textinn sé að flækjast fyrir tippinu í nektarsenunum.

Ég hefði átt að senda stuttmyndina mína til Eddu en ég gleymdi því. Efast um að hún hefði unnið neitt. Enginn kormákur, enginn snjór nema í fjöllum og engin nekt. Ekki einu sinni bölvað. Var þetta alveg örugglega íslensk mynd? Spyr sá sem veit.

Annars fannst mér þetta ósmekklegt skot á Keiko. Hvað myndi Stormskerið gera ef hann væri lokaður í búri og eini félagsskapurinn er blás-upp dúkka? Það held ég að yrði sorg ef hún myndi springa.

Villi Asgeirsson, 12.11.2007 kl. 11:20

34 identicon

ÚFF

Hyper (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 12:55

35 identicon

Ég gat ekki horft á þetta dæmi, mér fannst það eitthvað svo neyðarlegt og lummó allt saman að ég ákvað að bjóða mér upp á eitthvað annað

DoctorE (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 13:37

36 identicon

Góður! Þú ert óborganlegur Stormsker! Sammála þér. Kveðja frá Helgu.

Helga Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 15:24

37 identicon

Oddur

"En fyrst að þessi verðlaun eru á annað borð í gangi þá væri upplagt að veita Clint Eastwood verðlaunin fyrir hógværustu og eðlilegustu framistöðuna í bíómynd."

Horfðu á Blood Work

TipTop (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 19:56

38 identicon

 Góður pistill, en mig rámar í að einhver hafi talað um þetta áður... stuttu eftir Edduhátíðina á síðasta ári. Gott ef ekki að það hafi bara verið Sverrir sjálfur Stormsker. En mér gæti skjöplast.

Hér eru taldar upp nokkrar misgóðar kvikmyndir. Einna merkilegast finnst mér að enginn minnist á þann stórundarlega hrylling sem er Opinberun Hannesar, merkilegt að því leytinu til að fólk á það til að muna eftir, þó það væri ekki nema brotabrot, af versta tíma lífs síns. Ein allra ófyndasta gamanmynd sem gerð hefur verið og bitlausasta ádeila sem nokkur maður hefur soðið saman og kallað bíómynd.

Tvennt var merkilegt við þá mynd, 1) Hún var frumsýnd á RÚV (svo í bíó!!?) og 2) einhver moðhausinn hjá morgunblaðinu gaf þessum óskapnaði fimm fokking stjörnur! Ekki man ég svo gjörla hver það var, kannski "draugahöfundur" Davíðs og Hrafns.

Þórður Ingvarsson (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 00:40

39 identicon

Það hafa nú verið gerðar afspyrnugóðar myndir upp á síðkastið og hefur íslensk kvikmyndagerð tekið miklum stökkum. Myndirnar eru miklu betri og leikararnir virkilega góðir. Það eru jú góðar myndir verið gerðar eins og englar alheimsins og 101 Reykjavík ofl. En myndirnar Börn og svo Foreldrar eru hrikalega góðar. Þær snerta mann á hátt sem að aðrar myndir hafa ekki gert. Þeir sem að viðurkenna það ekki þurfa aðeins að opna augun. Hún er ekki bara snilldarlega vel gerð heldur eru leikararnir hver öðrum betri. Köld slóð er nú bara fyrsta svona spennumyndin íslenska sem að hefur gert mig spennta. Og

Mýrin er nú líka afbragðsgóð og vel gerð en ekkert í samanburði við þær fyrrnefndu.

Mér finnst þetta bara spark í rassinn og vona að þetta haldi áfram. Eins og Nína sagði þá getur fólk þetta á ástríðunni einni saman.

Ingunn Henriksen (IP-tala skráð) 13.11.2007 kl. 00:40

40 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Beware of the toes you step on today; they may be connected to the tush you have to kiss tomorrow.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 13.11.2007 kl. 01:19

41 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Og ég taldi allt þetta vera íslenskt óskars hátíð - vantaði bara billy crystal ---- harmleikur

Halldór Sigurðsson, 13.11.2007 kl. 20:39

42 Smámynd: Íris Mjöll  Valdimarsdóttir

Almáttugur minn hvað mér leiðist þetta

þeir eiga bara að hafa þetta lokað eins og ksí lokahófið.

Þeir geta bara sent pappparazzzana sína í málið og við getum þá lesið þetta í næsta séð og heyrt ....ef við höfum áhuga.

Íris Mjöll Valdimarsdóttir, 14.11.2007 kl. 16:54

43 Smámynd: Kona

Þú ert svona hress. Takk fyrir prýðis pistil.

Kona, 14.11.2007 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband