Davíð, þjóðin og Steingrímur J.

doddsson_wanted_dead_or_alive_862314.jpgÞað er undarlegt þetta samband milli þjóðarinnar og Davíðs Oddssonar, eða sambandsleysi öllu heldur, og svo þetta ástarsamband milli þjóðarinnar og Steingríms J. Sigfússonar. Nokkur dæmi:

 

Davíð vildi ekki sjá IMF. Þjóðin vildi sjá IMF og vildi ekki sjá Davíð. Í dag vill þjóðin ekki sjá IMF en ennþá síður Davíð. Þjóðin vildi sjá Steingrím J. en Steingrímur vildi ekki sjá IMF, ekki fyrr en þjóðin var búin að gera hann að ráðherra. Þá vildi hann sjá IMF. Þjóðin treystir samt ennþá Steingrími en hatar Davíð.

 

Davíð vildi ekki sjá að allir hinir svokölluðu "frjálsu" fjölmiðlar væru á einni og sömu krumlu. Þjóðin vildi hinsvegar ekki sjá neitt athugavert við það og túlkaði þetta sem geðillskukast og öfund í Davíð.

 

Davíð vildi fjölmiðlafrumvarpið í gegn. Þjóðin vildi reka Davíð í gegn og vildi ekkert óþarfa fjölmiðlafrumvarp. Í dag vill þjóðin fjölmiðlafrumvarp. Steingrímur vildi ekki og vill ekki sjá neitt fjölmiðlafrumvarp. Þjóðin treystir samt ennþá Steingrími en hatar Davíð.

 

grís.jpgDavíð vildi ekki sjá Ólaf Ragnar. Meirihluti kjósenda vildi sjá Ólaf Ragnar og það aftur og aftur og aftur. Í dag er Ólafur uppgötvaður sem klappstýra útrásarvíkinganna og enginn vill sjá hann. Þjóðin er þarna orðin sammála Davíð. Samt situr Ólafur ótruflaður (af þjóðinni) en Davíð er böggaður kvölds og morgna.

 

 

Davíð var ekki par hrifinn af Baugi og útrásarloddurunum og var í raun eini maðurinn sem þorði að standa uppí hárinu á þeim. Þjóðin dýrkaði útrásarvíkingana og sagði að Davíð væri vitfirringur sem væri bara að reyna að hefna sín á þeim fyrir að hafa kyrkt Kolkrabbann. Í dag fyrirlítur þjóðin útrásardólgana. Bónus er hinsvegar ennþá vinsælasta verslunin, Samspillingin vinsælasti flokkurinn og Davíð óvinsælasti maðurinn.

 

frelsarinn_862317.jpgDavíð vildi ekki sjá það að greiða erlendar skuldir óreiðumanna. Baugsmiðlarnir bjuggu strax til hysteríu úr þessu og þjóðin lét teyma sig á asnaeyrunum einsog venjulega og trylltist gjörsamlega líkt og hún vildi alveg hreint endilega fá að borga erlendar skuldir óreiðumanna. Í dag vill þjóðin ekki sjá það að borga erlendar skuldir óreiðumanna. Það vill hinsvegar Steingrímur J. þó hann hafi sagt annað fyrir kosningar. Þjóðin treystir samt áfram Steingrími en hatar Davíð.

 

Jóhanna Sig. og "þjóðin" öskruðu Davíð í burtu, eina manninn á landinu sem hafði roð í útrásarþjófana, og tróðu Steingrími í ráðherrastól, manni sem sagði fyrir kosningar að myndi láta elta gangsterana uppi hvar sem til þeirra næðist og láta frysta eigur þeirra en að sjálfsögðu hefur hann ekki efnt það frekar en NOKKUÐ annað sem hann lofaði fyrir kosningar. Ekki EITT orð. Skjaldborgin sem hann og Jóhanna lofuðu t.d. að reisa um heimilin virðist eingöngu vera um þeirra eigin heimili og bankana.

 

Davíð vildi þjóðstjórn þegar allt var að hrynja. Þjóðin átti ekki til orð yfir slíkan hálfvitagang og meiraðsegja Þorgerður Katrín lét í það skína að kallinn væri með óráði. Í dag held ég að stór hluti þjóðarinnar sé sammála Davíð. Og þó. Líklega treystir hún ennþá Steingrími og Samspillingunni best til að leiða þjóðina útúr ógöngunum. (Ég hlýt að mega nota orðið "Samspillingin" þar sem ég bjó það orð nú til á sínum tíma, takkfyrir).

 

dr_jekyll_and_mr_hyde_862327.jpgDavíð vildi ekki sjá ESB og sagði það sem hann meinti og meinti það sem hann sagði. Þjóðin var klofin. Steingrímur J. sagði FYRIR kosningar að hann vildi ekki sjá ESB. EFTIR kosningar sáum við hvað gerðist. Fyrir undanlátsemina og vingulsháttinn fékk hann ráðherrastóla. Og þetta er maðurinn sem kallaði Davíð "gungu" og "druslu." Úfff.

 

Steingrímur J. hefur verið að vinna hörðum höndum að því að framkvæma allt sem hann lofaði fyrir kosningar að framkvæma ekki. Þjóðin hinsvegar hatar Davíð sem hún virðist í dag sammála um flesta hluti en elskar Steingrím J. sem hún er ósammála um allt.

 

Fyrir nokkrum mánuðum gerði þjóðin gasalega byltingu og heimtaði nýja ríkisstjórn, skiljanlega, því hin var vonlaus. En hvernig notaði þjóðin svo atkvæðisréttinn? Jú, kaus yfir sig sömu dugleysingjana og hugleysingjana sem höfðu ekki gert handtak þrjá mánuðina þar á undan; kaus meðreiðarsveina útrásarhlandaulanna sem stærsta flokk landsins og svo hentistefnukommúnista sem þann næststærsta. Þar af fengu þeir þrír flokkar sem komu með beinum hætti að hruninu, Sjálfstæðisflokkurinn, Framasóknarflokkurinn og Samspillingin um 70% atkvæða. Hver á að skilja þessa hringlandi vitlausu Reykáss-þjóð? Sálfræðingar sem sérhæfa sig í Stokkhólms-syndrominu?

 

vilmundur_gylfason.jpgÞjóðin vill greinilega engar breytingar. Hún reynir aldrei að hafa það sem sannara og betra reynist heldur aðeins það sem flokkshollara reynist. Hún rígheldur í sinn hrepparíg - flokksríg - sitt smáborgaralega þjóðarsport. Hún vill vera grilluð á daginn og láta snæða sig á kvöldin. Skilur ekki orð einsog þjóðstjórn, utanþingsstjórn, persónukjör, beint og milliliðalaust lýðræði o.s.fr. Enda setti hún framsýnasta þingmann síns tíma, Vilmund Gylfason, útá guð og gaddinn. Hefði þjóðin haft vit á því að hlusta á hann opnum huga fyrir 30 árum og parkera flokksdýrkun sinni þá er algerlega útilokað að hún væri í þessum sporum í dag. Sorglegt.

 

Ef sama fólkið er að mótmæla í dag og sem mótmælti fyrir nokkrum mánuðum þá er það raunverulega að mótmæla eigin trúgirni og einfeldni. Gleymskan og heimskan í algleymingi. Það er einsog þjóðin fæðist á fjögurra ára fresti og jafnvel innan við það.

steingrimur_j_mosdal_862335.jpgÓlafur Ragnar Reykás.jpgEftir næstu pottlokabyltingu og kosningar verðum við hreinlega að fá forsætisráðherra sem við getum kallað samnefnara þjóðarinnar. Það eru tveir sem koma til greina: Steingrímur J. Mosdal og Ólafur Ragnar Reykás.

 

(Birtist í Morgunblaðinu 11. júní 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Hárrétt þjóðfélagsrýni, eins og venjulega.

Axel Jóhann Axelsson, 13.6.2009 kl. 12:55

2 Smámynd: Alfreð Björnsson

góður pistill um alveg ótrúlegt samansafn af rugludöllum sem búa á þessu skeri.

Alfreð Björnsson, 13.6.2009 kl. 13:26

3 Smámynd: Sverrir Stormsker

Axel. þakka þér.

Alfreð. Þetta venst, - illa.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 13:51

4 Smámynd: Alfreð Björnsson

sorry sverrir,er búinn að reina í rúm 50 ár,þetta venst alls ekki.

tími til komin að hipja sig

Alfreð Björnsson, 13.6.2009 kl. 13:55

5 Smámynd: Þröstur Heiðar Guðmundsson

Amen !

Nákvæmlega það sem ég vildi sagt hafa en hafði ekki sama orðaforða og þú, en hvað finnst þér besta stjórnarmunstrið í dag svona miða við aðstæður , er það þjóðstjórn eða óstjórn

Þröstur Heiðar Guðmundsson, 13.6.2009 kl. 14:08

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sverrir þessi grein er hrein snilld.
Þetta undirstrikar svo kyrfilega það sem hefur gerst og er að gerast. Kæra þökk fyrir þessi frábæru skrif.

Verst að Davíð á ekki afturkvæmt að svo stöddu. Ef einhver hefði næganlega yfirsýn til að sigla skútunni í gegnum núverandi ólgusjó, þá væri það Davíð. Pólitíkin hleyðir honum ekki að aftur. Það væri helst ef hann stofnaði Íhaldsflokkinn (að nýju) og kæmi fram á sviðið að nýju með Anti-ESB-Hægri-Flokk.

Haraldur Baldursson, 13.6.2009 kl. 14:39

7 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Mér finnst allt í lagi að skipta um skoðun svona endrum og eins. En þessi hafa nú bara orðið umskiptingar. Sammála Alfreð nr. 2 um að þetta er alveg ótrúlegt samansafn rugludalla. Var á Íslandi um kosningarnar. Mér fannst að fólk notaði ullen dullen doff aðferðina eða útilokunar aðferðina til að kjósa, sem sýnir tiltrú manna á þessu fólki. Sverrir þú gætir kannski líka skrifað um umskiptin sem urðu á Davíð þ.e. umskiptin frá stjórnmála manni yfir í bankastjóra. Sýnist á öllu að hann sé ekki minni umskiptingur.

Hörður Valdimarsson, 13.6.2009 kl. 15:05

8 Smámynd: Kommentarinn

Frábær útdráttur.. Annars er Dabbi Berlusconi ekki maðurinn sem við þurfum á að halda til að redda málunum. Hann er of umdeildur (og ekkert að ástæðulausu). Menn hafa ekki gott af því að vera í svona háum valdastöðum of lengi. Það býður heim spillingu, sem hefur reyndar lengi verið þjóðarsport íslendinga...

Kommentarinn, 13.6.2009 kl. 15:48

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hárrétt athugað. Múgurinn kaffærði Davíð enda lá hann vel við höggi, og gífurlegar áróðursvélar í gangi sem enginn einn einstaklingur getur mögulega ráðið við. Þessar vélar eru enn í gangi.

Hrannar Baldursson, 13.6.2009 kl. 16:13

10 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Ergó: Getur verið að Davíð Oddsson hafi haft rétt fyrir sér eftir allt saman? 

Jón Baldur Lorange, 13.6.2009 kl. 17:25

11 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Jón nr. 10

Enginn er alslæmur. En rétt fyrir sér í hverju. Það er alltaf hægt að hafa rétt fyrir sér eftirá. Davíð lækkaði skatta og barðist við seðlabankamenn þegar hann var stjórnmálamaður bara til að hringsnúast þegar hann varð bankastjóri. Það var aumkunarlegt að hlusta á fyrstu ræðu hans sem bankastjóri, en þar viðurkennir hann eigin heimsku sem stjórnmálamaður. Þegar dallurinn er hripleka þíðir ekkert að ausa. Kúkurinn var kominn langt upp á bak þegar hann varð bankastjóri.

Hörður Valdimarsson, 13.6.2009 kl. 17:38

12 Smámynd: Sverrir Stormsker

Alfreð. Kominn tími til að hypja sig segirðu. Rétt. Það versta sem getur komið fyrir þjóð,  tala nú ekki um fámenna þjóð einsog Klakaverja, er að missa almennilegt fólk úr landi. Óbætanlegt. "Stjórninni" virðist hinsvegar nákvæmlega sama. Við eigum ekki að bjóða hinn vangann heldur gefa gott rothögg til baka.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 20:09

13 Smámynd: Sverrir Stormsker

Þröstur. Við þurfum ekki að óska okkur óstjórnar því hún er yfir okkur núna. Ég spurði Þorstein Pálssson þáverandi forsætisráðherra á fundi á Hótel Borg 1988 hversvegna við afleggðum ekki íslenska spillingarmynstrið og fengjum einfaldlega nokkra (óættartengda) spesílista að utan til að stjórna þessu 300 þúsund manna dekkjaverkstæði sem Ísland væri, en hann gat ekki svarað, enda alíslenskur pólitíkus. Ég er sömu skoðunnar í dag.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 20:24

14 Smámynd: Örn Björnsson

Tær snild...

Örn Björnsson, 13.6.2009 kl. 20:24

15 Smámynd: Haraldur Baldursson

Rekur ekki bróðir Davíðs Dekkjaverkstæði. Er hann ekki maðurinn til að taka slaginn ?

Haraldur Baldursson, 13.6.2009 kl. 20:53

16 Smámynd: Sverrir Stormsker

Haraldur. Býst við að meirihluti fólks sé ósammála mér og það er líka allt í lagi. Þegar mér leiðist í siðprúðum blævængjasamkvæmum þá þarf ég ekki annað en minnast á Davíð Oddsson og allt fer í háa loft og ég get tekið gleði mína á ný. Einkennilegt hvað menn hafa mikla nautn af því að hata hann.

Davíð er náttúrulega ekki gallalaus og óskeikull frekar en við hin, en skemmtilegri og skarpari maður er vandfundinn. Aggressívari og ákveðnari verða menn ekki, sem er mjög gott mál. Nákvæmlega það sem við þurfum í dag. Ekki kellingarheybrækur.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 21:01

17 Smámynd: Haraldur Baldursson

Ég hnegi mig í auðmýkt. Davíð hefur það sem þarf til að stýra skútunni. En fær bara ekki að koma að stýrinu. Fólk gerir lítið úr leiðtogahlutverkum og velur reyndar alls konar Jóhönnur til þeirra verka, því til sönnunar, en af einhverjum ástæðum þarf að skipta um knattspyrnuþjálfara annað slagið, það þó þeir kunni allir að reima skó.

Haraldur Baldursson, 13.6.2009 kl. 21:07

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

smá samantekt.. þar sem við erum óhæf til að stjórna okkur sjálf og Davíð Oddson er sá skársti.. omg..

eigum við þá ekki bara að senda sendinefnd til Jens Stoltenberg og biðja um fylkisstatus innan norska konungsríkisins ?

Óskar Þorkelsson, 13.6.2009 kl. 21:20

19 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hörður. Þú spyrð hvort það væri ekki trikk að ég skrifaði líka um umskiptin sem urðu á Davíð sem stjórnmálamanni og seðlabankastjóra. Hef sagt mörgum sinnum að Seðlabankinn eigi ekki að vera elliheimili fyrir stjórnmálamenn. Ráðherrar sem og forseti eiga að sitja í 8 ár og ekki einni mínútu lengur. Eftir það eiga þeir að fara í garðrækt eða sjálfsrækt.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 21:22

20 Smámynd: Sverrir Stormsker

Kommentarinn. Held að enginn hafi gott af því að vera í hárri valdastöðu of lengi. Vont fyrir hann sjálfan og ennþá verra fyrir almenning.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 21:37

21 Smámynd: Óskar Arnórsson

Takk Sverrir! Má ég ekki snúa þessum pistli yfir á sænsku? Geðlæknirinn minn í Svíþjóð er orðin sveittur af því að finna út úr því hvers vegna ég sé svona undarlegur. Ég er farin að vorkenna honum og hugga, enn með þessa diagnósu gæti ég kanski bjargað honum...hann fær kvíðaköst í hvert skipti sem ég kem...

Óskar Arnórsson, 13.6.2009 kl. 21:46

22 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hrannar. Rétt hjá þér. Það er varla fyrir hvítan mann að komast óskaddaður útúr Baugsfjölmiðlahakkavélinni. Enginn núlifandi Íslendingur hefur verið lagður í annað eins einelti og Davíð. En þessi hakkavél verður hökkuð í spað áður en yfir líkur. Sá hlær best sem síðast hlær.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 21:48

23 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jón Baldur. Mjög sennilegt að Dabbi hafi rétt fyrir sér í megin atriðum þegar upp er staðið enda einn snjallasti pólitíkus síðustu aldar. Margt sem hann hinsvegar gerði á síðasta kjörtímabili sínu var ekki fyrir minn smekk og er efni í aðra grein. Ég er að sjálfsögðu jafn hreinskilinn við hann og hann hefur verið þjóðina. Þetta er maður sem hefur ekki munninn fyrir ofan nefið heldur fyrir neðan. Allir ættu nú að vita það.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 22:05

24 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hörður nr. 11. Sjá svar mitt hér að ofan.

Örn. Thank you very much for this program

Haraldur nr. 15. Ekki guðmynd.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 22:12

25 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurgeir nr. 16. Nei, held að allir muni eftir því þegar grænfriðungurinn réðist á hvalinn Geir Haarde og kýldi hann í öxlina. Broslegt og brjóstumkennanlegt sjónarspil. Enginn einn þingmaður hefur talað eins mikið um heiðarleika sinn og sannsögli og Steingrímur J. Fólk sem er tvævetur og eldra veit hvað slíkt merkir.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 22:19

26 Smámynd: Sverrir Stormsker

Haraldur nr. 18. Davíð kann að stjórna. Held að enginn efist um það. Jóhanna og Steingrímur kunna að slugsa og draga lappirnar. Held að enginn efist lengur um það.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 22:35

27 Smámynd: Sverrir Stormsker

Óskar nr. 19. Nokkuð borðliggjandi að íslenska þjóðin er ekki sjálfráða. Allavega ekki fjárráða. IMF er t.d. til merkis um það. Efnahagssálfræðingurinn Eva Joly væri ekki hér ef við værum með öllum mjalla. Spurning hvort að "frelsishetjan" Jón Sigurðsson hafi ekki framið landráð með því að koma okkur undan Dönum.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 22:39

28 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurgeir, nr. 21. Hvar sem IMF hefur drepið niður fæti er sviðin jörð. Þetta eru Chicago-einræktaðir "frjálshyggju"öfgatrúarmenn af síðustu og verstu sort.

Ég hef mikið dálæti á frjálshyggju, enda ein mannúðlegasta, skynsamlegasta og réttlátasta stefna ever, hvort sem menn trúa því nú eða ekki eftir allan óhróðurinn undanfarin ár, en þegar menn fara offari og breyta henni í öfgatrúarbrögð þá er náttúrulega fjandinn laus. Þegar stjórnmálastefna verður að trúarbrögðum þá er ekki langt til helvítis. Ætti að segja sig sjálft. Fjandinn er alltaf laus þegar trúarbrögð eru annarsvegar.

Okkur vantar ekki öfgadúdda heldur klára erlenda fyrirtækjastjórnendur (án ættartengsla) til að stjórna þessu 300 þúsund manna dekkjaverkstæði. Einfalt mál.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 23:13

29 Smámynd: Sverrir Stormsker

Óskar, nr. 23. Guðvelkomið að þýða óþverran yfir á sænsku. Mátulegt á þá.

Þú segir að geðlæknirinn þinn fái kvíðaköst í hvert skipti sem þú kemur. Ég myndi þá í þínum sporum reyna að fá´ða sem sjaldnast inná stofunni hjá honum.

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 23:27

30 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurgeir, nr. 28. Minnir að þetta hafi verið í málsháttabókinni minni. Tek því undir með sjálfum mér: "Betra er að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn."

Sverrir Stormsker, 13.6.2009 kl. 23:31

31 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Davíð ? Hver var það nú aftur? Fortíðardraugur sem heilög Jóhanna kvað niður í gröf sína? Líkþrái ráðamaðurinn á Svörtulofum sem enginn vildi snerta með töngum? Svo kom Heilög Jóhanna og sagði 'Tak sæng þína og gakk' en draugsi hló og skrifaði bréf með sinni eitruðu kló: "hó hó hó" svo sprakk hann og dó ælandi ofaní ævisöguklósettið. Þá kom hann Sverrir og rétti fram ormker og sagði 'sjá þetta vill heimska og ruglaða þjóðin mín ekki fá'.

Gísli Ingvarsson, 13.6.2009 kl. 23:50

32 Smámynd: Sverrir Stormsker

Gísli. Alveg svona líka hjartanlega sammála. Maður á alltaf að yrkja á tíunda glasi

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 00:23

33 Smámynd: Jens Guð

  Assgoti sem ég er hrifinn af hárgreiðslu Davíðs á myndinni.  Ég ætla að prenta hana út og láta Torfa Geirmundsson hárskera afgreiða mig með samskonar hárgreiðslu.  Á unglingsárum okkar Davíðs var hann alltaf með Jimi Hendrix útfærsluna en ég með John Lennon útfærslu þeirra ára.  Núna þegar við erum eldri virðulegri menn er þetta málið. 

Jens Guð, 14.6.2009 kl. 01:10

34 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sverrir.

Eitt hundrað prósent correct greining.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.6.2009 kl. 01:18

35 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sverrir:

Takk fyrir frábæran pistil, sem lýsir ástandinu hárrétt.

Ég hjó sérstaklega eftir þessum orðum þínum, sem lýsa mjög vel minni skoðun á Davíð: 

Mjög sennilegt að Dabbi hafi rétt fyrir sér í megin atriðum þegar upp er staðið enda einn snjallasti pólitíkus síðustu aldar. Margt sem hann hinsvegar gerði á síðasta kjörtímabili sínu var ekki fyrir minn smekk og er efni í aðra grein.

Skrifaðu þessa grein endilega sem fyrst!

Ég er sammála þér að það sem við þurfum eru betri og faglegri stjórnmálamenn en við höfum og minni flokkspólitík, þótt líklega komumst við ekki fullkomlega án flokka. Ég er svona maður sem rekst illa í Sjálfstæðisflokknum og það er bæði skemmtilegt og leiðinlegt. Ég hef ekkert á móti því að berjast á fundum, en er orðinn hálfleiður á þessu núna eftir 10 ár.

Ég veit ekki hvort okkur vantar einhverja "erlenda fyrirtækjastjórnendur (án ættartengsla) til að stjórna þessu 300 þúsund manna dekkjaverkstæði, en við þurfum allavega ekki einhverja öfgadúdda  og þeir voru að sumu leyti við stjórn landsins undanfarin 18 ár og eru enn við stjórn landsins.

Það sem er hættulegast við stjórnmálin á Íslandi er hagsmunagæslan sem er í gangi allsstaðar til hægri og vinstri.

Hagsmunagæsla fyrir LÍU, SA, ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagið, Umhverfisverndarsamtök, KÍ, BHM, Bændasamtökin, sveitarfélögin o.s.frv. Hér er aldrei stjórnað með heildarhagsmuni fyrir augum, heldur hagsmuni einhverra samtaka, sem hafa hreðjatak á flokkum - líkt og LÍÚ hefur á Sjálfstæðisflokknum eða ASÍ á Samfylkingunni eða Umhverfisverndarsinnar og Kvenrembuhreyfingar á VG.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 14.6.2009 kl. 07:53

36 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jens. Mér finnst að hárið á Dabba eigi að vera úfið og villt einsog karakterinn. Af þessari mynd að dæma þá er einsog hann hafi farið í strekkingu, þ.e.a.s. látið slétta úr flottum og vígalegum krullunum. Verulega slæmt. Grafalvarlegt mál.

Þó ég sé ekki mikill hárgreiðslumaður (þarf greinilega að fara að rækta hommann í mér) þá finnst mér að Dabbi eigi ekki að greiða niður persónuleikann, ekki frekar en við eigum að greiða niður erlendar skuldir óreiðumanna.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 08:07

37 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Er ekki málið að fá Davíð bara aftur hann stendur allavega við allt sem hann segir og meinar það..

Marteinn Unnar Heiðarsson, 14.6.2009 kl. 08:11

38 Smámynd: Sverrir Stormsker

Guðrún María. Þakka þér.

Lárus. Held líka að hann væri fínn í það djobb. Geir Haarde hafði því miður ekki vit á því á sínum tíma að ráða neinn talsmann eða PR-mann til að útskýra íslenskt efnahagsrugl fyrir Bretum. Kannski of seint um rassinn gripið núna. Treysti allavega núverandi stjórnvöldum til að aðhafast ekkert í þeim málum frekar en öðrum.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 08:41

39 Smámynd: Sverrir Stormsker

Guðbjörn. Það er alveg rétt hjá þér að hagsmunagæslan hér er yfirþyrmandi. Jón Baldvin sagði mér einu sinni (ekki í trúnaði) að hann hefði varla getað stjórnað fjármálaráðuneytinu á sínum tíma fyrir allskyns hagsmunagæslusamtökum og þrýstihópum. Bændamafían var t.d. að gera hann brjálaðan.

Býst við að Davíð hefði aldrei getað setið svona lengi ef hann hefði ekki gert málamiðlanir og tilslakanir við öll þessi hagsmunabandalög og mínímafíur. Það er ekki nóg að fá völd. Það þarf að halda þeim. Af þessum orsökum deyfist allur málflutningur ráðamanna hægt og bítandi og stefnan sem þeir standa fyrir verður ekki svipur hjá sjón þegar upp er staðið. Davíð vildi kaffi með mjólk en þurfti að sætta sig við mjólk með kaffi. Það sama fékk þjóðin auðvitað.

Held nú samt að kallinn hafi reynt hvað hann gat til að hafa þetta drekkandi enda harðákveðinn maður. Hefðu aðrir setið við stjórnvölinn á þessum tíma hefðum við líklegast fengið algjört skólp með borðtuskubragði.

Endurtek samt að síðasta kjörtimabilið var ekki alveg við mitt hæfi. Mjólkin var komin fram yfir síðasta leyfilega söludag og bragðið eftir því. Ég gagnrýndi hann mikið opinberlega á þeim tíma (var með vikulega pistla á Stöð 2) þegar enginn þorði að draga andann af ótta við "einræðisherrann," en það hvarflar ekki að mér að taka þátt í þeim pungsparkaleik sem nú ríkir þegar ljónið hefur lagst undir tré.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 09:20

40 Smámynd: Sverrir Stormsker

Marteinn nr. 42. Það er ekki bara að "fá Davíð aftur" einsog að fara útí búð og ná sér í skyr. Kallinn hefur sjálfstæðan vilja. Allavega síðast þegar ég vissi

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 09:30

41 Smámynd: Óskar Þorkelsson

að mæra Dabba er svipað og að mæra hvaða einræðisherra sem er.. fáir hafa gert þjóðinni eins mikið ógagn og Dabbi.

Óskar Þorkelsson, 14.6.2009 kl. 10:06

42 Smámynd: Vilhjálmur Sveinn Björnsson

Frábær pistill, þetta speglar þjóðarsálin.

Tær snilld

Vilhjálmur Sveinn Björnsson, 14.6.2009 kl. 10:43

43 Smámynd: Sverrir Stormsker

Óskar. Þetta er samanburður á innistæðulausu áliti fólks á Steingrími og hatrinu á Dabba. Ekki "mærð." Svona einskonar þjóðarsálfræði. Skrítið að enginn af þessum 200.000 efnahagssérfræðingum sem við eigum núna skyldu hafa komið fram þegar Dabbi var "einræðisherra."

Vilhjálmur. Thank´s.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 11:13

44 Smámynd: Tollinn

 Sverrir Eg tek undir þetta er frábært yfirlit um stöðu mála þú færð stig fyrir að draga þetta saman á einfaldan hátt.Verð að viðurkenna að ég hef orðið áhyggjur af okkur og hvernig við setjum kíkinn fyrir blinda augað.Munið þið eftir úr Biblíunni þegar múgurinn öskraði "Barrabas"þegar valið stóð um hverjum ætti að veita frelsi? Nú er í lagi að borga Joly stórfé fyrir það sem við krossfestum  Dabba fyrir 

Tollinn, 14.6.2009 kl. 12:06

45 Smámynd: Sverrir Stormsker

Tollinn. Múgurinn hefur alltaf rangt fyrir sér. Nema þegar hann viðurkennir að hann hafi rangt fyrir sér. Þá fyrst hefur hann rétt fyrir sér.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 13:02

46 Smámynd: Haraldur Baldursson

Það væri frábært ef einhver anti-Davíð'istinn gæti bent á hæfari (innlendann) mann eða konu til að leiða hjörðina. Jóhanna er svo sannarlega ekki að gera það og Steingrímur...tja kannski en þá þarf allt að ganga vel, hann verður svo ofboðslega geðstirður þegar á móti blæs. Það vill hins vegar til að við erum í Suð-Austan stormi þessa dagana.

Það skiptir nefnilega máli að fram stígi LEIÐTOGI, ekki í anda Hitlers, heldur í anda góðs þjálfara sem kann að þenja bróstkassa landans. Ef ekki tekst að virkja fólk til verka, hefur þetta engan tilgang og eins gott að skila lyklunum til norska kóngsins.

Haraldur Baldursson, 14.6.2009 kl. 13:22

47 Smámynd: Sverrir Einarsson

Alvöru mafíósar koma sínum mönnum alltaf fyrir í báðum liðum.

Svo sannur pistill að mér lyggur við að æla.

Og nú á að borga Joly morð fé fyrir það sem að Dabbi sagði frá alveg frítt (fyrir utan sminkið í Kastljósinu).

Sverrir fynndu mynd af Ragnari Reykás og Steingrími Joð og berðu saman...munurinn er enginn.

Sverrir Einarsson, 14.6.2009 kl. 13:25

48 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Sverrir nr. 48,

Það voru margir sem komu fram þ.m.t. ég. Ég flutti ekki til landsins vegna þess að ég vissi að davíð væri að sigla skútunni í strand. Nú er ég sjálfur fjárfestir af gamla skólanum. Hægt er að hugsa um hlutina út frá langtímasjónamiði eða skammtímasjónamiði. Það kann vel að vera að davíð sé skmmtilegur og kontant en það breytir ekki því að það voru gerðar mörg mistök í hagstjórninni. Það mörg að það hálfa væri nóg.

Hörður Valdimarsson, 14.6.2009 kl. 14:06

49 Smámynd: DanTh

Sverrir, þetta er líklega ein gáfulegasta og besta úttekt á geðheilsu þjóðarinnar sem hefur verið rituð. Mig grunar jafnvel að sumir þeir sem hér taka undir með þér falli í þann flokk sauðnauta sem kjósa gegn allri skynsemi, þ.e. eru blin..fullir af flokkshollustu í stað þess að hugsa um eigin velferð og almannahag.

DanTh, 14.6.2009 kl. 14:29

50 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Það eru þónokkrir "uppreisnarvíkingar" (ekki útrásarvíkingar) sem hafa haft vita á því að forða sér úr landi eftir að óskir þeirra um nýja ríkisstjórn var uppfyllt. 

T.d., huti forvígismanna eldhúsáhalda-uppreisnarinnar s.s. Eva "NORN" Hauksdóttir galdrakerling og vörubílstjórnn frægi sem bauð sig fram og enginn vildi.  (Batnandi mönnum er best að lifa).

Þá eru bara nokkrir eftir eins og Hörður Hommi Torfason og Sólrún Karlahatari Tómasdóttir sem þurfa endilega að koma sér á braut.

Kolbrún Halldórsdóttir höfundur bleikra og blárra barnafata mætti fara líka, en því miður, þá lifa þeir lengst sem lýðnum eru leiðastir.    

Kveðja, Björn bóndi   

Sigurbjörn Friðriksson, 14.6.2009 kl. 16:52

51 Smámynd: Eygló

Þetta er besta, sannasta og fyndnasta frásögn sem ég hef lesið (reyndar með lélegt minni)

Sú sem hjá mér sat þegar ég las þetta, veit nákvæmlega hvernig jaxlarnir í mér líta út og hvar gervitennurnar eru festar; svoleiðis voru rokurnar. Í eitt skiptið lá við slysi, þegar ég tók bakföll og hentist á stólbak sem var svo ekki svo hart.

Og þetta allt fór fram þótt um grafalvarleg efni væri skrifað.

Þegar einhver vinnur svona vel, langar mig að ættleiða viðkomandi.

Eygló, 14.6.2009 kl. 16:58

52 Smámynd: Sverrir Stormsker

Haraldur, nr. 51. Þjóðin er leiðtogalaus. Ég hélt einusinni að Steingrímur hefði bein í nefinu en nebbinn á honum er því miður ekki beysnari en á Michael Jackson.

Honum virðist gjörsamlega fyrirmunað að standa fast á sannfæringu sinni. Hann er mjög skemmtilegur og sannfærandi sem ræðumaður en hefur í raun enga sannfæringu aðra en þá að komast að kjötkötlunum. Hann er tækifærissinnaðri en Óli Grease og þá er nú mikið sagt.

 

Steingrímur samþykkti t.d. óréttlátt eftirlaunafrumvarp Davíðs á síðasta kjörtímabili hans og hljóp svo til fjalla einsog dauðhræddur héri þegar fjölmiðlar reyndu að ná í hann. Og afhverju samþykkti hann frumvarpið? Jú, vegna þess að hann græddi stórpening á því sem formaður síns flokks.

Formenn allra flokka stórgræddu á þessu frumvarpi. Í dag þykist Steingrímur vera á móti frumvarpinu en gerir auðvitað ekkert til að afnema það því frumvarpið tikkar einsog gjaldmælir í leigubíl. Og honum dettur að sjálfsögðu ekki í hug að skila einni krónu. Hann er jú svo heiðarlegur.

 

Jóhanna er þrjóskari en skrattinn sjálfur, og ekkert svo ólík honum á svipinn. Svona handrukkaratýpa. Hvasseygð með samanbitnar tennur: “Ég drep þig ef þú borgar ekki einsog skot.” Stendur fast á sínu en hún er ekki leader. Of bæld og mikið inní sér þrátt fyrir boxaralegt lúkkið. Hefur ekki þetta karisma. Mætti brosa á ca mánaðarfresti.

Allt voðalega mikið leyndó hjá henni einsog í gömlu Sovétríkjunum. Of mikill pukrari. Hlýtur að sofa undir sófa með skammbyssu við hliðina á sér, með samanherptar varir og frostrósir í andlitinu. Vinnur einsog James Bond, nema hvað James kallinn skilaði árangri og gaf ekki loforð nema að það væri innistæða fyrir þeim.

 

Hvað sem segja má um Davíð þá var hann og er one of a kind. Skarpur, eldfljótur að hugsa og átta sig á stöðu mála, ákvarðannaskjótur, frjór, drepfyndinn, frumlegur, brútal, opinn, orðheldinn, orðheppinn, ákveðinn, hreinskilinn, frekur og kjarkaður. Er í rauninni með allt sem þarf í frábæran leader.

Fór hinsvegar að mínu mati fram úr sér á síðasta kjörtímabilinu, samanber eftirlaunafrumvarpið og fleira. Slíkt gerist með alla sem sitja of lengi á andlitinu á þjóð sinni. Gleyma sér. Mannlegt. Þeir fá rasssæri og þjóðinni verður soldið flökurt og á erfitt um andardrátt. Sama hversu botninn er flottur.

En það eru ekki margir sem standast honum snúning í rökræðum og það er vegna þess að hann er ljónklár og kann öll trikkin í bókinni. Líka þessi dirty.

 

Í dag er þjóðin leiðtogalaus og verður það líklegast næstu árin eða áratugina. Sumir segja eflaust: “Guði sé lof.” Ekki ég.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 18:47

53 Smámynd: Sverrir Stormsker

Nafni, nr. 52.  Veit ekki hvort Steingrímur J. og Ragnar Reykás séu svo líkir í útliti en þeir hugsa á mjög svipuðum nótum, svona eftir því hvernig vindurinn blæs. Steingrímur er örlítið hærri. Í vextinum. Ekki í anda. Þegar mér verður hugsað til Steingríms, sem ég efast ekki hætishót um að sé hinn vænsti gæi svona prívat, þá fæ ég af einhverjum ástæðum alltaf mynd af Marteini Mosdal og Georgi Bjarnfreðarsyni uppí hugann. Hvernig skyldi nú standa á því?

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 18:55

54 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hörður, nr. 53. Það er víst alveg öruggt að það voru gerð mistök í hagstjórninni í tíð Davíðs. Sérstaklega á síðasta kjörtímabili hans. Hvernig t.d. var staðið að "einkavæðingu" bankanna. "Einkabankar" í ábyrgð almennings! Sögulegt.

Ef menn gera mikið þá er alveg sjálfgefið að mistökin verða mörg. Ég ætti kannski að birta hér á blogginu eitthvað af þeim greinum sem ég skrifaði á þessum tíma um það sem mér þótti miður fara í stjórnartíð hans þegar allir héldu niðrí sér andanum af kanínulegum ótta við “einræðisherrann.”

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 19:06

55 Smámynd: Sverrir Stormsker

DanTh., nr. 54. Held að við Íslendingar séum sjálfum okkur verstir. Við getum reynt að búa til ímyndaðan óvin úr Bretum en okkar höfuð óvinur er höfuðið á okkur. Ég þekki þess engin dæmi erlendis frá hvað einfaldir hlutir eru lengi að síast inní kvarnirnar á einni þjóð.

Það verður að segjast einsog er að þessi blessaða þjóð er alveg hreint ótrúlega lengi að sjá í gegnum hlutina og kveikja á tiltölulega einföldum hlutum. Er jafn lengi að kveikja og hún er snögg að misskilja og rangtúlka og æsa sig uppí rjáfur. Í gamla daga var þetta kallað að vera “á eftir,” en það er annað og fínna orð yfir það að vera hálfviti. Semsagt vangefinn. Þessi orð mín verða án nokkurs vafa túlkuð sem hroki en ekki raunsæi.    

 

Fyrir kosningar virðast flestir gleyma sér í einhverskonar smáborgaralegu sportistabrjálæði; “Mitt lið skal vinna!” Þetta er svolítið alkahólserað alltsaman. Sportkráarandi og vínandi sem svífur yfir íslenskri þjóðarsál. Skál fyrir því. Ég skrifaði grein um hópsálina, múgmennið, hjarðflónið, fyrir margt löngu. Löngu fyrir hrun. Greinin heitir "Best er að vera einn í biðröð" og hana má sjá HÉR. Held það sé ekki svo óholl lesning í dag.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 19:21

56 Smámynd: Sverrir Stormsker

Björn bóndi, nr. 55. Ég vissi að Eva hefði yfirgefið samkvæmið en er Sturla virkilega farinn líka? Hann hefur varla farið langt á trukknum. Er örugglega bensínlaus í Hvalfjarðargöngunum. Hefur ætlað að taka rusladallinn til Færeyja og hefja þar nýtt líf sem útkastari á tíunda klassa trukkalessuhjalli í Þórshöfn. Borgar sig ekki. Kallinn verður kominn í Breiðholtið aftur eftir mánuð.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 19:35

57 Smámynd: Sverrir Stormsker

Maíja. Þú verður að passa á þér tennurnar þegar þú hlærð. Þær gætu hrokkið oní þig. Og þá er frekar erfitt að bursta þær nema þá að fara innum annað op en munninn.

Þér er alveg guðvelkomið að ættleiða mig og afleiða mig og arfleiða mig. Ekki málið. Þú ert ekki sú fyrsta og ekki sú síðasta. Hef ekki tölu á öllum mínum mömmum. Er að verða vellauðugur á þessu ætlleiðingarmambói. Við eitthvað verður maður jú að vinna í kreppunni.

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 19:47

58 Smámynd: Eygló

Gott að vita þetta sonur sæll

Eygló, 14.6.2009 kl. 22:54

59 Smámynd: Sverrir Stormsker

Takk mamma númer 78 í röðinni

Sverrir Stormsker, 14.6.2009 kl. 23:04

60 Smámynd: Eygló

Hefði dáið ef það hefði verið 69.

Eygló, 14.6.2009 kl. 23:07

61 Smámynd: Hundur í manni...

Þetta er alveg rétt hjá þér Sverrir.

En ég mun aldrei viðurkenna það.

The Dog.

Hundur í manni..., 15.6.2009 kl. 04:39

62 Smámynd: Sverrir Stormsker

Maíja. 69 er nú ekki svo slæm stell.....tala.

Maður í hundi. Það er heldur ekkert nauðsynlegt. Nóg að vita af því. Læra.

Sverrir Stormsker, 15.6.2009 kl. 05:20

63 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Skemmtileg grein Sverrir. Ég ætla að samt að leifa mér að gera athugasemd við þenna málflutning þinn

Það er flókið að stýra þjóðarskútunni til hagsældar og það er því miður, mikið af fólki í pólitík sem ræður ill við það, jafnvel þó það reyni alla æfi að skilja tæknina við það þá skortir það greind til þess. Það er líka fullt starf fyrir meðalgreindan íslending að fylgjast nægilega vel með í pólitík til að vera dómbær á gerðir pólitíkusa í samtímanum. Það segir sig því sjálft að aðeins brot kjörgengra mann getur í raun hafta yfirvegaða og málefnalega skoðun á pólitík samtímans. Þar sem kjörsókn á íslandi er yfir 80% gefur auga leið að allur obbi kjósenda er, og verður raunar að kjósa út frá tilfinningu en ekki vitrænu mati. Það eru því áróðursvélar flokkana og stóru fyrirtækjanna sem ráða úrslitum kosninganna en ekki tæknilega málefni. Ég lít því svo á að þetta sé röng greining hjá þér Sverrir, kjósendur eru ekki asnar, heldur fórnarlömb sem gera það sem þeir telja vera rétt á hverjum tíma. Mikilvægasta mál þessara ríkistjórnar ætti að vera að koma eignarhaldi á fjölmiðlum í heilbrigðan farveg svo fréttaflutningur í landinu fari að nálgast aftur það sem raunverulega er að gerast í stað þess að vera áróðursmaskínur peningavaldsins.

Guðmundur Jónsson, 15.6.2009 kl. 09:43

64 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Guðmundur,

Ég held að flestir geti verið dómbærir á gerðir pólitíkusa. Það þarf einungis að  breyta þessari "mér er alveg sama" stefnu sem hefur verið svo ríkjandi á vesturlöndum og stafar af því að við höfum haft það of gott. Flestum er alveg sama um allt og hugsa ekkert út í það hvernig það getur haldið þessum lífsstíl sínum. Þetta fólk hefur það bara gott og þá er allt í lagi. Svo fer allt til andskotans og þá eru allt í einu allir orðnir sérfræðingar en þá er það einfaldlega of seint. Svo verður allt gott aftur og menn geta aftur tekið upp "mér er alveg sama" stefnuna.

Hörður Valdimarsson, 15.6.2009 kl. 10:20

65 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Oft ratast kjöftugum... nei þetta er bara alveg nákvæm lýsing á skringilegheitunum. Þetta land er orðið alger Bakki og ekkert nema bræður hér yfir og allt um kring.

Ég hef verið að bíða með innflutningspartýið þar til þú kæmir.. heldurðu að ég nái að halda það fyrir næstu snjóa? xx

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 15.6.2009 kl. 14:09

66 Smámynd: Tóti Sigfriðs

Sverrir

Ef ég notaði höfuðfat mundi ég taka ofan fyrir þér, þvílík snilldargreining.

Þetta er svo sannarlega hárétt lýsing á málunum hér á landi.

Það væri óskandi að kerlingarræsknið og vindhaninn læsu þetta og létu sig hverfa, en það verður víst ekki fyrr en þau hafa komið landinu endanlega fyrir kattarnef.

Enn og aftur, þetta er snilld!!

Tóti Sigfriðs, 15.6.2009 kl. 23:15

67 Smámynd: Fríða Eyland

Já, mar hefur lesið meiri þvælu en þessa herra rokrass. Verð að vera samála H.G.E, finnst samt að grafa mætti dýpra verð að láta það flakka...

Útlagakveðja

Fríða Eyland, 16.6.2009 kl. 10:11

68 Smámynd: Alfreð K

Ég veit ekki hvort það er einhver samlíking en ég vildi benda á að ekki var heldur sérlega vel komið fram við þjóðfrelsishetjuna Jón Sigurðsson á sínum tíma (af hans eigin löndum).

Alfreð K, 16.6.2009 kl. 10:36

69 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ekki ertu að líkja DO við JS Alfreð ?

Óskar Þorkelsson, 16.6.2009 kl. 16:26

70 Smámynd: Offari

Skemmtilegur samanburður á tvem sterkum leiðtogum. Vandamálið í þessum heimi er að hinn fullkomni maður hefur enn ekki verið fundinn upp. Davíð var gerður að sökudólgi þótt ég telji hann ekkert til saka hafa unnið. Égt tel Steingrím hafa vilja til að gera eitthvað til úrbóta en viljinn einn dugar bara ekkert meðan hann er í stjórn með Esbflokknum.

Offari, 16.6.2009 kl. 21:22

71 Smámynd: Sverrir Stormsker

Guðmundur, nr. 68. Get ekki verið fullkomlega sammála því sem þú segir að það séu "áróðsvélar flokkanna og stóru fyrirtækjanna sem ráða úrslitum kosninganna..."

Ástþór Magnússon eyddi t.d. á sínum tíma um 50 milljónum í kosningabaráttu sína og fékk 2%. Fólk er að miklu leiti með fyrirfram mótaðar skoðanir og stendur með sínum flokki hvað sem tautar og raular, rétt einsog um íþróttafélag sé að ræða.

Þú segir: "Mikilvægasta mál þessara ríkistjórnar ætti að vera að koma eignarhaldi á fjölmiðlum í heilbrigðan farveg svo fréttaflutningur í landinu fari að nálgast aftur það sem raunverulega er að gerast í stað þess að vera áróðursmaskínur peningavaldsins."

Ég get verið sammála því að þetta sé mikilvægt mál enda kem ég inná það í þessum pistli. Davíð setti fram fjölmiðlafrumvarp á sínum tíma, ekki fullkomið en samt skref í rétta átt, en fólk vildi ekki sjá þetta frumvarp vegna þess að það var Davíð sem setti það fram. Ef Jói á hjólinu hefði lagt það fram en ekki Davíð þá hefði það flogið í gegn. Fólk trúði og treysti Baugi. Fólk velur alltaf Barrabas. Dómgreindin er því miður í frostmarki og við verðum bara að feisa það. Fólk skilur eftirá. Stundum.

Þú segir: "Ég lít því svo á að þetta sé röng greining hjá þér Sverrir, kjósendur eru ekki asnar, heldur fórnarlömb sem gera það sem þeir telja vera rétt á hverjum tíma."

Þarna get ég enganveginn verið sammála þér. Kjósendur sem sjá ekki í gegnum áróðursvefinn og láta teyma sig á eyrunum eru ekkert annað en asnar. Ef þeir eru fórnarlamb einhvers þa eru þeir fórnarlömb eigin heimsku og vanafestu. Íslendingar skilja t.d. ekki ennþá Vilmund Gylfason og hans hugmyndafræði. Þeir vill sama gamla tóbakið í pípuna sína. Sitt gamla "góða" íþróttafélag sem tapar hverjum leiknum á fætur öðrum og teymir þá til helvítis.

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 22:12

72 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hörður. Rétt. Íslendingar eru miklir eftiráspekingar og það er vegna þess að flestir eru ekki ýkja gagnrýnir í hugsun frá náttúrunnar hendi. Einsog ég hef sagt þá áttum við nánast engan hagfræðing fyrir hrun en núna eigum við um 200.000 efnahagssnillinga á heimsmælikvarða.

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 22:29

73 Smámynd: Sverrir Stormsker

Helga Guðrún. Við erum Bakkahræður. Hef samband í vikunni. Don´t worry - be bankrupt

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 22:35

74 Smámynd: Sverrir Stormsker

Tóti, nr. 71, ég myndi ekki gráta það hástöfum ef þau skötuhjú myndu taka hatt sinn og betlistaf og fara á sín himinháu eftirlaun.

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 22:44

75 Smámynd: Sverrir Stormsker

Fríða nr. 72. Ef þér finnst að það mætti grafa dýpra þá verðurðu víst bara að gera betur og grafa dýpra. Ekki vandamálið. Feginn verð ég.

Alfreð, nr. 73. Það var ekki heldur hlustað á Vilmund Gylfa. Sumar 30 ræður þess ágæta manns eru svo ferskar að það er einsog þær hafi verið samdar í gær. Og það er vegna þess að var ekki hlustað á hann og þjóðin hefur ekkert lært.

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 22:53

76 Smámynd: Sverrir Stormsker

Óskar nr. 74. Kannski væri bara einfaldast að hengja Dabba uppá kjötkrók svo allir geti tekið gleði sína á ný.

Offari. Steingrímur og allt þetta lið það vill náttúrulega vel. Ég efast ekki um að þeir séu allir af vilja gerðir til að laga ástandið, en þeir eru allsekki allir af hæfni gerðir. Það er alveg borðliggjandi. Einar Ben sagði á sínum tíma: "Vilji er allt sem þarf." Það er til lítils að hafa viljann ef getan er engin.

Sverrir Stormsker, 16.6.2009 kl. 23:02

77 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Einmitt, við kunnum ekki frekar að fara með lýðræði en Grænlendingar með áfengi.  Sambandsslitin við Dani voru mistök.

Andri Geir Arinbjarnarson, 17.6.2009 kl. 06:08

78 Smámynd: Haraldur Baldursson

Eymdarvein og aumingjavél einkennir alltof marga. Við eigum enn inni eitt stórt tromp í erminni, sem er olían á Drekanum og enn norðar.... En ef við fengjum bara 1% af áætlaðri (bjartsýnustu) spá um magn, ættum við inni 17.000 milljarða...upphæð sem gæti dekkað allar skuldir ríkisins, sveitafélaganna, fyrirtækjanna, heimilana og sjónvarpsstöðvanna. Við gætum einfaldlega skipt á þessum skuldum gegn 99 ára leigu á svæðinu (nánanr hér).

Hættum svo þessu væli og þvargi um isma og imbur. Setjum fært fólk til forystu...ráðum Dabba í 4 ár í tiltektarvinnu.

Haraldur Baldursson, 17.6.2009 kl. 11:20

79 Smámynd: Sverrir Stormsker

Andri. Það er nú heila málið. Þessvegna hef ég nú oft spurt mig í gamni og alvöru hvort Jón Sigurðsson hafi verið "frelsishetja" eða "landráðamaður."

Það er ekki bara afmæli lýðveldisins sem við höldum uppá dag heldur erum við líka að hylla afmælisbarnið Nonna Sig sem "illu heilli" kom okkur undan Dönum. Spurning hvort hann eigi ekki frekar heima á stalli með útrásarvíkingunum en þessum virðulega stalli á Austurvelli?

Við getum allavega alveg eins haft þarna styttu af Bjarti í Brunarústum einsog Jóni Sigurðssyni. Bjartur í Brunarústum er þjóðarsálin sjálf.

Sverrir Stormsker, 17.6.2009 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband