Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
22.2.2008 | 07:44
Afmælisbarnið Davíð Oddsson
Þegar Davíð Oddsson varð fimmtugur 1998 gaf ég honum málverk eftir mig sem ég hafði verið með á málverkasýningu sem ég hélt á Gallerí Borg 1993. Þetta snotra raunsæismálverk er af krullum og aftur krullum og engu nema krullum og ég skírði verkið Loftmynd af Davíð Oddssyni. Með myndinni lét ég fylgja frumsamda huggulega vísu sem var svona:
Honum Dabba er margt og mikið gefið
og margt hann gefur fólki á þessum stað.
Hann hefur munninn fyrir neðan nefið
og nóg af gáfum fyrir aftan það.
Hann hlær að aumum andstæðingaklækjum
og leggur pent á leiði þeirra krans.
Davíð getur greitt úr öllum flækjum
nema þeim sem eru á höfði hans.
Kallinn var svo ánægður með þessa gjöf að hann tókst á loft og ég hélt að hann ætlaði að snappa og fara að gera mig að menntamálaráðherra eða forseta hæstaréttar eða eitthvað svoleiðis. Hef ekki séð hann svona sælan á svip síðan hann missti 5 aukakíló þegar hann fór í klippingu fyrir 30 árum. (Sjá mynd hér að neðan úr Séð og Heyrt)
10 árum eftir að Dabbi varð fimmtugur þá varð hann sextugur og sá atburður gerðist þann 17. janúar síðastliðinn. Hann hélt uppá afmælið sitt í Ráðhúsinu í tjörninni og þar hafði hann myndina góðu uppá vegg til sýnis fyrir veislugesti og talaði fallega um hana í frábærri afmælisræðu sinni. Myndin er svo nákvæm og svo sláandi lík honum að hún er einsog ljósmynd og það kæmi mér ekki á óvart að hann hafi látið smækka hana og notað í ökuskírteinið sitt. Þegar Dabbi var utanríkisráðherra og mikið í útlandinu þá hefur Ástríður kona hans örugglega haft mynd af málverkinu í veskinu sínu til að muna hvernig hann liti út.
Í byrjun þessa árs talaði Dabbi um það í viðtölum að það væri búið að taka úr honum ógrynnin öll af líffærum og það væri ekki mikið eftir nema einhverjar lappir og krullur. Jú og blá hönd. Í fyrstu hélt ég að Atkins kúrinn væri ekki að virka og að þetta væri hans eina raunhæfa leið til að grenna sig en svo áttaði ég mig á að hann hafi verið fárveikur og að þetta hefðu verið svona frekar bráðnauðsynlegar skurðaðgerðir.
Þar sem ég kann ekki við að gera grín að veikindum fólks, því allir geta jú veikst nema Ólafur F. Magnússon, þá ákvað ég að gefa Dabba líffæragjafakort í sextugsafmælisgjöf. Hann ljómaði í framan einsog tungl í fyllingu, líkt og hann hefði verið að hækka stýrivexti. Hann hefði ekki getað orðið hamingjusamari jafnvel þótt Ólafur Ragnar hefði orðið fyrir eldingu.
Hann horfði á líffæragjafakortið og hugsaði líklega með sér: Mikið er þetta hugulsamt af honum Sverri. Hann gefur mér líffæragjafakort þar sem hann býðst til að selja mér líffæri. Hjartnæmt. Það vantar eitthvað mikið í mig, en nú hefur Sverrir reddað því.
Svona var kortið, innrammað og glæsilegt:
Líffæragjafakort til handa Davíð Oddssyni sextugum
Gegn framvísun þessa korts á hvaða spítala sem er getur þú farið fram á að eftirfarandi líffæri verði tekin úr Sverri Stormsker og grædd í þig eða á, gegn vægri þóknun:
Nýra (347.990 kr. með virðisauka)
Lifur, án teljandi skorpu (532.999 kr)
Hrogn (verið að kanna málið)
Heilafrumur (799 kr stykkið meðan byrðir endast)
Hjarta (verið að kanna hvort það sé til staðar)
Tóneyra (439.990 kr stykkið)
Getnaðarlimur (276.990 kr metrinn)
Hönd, helblá og nett (258.990 kr. stykkið. Aðeins tvær eftir)
Heili (39 kr, enda svo gott sem á síðasta snúningi)
Með vinsemd og virðingu,
Sverrir Stormsker
(Segið svo að maður sé ekki góður við vini sína. Fæ kallinn vonandi í viðtal fyrr en seinna í þáttinn okkar Halldórs E á Útvarpi Sögu sem kallast Miðjan. Þar sem ég hef verið spurður soldið mikið um þessa þætti þá má geta þess að gestir fyrri þátta hafa verið Hallgrímur Helgason, Geiri á Goldfinger, Árni Johnsen, Jón Baldinn Hannibalsson og Brunddís Schram og þeir sem hafa misst af þessum þáttum geta nálgast þá á www.stormsker.net).
Bloggar | Breytt 27.2.2008 kl. 03:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)