Séríslensk galin verðlagning

MengunardollaÁður en þungaskattur var afnuminn á klakanum þá var dísilolían helmingi ódýrari en bensín. Núna er lítrinn af henni um 20 krónum dýrari þrátt fyrir að vera mun umhverfisvænna eldsneyti og margfalt ódýrara víðasthvar annarsstaðar í heiminum. Hvernig skyldi nú standa á þessum séríslenska verðmun? Jú dísilbílar eru nefnilega neyslugrennri og það er hægt að komast lengra á lítra af dísil en bensíni. Það skal sko enginn fá að græða á því að vera á dieselbíl jafnvel þótt hann mengi mun minna. Nei, ekki hér. Á sama tíma tala hugsuðirnir á Alþingi um að það beri að minnka loftmengun. Einmitt.

 

Með 10.000 króna gambraSama víðáttuvitlausa séríslenska verðlagningin er viðhöfð í Á.T.V.R. Þar eru vínin ekki verðlögð eftir gæðum heldur fyrst og fremst eftir alkóhólsmagni. Þannig getur t.d. handónýtt vín sem kostar 300 kall í siðmenntuðum löndum kostað hér á Íslandi 2000 kall. Víða erlendis getur gott rauðvín verið dýrara en rótsterkt vín, en hér er eingöngu rýnt í prósentustigið. Svona brennivínslegin alkóhólista„hugsun" í verðlagningu vína þekkist hvergi í veröldinni nema ef vera skyldi í Noregi og Svíþjóð, tveimur af þremur leiðinlegustu löndum heimsins.

 

Íslenskur séntilmaður Grænmeti er hér dýrast í heimi en ætti sem hollustufæði að vera hræódýrt. Með svona galinni verðlagningu og öfugsnúinni neyslustýringu á öllum sviðum er verið að framleiða vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.

 

 

 (Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum 26. júlí).

 

Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu Fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en Guðni Ágústsson sprelligosi og fyrrverandi lambbúnaðarráðherra. Við munum fara vítt og breitt yfir sviðið sviðið og líklegast mun hann taka sér stöðu fyrir aftan eldavélina og herma eftir Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu.

Fyrri þætti má finna á:  www.stormsker.net 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Það er ekki alveg rétt að diesel sé alstaðar ódýrari en bensín. Víða í Evrópu hefur það skeð núna síðasta árið að dieselolía hefur farið fram úr bensíni. Það skeði t.d. hér í Austurríki núna eftir áramótin og hefur haldið síðan.

Einar Steinsson, 30.7.2008 kl. 09:07

2 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Það er heldur ekki rétt, að þungaskattur hafi verið afnuminn, innheimta skattsins breyttist. Hvenær hefur einhver skattur verið afnuminn??

Stjórnvöld hafa haft þá stefnu lengi, að ef til eru leiðir til að spara, eða á annann hátt, að fá meira fyrir minna, þá skuli það skattlagt, til að fólk fari nú ekki að hafa það of gott, og leggjast í leti. Og ef fólk finnur leið til að krydda tilveruna, og skemmta sér, þá er það bannað, s.b.r. handjárnasöguna í Mogganum í morgun.

Börkur Hrólfsson, 30.7.2008 kl. 09:35

3 Smámynd: tatum

vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.  Það er rétta setningin yfir stefnu ríkisstjórnarinnar og þeirra sem sitja með þeim í salnum við Austurvöll. Stundum líður manni eins og maður sé hálviti og geti ekki greint rétt frá röngu, þegar þessir 63 eru að ræða um að setja lög um eitt og annað í þessu landi. Allavega eru umhverfismálin ekki alveg að gera sig hjá þeim, auðvitað á diesel að vera ódýrara en bensín og fella ætti niður allan gróðaskatt af innflutningi af dieselbílum, til að hvetja landann til að keyra frekar á vegna umhverfisins.  Hollustuvörur ættu líka að verðleggja þannig að það væri hvattning, en ekki munaður, eins og núverandi verðlagning.  Um áfengismálin ætla ég ekki að tjá mig í mörgum orðum, því ég held að ekki sé nóg pláss.  En ég hef verið lengi þreytt á þessari alkahólistastefnu sem í þessu landi ríkir, og verðlagið, jú það er ákveðið þarna niðurfrá, þeir halda að allir þurfi að leita sér meðferðar ef þeir drekka áfenga drykki.  En er ekki ástandið í landinu vegna þess að þeir halda að allir séu eins og þeir?  margur heldur mig sig.

tatum, 30.7.2008 kl. 10:33

4 Smámynd: Ómar Ingi

Taktu Guðna í gegn PLEASE!!!

Ómar Ingi, 30.7.2008 kl. 11:16

5 identicon

Diesel er dýrara en benzin í Danmörku. Það er misjafnt hversu mikið það er en það er oft ca 30 aurar en það eru um 5 kr.- íslenskar. Þessi umskipti áttu sér stað seint á síðasta ári að mig minnir þ.e. benzin varð ódýrara pr. líter.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 13:28

6 Smámynd: Gulli litli

Diesel er ekki dýrara en bensín í DK allavega ekki þar sem ég bý...

Gulli litli, 30.7.2008 kl. 14:17

7 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sælt veri fólkið. Jú það er rétt að það eru til lönd þar sem dísilolía er dýrari en bensín, þótt ótrúlegt megi virðast og því er kannski orðalagið "víðasthvar" heppilegra og nákvæmara en "allsstaðar." Tek undir það. Einnig er nákvæmara að tala um "tilfærslu" skatts frekar en "afnám" því það er í rauninni bara nafnið "þungaskattur" sem var lagt niður en ekki skatturinn sjálfur. Innheimtuaðferðin breyttist en að sjálfsögðu lækkaði ekki skatturinn. (Hér lækkar ekkert, nema kannski kaupmáttur og greindarvísitala þjóðarinnar) 

En það er þannig að mér er skammtað pláss í 24 Stundum þar sem greinin birtist og því getur maður ekki alltaf farið farið í hárnákvæmar útlistanir. Fólk hefur nefnilega ekki tíma til að lesa "langlokur" því það þarf að vinna fyrir sköttunum og vöxtunum. Við erum ekki bara heimsmethafar í háu matarverði, háu áfengisverði og háu eldsneytisverði heldur eigum við líka heimsmet í vaxtaokri og fjölmörgu öðru skynsamlegu. En engu að síður er Ísland að sjálfsögðu mest og best allra landa í vetrarbrautinni og þótt víðar væri leitað. Við eigum nefnilega hreint vatn og hreint loft og hreint lambakjöt og hrein fífl út um allt .

Hvað varðar Útvarpsþátt minn á Sögu þá er ég ekkert í því að "taka  menn í gegn" og brytja þá niður og skilja þá eftir hágrenjandi í strimlum því þá myndi enginn leggja í að mæta í þáttinn. Fréttamenn eiga að sjá um þá (geð)deild en sjálfur lít ég á þátt minn sem svona líka gríðarlega kósí afþreyingarþátt (vona allavega að hann steindrepi engan úr leiðindum) og Guðni kallinn er með skárri skemmtikröftum þjóðarinnar. En auðvitað kemur fyrir að það fýkur ein og ein nastí athugasemd, því til þess er nú skrattinn í manni að skemmta honum.

Takk fyrir kommentin. 

Sverrir Stormsker, 30.7.2008 kl. 15:06

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég er að hlusta á þáttinn hjá þér. Þessi óvægni og aggresívi spurningaháttur er nákvæmlega það sem þjóðin þarf til að vakna.  Haltu þessu áfram.

Hrannar Baldursson, 30.7.2008 kl. 17:29

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það kom mér á óvart að Guðni skuli hafa farið. Þetta var ekki það gróft hjá þér.

Hrannar Baldursson, 30.7.2008 kl. 17:57

10 Smámynd: tatum

Hvenær er þátturinn endurfluttur? Verður hann ekki örugglega endurfluttur óbreyttur?  Ég er sammála þér að við erum öll hrein fífl i þessu landi.  Það vantar fleiri eintök af þér í spyrlahlutverk fjölmiðla landsins! 

tatum, 30.7.2008 kl. 18:18

11 Smámynd: Ómar Ingi

Takk Sverrir TAKK þú ert hetja !!

Að þessi vit leysingur fái að gaspra og gaspra vitleysunni útúr sér í öllum öðrum fjölmiðlum en hjá þér er frábært takk fyrir þú ert hetja haltu áfram á beinu brautinni.

Ómar Ingi, 30.7.2008 kl. 20:23

12 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sverrir ...gott hjá þér

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 30.7.2008 kl. 21:12

13 Smámynd: Einar B  Bragason

Þetta er rugl með kosnað, ég á t.d. ágætis Diesel gallabuxur sem eru ódýrari en levis og nú eru þeir farnir frá Mexico til Kina og ég geng bara í Inverskum Wrangler stuttbuxum.. kv Jari...

Einar B Bragason , 31.7.2008 kl. 03:48

14 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Má ekki segja að þessir bændur séu "starfandi öryrkjar"? Ég missti af þessum þætti með Guðna og þarf endilega að hlusta á hann. Finn hann ekki á heimasíðunni stormsker.net.

Sverrir, ertu kominn með seinagangs-starfslag sem einkennir einmitt yfirvöld sem þú ert að gagnrýna hvað mest?

Sumarliði Einar Daðason, 1.8.2008 kl. 12:50

15 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sælt veri fólkið. Það er engin ástæða til að búa til samsæriskenningar um seinagangs-starfslag og gefa sér innistæðulausar forsendur þó að þátturinn sé ekki kominn inná netið. (Þetta er soldið einsog að spyrja: "Sverrir, ertu að borga með plötunni þinni og þú sem ert að gagnrýna landbúnaðarkerfið?) 

Það er einfaldlega samkomulag milli mín og Arnþrúðar Karls að þættir mínir fara ekki inná netið fyrr en í fyrsta lagi 5 dögum eftir frumflutning. Ekki flóknara en það. Nýi þátturinn verður semsé ekki kominn inná www.stormsker.net  fyrr en í fyrsta lagi á mánudaginn.

Það er engin regla á endurflutningi þátta og ég get því aldrei sagt hvenær Þáttur verði endurfluttur en mér skilst á Arnþrúði  að Guðnaþátturinn verði endurfluttur á morgun, laugardag, kl. 16:00.

Guðni hafði semsé ekki sitt í gegn hvað varðar endurflutning en það er hinsvegar aldrei að vita nema ég verði rekinn, svo við höfum nóg að hlakka til um helgina.

Góða versló. 

Sverrir Stormsker, 1.8.2008 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband