Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
13.12.2007 | 12:49
Saga um ástir og örlög
Í húsasundi mættumst við að morgni,
það magnþrungin var ást við þriðju sýn.
Ég kunni enga karlmannlegri siði
en kyssa þig og horfa í augu þín.
Ísinn brast í okkar litlu hjörtum,
ástarblómin rótum skutu í þeim.
Við fundum strax að fengjum við að njótast
þá fjandinn mætti eiga þennan heim.
Sem í draumi dagar bjartir liðu,
við drukkum lífið einsog kampavín,
ólmuðumst og okkur veltum látlaust
uppúr sælustundum líkt og svín.
Allt ég man úr árbók minninganna.
Við ótal sinnum gengum niðrað tjörn
og hugsuðum um hamingjuna okkar
og hvort við skyldum reyna að eignast börn.
Allt var dásemd, dýrðlegt ævintýri,
hver dagur sem við lifðum, satt er það,
en þó bar við að beiskir böðlar reyndu
að breyta okkar kærleikslind í svað.
Já til var mannfólk öfundsjúkt sem sagði
að samband okkar færi í hund og kött
og væri helber öfuguggaháttur
og alveg gjörsamlega útí hött.
Ég trúði þessum mönnum mátulega,
já mikið var ég efins fyrst um sinn.
En þessi orð með hörmulegum hætti
hljóta að hafa greypst í huga þinn,
því stuttu síðar komstu til að kveðja,
eitt kyrrlátt kvöld um miðjan september,
og tjáðir mér með orðum augna þinna
að þú vildir hverfa burt frá mér.
Og síðan hefur sál mín spurul leitað
að svörum um hin döpru endalok.
Aldrei mun ég elska nokkuð framar.
Af öllu hef ég fengið uppí kok.
Ég hugsa um þig alla daga og nætur
og oft ég reika um kynlegt húsasund
miður mín og hræðilega hryggur.
Ég held ég verði að fá mér annan hund.
(Gerði þetta átakanlega ástarkvæði um tvítugt. Birtist í ljóðabók minni Vizkustykki, 1991)
Bloggar | Breytt 14.12.2007 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.12.2007 | 06:30
GJALDMIÐLAR OG AÐRIR SVIKAHRAPPAR
Sýnir, vitranir, draumar, tarrotspil, kristalskúlukellingar, fylgjur, draugar, kaffibollaspámenni, stjörnuspámenni, happagripir, heilun, álfar, tröll, guð, djöfullinn, teskeiðabeygingar, skurðgoð, andalækningar, huldufólk, reiki, orkusteinar, fljúgandi furðuhlutir, talnaspeki, útfrymi, lófalestrarhryssur, miðlar.
Allt eru þetta fyrirbrigði sem trúgirnin þarfnast og gleypir ótuggin í öll mál, fyrirbrigði sem standa afskaplega djúpum rótum í vitsmunalífi heimsins, en þó sérílagi íslensku þjóðarinnar. Reyndar eiga mörg þessara fyrirbrigða það sameiginlegt með vitsmunalífi þjóðarinnar að tilvist þeirra er ekki sönnuð, en það er annað mál.
Töfrasnillingurinn mesti, Harry Houdini, vann fyrir sér á fyrstu árum sínum í galdrabransanum með því að bregða sér í gervi alvöru miðils og setti upp miðilsfundi út um kvappinn og kvippinn og blekkti auðtrúa skrílinn gjörsamlega uppúr bomsunum. Fyrir utan að vera þessi líka svakalega flinki blekkingarmeistari, þ.e.a.s. miðill, þá hafði hann einn kost sem afar sjaldgjæft er að finna hjá dæmigerðum miðlum: Hann var heiðarlegur - strangheiðarlegur blekkingameistari, og því hætti hann fljótlega þessum óleik. Hann sagði seinna: Fólkið var svo brjóstumkennanlegt og svo hrekklaust. Orðsendingar okkar að handan veittu þeim huggun, en það var ósönn huggun, ef það var þá ekki verra. Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Nú myndu margir vitna í Stormsker og segja:
Þegar vesælt viskumegn
veldur sálarfúa
þá er huggun harmi gegn
að hafa á nóg að trúa.
En Houdini var ekki sammála svona steypu. Svo fór að hann fékk alveg uppí kok af þessari glæpsamlegu draugastarfsemi sinni og sneri algerlega við blaðinu. Hann fór á miðlaveiðar. Þessi mesti töframaður allra tíma gerði það að heilagri skyldu sinni að afhjúpa bestu og frægustu miðla samtíðar sinnar, semsé að koma prettvísinni í hendur réttvísinnar. Og hann fór létt með það. Hann kunni jú öll trikkin í bókinni. Flestir þessara afhjúpuðu roðflettu miðla lentu í grjótinu. Houdini varð aðal ghostbuster heimsins; hann kvað niður þessa bölvuðu drauga sem kölluðu sig miðla, ekki bara tíu eða tuttugu, heldur fleiri hundruð, reyndar hvern og einn einasta sem hann komst í tæri við.
Eftir nokkurra ára rannsóknir á dulspekilegum drullusokkum varð hann orðinn svo sannfærður um að ekki finndist EINN ekta miðill á jarðarkringlunni að hann lét þau boð út ganga að hann skildi gefa gríðarlegar fjárhæðir hverjum þeim miðli sem sannað gæti að væri gæddur dulrænum gáfum og lofaði því að hann myndi leika eftir mun betur öll þau fyrirbrigði sem talin væru af andavöldum. Miðlar, sem hafa nú aldrei slegið höndinni á móti auðfengnu fé, streymdu að úr öllum heimshornum til að vinna pottinn, mættu á svæðið með alla sína blístrandi slæðudrauga og óþolandi útfrymi í farteskinu og bjuggu til hressilegan draugang með tilheyrandi húsgagnaskjálfta og röddum að handan og öllu því leiðinda nonsensi. Auðvitað fletti Houdini ofan af öllum þessum hræbillegu andaheimasvikahröppum og berstrípaði þá gjörsamlega og aldrei gekk potturinn út.
Ekki fannst EINN heiðarlegur og sannur miðill í veröldinni.
(Þess má geta að Lára miðill, sem var einn vinsælasti íslenski miðill síðustu aldar, var afhjúpuð sem svikahrappur og játaði hún brot sitt. Þrátt fyrir það flykktist fólk áfram til hennar í hrönnum opinmynnt af undrun, trúgirni og heimsku).
Eftir þessa krossferð Houdinis hurfu draugagangsmiðlar og aðrir útfrymisasnar að mestu af sjónarsviðinu, semsé þessir fjölhæfu töfrabragðamiðlar, eða fjölmiðlar, einsog ég kalla þá. En þarsem miðlastarfsemin gefur vel í aðra hönd, enda um nótulaus viðskipti að ræða, þá hurfu náttúrulega ekki miðlarnir. Þessir gjaldmiðlar breyttu bara um taktík; hættu að nenna að falla í trans og tala tungum og andarnir hættu að nenna að búa til skarkala og færa hluti úr stað á fundum o.s.fr. Ef við vippum okkur yfir til dagsins í dag þá má t.d. finna þessa gæa á útvarpsstöðvum og kallast þeir þá talnaspekingar og útvarpsmiðlar og tala þá fáránlegustu íslensku sem heyrst hefur utan sandkassa. Orðanotkun þessara vafasömu gúrúa ein og sér er næg ástæða til að senda þá rakleitt beint á næsta sambýli. Hér eru dæmi úr nokkrum þáttum:
Er þér illt í öllum tilfinningunum þínum?
Hefurðu orðið fyrir árekstri nýlega?
Hefurðu verið að fást við höfuðverk uppá síðkastið eða í gær?
Streymir venjan um þig að innanverðu?
Mér langar að tengja þig við móðir þína, en samt vill ég frekar tala um faðir þinn, er hann annars ekki alveg örugglega farinn?
Bar hann afi þinn ekki brjóst ömmu þinnar fyrir hagi?
Svona heimspeki, eða heimskuspeki, dýrkar fólk. Það elskar þetta. En takiði eftir því að þessi della, sem ég var að vitna í, er öll í spurningaformi? Blekkingarleikur miðilsins byggist nefnilega á spurningum, að fiska uppúr fólki. Sjálfur segir hann raunverulega ekki neitt heldur hagræðir bulli sínu algerlega eftir viðbrögðum og upplýsingum hins táldregna innhringjara og aðlagar vitleysuna að því sem hann nær að draga uppúr honum. Ef miðillinn röflar einhverja steypu og hittir ekki í mark þá er viðkvæðið alltaf þetta: Mundu þetta. Með þessu móti getur hann alltaf þóst hafa rétt fyrir sér þó hann viti ekkert í sinn haus, og þegar hann kemst ekkert áfram með viðmælanda og nær ekki að toga neitt uppúr honum þá fer hann að tala um neikvæða orku og sambandsleysi; við skulum prófa annan hlustanda.
Eða heldur einhver óbrjálaður maður að útvarpsmiðill gæti nokkurntíma hitt naglann á höfuðið um nokkurn skapaðan hlut ef hann fengi ekki fyrst að heyra í ginningarfíflinu, aldursgreina það og kyngreina það o.s.fr? Að sjálfsögðu ekki. Ef einhver hringdi nú inn og segði ekki orð heldur biði bara eftir fréttum að handan, (og það ætti nú að koma út á eitt ef útvarpsmiðillinn væri ekta), þá yrði miðillinn einnig kjaftstopp. Hann myndi ekki vita hvort kall eða kelling væri á línunni og hvað manneskjan væri gömul og hann færi jafnvel að spyrja ungling hvort hann væri kominn á eftirlaun, eða spyrja einhvern níræðan afa hvort hann væri að æfa ballet og hvort hann væri óléttur, og allt feikið færi í eina allsherjar steik, og ef hann fengi ekkert svar og héldi áfram að láta móðann mása án uppdreginna upplýsinga úr viðmælandanum þá væri hann kominn lengst út á tún innan nokkurra mínútna, jafnvel yfir Esjuna og til tunglsins og marga hringi þar í kring í óendanlegri vitleysu, og hann hefði alveg örugglega ekki kjark til að spyrja í lokin: Ertu sáttur við mig?
Miðill segir einfaldlega aldrei neitt að fyrra bragði, hann endursegir, vinnur úr upplýsingum. Slæmur miðill hefur engan úrvinnslunarhæfileika, enga mannþekkingu, lætur mikilsverð smáatriði fara framhjá sér, er andlegur þykkskinnungur og getur í raun ekki miðlað neinu nema eigin heimsku. Þannig er ástatt um flesta miðla. Góður miðill hinsvegar hlustar eftir fínustu blæbrigðum í röddum fólks, hefur góða ályktunargáfu, næma athygligáfu, er fljótur að kveikja, fljótur að tengja, er naskur í að vinna heildarmynd úr uppgefnum smáatriðum, hefur ríkulegt sálfræðilegt innsæi; veit semsé út á hvað blekkingin gengur.
Ginningarfíflið, þ.e.a.s. innhringjarinn er nær undantekningalaust allur af vilja gerður til að hjálpa miðlinum; er jákvæður og opinn og lætur honum í té allar þær upplýsingar sem hvaða meðalskussi sem er í blekkingarfræðunum ætti að geta unnið úr en samt nær miðillinn undarlega oft að klúðra þessu. Einsog það getur nú verið mikil unun að fylgjast með klárum og vönduðum svikamiðlum að störfum þá er að sama skapi alveg ferlega pínlegt að fylgjast með klunnum og leppalúðum sem kunna ekki trixin og láta endalaust koma sér í bobba.
Í andaheimum miðlanna rekst allt hvert á annars horn. Þeir geta sagst vera komnir í samband við einhverja draugakellingu og haft eftir henni allskonar draumfagrar setningar, algerlega orðrétt, um hvað henni líði nú vel og hvað allt sé nú með miklum blóma í himnaríki og að hún sé umvafin sóleyjum og englasöng og að hún sé hætt að finna til í mjöðminni og að hún hafi ekki myrt einn einasta mann síðan hún kom í ríki drottins o.s.fr., en þegar kemur að því að hún eigi að kreista útúr sér eigið nafn og hvort hún sé amma eða frænka eða langamma viðkomandi ginningarfífls þá virðist hún fara að tafsa alveg gríðarlega og heita annaðhvort Sigríður, Sigrún, Sigurrós, Sigurlína, Sigurvíma, Sig-eitthvað, og svo þarf að fara að fiska uppúr ættmennisginningarasnanum á símalínunni hvað hún heiti og hvort um sé að ræða ömmu hans, langömmu, fóstru gömlu, frænku eða eitthvað þaðan af verra. Alltaf þegar kemur að einföldum grundvallaratriðum viðkomandi draugnum, svosem nafni hans, starfi í lifanda lífi og ættartengslum við símafíflið þá verður allt voðalega loðið og sambandið við andaheiminn mjög slæmt. Ekki einn einasti útvarpsmiðill á jarðarkringlunni getur sagt skýrt og skorinort við innhringjara eitthvað á þessa leið, og haft rétt fyrir sér:
Ég nenni ekki að þykjast þurfa að tengja þig við einhverja manneskju eða tengja þig hingað og þangað. Það er einfaldlega komin hérna geysi hugguleg afturganga og hún segist vera langamma þín og heita Þórkatla Tíbrá Kristjánsdóttir, fyrrum til heimilis að Rassgötu 6 á Höfn í Hornyfirði, og engar refjar með það neitt. Ég þarf ekkert að veiða uppúr þér með lúmskum spurningum við hvað hún starfaði því hún er að segja mér að hún hafi unnið fyrir sér sem vörubílstjóri og skipamella. Hún hafi haft vel í sig og á, segir hún, þrátt fyrir mikinn starfsleiða, því hún hafi í raun verið í skápnum sem trukkalessa bróðurpart lífs síns, allt þar til hún tók í lappirnar á syni sínum, sem þá var um fimmtugt, og barði bónda sinn í hel með honum. Þá hafi hún komið útúr skápnum og byrjað með dvergvaxinni tattúveraðri netagerðarlessu. Þetta stemmir allt er það ekki? Ertu sáttur við mig? Gott. Takk takk takk.
Nei svona vafningalausar upplýsingar hvað varðar (óalgeng) nöfn og staðsetningar og slíkt getur enginn miðill veitt, því þegar kemur að beinhörðum staðreyndum að fyrra bragði þá fer sambandið að dofna og miðillinn að heyra gasalega illa, en eftir að hann hefur dregið einhverja vofu úr innhringjaranum með spurningaflóði þá getur hann hinsvegar haft orðrétt eftir henni ýmis nauðaómerkileg almenn skilaboð, t.d. að sér líði alveg gasalega vel og allt sé í gúdí fíling og að hún hafi ekkert merkilegra við tímann að gera í himnaríki en að fylgjast grannt með sinni jarðnesku famelíu og hún segi að barnabarn sitt þurfi að hætta að greiða svona mikið á sér hárið og snúast svona mikið í kringum sjálft sig og bla bla bla og bull bull bull. Þetta er hreint út sagt grátlega vitlaust.
Skilaboðin að handan eru að sjálfsögðu aldrei merkilegri en miðillinn. Þó hann segist þurfa að tengja innhringjarann við þetta og hitt, tengja hann við hina og þessa persónu, tengja hann útá land og tengja og tengja þessi líka reiðinnar býsn; tengja framhjá og tengja allt við alla og tengja alla við hitt og þetta út og suður einsog ofvirkur rafvirki, þá tengir hann aldrei eitt eða neitt. Hann bara tengir ekki. Það vantar einfaldlega alla tengingu í hann. Hann fær bara straum, - en alltaf að vísu voðalega jákvæðan straum. Jafnvel þó hann sé allur skaðbrenndur og flæktur í snúrunum þá er allt alveg obboslega jákvætt og gott. En afhverju tengja hlustendur ekki? Er virkilega ekki kominn tími til að tengja?
Svona gæti dæmigert samtal verið milli útvarpsmiðils og miðlatrúmanns:
- Trúirðu á svona?
- Já, ég hlusta alltaf á þig.
- Ég líka. En hver er Guðmundur? Farinn.
- Jaaaa....nú veit ég ekki...Hm...Nei veistu, ég þekki bara hreinlega engan með þessu nafni þótt ótrúlegt megi virðast. Þú verður bara að fyrirge...
- Það kemur strax hérna vestfjarðarbær, einhver þoka, vestfirðir, eitthvað fyrir vestan. Hvern þekkirðu fyrir vestan sem er farinn? Ekki jarðneskur.
- Ég þekki nú bara engan fyrir vestan.
- Jú víst.
- Neiiii, ég kannast ekki við...
- Jú, jújú, hár maður, hár eftir vexti, stór miðað við stærð. Ég þarf að tengja þig þarna á vestfirðina, vestfjarðarkjálkann, og ég þarf að tengja við tenginguna þarna fyrir vestan. Skilurðu Þetta?
- Nei, allt mitt fólk býr í Texas.
- Takk. Texas er fyrir vestan. Kannski ekki alveg á vestfjörðum en þú skilur hvað ég á við...Veistu, það er voðalega gott að tala við þig. Þú hefur svo mikið og jákvætt orkustreymi í tilfinningunum þínum. En segðu mér...segðu mér...segðu mér með þetta Texas. Er einhver hár maður þar? Grannur? Í köflóttri skyrtu?
- Já, en ekki í köflóttri skyrtu.
- Í hverju var hann þá?
- Hann var í fangelsi.
- Takk takk takk takk. Það er allt voðalega jákvætt og gott í kringum hann og honum líður voðalega vel. Nú brosir hann.
- Já en hann er ennþá lifandi. Hann fer í rafmagnsstólinn í næstu viku.
- (Þögn) ...Gott. Þá er hann nú svo gott sem dauður. En hver er Gunna? Guðrún, Gunnhildur, Guðríður eða Guð-eitthvað, Guðminn almáttugur, hárið á henni er gráhært og það er eitthvað að henni í hnénu. Hún er með svona hné. Ég þarf að tengja tengja tengja tengja þig alveg gríðarlega mikið við hnéð á henni. Það er svona einsog hún sé svona með eitthvað í hnénu, liðamót eða eitthvað. Það þarf að kíkja eitthvað á það.
- Ja afi haltraði soldið og hann hét einmitt Gunnlaugur.
- Takk takk. Konan hans kallaði hann einmitt Gunnu eftir að hún hafði séð hann að neðan. Hann biður voðalega vel að heilsa. Sendir dúndur stuðkveðjur til allra sem voru með honum á Bindindismótinu í Galtarlæk 1957.
- Jájá.
- Segðu mér, dóu afi þinn og amma ekki barnlaus? Áttu þau einhver börn?
- Jú, veistu, ég held að þau hafi átt einhver börn.
- Nei. Nei, þau áttu engin börn. Mundu bara hvað ég sagði. Ertu sátt við mig?
- Já, alveg obboslega.
- Það er gott, guð veri með þér vina mín. Og láttu þér líða vel í tilfinningunum þínum. Og hugsaðu meira um sjálfan þig. Þú getur ekki elskað aðra ef þú getur ekki elskast með sjálfri þér og þú getur ekki elskað aðra en sjálfa þig ef þú skilur hvað ég er að fara. Get aldrei munað þennan frasa. En mundu: Hugsaðu um sjálfa þig. (Hugsar sjálfur: Það geri ÉG. Annars væri ég ekki að vinna við að blóðmjólka trúgjarna vanvita og hræra í tilfinningum syrgjenda og gefa læknisfræðileg ráð og beygja hegningarlög um fjársvik).
- Ertu sátt við mig?
- Já, alveg gríðarlega sátt.
- "Guð veri með þér."
Ég spyr: Hver getur verið sáttur við svona píp? Hverskonar fólk trúir á svona rugl? Hverskonar draugar eru það eiginlega sem trúa á miðla? Fyrir utan náttúrulega að þessir gjaldmiðlar hanga utaní 253. grein almennra hegningarlaga en þar stendur að noti maður sér bágindi annars manns, einfeldni hans og fákunnáttu í gróðaskyni þá varði það fangelsi allt að tveimur árum, með vaselíni og júgursmyrsli og alle græer.
Útvarpsmiðlarnir enda yfirleitt þætti sína á guðsorði: "Guð sé með ykkur," eða "Guð blessi ykkur," eða "Gangið á guðs vegum" og stundum er jafnvel endað á seiðandi bæn með svæfandi tónlist í bakgrunni til að undirstrika að allt sé þetta nú gert með samþykki almættisins. En hvað skyldi Guð sjálfur segja um kukl og andaheimatengingar hverskonar? Í riti Drottins, Biblíunni, sem allir vilja ólmir láta kenna ungviðinu í skólum landsins, segir hinn umburðarlyndi og kærleiksríki Herra:
Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.
Svo mælir Drottinn. Þetta stendur orðrétt í Heilagri Ritningu, bók bókanna sem er grundvöllur þess "kristilega siðgæðis" sem við viljum fyrir alla muni boða í grunnskólum landsins. Miðlar og spákonur og þessháttar fólk er ekki beint efst á vinsældarlistanum hjá þeim gamla. Þar sem mér er illa við ofbeldi, enda trúlítill maður, þá get ég ekki samsinnt þessum fyrirmælum Drottins allsHerjar, en ég endurtek það sem Houdini sagði, heiðarlegi töframaðurinn sem mest vit hafði á miðlum og þeirra blekkingaraðferðum. Hann sagði, einsog áður sagði: Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Þetta er rétt hjá honum. Og menn mega ekki við því að bíða alvarlegt tjón á sálu sinni vegna þess að fólk sem trúir öllum hlutum og á alla hluti í blindni hlýtur að hafa beðið alvarlegt tjón á heila sínum.
Enda hér á Heilræðastöku sem ég gerði þegar ég var 17 ára og birtist í ljóðabók minni Kveðið í kútnum, 1982:
Blindri trú á eitthvað áttu að neita,
ef að þú ert sannfærður þú staðnar,
heimskan vex, þú hættir fljótt að leita,
hugsun skýr og rökrétt óðum hjaðnar.
Þetta er ekki þvaður vanhugsað,
þú mátt vera sannfærður um það.
(Skrifað árið 2002)
Bloggar | Breytt 8.12.2007 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
4.12.2007 | 02:14
Mannlífsviðtal um blogg
Í nýjasta hefti Mannlífs sem kom út fyrir stuttu er viðtal við mig um bloggið. Læt það vaða hér enda viðeigandi að birta viðtal um blogg á blogginu:
1. Búseta? Þar sem mér dettur í hug að búa hverju sinni. Heimurinn.
2. Hvernig tölva? Lítil ferköntuð sem hægt er að loka einsog skjalatösku, man ekki hvað hún heitir, Anal eða Ass-eitthvað, Assus eða Rassmus.
3. Áhugamál? Tónlist, billjard, heimspeki, textagerð, skrítnir og framandi staðir, bíómyndir, leikhús, handritagerð, krossgátur, sérkennilegar týpur, trúarbrögð, töfrabrögð, dulspeki, sálfræði, mannkynssaga, stjórnmál, ljóðlist, stjörnufræði, stangveiði, golf, borðtennis, kokkamennska, djók, skáldsögur, seinni heimsstyrjöldin, hraður tæknilegur fótbolti, spakmælaritun, badminton, mafían í USA á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar, auglýsingasálfræði, nýyrðasmíði, tennis, hundar, arkitektúr. Ekkert endilega í þessari röð.
4. Hver ertu? Einhverskonar einkennilegur hrærigrautur af öllum áhugamálum mínum og fleiru.
5. Hvaðan? Vesturbænum í Reykjavík.
6. Hvenær byrjaðirðu að blogga? 18. október síðastliðinn.
7. Hvers vegna bloggarðu? Ætlaði fyrst bara að birta eina vísu og búið en svo kom upp þetta mál með hommana og kirkjuna og mér fannst svo yfirnáttúrulega galið af hommum að vilja gifta sig í kirkju þess guðs sem er með yfirlýst ógeð á þeim samkvæmt Biblíunni að mér fannst ég verða að reyna að koma einhverri glóru í þessa umræðu. Svo hélt ég bara áfram að blogga en geri það náttúrulega bara þegar ég nenni því. Þetta er engin skylda eða kvöð.
8. Hvenær bloggarðu á sólarhringnum? Þegar ég er vakandi, semsé á næturna.
9. Hve löngum tíma eyðirðu í bloggið? Misjafnt. Pistlarnir mínir eru yfirleitt í lengra lagi því ég vil klára nokkurnveginn alveg það sem ég vil segja um hvert mál svo ég þurfi ekki að útskýra það frekar. Svara helst aldrei athugasemdum því ég hef séð á öðrum síðum hvað ofskýringar geta verið tímafrekar. Ákvað að sleppa slíku helst alveg. Ég vil ekki að skrifa örlitla pistla um ekki neitt fyrir fólk sem nennir hvorki að lesa né hugsa og þurfa síðan að útskýra það í löngum þrætum hvað ég var að reyna að segja. Það er semsé ekki af hroka heldur tímaskorti að ég svara helst engum.
10. Heldurðu að netlögga sé nauðsynleg? Ég held að pappalögga sé nauðsynlegri. Ég hélt að við værum að reyna að komast útúr kommúnismanum, ekki dýpra inní hann. Kínverjar dýrka svona gáttaþefsstarfsemi og ganga lengra og lengra í ruglinu. Þetta er í raun svo galin hugmynd að Svíar hljóta að taka hana upp. Síðan Íslendingar. Svo Vestmannaeyjingar.
11. Halda vinsældir bloggsins? Það finnst mér líklegt. Íslendingar hætta aldrei að hafa gaman af því að þræta og þjarka og dylgja og drulla yfir náungann. Ef maður skrifar t.d. um óþurft nagladekkja eða eitthvað svoleiðis þá gæti maður átt von á því að fá þau rök í athugasemdum að heyrst hafi að maður sé dópsali og hryðjuverkamaður. En þarna eru svo líka oft mjög áhugaverðar málefnalegar greinar klárra náunga og ólík sjónarmið sem vegast á og svo eru þarna þráhyggjusjúklingar, samsæriskenningasmiðir, trúarofstækishallelújahopparar og allskonar furðulegir frauðfroskar og svo náttúrulega fólkið sem er ekki rónni fyrr en maður er með það á hreinu hvað það fékk sér í morgunverð, alveg upp á korn. Semsé öll flóran. Bloggið er skrifleg Þjóðarsál. En miðað við hvað það eru ótrúlega margir illa skrifandi þarna þá finnst mér skrítið að einhver málverndunarfasisti skyldi ekki hafa lagt það til á degi íslenskrar tungu að banna bloggið gjörsamlega.
12. Hver er næsta bylting í tölvuheiminum? Tölva sem maður getur sett eitt A4 blað í og prentað beint á það og ef maður gerir vitleysu þá gæti maður þurrkað vitleysuna út með tippexi og prentað svo aftur réttu stafina ofan í. Svona nýjung myndi örugglega rjúka út.
13. Hvers vegna Moggabloggið? Hvers vegna ekki?
14. Hve lengi heldurðu að þú endist í að blogga? Ég er ekkert að hugsa um það meðan ég er að blogga, ekki frekar en að ég er alltaf að hugsa um það hvenær ég muni nú hætta að hugsa þegar ég er að hugsa. Gæti þessvegna misst áhugann á þessu á morgun og hætt. Finnst það reyndar mjög líklegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)