Bloggfærslur mánaðarins, september 2015
25.9.2015 | 10:02
Er hetjuskapur að viðurkenna aulaskap sinn?
Margir eru búnir hæla Degi B. Eggertssyni í hástert fyrir það fáheyrða drenglyndi og gáfnamerki að hafa dregið idjótasamþykkt sína og meirihlutans til baka og viðurkenna stórfelld mistök sín og biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu, fúski og rugli.
(Ég hef reyndar hvergi séð hann biðjast afsökunar). Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamenn sýna þann hetjuskap að viðurkenna aulaskap sinn.
Sumir vinstrimenn húðskamma hann reyndar fyrir að hafa dregið rugl sitt til baka og vilja að hann klúðri hlutunum ennþá meira en orðið er með þeim rökum að bágur efnahagur landsins eigi að víkja fyrir mannréttindum, einsog það sé í verkahring smáborgarstjóra að bjarga heiminum, en svo eru aðrir vinstrimenn niðrá jörðinni sem segja að hann sé maður af meiru og maður að meyru og maður með meiru fyrir að hafa séð að sér. Þeir virðast aldrei ætla að geta lært að koma þessum einfalda frasa skammlaust frá sér.
Sú góða dama, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, gengur svo langt að segja að Dagur hafi hvorki meira né minna en brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á mistök... og bætir við: Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.
Já. Akkúrat. Svona viljum við hafa stjórnmálamennina. Þeir eiga að brjóta blöð og helst lög líka. Þeir eiga að klúðra hlutunum big time, reyna svo að klóra sig útúr vandanum og kenna öðrum um, hlaupa úr einu lygahorninu í annað og neyðast svo til að viðurkenna glópsku sína og stjarnfræðilegt dómgreindarleysi og muldra svo afsökunarbeiðni oní hálsmálið og málið dautt.
Hvernig er hægt að kalla eitthvað "mistök" sem hefur verið í undirbúningi mánuðum saman með lögfræðingum og innkaupastjórum og öllu tilheyrandi? Það eru ekki "mistök." Það er ásetningur. Einbeittur brotavilji.
Katrín Júl hefði því frekar átt að segja að Dagur hefði "brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á ásetningsbrot."
En það hefði kannski ekki komið eins vel út fyrir samfólin.
Eftir því sem Björk Vilhelms segir þá var búið að undirbúa þessa sniðgöngutillögu í heilt ár, en samt var hún vanhugsuð. Menn geta þá rétt ímyndað sér hvað þetta lið er lengi að hugsa. Ekki nema von að meirihlutinn hafi ekki getað séð fyrir viðbrögð Gyðinga í Bandaríkjunum. Hefði þurft lágmark 20 ár til að kveikja á perunni.
Alveg glæpsamlega vitlaust gengi.
En svona eiga pólitíkusar að vera. Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir. Lútum höfði í auðmýkt og undirgefni og færum Degi gull, reykelsi og myrru. Krjúpum í lotningu við fótskör meistarans. Vér skulum biðja.
Ég efast samt um að Dagur hafi brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna axarsköft sín og handabakavinnubrögð. Ég man nú ekki betur en að fyrirrennari hans og fyrirmynd, Jón Gnarr, hafi gert fátt annað en að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar á þeim, á milli þess sem hann var að gera þau. Þetta var full time job. Ef eitthvað var gert þá voru það mistök og þau voru viðurkennd og beðist afsökunar á þeim. Svona gekk þetta árið um kring. Mistök - þau viðurkennd - beðist afsökunar. Þetta var Dags-skipunin.
Gnarrinn var alltaf fyrstur manna til að viðurkenna að hann vissi minna en ekkert um málefni borgarinnar og að hann hefði ekki hugmynd um hvort hann væri að koma eða fara. Er hægt að hugsa sér betri eiginleika sem geta prýtt borgarstjóra?
Vanhæfni er vanmetinn kostur.
Hann sagði að það væri ekki til sá hlutur innan borgarkerfisins sem hann hefði minnsta skilning á. Hann má þó eiga að hann viðurkenndi það.
Stjórnmálin voru svo djúpt sokkin á þessum tíma að einu kröfurnar sem fólkið gerði til stjórnmálamanna voru að þeir viðurkenndu að þeir væru froskar sem vissu ekkert í sinn haus.
Jón Gnarr var ekkert að reyna að fela það og uppskar miklar vinsældir fyrir vikið. Fólk var ekkert að ætlast til þess að hann gerði eitthvað af viti og breytti gangi himintunglanna heldur bara að hann væri að hirðfíflast í Gleðigöngunni og þrengja götur borgarinnar og búa til hjólreiðarstíga og fuglahús og gefa lóðir til trúarsafnaða og viðurkenna að hann vissi ekki neitt.
Maður sá hann ekki í sjónvarpinu öðruvísi en að hann væri að biðjast afsökunar á einhverju klúðri og játa að hann hefði ekkert vit á þessu eða hinu og hefði ekki sett sig inní málin því hann væri með athyglisbrest og gæti ekki haldið sér vakandi á fundum sökum leiðinda og vissi í raun ekkert hvað hann væri að gera þarna.
Svona eiga borgarstjórar að vera. Og þessvegna var hann svona vinsæll og mikils metinn. Hann viðurkenndi nefnilega að hann væri alveg úti að aka í öllum málum og vissi nákvæmlega ekkert í sinn haus. Og þessvegna urðu þeir svona góðir vinir, hann og Dagur. Þeir áttu svo margt sameiginlegt. Enda borgin að stefna í gjaldþrot.
Það var einmitt Jón Gnarr sem átti þá hugmynd að fara með smáborgarstjóraembættið í útrás og slíta sambandinu við Moskvu fyrir að brjóta á réttindum samkynhneigðra. Hann sendi umvöndunarbréf til Moskvu en var ekki svarað. Lengra náði það ekki.
Ekki veit ég hversvegna hann sendi ekki svipað bréf til Saudi-Arabiu, Írans og annarra múslimaríkja en þessi hugmynd hans var semsé kveikjan að þeirri vanhugsuðu ruglsamþykkt sem núverandi meirihluti var að draga til baka.
Þó að Jón hafi ekki náð að slíta sambandinu við Moskvu fyrir að brjóta á réttindum samkynhneigðra þá bætti hann og Dagur úr því með því að gefa islamistum lóð undir mosku en einsog allir vita þá eru samkynhneigðir í hávegum hafðir meðal islamista. Aðeins femínistar og geitur eru hærra skrifaðar.
Kröfurnar sem vinstrimenn gera til borgarstjóra síns, hvort sem hann heitir Jón Gnarr eða Dagur Bé eða Klúsó eða eitthvað annað, eru fyrst og fremst þær að hann kunni að viðurkenna allt sitt klúður, glópsku, dómgreindarleysi, aulaskap, fúsk og fáfræði, og kunni jafnvel líka að biðjast afsökunar á afglöpum sínum í starfi. Ef hann kann þetta tvennt, og jafnvel ekkert annað, þá er hann virkilega góður og mikilhæfur borgarstjóri í þeirra augum. Mikill leiðtogi og stjórnvitringur. Jafnvel hetja.
Ef mistökin eru vel meint þá þykja þau ókei. Ruglið þarf að vera sett fram af góðum hug, einsog Dagur orðaði það. Það er nefnilega hugurinn á bak við klúðrið sem skiptir máli. Svo þegar maður er búinn að fokka öllu upp þá á maður að segja einsog Saxi læknir, kollegi Dags og fyrirmynd í mörgu:
Æjæ, þarna skar ég aðeins of djúpt. Ég er búinn að stórskemma skurðarborðið. En þetta var ekki mér að kenna. Sjúklingurinn hreyfði sig of mikið, enda ódeyfður. Huhu. Afhverju horfa allir svona á mig? Ókei þá, ég gerði smá mistök. En þið hefðuð örugglega ekki gert þetta betur. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftirá. Huhu. Afhverju horfa allir ennþá svona á mig? Jæja þá, sorry, ef ykkur líður betur með það.
Svona á að gera þetta. Þetta er það sem góður stjórnmálamaður þarf að kunna: Að klúðra hlutunum, játa klúðrið og biðjast afsökunar á klúðrinu. That´s it.
Dagur er búinn að gera þetta þrennt samviskusamlega og því eru alveg hverfandi líkur á því að hann muni segja af sér. Ekki nema að fylgi hans sjálfs eða Samfó færi niður í mínus-tölu, semsé undir frostmark og færi að nálgast helkul. Þá myndi hann hugsanlega þurfa að brjóta grýlukerti af oflæti sínu og láta losa sig úr stólnum með logsuðutæki.
Líka ef það kæmi í ljós að það væri nú eitthvað meira en lítið bogið við þetta allt og að hann væri með óhreinan maðk í pokahorninu og að það væri mjöl í mysunni, svo maður sletti nú smá vigdísku.
Það þarf nefnilega ekki að vera að allar krullur séu komnar til grafar.
Ef maður færi fram á það með mikilli eftirfylgni og og hávaða og látum að hætti vinstri öfgamanna að Dagur segði af sér og pakkaði saman ekki seinna en strax þá myndu mótrök vinstrisinnaða góða og gáfaða fólksins með réttu skoðanirnar vera eitthvað á þessa leið á bloggsíðum og kommentakerfum samfélagsmiðlanna, einsog ævinlega í öllum málum:
Hei þú þadna fávitynn þynn, voru sjallar eyttkvað betry þegar þeyr voru í meyrihluta í borgynni, ha? Svaraðu því hellítis rasystinn þynn. Ertu búinn að gleima Hönnu Byrnu? Og var það ekky Davýð Oddson sem samþygti að troða okkur í Ýrakstríðið? Ha? Var það eyttkvað betra? Það ætti nú bara að leggja Sjallaflokkin nyður.
Ég skal bara seija þér það að krystni er sko ekkert betry en ýslam ef þú heldur það djös úddlendingahatarynn þynn, eða ertu kansky búinn að gleima krozzferðonum og öllu þvý? Ha? Akkuru má ekky hleipa 50.000 flóttamönnum til lansins? Þetta er bara fólk eins og við. Sástu ekky mindyna af druknaða sírlenska stráknum í fjörunny? Ha? Fynst þér það ekki næg ástæða tyl að Evróba opny landamæry sýn uppá gátt og bjóði 5 miljónnyr flóttamanna velkommna frá Myðausturlöndum og Afrýku og Öfganistan og Albanýju? Ha? Þú ert bara fullur af mannvonsku og mannhatry. Þú ert bara badnamorðyngi. Það er málið. Ertu einkver sjalli djösins nasystinn þynn? Eða ertu kansky giðingarottusleikja með íslamófóbíu hellítys rasystadjöfullynn þynn? Ha? Eða ertu kansky í frammsóknarfloknum? Þú hlítur að vera sona þjóðrembusvýn sem kant þjósönginn og Öxul við Árna og alt það og elskar Ýsland. Vynnuru á Údvarpi Sögu eða kvað? Þyð eruð bara óumburðarlint og fordómafult pakk og vont fólk með ógisslegar skoðannyr og það ætti að drepa ikkur öll.
Jæja. Það er blessuð blíðan.
Mikið er ég nú feginn að vera almennilegt illmenni með rangar skoðanir á öllum hlutum.
(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. september 2015).
Greinargerð tillögu verði felld úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 10.5.2020 kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
22.9.2015 | 14:52
Stuðningur skýjaborgarstjórans við Hamas
Ég efast um að hin mannúðlega stuðningstillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur við Hamas hryðjuverkasamtökin verði í heild alfarið dregin til baka af borgarstjórnarmeirihlutanum í dag því að í því fælist vottur af skynsemi. Líklegra er að hann dragi hana til baka með einhverjum fyrirvörum og viljayfirlýsingum um faglegt áframhaldandi þráhyggjurugl eða komi hreinlega með nýja og "betrumbætta" sniðgöngutillögu og auki þannig enn frekar gríðarlegan skaðann sem hann hefur valdið.
Meirihlutinn, sem er skipaður Samfylkingunni, Bjartri framtíð, Vinstri græningjum og Pí-rötum, var svona líka glimrandi ánægður með þessa fáránlegu sniðgöngutillögu sína þann 15. sept. að hann mátti vart vatni halda af hrifningu þegar hann samþykkti hana og því hæpið að hann fari að draga allt í land núna og þar með í raun játa að hann sé gjörsamlega dómgreindarlaus og ekki stjórntækur og varla í húsum hæfur.
Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur sýnt það frá upphafi að hann hefur aldrei kunnað að hlusta á sér vitrari menn (sem eru ansi margir) og leita ráða hjá öðrum en sjálfum sér. Virðist elska lýðræðið meira með vörunum en hjartanu og vera alveg ónæmur fyrir skynsamlegu viti og rökum.
Maður hefur séð þetta í flugvallarmálinu, gatnaþrengingarmálum, byggðaþéttingarmálum, miðbæjarskipulagsmálum, sjúkrahússtaðsetningarmálinu og reyndar í öllum hans illa grunduðu eyðileggingarmálum og í ofanálag eru fjármálin að sjálfsögðu ein rjúkandi rúst og velferðarkerfi borgarinnar í algerðu hakki, eftir því sem Björk velferðarsérfræðingur segir sjálf.
Það aftrar Degi samt ekki frá því að heimta fleiri flóttamenn í borgina sína, lágmark 500, þó það sé þriggja ára biðtími eftir félagslegum leiguíbúðum fyrir Íslendinga.
Meirihlutinn veður áfram í botnlausum sjálfsþótta og blindni einsog mannýgt naut og er gjörsamlega fyrirmunað að hugsa svo mikið sem einn leik fram í tímann. Enda elska vinstrimenn þetta fyrirbrigði.
Á fundinum sem haldinn verður í dag ætlar meirihlutinn að draga sniðgöngutillögu sína til baka sem gefur sterklega til kynna að hann ætli í fyrsta skipti að hlusta á rök og sjá að sér.
En mun hann leggja þessa tillögu alfarið á hilluna? Það held ég ekki. Það væri of skynsamlegt og lógískt. Hann mun líklega halda þessu máli til streitu því þrjóska hans, frekja, prinsipp, offors, einsýni og valdhroki er alveg á pari við ofurmannlega heimskuna.
Þeir munu viðurkenna, tilneyddir, að þetta sé jú bölvað klúður en það sé nú bara nokkuð mikið vit í þessu klúðri sem þurfi bara að útfæra aðeins betur. Með ómælisheimsku sinni, sem aldrei skyldi vanmeta, má búast við að þeir reyni að sljákka aðeins í eldhafinu sem þeir hafa kveikt, með því að blása á það en munu geyma til góða olíubrúsa í rassvasanum. Þetta eru jú óvitar.
Þó að flest ríki heimsins séu að fremja mannréttindabrot í stórum stíl og mörg þeirra að hernema landsvæði út og suður þá er það prinsipp borgarstjórnarmeirihlutans að horfa framhjá þeirri staðreynd og einbeita sér eingöngu að mannréttindabrotum Ísraela, þessu Gyðingavandamáli, sama þó að sniðgöngutillaga hans bitni eingöngu á Palestínumönnum og Íslendingum en sé að öðru leyti gjörsamlega gagnslaus og óendanlega vitlaus einsog hann sjálfur.
Degi B. Eggertssyni Utanríkisráðherra Reykjavíkurborgríkisins var falið að útfæra þessa vel meintu stuðningstillögu Bjarkar við Hamas hryðjuverkasamtökin og einsog við var að búast þá var útkoman að sjálfsögðu hroðalegt klúður, einsog Dagur B. hefur viðurkennt sjálfur. Ábyrgðin er hans, í orði - ábyrgðarleysið er hans, á borði.
Dagur segir að þetta hafi verið illa hugsað en vel meint en hafi ekki verið nógu vel undirbúið heldur gert í venjubundinni fljótfærni og heimsku, en Björk Vilhelms, hin gamla og góða vinkona Hamas, segir hinsvegar að þetta hafi verið í undirbúningi í heilt ár með lögfræðingum og innkaupastjórum og öllu tilheyrandi.
Ómögulegt er að segja til um hvort þeirra sé að hagræða sannleikanum þvi bæði eru þau jú sannir samfíósar.
Mætir lögfræðingar hafa bent á að þessi vafasami gjörningur borgarstjórnarmeirihlutans sé ekki í þágu Palestínumanna þegar upp er staðið heldur eingöngu Hamas hryðjuverkasamtakanna. Djörk Vilhelms verður svo náttúrulega fagnað sem gríðarlegri hetju þegar hún kemur ríðandi á asna inní Palestínu og fer að vinna þar að góðgerðarmálum í góðu yfirlæti eftir þetta vel heppnaða illvirki í borgarstjórn.
Dagur ábyrgðarmaður hlýtur að samfagna henni enda sá hann um útfærsluna á tillögu hennar sem heppnaðist svo vel að allir Gyðingar heimsins hugsa okkur nú þegjandi þörfina og eru þegar farnir að sýna það í verki svo um munar. Orðspor landsins og markaðir og viðskiptasambönd út um allan heim allt á leiðinni niður í holræsið. Skaðinn líklega ómælanlegur einsog heimskan sem bjó að baki þessari ákvörðun.
Eini skaðinn sem Dagur hefur áhyggjur af er skaðinn sem meirihlutinn hefur orðið fyrir. Annan skaða sér hann ekki. Í gær sagði hann í viðtali á Rás 2:
Ég held að þetta mál hafi verið sett fram af góðum hug til þess að undirstrika áherslu borgarinnar á mannréttindi. Við stóðum hins vegar þannig að því að það skaðaði bæði þann málstað og ég held að það hafi skaðað meirihlutann og það er bara eitthvað til að horfast í augu við finnst mér. Ég held að það skipti bara mjög miklu máli þegar við vinnum þetta mál áfram að við gerum það þá betur og með því þá endurvinnum við hugsanlega eitthvert traust.
Skaðinn sem hann og meirihlutinn hefur valdið þjóðinni er honum víðsfjarri og virðist ekki skipta hann neinu máli. Hann sér bara rétt útfyrir nefið á sér. Sérhagsmunir eru honum efst í huga en ekki þjóðarhagsmunir. Í þessu viðtali kemur það einmitt fram að hann virðist ekki ætla að stoppa í sínu óráðsrugli heldur vinna þetta mál áfram og betrumbæta óhæfuverkið og gefa aðeins í og það heldur hann að sé allra sniðugasta leiðin til að endurvinna traustið.
Halló! Er einhver heima?! Í hvaða heimi lifir þessi skýjaborgarstjóri? Í loftkastalanum sem hann ætlar að byggja þessar 3000 íbúðir sínar? Meiraðsegja geimfarar eru í meira jarðsambandi en hann. Svona afglapar hreinlega verða að fara í ævilangt frí frá mikilvægum ábyrgðarstörfum. Hann hlýtur að geta orðið formaður Samfylkingarinnar eða eitthvað svoleiðis. Og meirihlutinn sem samþykkti þetta þjóðarpungspark á að sjálfsögðu að fjúka með honum.
Þó það megi ekki minnast á landráð á Íslandi þá er hann nú samt ansi skemmtilegur landráðakaflinn í almennum hegningarlögum. 88. grein hljóðar svo:
Hver, sem opinberlega í ræðu eða riti mælir með því eða stuðlar að því, að erlent ríki byrji á fjandsamlegum tiltækjum við íslenska ríkið eða hlutist til um málefni þess, svo og hver sá, er veldur hættu á slíkri íhlutun með móðgunum, líkamsárásum, eignaspjöllum og öðrum athöfnum, sem líklegar eru til að valda slíkri hættu, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Þetta er áhugaverð lesning en það er náttúrulega ekkert farið eftir þessu. Þetta er dauður bókstafur. Jafnvel þó borgarstjórnarmeirihlutinn yrði dæmdur þá væri hann ekki sakhæfur. Þetta eru óvitar. Plöntur.
Kom vangaveltum á framfæri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)