Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Prófessjónal amatörar

 

Stuttu eftir að ákveðið var að kjósa til stjórnlagaþings sagði ég í útvarpsviðtali:

islenskur inspector klúsó"Mér líst vel á að þjóðin fái að velja sér fólk utan flokka til að setjast á þetta stjórnlagaþing þar sem jú stjónmálamenn hafa sýnt undanfarna áratugi að þeir eru ekki hæfir til verksins. En ég er ekki í nokkrum einasta vafa um að okkur mun takast að klúðra þessu gjörsamlega, annaðhvort vegna þess að niðurstaða þingsins er ekki bindandi sem þýðir að stjórnmálamenn munu útvatna þetta og fara að krukka í þetta með öllum sínum þumalputtum eða vegna þeirrar einföldu ástæðu að Íslendingar eru jú óneitanlega prófessjónal amatörar, hreinir og klárir sérfræðingar í klúðri, fúski, fljótfærni, spillingu og heimsku. Eiginlega á öllum sviðum. Sama hvar maður drepur niður fingri. Um það eru til grilljón vitnisburðir. Ef þú stingur puttanum út um gluggann þá færðu hann drulluskítugan til baka. Ísland er eitt stórt graftarkýli. Það þarf að stinga á því, en það verður því miður aldrei gert. Svínum líður nefnilega best í stíunni."

Svo mörg voru þau orð. Læt hér fylgja með frumsamið lag af nýju plötunni minni "Látum verkinN tala" sem kom út á Þorláksmessu. Lagið heitir Þjófabálkur og fjallar um álit ömmu minnar sálugu, Kristínar Ásgeirsdóttur frá Fróða, á okkur Íslendingum. Þess má geta að hún að sagði 20 árum fyrir hrun að þess yrði ekki langt að bíða Íslendingar, þessir sjálfumglöðu óvitar, myndu kollsteypa sjálfum sér efnahagslega því viðskiptasiðferðislega væru þeir á botninum. Vídeóið má finna HÉR á youtube. 

Hér er texti lagsins:

 

Þjófabálkur

(Lag og texti: Sverrir Stormsker)

 

Amma hún var bæði góð og gegn,

grandvör, trú og alveg heil í gegn.

Hún gaf mér óspör ótal hagnýt ráð.

Hér eru nokkur sem ekki visna í bráð:

 

Íslenskur bankastjóriFarðu aldrei út í viðskipti

með Íslendingum, það er glapræði.

Þeir fara einatt út af réttri braut

og eru flestir heimskari en naut.

 

Hlýddu ekki á þeirra þýðu raust

sem þusa um sín heilindi, illa gerðir.

Þeir sem tala manna mest um traust

eru menn sem eru ekki traustsins verðir.

 

ClouseauTrúðu varlega orðum Íslendinga,

þeir allir telja sig til sérfræðinga

og gorta sig af innri ofurmætti,

en eru bara fagmenn í viðvaningshætti.

 

Þótt þjóðin sé hláturmild, happy og lyndisgóð

þá hef ég grun um að obbinn í laumi gráti.

Við erum heimsins hamingjusamasta þjóð

og heimsmet eigum í þunglyndislyfjaáti.

 

HomerSimpsonHér á Fróni er fjöldi glópa,

- falskir smákóngar.

Íslendingar upp til hópa

eru fábjánar.

 

Þeir eru þjóðrembur fram í fingurgóma,

fella um sæmdarþjóðir sleggjudóma,

amatörar, aular, firrtir sóma,

öskra um sína snilld með hausa tóma.

 

lygararÁ stjórnmálaflokka og álfa og tröll þeir trúa,

tigna þá sem allra mestu ljúga,

geta ei lært af reynslu, eru á eftir,

svo innilega naive og þroskaheftir.

 

Þeir skemma allt og öllum hlutum klúðra,

en eru manna bestir í að slúðra,

er einkar lagið að okra, pretta og slugsa

en erfiðlega gengur þeim að hugsa.

 

raeningjastrumpurFrá Noregi þeir forðum flýðu burtu,

fífl og krimmar, gungur, drulluhælar,

viðvaningar, vitfirringar, durtar,

þeir voru, eru og verða alltaf þrælar.

 

Þetta sólarlausa skálkasker

er skýli fyrir þjófa og rumpulýð.

Þar flestir ljúga grimmt að sjálfum sér

en sannleikann um sig þeir kalla níð.

 

KlúsóÞröngsýnir og þrælslundaðir,

þorlausir og óheiðarlegir,

svikulir, spilltir, sjálfumglaðir,

sjálfhverfir og gáfnatregir.

 

Þeir ljúga heil ósköp, öllu fögru lofa,

en efna fátt, já það er alveg víst.

Innræktaðir Íslendingar lofa

ekki góðu, þetta er genatískt.

 

öskrandi íslendingurÍ öllum málum þeir vaða í villu og svíma.

Viðvaningar best á Fróni þrífast.

Í glópsku eyða öllum sínum tíma

í að þræla, hneykslast, slúðra og rífast.

 

Óupplýstir en fróðleiksfúsir mjög

um flest það sem að snýr að náunganum.

Búa flestir háum húsum í

en hugsunin er enn í torfkofanum.

 

ÍslandLosna vildi hver einasta íslensk hetja

undan Dönum, - gjaldþrot upp við skárum.

Tókst með linnulausri snilld að setja

landið á hausinn á sextíu og fjórum árum.

 

Að gera út á galið djöflasker

getur varla talist hyggilegt.

Það verður bara að segjast eins og er

að Ísland það er ekki byggilegt.

 

Já amma hún var greind og góð

svo greinargóð og snjöll

Svona lýsti´hún þessari þjóð

og þá er sagan öll.

 

Sverrir Stormsker: Söngur, bakraddir og öll hljóðfæri.

Ingó veðurguð: Söngur í viðlögum.

(Leikkona í vídeói: Brynja Valdís Gísadóttir)  


mbl.is Niðurstaðan vel rökstudd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttir og brennivínsdrykkja

 

íþróttaáhugamaðurÉg horfði á leikinn Ísland - Þýskaland í gær á kjaftfullum sportbar, - fullum í öllum skilningi. Þar sást ekki áfengisleysi á nokkrum manni frekar en fyrri daginn þegar íþróttir eru á skjánum. Maður fær ekki betra tilefni til að fara á almennilegt fyllerí en þegar íþróttir eru í varpinu. Þetta fer svo vel saman. Íþróttir og fyllerí er jafn pottþétt blanda og vodki í kók. Það er meiraðsegja hægt að hafa gaman af jaðaríþróttum einsog handbolta, sniglakapphlaupi og kengúruboxi ef maður er bara nógu drukkinn.

 

Það má vera að íþróttir séu þroskandi en þær eru fyrst og fremst þorstandi. Það er eitthvað við íþróttir sem vekur upp hjá fólki mikla áfengislöngun. Sem er mjög gott mál. Þetta er nú það góða við íþróttir. Um þetta snúast þær faktískt. Á fótboltaleikvöngum hér og erlendis sést ekki einn maður edrú. Sumir leikmenn eru jú kannski ekki mjög drukknir á vellinum en áhorfendur eru náttúrulega allir á perunni. Þessvegna er svona gaman að horfa á fótbolta. Karlpeningurinn fær þar að auki frí frá sínöldrandi kellingarherfunni og fær að rasa almennilega út og fær að fíla sig sem hluta af einhverri liðsheild. Íþróttaleikur er mínístyrjöld. Landsleikur er smækkuð heimsstyrjöld. Þjóðremban í algleymingi. Svo má alltaf búast við að það brjótist út áhugaverð slagsmál að leik loknum sem kóróna skemmtilegheitin.

 

góð blandaÍþróttamennirnir sjálfir eru yfirleitt álíka blautir og áhorfendur. George Best var t.d. tipptopp drykkjumaður og ekkert síðri fótboltahetja. Náði frábærum árangri í báðum greinum. Þetta helst í hendur. Eiður Smári og allt það. Ég tildæmis gæti ekki reykt og drukkið svona mikið ef ég væri ekki íþróttamaður. Í alvöru. Íþróttir auka manni úthald. Áramótaheit mitt var að æfa badminton og tennis og spretthlaup svo stíft á þessu ári að ég gæti slátrað tveimur bjórkössum og svælt fjóra vindlapakka á dag án þess að blása úr nös...ef þannig má að orði komast. Maður verður að hafa þolið í lagi ef það á að vera eitthvað gaman af þessu. Og maður verður að hafa eitthvað markmið í lífinu.

 

allt er nú bannaðÖrlítið meira um mína íþróttamennsku: Ég æfði sund í Vesturbæjarlauginni á tímibili, í alvöru, en hætti þegar ég uppgötvaði að það fór of mikið af klór ofan í vodkaglasið og svo drapst alltof oft í vindlinum. Þar að auki var maður litinn hornauga einsog maður væri eitthvað skrítinn. Ég prófaði baksund með glasið og vindilinn í annarri hendi og buslandi með hinni en allt fór á sama veg. Alltaf þurfti einhver hvalspikaður uppblásinn bringubítill að stinga sér í grenndinni þannig að gusurnar gengu yfir mann og maður drukknaði nánast í ölduróti og ófögnuði. Glasið barmafullt af klóróformi og vindillinn í henglum. Þessi áhugamál blönduðust semsé ekki vel saman. Í öllum skilningi. Það tók mig ekki langan tíma að sjá að sund væri fyrir örlagaedrúista og aumingja.

 

íslensk handboltahetjaHvað um það. Munurinn á Strákunum okkar og okkur áhorfendunum á sportbarnum var að við vorum vel fullir en þeir voru greinilega illa timbraðir. Maður á ekki að mæta timbraður í íþróttamót. Það er vanvirðing við sannan íþróttaanda. Ég veit ekki hvað ég er búinn að brýna þetta oft fyrir æskulýðnum. Maður á að vera í glasi þegar maður er að keppa. Ekki skelþunnur. Þunnir menn skjálfa einsog lauf í vindi, - einsog Geir Haarde. Þunnildi vinna enga sigra. Fullir menn geta hinsvegar unnið fullan sigur.

 

alex-higginsStrákarnir okkar ættu að taka snookerheimsmeistarannn Alex Higgins sér til fyrirmyndar. Einsog menn vita þá er snooker mesta nákvæmnisíþrótt í heimi. Alex mætti alltaf vel undirbúinn í mót. Sturtaði í sig einni ginflösku og hálfum kassa af stórum svellköldum öllurum og svældi með góðgætinu pakka af fílterslausum camel af miklum krafti einsog sannir íþróttamenn eiga að gera. Eftir þennan undirbúning þá gekk kappinn inná leikvanginn fjallfrískur í góðum gír og straujaði andstæðinginn. Svona eiga menn að vera. Hann passaði sig vel á því að mæta aldrei þunnur til leiks einsog strákarnir okkar. Hann var ekki bara metnaðarfullur heldur pöddufullur. Vínandi er rétti íþróttaandinn.

 

Handboltastrumparnir okkar gætu mikið lært af Alex Higgins, ímynd íþróttamennskunnar. Þeir hefðu mögulega átt roð í Þjóðverjana ef þeir hefðu skellt í sig nokkrum tekílasnöfsum fyrir leikinn og náð að koma þannig heilsunni í lag. Samt ekki of mörgum. Kannski 10 til 15 sjússum og 5 til 10 tvöföldum irishcoffee og svona einsog hálfri flösku af 50% smirnoff vodka af stút og þá hefðu þeir verið í góðum málum. Dass af hreinum spíra í restina hefði ekki skaðað. Með þessu hefði verið mjög gott að svæla nokkra vindla og keðjureykja umþaðbil hálfan til einn pakka af fílterslausum camel til að skerpa einbeitinguna. Þessir strákabjálfar okkar verða að fara að sýna íþróttamennskunni smá respect. Virðing og kurteisi kostar ekkert. Þeir verða að fara að haga sér einsog menn þessir helvítis heilhveitis grasasnar.

 

Eftir tapið gegn liði Þjóðverja, fyrsta liðinu sem Íslendingar keppa við sem kunna eitthvað í handbolta, var viðtal (sjá HÉR) við Björgvin markvörð og Róbert línudansara:

 

timbraðurRóbert píreygður og utangátta: "Við vorum að klúðra, klikka á góðum færum...Maður sér þetta ekki alveg nógu skýrt."

Hann myndi kannski sjá hlutina aðeins skýrar ef hann væri ekki svona skelþunnur. Drekka meira.

Björgvin: "Við erum eins og aular sóknarlega og varnarlega."

Eins og? Þeir hefðu getað gert eitthvað af viti ef þeir hefðu drullast til að drekka úr sér þynnkuna fyrir leikinn.

Björgvin: "Ef við erum ekki fullir og gerum ekki hlutina almennilega þá getum við ekki neitt í handbolta. Það er alveg klárt."

íþróttaálfurHverskonar setning er þetta eiginlega? Er maðurinn edrú eða hvað? Eru markverðir ekki markverðir menn? Þeir sem gera ekki hlutina almennilega geta ekki neitt og þeir sem geta ekki neitt gera ekki hlutina almennilega. Og hvað er ég búinn að brýna oft fyrir íþróttamönnum að mæta ekki skelþunnir í leik? Maður á að vera vel í glasi. Það er einsog það komist ekkert inní hausinn á þessum ösnum. Þarf maður að hella í þá brennivíni með trekt?

Björgvin: "Ef við erum ekki fullir þá erum við ekkert frábærir."

Old news. Nú ef að gæinn er svona meðvitaður um þetta afhverju sturtaði hann þá ekki í sig brennivíni fyrir leikinn og sagði félögum sínum að gera slíkt hið sama? Eru þetta alltsaman tómir fæðingarhálfvitar? Þetta eru allavega ekki fullir fæðingarhálfvitar. Algjörðir apakettir.

Björgvin: "Við erum að gera allt of mikið af feilum og svona miklum aulamistökum sem við erum að brenna okkur á."

íslenskir íþróttamennHverskonar menn gera mikið af aulamistökum? Hugsanlega aular? Drekka meira.

Róbert: "Við áttum í soldlu basli með þá í vörninni og svo vorum við að hitta aðeins of mikið í markmanninn."

Soldlu basli? Vörnin var galopin einsog Catalina á góðum degi.

Voruð að hitta aðeins of mikið í markmanninn? Halló! Var hann ekki að verja lásí og kraftlaus og ónákvæm skot? Þýski markvörðurinn var semsé ekkert góður að áliti strákaaulanna okkar. Hann var bara alltaf fyrir. Ástæðan fyrir því að hann varði svona mikið var víst bara vegna þess að strákarnir okkar hittu of oft í hann. Einmitt. Þegar Björgvin stendur sig vel í markinu og ver hvert skotið á hendur öðru þá er sagt að hann sé meiriháttar markvörður. Þegar þýski markvörðurinn ver hvert skotið á hendur öðru þá er það jú bara vegna þess að strákarnir okkar hitta of oft í hann. Hann er semsé alltaf að þvælast fyrir. Er alltaf á röngum stað. Úfff. Það er oft ótrúlegt ruglið sem vellur út úr ódrukknum Íslendingum.

 

íþróttadrykkjaLeikurinn var engu að síður ansi skemmtilegur. Í miðjum æsingnum, eða æsinginum einsog það heitir víst á bubbísku, þá öskraði ég á flatskjáinn: "Áfram strákar. Þið eigið leikinn. Látiði íslensku apana ekki komast upp með neitt múður. Sieg Heil!"

Þetta féll ekki í góðan jarðveg á sportbarnum af einhverjum ástæðum. 


mbl.is Fyrsta tap Íslands á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum bestir!!

íslensk markvarslaHandballs. Beint í punginn.Þetta var frækilegur sigur. Við völtuðum gjörsamlega yfir Hirosima. Strákarnir okkar stóðu sig glæsilega en það verður að segjast einsog er að Hreiðar Levy markvörður reddaði alveg seinni hálfleik. Hann varði 8 sinnum með pungnum og 17 sinnum með andlitinu. Geri aðrir betur. Frábær markvarsla. Hann var bókstaflega með nefið oní hvers manns bolta, ef þannig má að orði komast. Hann var allsstaðar með andlitið. Og punginn. Ekki má gleyma honum. Svona á að nota guðsgjafirnar. 

Hreiðar á góðum degifaceballJapanir áttu enginn ráð við þessu. Það var sama hvert þeir negldu, alltaf small tuðran af miklu afli á alltumlykjandi trýninu á Hreðjari. Og pungnum. Ekki má gleyma honum. Það var sama hversu oft þeir dúndruðu boltanum í smettið á honum og i boltana á honum, aldrei missti hann andlitið. Ekki heldur punginn. Ekki að ástæðulausu að þessi íþrótt kallist handballs. Enginn markvörður fyrr né síðar hefur varið jafn oft með eistunum og andlitinu í einum leik. Alls 25 sinnum. Hann verður pottþétt kóngurinn á Fésinu. Þetta er gæi sem fær ekki bara flugu í höfuðið. Þetta er maður sem kann að nota á sér hausinn. Áfram Hreðjar!

 

andlitsboltiHreiðar í rugbySumir halda að Jappar séu einhverjir vesalingar og hlandaular með hor í nefi sem kunni ekkert í handballs en það er öðru nær. Þeir eru með eitt besta lið heimsins í dag. Þeir hafa unnið Austur-ríkisstarfsmenn, Færeyinga, Íraka, Grænlendinga, Írani, Saudi-Araba og Úgandabúa svo nokkur dæmi séu tekin. Leikmennirnir eru allir heimskunnir. Þetta eru nöfn sem allir þekkja: Kenya Toyota, Daihatsu Kawasaki, Moskito Suzuki, Risotto Tomato, Shuss Hirosima, Hoza Heimasima, Mazda Yamaha, Mitsubishi Hahaha og svo mætti lengi áfram telja. Það voru semsé engir aukvisar sem við vorum að slátra.

faceplantHreðjar eftir leikinn við JappaSvo er bara að vona að Hreðjar nái að halda haus og þá tökum við þetta alla leið. Sýnum þessum útlensku ösnum að þó við kunnum ekki reka banka og kunnum ekki að reka bankaræningja í ævilangt fangelsi og kunnum ekki að reka pólitík og kunnum ekki að reka pólitíkusa út úr alþingi - þá kunnum við sko að sýna okkar rétta andlit og fá boltann í það. Og punginn. Ekki má gleyma honum. Við munum halda andlitinu. Áfram Ísland!

 

HÉR má finna myndbandið við Sigurlagið sem ég gerði árið 2004. Tileinkað Strákunum okkar, að sjálfsögðu. Við erum bestir!
mbl.is Stórsigur á Japan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólasveinninn dreginn til yfirheyrslu

 

JólasveinninnEnn einu sinni hefur Ástþóri Magnússyni verið varpað í dýflissu. Síðast var það árið 2002 þegar hann varaði við hryðjuverkaárásum á íslenskar flugvélar og stöðvaði með háværum mótmælum þá fyrirætlun stjórnvalda að senda vopn og hermenn með farþegaflugvélum Icelandair til Írak.

Að launum fyrir þá viðvörun sína var sveinki látinn dúsa í einangrun í myrkvuðum turnklefa á Litla Hrauni með rottum og kakkalökkum dögum og vikum saman uppá vatn og bónusbrauð og húðstrýktur reglulega með hnútasvipum og gaddakylfum og látinn hlusta á ræður Halldórs Ásgrímssonar kvölds og morgna af segulbandi. Þegar honum var loks hleypt út var hann ekkert nema skinn og bein. Hafði lést um 55 kíló. Var kominn niður í 130 kíló.

Í gær gerðist svolítið svakalegt: Við sveinki sátum á hinum virðulega hákúltúrveitingastað í Byko og sveinki var að skófla í sig kjötbollum og rjómabollum í góðu jólastuði þegar Víkingasveitin birtist grá fyrir járnum og kom honum í ennþá meira stuð með því að gefa honum rafbyssuskot beint í vömbina. Jólasveinninn hentist á gólfið og tók þar nokkra hressilega krampakippi þannig að belgurinn gekk í öldum einsog vatnsrúm. Svo lá hann hreyfingarlaus og stjarfur um stund með útglennt augun. Þau eru nú venjulega á stilkum þannig að ég veit ekki hvort það var óheillamerki eða ekki. Úr munnvikunum lak froða. Nú eða rjómi. Nei, ef þetta hefði verið rjómi þá hefði hann nú örugglega sleikt útum. Því næst var hann handjárnaður og fótjárnaður og dreginn á hárinu og skegginu uppá lögreglustöð til yfirheyrslu.

Sveinki hafði víst trassað að mæta í skýrslutöku vegna gruns um að standa að menningarveftímaritinu sorprit.com. Hreinn Loftsson fyrrum stjórnarformaður Baugs og fyrrum DV-eigandi og fyrrum Davíðsvinur vill meina að sveinki standi á bak við það rit og að þar séu ærumeiðandi ummæli að finna, og hafði lagt fram kæru á sveinka svínaskelfi.

Ég fór að heimsækja Ástþór í dýflissuna stuttu eftir að hann var tekinn til fanga. Hann sat þar margkeflaður við tréstól með brunablöðrur á andlitinu vegna hitans frá yfirheyrsluljóskastaranum. Ég spurði hvort hann brynni ekki í skinninu að losna og hvort honum væri ekki heitt í hamsi og hvort hann vanhagaði um eitthvað. Hann stundi flögnuðum vörum: "Vatn. Ég er að deyja úr þorsta." Ég átti ekkert vatn að gefa honum en tróð þess í stað uppí hann lúku af salthnetum sem ég var með á mér. Ég hélt fyrir munninn á honum svo hann kyngdi örugglega og að ekkert færi til spillis. Að því loknu spurði ég hann hvað hann hefði sagt löggunni varðandi sorprit.com. Hann sagðist hafa svarað öllum spurningum lögreglunnar á þessa leið, í alvöru:

Ástþór í yfirheyrslu"Ég mun engu svara ykkur í lögreglunni fyrr en þið hafið tekið fyrir allar mínar kærur á hendur DV." 

"Og afhverju hefur lögreglan ekki tekið fyrir allar þínar kærur á hendur DV," spurði ég.

"Það er vegna þess að svín eru rétthærri jólasveininum hér á Íslandi."

"Afhverju segirðu að Hreinn Lofts og þeir á DV séu svín? DV hefur nú verið ötult við að berja á bankaræningjunum."

"Ég finn það á lyktinni. Það er ekki hreint loft í kringum Hrein Lofts. Farðu inná sorprit.com. Þar geturðu fræðst um útrásarsvínin, fjölmiðlasvínin og önnur svín. Svínin mega ljúga uppá alla en enginn má segja sannleikann um svínin," hrein jólasveinninn.

 

ÚtrásarsvínÁ sama tíma og jólasveinninn sat þarna múlbundinn og emjandi einsog stunginn grís sá ég út um gluggann hvar útrásarbankaræningjasvínaglæpagengið alltsaman gekk skælbrosandi framhjá lögreglustöðinni í sólinni og veifaði löggunni. Líklegast á leið í einhvern bankann að hreinsa upp restina sem þeir gleymdu. Löggan veifaði á móti.

Þennan sama dag og Ástþór var tekinn til yfirheyrslu vegna meiðyrðaákæru og einhverra óvarlegra ummæla um útrásarsvínin og fleiri slíka þá kom í fréttum að Kaupþing hefði nokkrum dögum fyrir hrun lánað eigendum bankans og tengdum aðilum 450 milljarða króna. Daginn eftir þann gjörning ákváðu Kaupþingsmenn að afnema persónulegar ábyrgðir lykilstarfsmanna bankans vegna lána hlutabréfakaupa í bankanum. Frekar svínslegt alltsaman. En þessir höfðingjar skarta stórriddarakrossum og skálkaorðum og ganga skartklæddir um götur borgarinnar frjálsari en nokkrir aðrir ránfuglar.

 

Í dag, þriðjudaginn 4. janúar klukkan 4, verður sveinki svínaskelfir í þriggja gráðu yfirheyrslu á Sögu hjá Arnþrúði Karls og Pétri Gunnlaugs. Ekki missa af því. Líklegast í síðasta skipti sem Ástþór nær að tjá sig um útrásarsvínin og stjórnmálasvínin því nú ætla Vinstri grænir að teipa fyrir kjaftinn á fjölmiðlum og þjóðinni með glænýju fjölmiðlafrumvarpi svo þeir geti svínað á alþýðunni í friði.


mbl.is Ástþór færður til skýrslutöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband