Hver er glataðasti fjölmiðill ársins?

 

Það er hæpið að setja alla íslenska fjölmiðla undir sama hatt og afskrifa þá alla sem vonlaust rusl. Íslenskir fjölmiðlar er misvonlausir einsog annað rusl. Þeir eru flestir mjög sérhæfðir. Sumir hafa sérhæft sig í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína, aðrir í mannorðsmorðum og aðrir í hvortveggja o.s.fr. Enginn þeirra hefur ráð á kröftugri rannsóknarblaðamennsku, en kannski vantar ekki bara peninga heldur líka metnað og krítíska hugsun.

Þótt Agnes Bragadóttir hjá Mogganum sé ekki óskeikull dýrðlingur þá hefur hún engu að síður verið meira vakandi og unnið þarfara starf undanfarna mánuði en samanlagðar eftirlitsstofnanir landsins frá upphafi, og það væri óskandi að fleiri væru með svona gott nef.

Í Bandaríkjunum er frægur sjónvarpsþáttur sem kallast 60 mínútur en ég efast um að við Íslendingar gætum gert sambærilegan þátt sem héti 60 sekúntur.

Á flestum fjölmiðlum má ekki halla orðinu á einhverja tiltekna klíku, hvort heldur það eru ákveðnir auðmenn, stjórnmálaflokkur eða eitthvað þaðan af verra. Allir verða alltaf að tilheyra einhverju liði. Án þess að ég ætli að fara að leggja dóm á tiltekna fjölmiðla þá hafa tilaðmynda margir talað um Ríkissjónvarpið sem Bláskjá og að Björgólfsfeðgar njóti þar sérstakrar friðhelgi vegna vilyrðis sem þeir gáfu um 300 milljóna styrk, og aðrir hafa bent á að Bónusfeðgar njóti sérstakrar friðhelgi í DV, Fréttablaðinu, Bylgjunni, Stöð 2 og á Útvarpi Sögu. Hvað Útvarpi Sögu viðkemur þá hefur gomma fólks haft samband við mig og fullyrt að ástæðan fyrir því að síðasti þáttur minn með Jónínu Ben og Jóni Geraldi Sullenberger hafi ekki verið endurfluttur á kristilegum tíma þegar venjulegt fólk er vakandi sé sú að það megi greinilega ekki halla orðinu á Baug og Bónusfeðga á þessari ágætu útvarpsstöð. Ég hef svarað því til, einsog satt er, að ég hafi einfaldlega ekki hugmynd um ástæðuna fyrir þessu og beðið fólk um að hafa samband vð manneskjuna sem geti svarað þessu, Arnþrúði Karls.

Allskonar feðgar virðast vera í einhverju sérstöku uppáhaldi fjölmiðla. Á einni sjónvarpsstöðinni má t.d. ekki halla orðinu á himnafeðgana án þess að allt fari til helvítis.

Nú og svo eru fjölmiðlar sem sérhæfa sig sem plötusnúðar. Mörgum finnst t.d. stórskrítið að ríkið sé að reka diskótek einsog Rás 2 og hafa kvartað yfir því að Bubbi sé þar spilaður 10 sinnum á dag á meðan öðrum tónlistarmönnum, sem sumir hverjir eru jafnvel mun vinsælli, sé ýtt út af borðinu og fá ekki að heyrast. Það má allavega undrun sæta að Ríkisútvarpið, sem er með 3000 milljóna forskot á frjálsu fjölmiðlana, skuli þurfa að láta afskrifa skuldir og sé alltaf með allt í buxunum. Yfirbyggingin er greinilega allt of mikil og þar á bæ hlýtur hreinlega að viðgangast óhemju bruðl, sem sannar kannski kenninguna góðu um að menn fara betur með eigið fé en annarra.

Þó að fjölmiðlafrumvarpið hafi ekki verið alfullkomið frekar en önnur mannanna verk þá er dapurlegt að forsetinn, sem er í boði Baugs, skyldi hafa synjað því staðfestingar. Allt að því glæpsamlega vitlaust. Hefði þjóðin, sem er í boði Baugs, fengið að kjósa um þetta nauðsynlega frumvarp á sínum tíma þá hefði 90% hennar hafnað því vegna þess hún virtist gjörsamlega heilaþveginn af Baugsmiðlunum, og er kannski enn. Veit það ekki. Allavega held ég að þjóðin geti verið sammála um það að flestir fjölmiðlar hafi verið steinsofandi á gróðæristímanum (einsog hún sjálf) og þeir steingleymt að sinna hlutverki sínu, sem er að vera gagnrýnir á ríkjandi ástand og vera ávallt í sjórnarandstöðu.

Hér til vinstri á síðunni hef ég skellt inn þremur skoðanakönnunum þar sem ég spyr: Hvert er glataðasta dagblað ársins? Hver er glataðasta útvarpsstöð ársins? Hver er glataðasta sjónvarpsstöð ársins?   

(Fái einhverjir fjölmiðlar ekkert stig þá er það ekki endilega merki um það að fólki finnist þeir ekki glataðir heldur að því finnist aðrir fjölmiðlar ennþá glataðri).

Bloggfærslur 22. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband