Að geta haft lyst á listarleysi

BítlarnirFyrir skömmu var mér boðið á Sgt Peppers „Bítlatónleika“ í Háskólabíói. Um var að ræða dæmigerða íslenska eftirhermutónleika með Jóni gróða Ólafs og öllum hans Bítla"vinum." Ég afþakkaði að sjálfsögðu „gott“ boð, einfaldlega vegna þess að ég er Bítlaaðdáandi. Fólki þótti hinsvegar mjög fýsilegt að borga ca 10.000 kall fyrir að horfa á íslenska eftirapa stæla Bítlana í stað þess að hlusta á Bítlana sjálfa inní stofu. Þetta skrípó var flokkað sem „menningarviðburður“ en er allsstaðar í heiminum, nema á Íslandi, flokkað sem tíunda klassa ómenningarviðbjóður og er fluttur á krám og í sirkustjöldum.

Eftirapar

 
Þarna var ekki verið að reyna að túlka eitt eða neitt eða verið að gera hlutina eftir sínu höfði hvað varðar útsetningar og slíkt heldur var einfaldlega verið að reyna að kópíera Bítlanna út í hörgul. Það vill svo til að flutningur Bítlanna er til á plötum og hvað þarf maður þá að vera á lágu plani til að reyna að stæla þá á stórtónleikum og hvað þarf maður að vera á lágu plani til að sækja svona eftirhermuprumphænsnapíp?

 

                             Eftirapar 

 

HELP!

 Aðeins einn hópur fólks gerir minni kröfur en íslenskir tónlistareftirapar og það eru íslenskir hlustendur. Þeir klæða sig upp í sitt fínasta púss og hlusta á eftirapana andaktugir í virðulegum tónleikasal. 

Þegar ég hugsa um hina gríðarlegu eftirspurn Íslendinga eftir kópíeringaskrani þá get ég ekki annað en tekið undir með Bítlunum: HELP!

 

 

 

(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 19. apríl)

 

Minni svo á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna" á Útvarpi Sögu 99.4 sem er í dag milli 16:00 og 18:00. Gestur þáttarins verður sviðsleikarinn góði og klifurmúsin Árni Tryggvason. Það verður gaman að heyra í þessum skemmtilega "sviðakjamma."  Fyrri þætti má finna á www.stormsker.net 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Linda litla

Heyr Heyr.... tek undir með þér Stormsker. Góður pistill..

Linda litla, 23.4.2008 kl. 08:40

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ekki heyrði ég ósköpin, enda 3000 kílómetra í burtu. Sem sagt, töluvert nær Paul en tónleikunum, nema hann sé ennþá að þvælast í New York.

Annars mæli ég bara með því að fólk bíði eftir að hann fari aftur á túr. Sagðist myndu gera það eftir að skilnaðurinn væri frágenginn. Ég sá hann fyrir 3-4 árum og hann kom mér asskoti mikið á óvart. Ég bjóst við allt í lagi hjali, en fékk kraftmikla og virkilega flotta upplifun. Hann spilaði auðvitað ekki I am the Walrus, en hver bjóst svo sem við því. Something á ukelele var skemmtilegt þó.

Villi Asgeirsson, 23.4.2008 kl. 09:11

3 Smámynd: Gulli litli

Yeh yeh yeh....ohhhhhhhhh

Gulli litli, 23.4.2008 kl. 11:33

4 identicon

Það væri hægt að toppa þetta rugl með að hafa merzedes sem desert

DoctorE (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 12:27

5 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Þetta er alveg rétt hjá þér.

Guðjón H Finnbogason, 23.4.2008 kl. 13:28

6 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 23.4.2008 kl. 18:16

7 Smámynd: Bárður Örn Bárðarson

Kannski er þetta bara ein tegund af masokisma og menn til í að borga 10.000 kall fyrir kvalræðið.

Bárður Örn Bárðarson, 23.4.2008 kl. 18:39

8 Smámynd: Steingrímur Helgason

Mér er alveg sama hvað þú suðar & segjir.

Ég ætla samt að halda 'kvalakvöld með Sverri' bráðlega.

Til styrktar hvalveiðum & fínum melódíum þínum, með söngrödd minni & sérlega persónulegu undirspili af gömlum Roland E-86 & einum fínum jafngömlum Stratócaster.

Gef þetta út á diski fyrir jól, & húkka upp hjá þér SLEF gjöldin.

Hvað gerir mar ekki fyrir gamla félaga frá Íngólfsbillanum hans Özza ?

Steingrímur Helgason, 24.4.2008 kl. 00:54

9 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hjálp hvað? Það vita allir að þér er ekki við bjargandi.

Happy Summer

Gleðilegt sumar, yndislegi vinur!

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 24.4.2008 kl. 10:45

10 Smámynd: Jón Ólafsson

Sæll Sverrir minn. Mér finnst nú Pepperinn með rokksveit og Sinfó ekki alveg sambærilegt við Villa Vill dæmið í Salnum. Þar er verið að "heiðra" söngvara og ég er alveg sammála því að þar eru menn á mjög vafasömum slóðum. Hefði Villi verið höfundur mikilla tónverka þá hefði þetta verið allt annar handleggur í mínum huga. Hinsvegar finnst fólki finnst gaman að fara á tónleika. Mörgum finnst meira að segja gaman að heyra listamenn flytja músík sem þeir hafa ekki samið sjálfir (þ.e.a.s. listamennirnir). Og enn fleirum finnst skemmtilegra að fá tónlistina beint í æð á tónleikum. Bítlarnir, Bach, Beethoven? Þetta er auðvitað allt sama tóbakið og ekkert athugavert við það þó söngvarar og hljóðfæraleikarar fái kikk út úr því að leika þessa frábæru tónlist. Útsetningarnar þetta kvöld voru allt saman glænýjar og enginn var að kópíera Bítlalögin frá A-Ö. Þú hefðir auðvitað fattað það ef þú hefðir látið sjá þig. Þú fullyrðir þó að um tómar eftirhermur hafi verið að ræða. Finnst þér KK þá svona líkur Ringo í röddinni eða?? Ég hugsa að þér þætti gaman að heyra góða músíkanta flytja þitt efni við bestu aðstæður...Mér fyndist það altjent bara skemmtilegt í þínum sporum. Sá þetta röfl þitt á baksíðu 24stunda og fann mig knúinn til að senda þér línu. Jón "gróði" er viðurnefni sem ég skil ekki alveg. Ekki frekar en Jón "góði" - álíka óviðeigandi. Á þessum tónleikum var ég einfaldlega í vinnu hjá tónleikahaldaranum við að spila á píanóið. Þú getur alveg eins kallað Sigrúnu Eðvaldsdóttur, konsertmeistara, álíka nafni ef þig lystir. Tónleikahaldarinn skít-tapaði á dæminu og vonandi er þér einhver huggun í því. Það er oft gaman að lesa það sem þú skrifar en ekki gleyma að það má stundum horfa á björtu hliðarnar. Vegni þér sem best og hlakka til að heyra næsta diskinn þinn.

Jón Ólafsson, 24.4.2008 kl. 11:15

11 identicon

Ég hlustaði á þáttinn ykkar í morgun ... ... algjör snilld

Maddý (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 15:12

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri frændi og bloggvinur: Takk fyrir veturinn og gleðilegt sumar

Sigurður Þórðarson, 24.4.2008 kl. 15:41

13 Smámynd: Davíð S. Sigurðsson

Gleðilegt Sumar kæri Sverrir, við nátthrafnarnir þurfum að undirbúa okkur andlega og standa saman í eilífðarljósi sumarsins

Davíð S. Sigurðsson, 24.4.2008 kl. 16:22

14 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Kæri Jón, takti ekki þetta litla viðurnefni frá Sverri nærri þér, þetta er með því allra saklausasta sem ég hef séð til hans. Hann uppnefnir alla og ef að við tæknum það nærri okkur þá sæti hann nú aleinn og einmana í kastalaturninum með Túborginn sem sinn eina vin. Túborgurum er nefnilega skítsama hvað þeir eru kallaðir.

En kvikindislegur kvalalosti hans gagnvart vinum sínum og vandamönnum er alræmdur, en Sverrir er bara svo vel gefinn og guðum líkur að því leyti, að hann leggur yfirleitt ekki meira á fólk en hann veit að það getur tekið án langra innlagna. Ég skal nefna þér eitt lítið dæmi af milljónum sem við eigum um okkar yndislega master í spælingum:

Sverrir var svo sætur að taka það að sér að spila fyrir mig brúðarmarsinn auk fleiri flottra laga í brúðkaupinu mínu. Hann er nefnilega með gegnheilt gullhjarta og betri vinur er vandfundinn. Allt var með elegans í Bláa lóninu og dagurinn þrunginn rómatík og gleðitárum (sennilega yfir því að ég gekk loksins út, því ég sá hvað mömmu var létt). En þarna var ég sem sagt í glæsilega brúðarkjólnum mínum sem ég hafði látið sérsauma af kínverskum kjólameistara, með margra metra slóða og og viktorísku krínolínií undir snjóhvítum kjólnum. Í hamingjuvímu yfir að hafa loks kysst prins sem hélt áfram að vera prins eftir kossinn, stóð ég stolt við hlið míns hugrakka eiginmanns og leið eins og ævintýraprinsessu meðan ég tók við hefðbundnum komplímentum vel uppalinna gesta fyrir að vera falleg brúður í glæsilegum búningi. Sverrir tók undir hrós hinna og sagði nógu hátt il að allir  heyrðu: Glæsilegur kjóll! Hvað ætli þú kæmir mörgum af þínum fyrrverandi þarna undir?! 

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 24.4.2008 kl. 17:27

15 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sæll Jón minn Ólafsson. Langt síðan ég hef heyrt í þér. MJÖG langt síðan. Við vorum helvíti góðir vinir en ég móðgaði þig víst eitthvað fyrir 20 árum eða svo og það er gott að þú skulir vera farinn að heilsa mér aftur. Vildi óska að fýlan væri svo fljót að fara úr Megasi. Þetta verður líklegast langt opið bréf til þín, eða svar öllu heldur. Ætla að gera athugasemd við athugasemd þína:

 

Fyrir það fyrsta þá var ég ekki að bera saman Pepperinn og Villa Vill „heiðrunartónleikana.“ En endurvinnsla og eftiröpun er alltaf endurvinnsla og eftiröpun. Það er ekki eðlismunur á þessum vibbum heldur stigsmunur. Bein eftiröpun í tónlist er neðsta þrepið og það ætti ekki að þurfa að ræða það neitt frekar þó það sé eitt af þínum aðal djobum. Ef einhver hoppar einsog froskur, er grænn einsog froskur, er með augu einsog froskur, ropar einsog froskur og bragðast einsog froskur, þá er hann ekki gíraffi, - heldur definitely froskur. Ekki flóknara en það.  

 

Þú segir að menn séu á „mjög vafasömum slóðum“ þegar þeir taka upp á því að „heiðra“ söngvara einsog Villa Vill með þessum hætti. Að sjálfsögðu eru þeir það. Ef þú ert meðvitaður um þetta hversvegna varstu þá að „heiðra“ Rúnar Gunnarsson og fleiri söngvara og lagasmiði til helvítis á sínum tíma með því að kópíera lög þeirra á plötunni „12 íslensk bítlalög“ með Bítla“vina“félaginu þínu? Þessi skelfilega plata ykkar er t.d. búin að gjörsamlega steindrepa hinn frábæra og áður látna tónlistarmann Rúnar Gunnarsson. Maður heyrir hann ekki lengur í útvarpinu syngja lög sín, t.d. „Gvendur á eyrinni“ og „Það er svo undarlegt með unga menn“ heldur Eyjólf Kristjáns Bítla“vin.“ Gaman gaman. Þetta hræðilega Bítla“vina“félag breytti ekki tóni í undirleiknum heldur kópíeraði lögin alveg uppá hár og þið hélduð meiraðsegja málfræðivillum textanna. Svo nákvæm var „heiðrunin.“ Menn komast nú ekki mikið neðar Jón minn. Meiraðsegja Helvíti er fyrir ofan. Það eina sem þið gerðuð raunverulega var að gaula yfir söng Rúnars Gunn. „Heiðruðuð" hann burt úr útvarpinu. Og þannig fóru fleiri talentar í  hundskjaft í ykkar meðförum. Þetta veistu náttúrulega, klár strákurinn. Fannst ykkur þið virkilega ekki vera neitt á „vafasömum slóðum“ einsog þú orðar það, þegar þið Bítla“vinir“ voruð uppfyrir haus að „heiðra“ íslenska bítla með því að syngja yfir þá og „heiðra“ þá burtu úr útvarpinu? Það hreinlega hlýtur að vera, en það er aðallega eitt sem er fært um að parkera listrænum metnaði og það er hugsun um peninga, - gróða. Þannig er það nú minn gamli vin, Jón gróði.

 

Plötusnúðar útvarpsstöðvanna tóku og taka ennþá þátt í dellunni með því að spila nýjustu eftiröpunarútgáfur laganna í tætlur, sem þýðir það að orginallinn hverfur. Gufar upp. Heyrist ekki meir. Og Bítla“vina“félagið varð að sjálfsögðu gasalega vinsælt - á kostnað margra okkar bestu tónlistarmanna. Þetta heitir ekki að vera alæta á músík. Þetta heitir að vera afæta á músík. Þetta veistu náttúrulega líka. Létta leiðin til gróða. Þessvegna varstu nú að þessu. Business. Gróði. Money Money Money. Always funny og allt það. Þessvegna kallaði ég þig ekki Jón góða heldur Jón gróða.

Mjög Mjög Mjög stór hluti af þínum tíma sem tónlistarmanns hefur nefnilega farið í það að endurvinna annarra manna tónlist og menn standa ekki í slíku raðrúnki af listrænni hugsjón heldur af gróðahugsjón. Það segir sig nú nokkurnveginn sjálft er það ekki? „Einhvernveginn verða menn að vinna fyrir sér“ og allt það mambó.

 

Sjálfur ber ég það mikla virðingu fyrir listagyðjunni að ég myndi ekki kunna við að taka hana í fjósið. Ég hef í örfáum tilfellum breytt annarra manna textum og skrumskælt þá, uppá spaugið að gera, snúið þeim jafnvel í andhverfu sína, en þá hef ég engaðsíður verið að skapa, - hef ekki verið að stæla, drepa og jarða aðra tónlistmenn í leiðinni. Eingöngu verið að skapa. Eistaka sinnum umbreyta. Þetta hafa öll þokkaleg skáld gert, hvort heldur ljóðskáld eða tónskáld. Eftirapar vilja helst ekki standa í svoleiðislöguðu. Það er nefnilega svo miklu auðveldara að fara breiða veginn og klifra upp eftir bakinu á einhverjum vinsælum látnum listamönnum og kyrja lög sem fólkið þekkir. Gott dæmi um þetta er þegar Guðrún Gunnars gerði heila plötu með lögum sem Ellý Vilhjálms hafði gert fræg. Platan seldist að sjálfsögðu í skipsförmum hér á smekklausum klakanum enda þekktu allir lögin. Allt var þetta að sjálfsögðu gert undir yfirskyni „heiðrunnar.“ Það er varla til sá söngvari íslenskur sem hefur ekki leikið þennan hrútleiðinlega og nauðaómerkilega leik. Ég á þetta reyndar eftir og geri þetta eflaust þegar ég er orðinn andlaus og steingeldur. Ég er náttúrulega meingallaður apaköttur einsog ég hef alltaf sagt, en ég held ég láti þetta eiga sig. Ég myndi satt að segja frekar fara að flaka ýsur og gera við sprungna hjólbarða og sendast með pizzur.   

 

Hérna er vísa sem ég gerði kornungur:

 

Ég endurtek mig aldrei

og eigin leiðir fer.

Ég er aðeins undir

áhrifum frá mér.

 

Þessi vísa er náttúrulega ekki alsannleikur en það er margt til í henni. Þú mættir gjarnan reyna að tileinka þér eitthvað af henni. Hvað ungur temur gamall nemur.

 

Ég fór að sjálfsögðu ekki fögrum orðum um þessa plötu ykkar Bítla“vina“félagsmanna þegar hún kom út. Kallaði ykkur  músíkmorðingja, skiljanlega, og síðan þá hefur þú ekki heilsað mér á götu kallinn minn. 17 – 20 ár síðan. Samt bar þessi krítikgrein mín yfirskriftina: „Sá er vinur er til vamms segir.“ Allt var rétt sem í grein minni stóð þó ég hafi kannski sumstaðar kveðið full fast að orði til að skerpa línurnar. Þessi langrækni þín og afneitun á grjóthörðum staðreyndum er ástæða þess að þú bauðst öllum tónlistarmönnum landsins í margrómaða viðtalsþætti þína í Ríkissjónvarpinu, nær hverjum og einum einasta hljóðfæraeiganda landsins, öllum nema mér sem þú hafðir samt látið þau orð falla um nokkrum árum áður að væri „séní í lagasmíðum.“  Þakka þér það hól. Örugglega rétt hjá þér.

En bara afþví ég hafði móðgað þig með þokkalegri hreinskilni og beinhörðum staðreyndum fyrir hartnær 20 árum þá kynntirðu í þætti þínum í Ríkissjónvarpinu alla aðra tónlistarmenn en mig, sem er náttúrulega soldið broslegt með tilliti til fallinna orða þinna um mig sem lagasmið. Gott ef Valdi koppasali og Jói á hjólinu mættu ekki til þín líka. Voru þetta fagleg vinnubrögð hjá þér? Nei, varla. Með þessu settirðu RÚV á ansi grátt svæði því það er ekki gert ráð fyrir mismunun í þessum dúr í útvarpslögum.

 

Víkjum aðeins að Bítlaeftirhermutónleikunum í Háskólabíói sem þú tókst þátt í af fullum krafti. Þú segir: „Bítlarnir, Bach, Beethoven. Þetta er auðvitað allt sama tóbakið.“

Nei Jón minn. Þetta er ekki allt sama tóbakið. Þetta er allt saman misskilningur hjá þér. Ég skal skýra út fyrir þér ástæðuna:  Flutningur Bítlanna er til á plötum, ekki flutningur Bachs og Beethovens og þessara kalla. Einfalt. Bítlarnir eru þekktir sem flytjendur ekkert síður en sem lagasmiðir, en ekki er nú hægt að segja það um Bach og Beethoven og þá ágætu sveppi. Þessvegna hlustar nú venjulegt smekkvíst fólk frekar á Bítlana sjálfa en eitthvað Top of the Flops eftirhermudjönk. Hvaða óbrjálaður maður hefur ekki meira gaman af því að hlusta í Bítlana sjálfa flytja sín góðu lög en Eyjólf Kristjáns og einhverja svoleiðis dúdda þó þeir séu fínir fyrir sinn hatt? Svar: Öll heimsbyggðin, allir nema Íslendingar. Íslendingar dýrka þetta kópíeringaskran.

 

Auðvitað er allt í lagi að gaula bítlalög á pöbbum og hingað og þangað en það að rammstæla þá í virðulegu „menningarsetri“ með aðstoð heillrar Sinfoníuhljómsveitar er eitthvað svo grátlega tilgangslaust, andlaust, marklaust, smekklaust, metnaðarlaust og vitlaust að það tekur eiginlega engu tali. Tilhvers að standa í þessu þegar það er búið að gera þetta eins vel (á fáanlegu formati) og hægt er að hugsa sér? Halda íslenskir söngvarar að þeir séu betri en Lennon og McCartney? Ef þeir fatta að þeir komast ekki með tærnar þar sem þeir hafa hælana tilhvers eru þeir þá að þessu? (Money money money). Eru þeir að varpa einhverju nýju ljósi á verkið? Nei. Eru þeir að búa til nýtt listaverk úr listaverkinu? Nei. Eru þeir að gera þetta betur en frumflytjendurinir? Nei. Fariði þá að semja sjálfir eða vinna við eitthvað annað. Einfalt mál.

 

Dæmi um verulega vel heppnaða endurvinnslu er t.d. „Oh So Quiet“ með Björk. Hún umskapar þetta gamla lag án þess að fokka upp melódíunni. Býr til nýtt verk úr verkinu. Gefur því splunkunýjan stíl og sjarma. Það má segja að hún betrumbæti frumútgáfuna og slíkt er Afskaplega sjaldgæft. Auðvitað voruð þið ekki að gera það með þessu bítlastrokki ykkar. Þið hljótið að skilja þetta. Þetta er nú ekkert gasalega flókið er það?

 

Þessir „Bítlatónleikar“ í Háskólabíói voru hæpaðir upp sem eitthvert menningarundur en voru ekki annað en ómenningarglundur, - ómenningarviðundur. Grænustu froskarnir bitu að sjálfsögðu dáleiddir á agnið og skelltu sér í smóking og brunuðu með sinni heittelskuðu halakörtu á svæðið, þótt ótrúlegt megi virðast. Í rauninni hlálegt. Þú myndir skilja þetta kúturinn minn ef þú værir ekki svona djúpt sokkinn í eftiröpunarbransann.  

 

Þú spyrð: „Finnst þér KK svona líkur Ringó í röddinni eða...?“

Auðvitað syngur hver með sínu nefi. (Hver vill svosem vera með nefið hans Ringós?) Ég heyrði þennan konsert ykkar í gemsa hjá vini mínum og það fór ekki á milli mála að það var verið að stæla útsetningar Bítlanna alveg í botn. (Nennti að hlusta á örfá lög). Þetta var í raun ekkert annað en karíókí. Dýrt karíókí. Mjög dýrt karíókí. En samt cheap. Mjög Cheap. Auðvitað var þetta ekki „menningarviðburður“ einsog auglýst var heldur hreinn og klár ómenningarviðbjóður. Það var eins lítið menningarlegt við þetta og hægt er að hugsa sér.

 

Frábær hljómsveit einsog Sinfoníuhljómsveit Íslands á auðvitað ekki að koma nálægt svona ömurð. Ekki þú heldur Jón minn. Ekki KK heldur. Ekki heldur minn gamli vin Stebbi Hilmars. ENGINN. Og ENGINN maður með snefil af smekkvísi ætti náttúrulega að láta sjá sig á svona tónleikum, nema þá mígandi drukkinn með æluna niðrá bringu, steinsofandi.

Og enginn smekkvís maður lætur hvarfla að sér að kaupa kópíeringaplötur, en þær eru nátturulega rifnar út úr verslunum hér á Los Klakos. En ekki hvað!  

 

Mér virðist Íslendingar vera afar ginkeyptir fyrir svona drasli. Var ekki uppselt á Eagles eftirhermutónleikana líka? Finnst þér virkilega ekki vera komið nóg af þessu kópíeringanonsensi sem þú áttir þinn þátt í að innleiða markvisst? Finnst þér ekki að það mætti fara að hífa tónlistar“lífið“ uppá örlítið hærra plan hér á Los Klakos? Allavega að reyna að blása lífi í líkið?“ Farðu þá að gera eitthvað af viti kúturinn minn og hugsa soldið sjálfstætt.

Hlakka til að heyra næsta frumsamda efni sem þú kemur með. Vona að það verði ekki Hard Days Night, Part 2.  Bestu vinarkveðjur.

Gestum þakka ég vinsamleg komment.

Sverrir Stormsker, 24.4.2008 kl. 21:04

16 Smámynd: Gulli litli

Thad væri óneitanlega gaman ad geta skrifad svona og mikid djö.. er ég sammála..

Gulli litli, 24.4.2008 kl. 22:32

17 Smámynd: Jón Ólafsson

Hæ Sverrir. 12 íslensk Bítlalög er slæm plata, ég er þar alveg sammála. Hugsa ég myndi ekki gera svona nokkuð í dag. Annars var þetta flott og skemmtilegt bréf frá þér. Læt alveg eiga sig að munnhöggvast frekar við þig - bréfin verða sjálfsagt bara lengri og lengri fyrir vikið. Þú segir ég hafi ekki heilsað þér í 17-20 ár sem er auðvitað alrangt. Held ég hafi hitt þig á einhverjum FTT fundi fyrir nokkrum árum. Kom þá til þín og tók í hendina á þér...Hef svosem ekki séð mikið af þér. En ég er ekki jafn langrækinn og þú vilt meina. Lífið er of stutt til þess. Farnist þér vel í öllu þínu.

Jón Ólafsson, 24.4.2008 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband