Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Séríslensk galin verðlagning

MengunardollaÁður en þungaskattur var afnuminn á klakanum þá var dísilolían helmingi ódýrari en bensín. Núna er lítrinn af henni um 20 krónum dýrari þrátt fyrir að vera mun umhverfisvænna eldsneyti og margfalt ódýrara víðasthvar annarsstaðar í heiminum. Hvernig skyldi nú standa á þessum séríslenska verðmun? Jú dísilbílar eru nefnilega neyslugrennri og það er hægt að komast lengra á lítra af dísil en bensíni. Það skal sko enginn fá að græða á því að vera á dieselbíl jafnvel þótt hann mengi mun minna. Nei, ekki hér. Á sama tíma tala hugsuðirnir á Alþingi um að það beri að minnka loftmengun. Einmitt.

 

Með 10.000 króna gambraSama víðáttuvitlausa séríslenska verðlagningin er viðhöfð í Á.T.V.R. Þar eru vínin ekki verðlögð eftir gæðum heldur fyrst og fremst eftir alkóhólsmagni. Þannig getur t.d. handónýtt vín sem kostar 300 kall í siðmenntuðum löndum kostað hér á Íslandi 2000 kall. Víða erlendis getur gott rauðvín verið dýrara en rótsterkt vín, en hér er eingöngu rýnt í prósentustigið. Svona brennivínslegin alkóhólista„hugsun" í verðlagningu vína þekkist hvergi í veröldinni nema ef vera skyldi í Noregi og Svíþjóð, tveimur af þremur leiðinlegustu löndum heimsins.

 

Íslenskur séntilmaður Grænmeti er hér dýrast í heimi en ætti sem hollustufæði að vera hræódýrt. Með svona galinni verðlagningu og öfugsnúinni neyslustýringu á öllum sviðum er verið að framleiða vínmenningarlausa svínfeita umhverfissóða.

 

 

 (Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum 26. júlí).

 

Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu Fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en Guðni Ágústsson sprelligosi og fyrrverandi lambbúnaðarráðherra. Við munum fara vítt og breitt yfir sviðið sviðið og líklegast mun hann taka sér stöðu fyrir aftan eldavélina og herma eftir Jóhannesi Kristjánssyni eftirhermu.

Fyrri þætti má finna á:  www.stormsker.net 


Frelsi til að gagnrýna "frjálshyggjuna"

Friedman bróðir bestiPólitíkin hér á Los Klakos er persónuleg og sveitó. Fólk límir sig á ákveðið lið og reynir síðan að aðlaga sannleikann að flokksskoðuninni í stað þess að aðlaga skoðanir sínar að sannleikanum.

Þegar ég segist t.d. líta á gjafakvótakerfið sem óréttlátt nonsens, landbúnaðarhaftakerfið sem peningaklósett og Íraksstríðið sem óráðsrugl þá halda sumir að maður hljóti að hafa eitthvað persónulega á móti Davíð Oddssyni.

 

Marx bróðirinnSumum ósjálfstæðum Sjálfstæðismönnum finnst að ég sem hægrisinni eigi helst að tapa allri sjálfstæðri hugsun um leið og Sjálfstæðisflokkurinn opnar munninn. Bush-syndromið: „Þeir sem ekki eru með mér í einu og öllu eru á móti mér." Styðja frjálshyggjumenn ekki frelsi til að gagnrýna „frjálshyggjuna?" Er hér kommúnísk "frjálshyggja?"

 

 
TrúmaðurStjórnmálakerfi umbreytast oft í trúarbrögð, hvort heldur spámaðurinn heitir Marx eða Friedman. Þeir sem halda að allur sannleikur heimsins rúmist í einni kenningu eru trúmenn, líkt og stalínistinn Þórbergur. Menn verða að halda gagnrýninni hugsun ef þeir vilja halda trúverðugleika því annars þurfa þeir að halda kjafti fyrir kosningar.

Hverskonar frjálshyggja er það sem tekur því sem árásum á Foringjann ef maður leyfir sér á stundum að vera á öðru máli en hann og Flokkurinn? Máski stendur hin séríslenska „frjálshyggja" of nálægt kommúnismanum um margt, sérstaklega hvað varðar útþenslu ríkisbáknsins og bælda skoðanatjáningu.

 

 

Þessi pistill minn birtist í 24 Stundum, 28. júní.

 

 

Minni vitaskuld á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni er glaumgosinn og reiðhrókurinn Fjölnir Þorgeirsson. Honum hefur einstaka sinnum brugðið fyrir í Séð og Heyrt og í nýjasta heftinu segist hann vera búinn að fá sig fullsaddan af kellingum og öllu sem þeim tengist. Þetta alvarlega mál þarf að spyrja hann aðeins nánar út í. Ætlar hann alfarið að snúa sér að hryssunum og dýrunum í sveitinni eða ætlar hann bara að toga í rörið á sér það sem eftir er? Hver djöfullinn er eiginlega að gerast með þennan mann?! Ætlar hann að bregðast sínum skyldum einsog ríkisstjórnin?!!!

Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net 


Skriffinnska ofar mannúð

SkriffinnskublókPappírsapiInnflutningur manna og annarra dýra er ekki vel séður á Íslandi nema helst á vinnuþrælum og glæpaklíkum frá Austur Evrópu. Öldum saman hefur meiraðsegja innflutningur á hráum kjötvörum verið bannaður vegna „sýkingarhættu,“ sem þýðir á mannamáli: Vegna samkeppnishættu. Við neytendur erum nefnilega til fyrir íslenskan landbúnað en ekki öfugt. Á stríðsárunum var landflótta gyðingum vísað héðan beint í gasklefana af stjórn Hermanns Jónassonar. Ísland Ísland Uber Alles! Ísbirnir sem villast hingað eru tafarlaust skotnir í tætlur með blessun umhverfisráðherra, og nýverið var góðum Keníamanni, Paul Ramses, fleygt úr landi og fjölskyldu hans sundrað og drekkt í reglugerðarrugli. Á Íslandi er alltof mikið af ísköldum skriffinskublókum með reglustiku í hjartastað og þrætubók í heilastað.

ReglumaðurReglur reglumannsinsÁ meðan Ingibjörg Sólbrún er uppfyrir haus að sinna mannúðarmálum í Öfganistan þá eru mannréttindi fótumtroðin heimafyrir. Gjafakvótakerfið gott dæmi. Ramses hefur greinilega átt fárra kosta völ úr því hann ákvað að koma hingað á kaldan klakann; kaldasta og hjartakaldasta blýantanaggrísabæli á heimi. Hefði hann verið austur evrópskur sakavottorðslaus kaldrifjaður glæpon þá væri hann hér kominn með fasta búsetu og líklega orðinn ráðherra í ríkisstjórninni. Stjórnvöld eiga bara að ímynda sér að þau séu Davíð Oddsson og að Ramses sé Fisher og málið dautt.

 

 

 

 

 

Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 12. júlí

 

 

 

 

 

Í þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag klukkan 16:00 verður gestur minn hin skelegga athafnakona Jónína Benediktsdóttir sem hefur lítið álit á Útvarpi Sögu og hefur munninn fyrir neðan nefið og hökuna fyrir neðan munninn og hálsinn fyrir neðan hökuna og svo mætti áfram telja þangað til maður væri orðinn dónalegur. Hún mun vafalaust tjá sig um Baugsmálið, stólpípur og margt annað þarft og þrifalegt. Þátturinn verður endurfluttur á laugardaginn klukkan 16:00 - 18:00. Þennan þátt sem og fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net á mánudaginn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband