Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Sævar Ciesielski. Minningarorð

 

Sævar CiesielskiÍ byrjun tíunda áratugarins var ég alloft með tónleika í allskonar nágrenjum í nágrenni Reykjavíkur og þá kom það oftar fyrir en ekki að Sævar ræki þar inn sitt margbrotna nef. Hann kom jafnan í „búningsherbergið" til mín í pásum, semsé inní eldhús, að spjalla um heima og geima. Ég man vel þegar við hittumst fyrst. Hann kynnti sig frekar hátíðlega:

„Sæll og blessaður, ég heiti Sævar Ciesielski."

„Blessaður, Sverrir sjálfselski hér. Ert þú ekki gæinn sem stappaðir stálinu í Guðmund og Geirfinn?"

„Hvað meinarðu, stappaði stálinu í?"

„Þú veist, rakst þá á hol með garðyrkjugaffli?"

„Svo er sagt, en það er víst smá misskilningur."

Þessi smá misskilningur var víst stærsta sakamál Íslandssögunnar og rústaði lífi hans.

Seinna urðum við vinnufélagar á hinu virðulega menningarsetri Rauða ljóninu útá Nesi. Hann vann þar sem parketleggjari og ég sem poolspilari - vann þar hvern leikinn á fætur öðrum, myrkranna á milli. Þar kynntist ég honum betur og fann að undir klakabrynjunni sló viðkvæmt og hlýtt hjarta. Hann var þarna farinn að huga að því að fá málið endurupptekið og fá þennan smá misskilning leiðréttan. Stuttu síðar lét hann verða af því en gekk bónleiður til búðar. Hæstiréttur var lok lok og læs og allur í stáli eins og Síðumúlafangelsi forðum. Ekki í fyrsta skipti sem Sævar kom að lokuðum dyrum. Aðeins dauðans dyr virtust standa honum opnar í þessu lífi. Ég gerði ljóð af þessu tilefni sem kom út í bók eftir mig þetta sama ár, 1997:

 

Vinur, mæta vel ég skil-að

vonin falli í dá

þegar kerfið kalt og bilað

kastar þér til og frá,

en erfiðleikar eru til-að

yfirstíga þá.

 

Vinur, mæta vel ég skil-að

vonin falli í dá

er tapsárt kerfið tregt og bilað

tekur þig aftan frá,

en óvinirnir eru til-að

yfir stíga þá.

 

Litlar líkur eru á því að málið verði tekið upp að nýju þar sem ekkert nýtt hefur komið fram og ekki er líklegt að „líkin" finnist úr þessu, lifandi eða dauð. Að auki hafa kerfisþursar hingað til ekki beint verið áfjáðir í að viðurkenna og leiðrétta mistök. Hinsvegar er vitað að játningar voru kreistar upp úr sakborningum með ólögmætum hætti, þ.e. pyntingum, og það eitt og sér ætti að að nægja til að réttarkerfið ógilti allt málið og veitti þeim uppreisn æru og endanlega nafnhreinsun, en ég sé það ekki gerast því að til þess þyrftum við að búa í réttarríki.

Fyrir nokkrum árum bauð Sævar mér á málverkasýningu sem hann var með á Skólavörðustíg. Þegar ég mætti sat hann aleinn í salnum. Myndirnar hans voru draumkenndar og dulúðugar. Hann notaði ekki pensil við gerð þeirra heldur þrýstiloftspumpu. Með þessari pumpu blés hann lífi í vonir sínar um réttlæti og bjó til fagrar skýjaborgir á léreftinu, draumfagrar myndir sem aldrei fengu að framkallast í veruleikanum. Hann lofaði mér einni mynd ef hann myndi ekki selja allt upp. Hana fékk ég aldrei því stuttu síðar fluttist hann til Baunaveldis og ég yfir í aðra heimsálfu. Og nú er hann fluttur yfir í annan heim - heim sem fer vonandi betur með hann en þessi. En kannski er það líka smá misskilningur.

Aðstandendum hans votta ég mína innilegustu samúð.

 

(Þessi minningargrein birtist í Morgunblaðinu flöskudaginn 5. ágúst).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband