Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Framsóknarmartröðin heldur áfram

absolut_idiot.jpgEkki byrjar siðbótin í Framsókn vel. Fyrst er Höskuldur lýstur formaður og svo Sigmundur nokkrum mínútum síðar. Hver verður það í kvöld? Guðni? Valdi koppasali? Ragnar Reykás? Hver sér um atkvæðatalninguna fyrir þessa dúdda? Inspector Clouseau? Hvernig er hægt að ruglast á nöfnum? Settu þeir Gísla Helgason flautuleikara í að yfirfara þetta? Hvað eru þessir svefngenglar að drekka sem við höfum ekki smakkað? Absolut Idiot?

Það er ekki að ástæðulausu að ég set þessa færslu undir "heilbrigðismál."

 

Ég veit ekki hvort ég eigi að samgleðjast Sigmundi eða samhryggjast. Jú reyndar, ég veit það. Hann er í skelfilegum málum. Þarna fór fín perla í svínskjaft. Ég sem hélt að það yrði eitthvað úr honum. Ég myndi eflaust kjósa Sigmund í persónulegri kosningu, en flokkinn og allt það fálkager sem honum fylgir mun ég að sjálfsögðu aldrei kjósa.

 

dunce_774056.gifÍ gær heiðraði þessi gjörspillti flokkur Guðna Ágústsson. Fyrir hvað? Að standa sem lambbúnaðarráðherra með bændamafíunni á móti neytendum? Fyrir ævisöguna þar sem var ekki minnst einu orði á gjafakvótakerfið sem flokkurinn kom á? Fyrir að segja af sér formennsku og þingmennsku? Fyrir góða veislustjórn í spillingarbælinu? Fyrir að flýja einsog fætur toguðu úr þættinum mínum? Hver á að skilja þennan flokk?

 

 

Jónína Ben vinkona mín heldur að það sé hægt að ræsta spillinguna úr flokknum. Í gær setti ég inná síðuna hennar þessa athugasemd:

"Að ætla sér að reyna að hreinsa spillinguna úr Framsóknarflokknum er einsog að ryksuga hús sem er gegnétið af veggjatítlum. Það verður að brenna kofann til grunna."

Þessi flokkur á álíka mikið erindi við þjóðina og minkur við hænsnabú.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir um Grey frá Gay til Gauðs

Asni.jpgÉg tek undir með Geir Hor: Það er svolítið gremjulegt að "ríkiskerfið" skyldi hafa klúðrað málunum pínulítið. Árið 2009 gæti orðið svona frekar óspennandi þó það séu reyndar "mjög spennandi tímar framundan hjá Sjálfstæðisflokknum," einsog Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir benti á fyrir stuttu í miðri kreppunni.

Einhverjir gætu hugsanlega misst aukavinnuna tímabundið og svo er ekki loku fyrir það skotið að einhverjir óaðsjálir lúðar í Breiðholti lendi í smá vandræðum með að borga af blokkarkompunum sínum og kannski að nokkrir þurfi að fara að borða nautasteikur í staðinn fyrir hreindýrafille. En þetta er ekkert sem þarf að hafa miklar áhyggjur af því við búum við styrka stjórn valinkunnra spesíalista.

 

fyrir_islenska_stjornmalamenn_772929.jpgÞað er rétt sem Geir segir að menn voru algerlega "óviðbúnir þegar fjármálaóviðrið skall á okkur." Aðeins nokkrir tugir innlendra og erlendra sérfræðinga höfðu varað ríkisstjórnina við mánuðum saman en þeir áttu það reyndar allir sameiginlegt að vera ómarktækir fávitar sem þurftu "á endurmenntun að halda," einsog Þorgerður Katrín orðaði það svo skemmtilega rétt fyrir hina svokölluðu "kreppu." Á sama tíma sagði Imba Solla: "Hér er engin kreppa," og hitti þar naglann á höfuðið einsog endranær.

 

Davíð Oddsson sagði við Geir á síðasta ári að það væru 0% líkur á að bankarnir myndu lifa af og í kjölfar þeirra orða voru settir nokkur hundruð milljarðar í að reyna að bjarga Kaupþingi. Einmitt. Geir segir: "Við töldum að Kaupþing myndi lifa þetta af, alveg fram á síðustu stundu." Samt voru 0% líkur á því samkvæmt orðum Davíðs. Niðurstaðan: 100% rugl.

Þó að maður skilji þetta ekki alveg þá hlýtur að vera eitthvað mikið vit í þessu öllu hjá okkar framsýnu ráðamönnum. Varla höfum við verið að kjósa yfir okkur einhverja asna! Svo er líka svo þægilegt að vita af því að ekki taka síðri proffar við eftir kosningar, semsé Vinstri græningjar. Þá fyrst byrjar nú gleðin og fagmennskan fyrir alvöru. Jibbííí!!!! Guð blessi Ísland.  

 

 


mbl.is Geir: Árið verður mjög erfitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fjandans með allar nýjar raddir

burt með tjáningarfrelsið.jpgHvaða helvítis froskar standa eiginlega að baki þessum "Nýju röddum?" Við eigum að halda áfram að láta Hörð Torfason einan velja fólk sem má tala á Austurvelli. Þannig hefur það verið í 15 vikur og þannig skal það verða áfram. Hörður heyrir raddir og við eigum að hlusta á hans raddir. Raddir hans eru raddir fólksins.

Mótmæli Harðar Torfa hafa skilað gríðarlegum árangri, t.d. kvefi og lungnabólgu fundargesta svo ekki sé nú minnst á hvað þetta er góð æfing í ræðumennsku og tilvalinn stökkpallur inná þing. Enda eru þeir Hörður og Einar Már og Njörður P. Njarðvík og fleiri rauðliðar að stofna stjórnmálaflokk upp úr þessum mótmælum.

Geta þessar Nýju raddir ekki drullað sér eitthvað annað? Viljum við virkilega óheft tjáningarfrelsi? Viljum við virkilega að hver sem er geti tjáð sig niðrá Austurvelli á laugardögum kl. 3? Á ég að trúa þessu?! Ég meina, viljum við almennilegt fasistaríki eða ekki? Sjá menn ekki hvílíkt glapræði það er að hafa opinn hljóðnema fyrir hvern sem er til að tjá sig?

Guði sé lof að lögreglan fór að beiðni Harðar Torfa og fjarlægði bíl og hljóðtækjabúnað Nýrra radda og kom þannig í veg fyrir að nýjar og óæskilegar raddir heyrðust. Ef við leyfum þessu pakki að vaða uppi þá eigum við á hættu að hér þróist eitthvað sem geti kallast lýðræðisleg vinnubrögð og viljum við það? Ég segi NEI! Ég spyr einsog Hörður Torfa gerði á Austurvelli í dag: "Viljum við svona fólk?" NEI! Þetta fólk er ekki þjóðin. 

 

Sjá: Mótmælendur í hár saman

og: Nýjar raddir


mbl.is Fjöldi manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn bað um að stjórnarskráin yrði brotin

Óli Bónusgris.gifÞetta er mjög einfalt. Ég skal reyna að orða þetta kurteislega:  Annaðhvort er maðurinn fábjáni eða trúður. Ég hallast að því síðarnefnda. Ólafur er stjórnmálafræðingur og ætti því að þekkja stjórnarskránna jafnvel betur en útrásarvíkingana.

Kannski að fjármálaráðherrann geti aðstoðað hann við launalækkunina, en ef Ólafur er svona gasalega sólginn í að lækka laun sín og bæta þannig fyrir afglöp sín í starfi sem útrásarmella og lírukassaapi fyrir Baugsveldið þá á hann bara að gera það þegjandi og hljóðalaust og skrumlaust og hræsnislaust og slaka hinum og þessum góðgerðarfélögum millu á mánuði og svo gæti kannski hans betri helmingur bætt einhverju við. Hún hlýtur að mega missa einn lítinn demant úr námunni. Þetta er ekkert flókið

Það er svakalega lásí og idjótískt af honum að biðja Kjararáð að lækka laun sín þegar hann veit nákvæmlega hver niðurstaðan verður. Nema náttúrulega að hann hafi ekki vitað það og þá hefur hann þá einu afsökun að hann sé fábjáni og því kannski alveg tilvalinn sem samnefnari og sameiningartákn þjóðarinnar.

Forsetaembættið kostar þjóðarbúið nokkur hundruð milljónir á ári og þessari fúlgu væri án nokkurs vafa betur varið í styrkingu mennta - og heilbrigðiskerfisins og í aðstoð við þá sem hafa ekki til hnífs og skeiðar. Ef Ólafur vill raunverulega koma að gagni og spara þá færi vitaskuld best á því að hann segði af sér og leggði til í leiðinni að þetta tilgangslausa fokdýra snobbembætti yrði lagt niður í snarhasti.

Þessar endalausu leiksýningar forsetans fara að verða álíka þreyttar og hallærislegar og hárgreiðslan. Hann er búinn að koma embættinu niður í forarpytt sýndarmennsku, auðmannadekurs og ótrúverðugleika og í þeim skít situr hann sem fastast.

Ólafur er sannkallaður "for-seti."


mbl.is Kjararáð getur ekki lækkað laun forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður getur grætt milljarða á "mistökum"

bjarni_engill.jpgÉg skrifaði til gamans niður hluta af Kastljósviðtali sem Sigmar Guðmunds átti við Bjarna Ármanns fyrir stuttu. Allt annað að sjá þetta svona á prenti. Verður hálf hlálegt. Auðveldara að sjá í gegnum froðuna. Ég hef þetta algerlega orðrétt en innskot innan sviga eru hinsvegar mín.

 

Bjarni: „Það varð mikill vöxtur á löngu tímabili hér á landi og eitt af því sem ég lagði upp með var að launakjör héldust í hönd við þann árangur sem að fyrirtækin og menn voru að ná - og ég held að það sem fór úr böndunum sé tvennt: Annarsvegar það að fjárhæðirnar sem slíkar urðu of háar, (þær urðu ekki of háar fyrir slysni, þær voru hækkaðar af bankastjórunum) og hinsvegar að líklega var maður að ofmeta mikilvægi einstaklingsins í að ná þeim árangri sem náðist (sem var að setja bankann á hausinn) og þá er ég ekki að undanskilja sjálfan mig í því." (Semsé: „Mistök").

Bjarni: „Við gengum úr þeim viðmiðunum sem samfélagið hafði um launakjör. Tölurrnar urðu einfaldlega miklu stærri en nokkurn óraði fyrir." (Endurtek: Þær urðu ekki of háar. Þær voru hækkaðar af bankastjórunum. En semsé: „Mistök")

bjarni_med_fenginn.jpgBjarni: „Jú þetta kallast græðgi á góðri íslensku." (og væntanlega „mistök").

Bjarni: „Græðgi er einn af þeim kröftum sem drífur svona kerfi áfram, og hún er ekki alslæm í sjálfu sér, en auðvitað má hún ekki vera of mikils ráðandi, en sem er klárlega það sem gerðist."  (Semsé: „Mistök")

Sigmar vitnar í nýlega „sorry"blaðagrein Bjarna: „Þú ert að lýsa alveg hreint órúlegum sofandahætti, Svo ég noti nú bara þín eigin orð Bjarni: Þið voruð of sókndjarfir, þið bjugguð til launakerfi sem fór úr böndunum, þið ástunduð einhverskonar hjarðhegðun, ykkur skorti skilning til að lesa samfélagið, þið sköpuðuð of veikan grunn til að standast sviptingarnar, þið létuð glepjast af hraða og skammtímaárangri og misstuð sjónar á langtímahagsmunum og gildum samfélagsins. Í ljósi þessa er þá ekki galið að þið séuð að fá fleiri hundruð milljónir fyrir það að vera í raun svona vankaðir?"

Bjarni: „Það er alveg ein leið til að líta á þetta og alls ekki röng túlkun á því sem ég er að segja... það er alveg klárt að við fórum fram úr okkur sjálfum. Það má líka lýsa þessu sem sofandahætti."  (Nei, frekar sem „mistökum." Það kemur betur út).

bisness_771358.gifSigmar: „Er ekki ósanngjarnt að þið sem gátuð farið út úr kerfinu á réttum tíma að þið skuluð sitja með svona mikla peninga á milli handanna á meðan almenningur er að verða fyrir allri þessarri lífskjararýrnun á sama tíma? Þú ert búinn að vera með á árabilinu 2004 - 2007 heilar 900 milljónir í laun og þú ert líka að selja hlutabréf fyrir marga milljarða. Þú ert sjálfsagt búinn að ganga út úr bankanum með fleiri fleiri milljarða."

Bjarni: „Ég held að það sé alveg rétt lýsing að segja að það sé ósanngjarnt. Og það er kannski það sem ég er að gera í þessarri grein, er að horfa gagnrýnið á sjálfan mig í því ljósi sem hefur gerst þ.e.a.s. að kerfið hefur hrunið og það er verið að leggja hér álögur á fólk sem hefur ekkert til þess unnið."  (Smá tæknileg „mistök")

Sigmar: „Og hvernig ætla menn að bregðast við því? Það er ekki nóg að segja bara í einhverri Fréttablaðsgrein „Mér þykir þetta leitt"?

Bjarni: „Nei nei. Það er alveg hárrétt. Og auðvitað er ég, alveg frá því að þessir atburðir gerðust í haust, búinn að hugsa „hvað gerði maður rangt og hvar hugsaði maður hlutina vitlaust og hvað getur maður gert til að bæta fyrir það og hvernig getur maður komið á svona nýju gildismati ef svo má segja, þó ekki sé nema hjá sjálfum sér. Og mín niðurstaða var sú...að greiða Glitni til baka þær greiðslur sem ég hafði fengið eftir að ég lauk mínum starfskyldum hjá Glitni, 370 milljónir." (Jibbííí! Málið dautt).

Sigmar: „Og finnst þér þar með nóg að gert í ljósi þess að þú ert búinn að hafa miklu meiri tekjur af fyrirtækinu í formi sölu hlutabréfa?"

Bjarni: „Ja sko einhversstaðar...einhversstaðar verður maður að horfa á hlutina í samhengi og hvað maður hefur gert...uuuu...ég horfi á mál sem mér finnst vera mistök hjá mér, en ég er auðvitað ekki að segja að ef að ég hefði ekki gert þessi mistök þá hefði kerfið ekki hrunið. Það eru auðvitað fjölmargir þættir sem þar koma inní, bæði annarsstaðar frá sem og frá öðrum aðilum. (Já, það eru svona um 30 aðrar útrásarhetjur sem lögðu hönd á plóginn við að koma landinu til helvítis). En ef ég horfi á þessar tölur í samhengi við það sem þú nefnir og dregur upp að þá sýnist mér svona gróft að ef ég tek þau laun og þá bónusa og alla þá kauprétti sem ég hef fengið á því 10 ára tímabili sem ég starfaði hjá bankanum og skitnir_771360.pngfyrirrennurum hans og dreg frá þá skatta og skyldur sem ég hef greitt til samfélagsins á þeim tíma þá jafngildir þessi greiðsla (370 millur) um helmingi af þeim greiðslum sem ég hef fengið í minn hlut." (Skiptimynt miðað við það sem hann hefur sogið út úr bankanum).

Sigmar: „Helmingi af öllum þeim greiðslum sem þú hefur fengið sem stjórnandi bankans?"

Bjarni: „Já."

Bjarni: „Ég er reiður út í sjálfan mig fyrir að hafa trúað of mikið á það góða, (græðgina) þ.e.a.s. að markaðurinn gæti haft eftirlit með sjálfum sér og að markaðsaðilar sæju langtímahagsmunina í því en það var ekki raunin. Ég sá það ekki einusinni sjálfur."  (Með kíkinn fyrir blinda auganu. Semsé: „Mistök").

Bjarni: „Við ofmátum virkni markaða." (Það voru nú bara smá „mistök").       

Sigmar: „Eins og þú ert búinn að lýsa þessu: Þú ert áhættusækinn, þú ert sókndjarfur, þú ferð glannalega og þú lest stöðuna ekki rétt og svo koma einhverjir inn (Jón Ásgeir og Hannes Smára) sem eru hvað - VERRI en þú?! Ég er að reyna að draga upp þessa mynd af því að þú ert búinn að lýsa þínum ákvörðunum sem kolröngum sko, og svo koma einhverjir aðrir sem eru ennþá verri?"

Bjarni:  „Já það má alveg draga upp þá mynd, því að síðan fór kerfið í enn meiri vöxt og gjaldmiðillinn okkar lenti í miklum hremmingum og við soguðumst inní spíral sem við náðum ekki að vinda ofan af sem þjóð." (Kerfið fór ekki af sjálfu sér í enn meiri vöxt. Vaxtaræktarhetjur útrásarinnar stútfylltu það af sterum).

hannes_smarason_og_jon_sgeir.jpgSigmar:  „En þessir menn sem fóru ekki svona varlega Bjarni, þú fórst seinna í samstarf með þeim stuttu síðar í REI-málinu, þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni."

Bjarni:  „Það er rétt." (Alveg óviljandi „mistök").

Sigmar:  „Þú virðist þá ekki hafa lært mikið af því að hafa verið varkárari aðilinn þarna nokkrum mánuðum fyrr?"

Bjarni:  „Nei það má svo sem alveg segja það. Og ég get svo sem ekkert litið á þetta REI-mál annað en sem stórkostleg Mistök, hvort sem er af minni hálfu eða annarra, - af minni hálfu í fyrsta lagi bara að þiggja það að koma inn í þetta mál. Í öðru lagi að vera þátttakandi í því og keyra þetta mál áfram á þeim hraða sem gert var." (Og afhverju var það keyrt áfram á svona miklum hraða? Vegna þess að þeir ætluðu að sölsa undir sig auðlindir þjóðarinnar).

Sigmar:  „Gerðir þú ekki meira heldur en að koma þarna inn? Varst þú ekki ákveðið hreyfiafl og drifkraftur í að keyra þetta allt í gegn?"

Bjarni:  „Jú. Ég taldi þetta vera rétta leið. Og það var líka röng ákvörðun að fara í samruna við Geysi Green Energy og draga þar semsagt draga semsagt FL að borðinu sem hluthafa.

Og þá er semsagt ekkert annað við því að gerast eða bregðast en að heldur en að horfa á þá stöðu og gera það sem hérna gerðist þar að segja sig frá málinu og hverfa á braut." (Voðalegt tafs er þetta þegar kemur að Geysi Green og FL Group).

Sigmar:  „En þú varst náttúrulega lengi að móast, þú vildir halda þessu til streitu, lengi, svo mánuðum skipti?"

Bjarni:  „Nei. Ég taldi semsagt rétt að gera þetta, en þegar að það var ekki vilji til þess af hálfu Orkveitunnar lengur að þá að sjálfsögðu bauðst ég til að draga mig í hlé..og var beðinn um að vera eitthvað áfram en fór bara frá málinu."

 

hannes-smara-og-bjarni-armanns.gifÞann 6. okt. 2007 var Fréttablaðs-viðtal við vinina Bjarna og Hannes Smárason. Bjarni var þá  stjórnarformaður REI og Hannes Smárason var forstjóri FL Group og stjórnarformaður Geysis Green Energy. Þeir vinir sögðu þar að sameining fyrirtækjanna hefði verið afar skynsamleg og „rosalega spennandi."

Auðvitað er „rosalega spennandi" að hirða íslensk orkufyrirtæki. Í kjölfarið ætluðu þeir sér að fara í kröftuga útrás og ná undir sig raforkufyrirtækjum og orkulindum annarra þjóða: „Við erum þegar með í pípunum fjárfestingar í fjórum heimsálfum og verulega metnaðarfull markmið til komandi ára..."

Viðhorf þeirra til Íslands lýsir sér vel í þessum orðum: „Þetta snýst um að fjárfesta í virkjunum víðsvegar um heim og kemur Íslandi ekki við, nema að því leyti sem snýr að þekkingunni og baklandinu hvað það snertir."

ossuraforsiduthjodlifs.jpgÞeir voru búnir að plata gamla góða Villa borgarstjóra alveg uppúr skónum, en sexmenningarnir í borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins stoppuðu þetta glæfraspil (landráð?) af á síðustu stundu og fengu miklar skammir í hattinn, sérstaklega frá Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra. Össuri fannst nefnilega alveg frábært að draga furðufyrirbærið FL Group inní REI og kallaði það „viðskiptalega snilld." Það þarf ekki að taka það fram að hann situr ennþá, að sjálfsögðu.

Bjarni Ármanns trompaðist þegar sexmenningunum tókst að stöðva glæpinn. Þann 1. nóv. 2007 sagði hann í viðtali við visir.is að hann teldi ákvörðun Borgarráðs ranga: "Ég er ekki í pólitík en mér virðist sem það sé verið að kasta verulegum fjármunum á glæ með þessari ákvörðun." Það er rétt að HANN varð af „verulegum fjármunum" en hann var ekkert að hugsa um það hvort að þjóðin væri með þessu að „kasta verulegum fjármunum á glæ." Í veftímaritinu Deiglunni sakaði hann sexmenningana um að hafa skaðað ímynd íslenskra orkufyrirtækja á alþjóðavettvangi. Í dag kallar hann hinsvegar þetta REI-mál allt „stórkostleg mistök."

Stórrán sem mistekst er auðvitað „stórkostleg mistök." Hefði ránið hinsvegar tekist væri það „rosalega spennandi" og „viðskiptaleg snilld."

 

Aftur að Kastljósi:

bjarni_clouseau.jpgSigmar:  „En nú ert þú búinn að fara yfir þessa sögu svolítið svona gróflega og það eru mistök og mistök og mistök og mistök á mistök ofan Bjarni, sko...ég meina, hversu góður viðskiptamaður ertu þegar þú ert búinn að rekja þetta allt?"

Bjarni:  „Það auðvitað svo sem bara sést þegar horft er yfir einhverja heildarmynd sko." (Hryllingsmynd).

Sigmar:  „Er þetta ekki falleinkunn?"

Bjarni:  „Ég vil ekki meina að þau 10 ár sem ég er að stjórna FBA og síðan Íslandsbanka FBA og svo Glitni hafi verið tóm katastrófa eða bara röð mistaka. Ég vil meina að þarna hafi verið byggt upp sterkt og gott fyrirtæki."

Sigmar:  „Sem að hrundi."

Bjarni:  „Já, sem að hrundi." (Mjög STERK og GÓÐ fyrirtæki hrynja alltaf einsog spilaborgir sé blakað við þeim).

Sigmar:  „Við endum alltaf þar."

bjarni ármanns eftir öll mistökin.jpgBjarni:  „Inní þessum hérna, inní þessari uppbyggingu voru punktar veikleika sem urðu okkur að falli. Það er alveg klárt. Og þessvegna er ég að koma fram og skýra frá þessu og þetta er í mínum huga einlægt uppgjör og og og þetta er ekki..."(Segðu það bara, þetta voru bara alltsaman smá „mistök").

Sigmar: „Þú ert að gefa sjálfum þér falleinkunn samt? Ég ætla bara að fá þig til að meta sjálfan þig. Er þetta ekki falleinkunn?"

Bjarni:  „Ja, fyrirtækið er komið í greiðslustöðvun þannig að það getur í sjálfu sér ekki verið neitt annað, þannig að sá ferill sem ég hef hvað þetta varðar er að hafa byggt upp fyrirtækið sem síðan, sem síðan féll og það er auðvitað það sem ég lifi með."

 

Þjóðin lifir með þessu líka, en munurinn er kannski sá að heimilin hafa ekki milljarða í vasanum, nema í formi skulda.


Er´ekki allir í stuði?

homer.jpgEkki er ofsögum sagt að skrítið sé Skerið,

hún skín hér ei viskusólin.

Þjóðin er sjálfri sér verst og hefur æ verið,

hún vill-ekk´að snúist hjólin.

Þjóðin vill allt bara ef það er nógu galið;

yfir sig kýs hún fólin.

Á hvaða stóli við sitjum við-getum valið

og veljum rafmagnsstólinn.

 

(Úr ljóðabók minni "Með ósk um bjarta framtíð," 1997).

 

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

 

kolfinna-baldvinsdottir_1994_770928.jpgGestur minn í dag í þættinum "Miðjan" á Útvarpi Sögu FM 99,4 kl. 16:00 - 18:00 verður Kolfinna Baldvinsdóttir sjónvarpskona, blaðamaður, sagnfræðingur, alþjóðalögfræðingur, mótmælandi og kynbomba - eða kynB-O-B-A einsog Bubbi myndi orða það.

 

eirikur_stefansson_770930.jpgNú einnig kemur til mín enginn annar en Eiríkur Stefánsson verkalýðshetja, útvarpspistlaþrumari, sægreifabani og kyntröll - eða kynB-Ö-L-L einsog Bubbi myndi orða það. Hann hefur lesið mörgum manninum pistilinn á Útvarpi Sögu og notar þá yfirleitt svo væmið orðbragð að meiraðsegja gömlum blævængjafrúm vemmir við.

 

gluggagaegir.jpgNú og svo er aldrei að vita nema að jólasveinninn reki inn augun með nokkrar huggulegar kærur í pokahorninu.

 

 

Alla fyrri þætti má finna á:  www.stormsker.net

 


Raddir Harðar og hjarðarinnar

hordur_torfa_i_spjalli.jpgHörður Torfa gengur hnarreistur að ræðupallinum á Austurvelli í passlega alþýðlegum verkamannafrakka sem hann krumpaði vel og vandlega heima hjá sér áður en hann lagði af stað. Hann er nýkominn úr viðtali við DV þar sem hann sagði orðrétt: Það kemur ekki að þessum palli fólk sem hefur unnið fyrir stjórnmálasamtök."  Þessi orð hans klingja ekki í höfðinu á honum þegar hann fer að handvelja úr hópnum fólk sem má tala:

„Nei blessaður Einar Már, ert þú ekki örugglega ennþá í Vinstri grænum? Gott. Þá máttu tala. Nú og þið eruð hérna líka mætt, allt kommagerið: Pétur Tyrfings og Kristín Tóma, systir Sóleyjar og Katrín Odds og Viðar Þorsteins. Flokksbundin og flott. Í rétta flokknum. Glæsilegt. Þið megið tala. Ég vil nefnilega að mikill meirihluti frummælenda sem ég leyfi að tala hérna á pallinum séu í Vinstri grænum eða tengist þeim með einum eða öðrum hætti svo að mótmælin beinist í rétta átt. Við verðum að hagnýta okkur harmleik fólksins og nota þessi mótmæli til að koma Vinstri grænum til valda."

Það er bankað í bakið á Herði og hann snýr sér við og segir undrandi:

-  „Blessaður. Er þetta ekki bara sjálfur Steingrímur J.?"

georg_bjarnfredarson.jpg-  „Nei, ég heiti Georg Bjarnfreðarson. Það er þarna einhver smá miiisskilningur á ferðinni. Okkur er oft ruglað saman. Ég myndi nú gjarnan vilja fá að tala á þessum fundi. Ég er með 5 háskólagráður: Í félagsfræði, sálfræði, kommúnis......"

-  „Og ertu örugglega í Vinstri grænum?"

-  „Já, það er ég. Ég er einsog melóna; grænn að utan en rauður að innan. Ég er meiraðsegja með merki kommúnista hérna í barminum, sigð og kamar."

-  „Nú þá er þetta ekkert mál. Þá færðu að tala. Þið hér sem ég er búinn að velja úr megið öll tala á eftir og á meðan þið talið þá ætla ég að standa beint fyrir aftan ykkur á sviðinu þannig að ég verði örugglega í mynd. Ævisaga mína var nefnilega að koma út, þið skiljið. En fyrst tala ég náttúrulega. Þetta eru nú einusinni mín mótmæli þó þau séu í þágu allra kommúnista."

Leiklistarmenntunin kemur sér vel þegar hann gengur ábúðarmikill uppá pallinn og stillir sér upp fyrir framan míkrafóninn með allan heiminn á herðunum. Hann setur í brýrnar og horfir um stund þjáningarfullu heimsósómaaugnaráði yfir soltinn múginn sem þyrstir í lausnir og æðri visku. Loks hefur hann upp raust sína:   

 

hordur_torfa_thjonar_fyrir_altari.jpgHörður:  „Viljum við ríkisstjórnina BURRRT?!"

Hjörðin:  „JÁÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við spillinguna BURRRT?!"  

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við kapítalismann BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við frjálshyggjuna BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við einkavæðinguna BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við frjálsa samkeppni BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við einstaklingsframtakið BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við frelsi einstaklingsins BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við mannlegt eðli BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við gamla spillta Ísland BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við gömlu ónýtu flokkana BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við nýtt og ómengað Ísland?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

frelsarinn_769890.jpg-  „Viljum við Vinstri græna?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við kommúnisma?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við að Ísland verði Kúba norðursins?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við forsjárhyggju og afturhald?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  "Viljum við alla skynsemi BURRRT?!"

-  "JÁÁÁÁÁ!" 

-  "Viljum við fara að ferðast um í uxakerrum?!"

-  "JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við eftirlaunaforréttindi ráðamanna BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við Steingrím J. Sigfússon sem studdi eftirlaunafrumvarpið?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við gjafakvótakerfið BURRRT?!"

-  "JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við Steingrím J. Sigfússon sem styður gjafakvótakerfið?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við sérréttindi kvenna og kynjakvóta BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við ofurfemínistann Steingrím J. Sigfússon sem styður sérréttindi kvenna og kynjakvóta?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við frelsi til að drekka bjór eins og aðrar þjóðir?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við Steingrím J. Sigfússon sem studdi bjórbannið og vildi bjórinn BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

netlogregla.gif-  „Skál fyrir því! Viljum við Stóra Bróður BURRRT?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við Steingrím J. Sigfússon sem heimtar netlögreglu!?"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  "Viljum við allt klám BURRRT?!"

 -  "JÁÁÁÁÁ!"

-  "Viljum við eina lögreglu í hvert svefnherbergi?!"

-  "JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við boð og bönn og höft á öllum sviðum mannlegs lífs?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  "Viljum við þindarlaus ríkisafskipti og óbærileg leiðindi? 

-  "JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við VINSTRI GRÆNA?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við flokk sem hefur akkúrat ENGAR lausnir á vandanum?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við sama skítinn, bara úr öðru rassgati?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

steingrimur-mosdal.jpg-  „Viljum við Vinstri græna með þá Steingrím J. Sigfússon, Kolbrúnu Halldórsdóttur, Martein Mosdal og Georg Bjarnfreðarson í broddi fylkingar til að stjórna þessu landi?!"

-  "JÁÁÁÁÁ!"

-  „Vinstri grænir eru núna með 30% fylgi. Viljum við kosningar STRAX?!"

kosningar_strax.jpg-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Ég spyr aftur: Viljum við kosningar STRAX?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

-  „Viljum við fara BURRRT úr öskunni og BEINT í eldinn og það STRAX?!"

-  „JÁÁÁÁÁ!"

„Örvitar allra landa sameinist: HÚRRA! HÚRRA! HÚRRA! HÚRRAAAAA!!!!!!!!!"


mbl.is Hörður: Mótmælin rétt að byrja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gerald, Jónína Ben, Eva Hauks og Sturla Jóns komin á netið

Eitt eintak af hverju fyrir sig er nauðsynlegt í hverju landi. Þetta eru umdeildar persónur, sem er mjög gott. Besta leiðin til að komast hjá gagnrýni er að segja ekki neitt, gera ekki neitt og vera ekki neitt.

Ég var víst búinn að lofa fólki því að láta vita þegar viðtölin sem ég tók við þessa fínu uppreisnarmenn á Útvarpi Sögu væru komin á netið og nú efni ég það.

Þættina má finna HÉR

 


Júróvisjón brestur á

Ég er búinn að hlusta á þessi 4 Júrólög sem verða í Sjónvarpinu núna eftir nokkrar mínútur. Ellý Ármanns hjá www.visir.is bað mig að segja álit mitt á snilldinni og ég varð að sjálfsögðu við þeirri bón enda ekki annað hægt þegar svona flott og skemmtileg skutla á í hlut. Svona lítur þetta út:

 

1. The kiss we never kissed  -  SmileSmileSmileSmile
Lag: Heimir Sindrason. Texti: Ari Harðarson. Flytjandi: Edgar Smári.


edgar_smari.jpg"Heimir Sindrason er góður lagasmiður. Hver kannast t.d. ekki við Hótel Jörð sem hann samdi við ljóð Tómasar. Þetta nýja lag lans The kiss we never kissed er vel samin ballaða. Fastmótuð melódía. Engin rembingur og tilgerð. Bara einfalt og fallegt, sem er alveg meir en nóg til að halda uppi einu lagi. Útsetningin er af gamla skólanum, látlaus og laus við alla stæla og eitthvað sem á að virka gasalega nútímalegt og "töff." Gríðarlegir "töffarar" sem eru of cool fyrir "væmni" ættu ekki að hlusta á þetta lag.
Ég veit akkúrat engin deili á söngvaranum, Edgari Smára, en hann kemst verulega vel frá þessu. Þarna er greinilega á ferðinni mjög góður söngvari með orginal rödd og sérstaka raddbeitingu og karakter í röddinni sem mér finnst mjög áríðandi. Ekkert varið í að hlusta á góða söngvara ef karakterinn vantar. Edgar virkar soldið einsog 14 ára strákpatti í þessu lagi og það gefur þessu ákveðinn sjarma. Kannski á þetta lag frekar heima í teiknimyndasöngleik einsog t.d. Lion King en í Júróinu. Veit það ekki. En við eigum ekki að hugsa um það, heldur að velja einfaldlega gott lag og það er einmitt það sem þetta lag er. 

 


2. Dagur nýr  - 
Sleeping
Lag: Halldór Guðjónsson. Texti: Íris Kristinsdóttir. Flytjandi: Heiða Ólafs.

Melódían í A-kaflanum er reikul og flöktandi og það er stólað á að hinn klassíski spánski fjórhljómagangur haldi henni á flöti, en hún sekkur, því miður. Er ekki nógu afgerandi. Viðlagið er dæmigert Sálarpopp (t.d. Eltu mig uppi) sem maður hefur heyrt all oft áður, svona einsog 100 þúsund sinnum en samt ekkert óheyrilega leiðinlegt, bara svona frekar sjálfsmorðshvetjandi. Halldór húsasmiður hefur samið mun betri lög en þetta.
Þetta er alltsaman voðalega vel spilað en það er bara ekki nóg því Halldór hefur gleymt að byggja grunninn, kjallarann og 1. hæðina. Það er ris í laginu en það er allt og sumt. Það er ekki hægt að búa í undirstöðulausu risi. Þetta lag hefði átt að heita "Dagur rýr."
Heiða er ein af okkur allra bestu söngkonun. Getur látið billegustu lög virka flott, getur blásið lífi í dauðvona sjúkling en þarna hefði hún bara átt að kippa öndunarvélinni úr sambandi.

 


3. Is it true  - 
UndecidedUndecided
Lag og texti: Óskar Páll Sveinsson. Flytjandi: Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.

Óskar Páll Sveinsson er fagmaður, allavega sem upptökumaður. Hef ekki heyrt mörg lög eftir hann. Þetta lag virkar frekar cheap við fyrstu hlustun en vinnur svo á, sem þýðir að þetta er ekki slæmt lag en kannski aðeins of venjulegt og lítt afgerandi. Það er hvorki til hægri né vinstri. Þetta er svona framsóknarmiðjumoð. Gæti eflaust slegið í gegn með Jessicu Simpson eða einhverri svoleiðis meikdollu en er ekki nógu sterkt til að standa undir sjálfu sér. Jóhanna "litla" Guðrún gerir þessu góð skil en heildarpakkinn er soldið einsog hænsni: lyftist frá jörðu en nær aldrei flugi.

 

 

4. Hugur minn fylgir þér  -  Devil
Lag og texti: Valgeir Skagfjörð. Flytjandi: Ólöf Jara Skagfjörð.

olof-jara.jpgÉg ætla að vona að höfundurinn Valgeir Skagfjörð taki þessu ekki persónulega en þetta "lag" er einfaldlega hryllilega lélegt og asnalegt í alla staði. Það er ekki með nokkru móti hægt að skilja hvernig þetta komst inn nema ef söngkonan góða og eiginkona Valgeirs, Guðrún Gunnars, skyldi hafa verið í dómnefndinni. Melódían er kubbsleg og reglustikuð, einsog hún hafi verið sett saman í einhverju tónlistarforriti fyrir þroskahefta. Taktskiptingarnar eru svo klúðurslegar, skrikkjóttar og viðvaningslegar að það er ekki nema fyrir verulega hélaðan spassa að hreyfa sig eftir þessu.
Það er í raun ekki fyrir hvítan mann að skilja þetta sull og ennþá síður svartan, rauðan nú eða gulan. Grænar geimverur myndu meiraðsegja hrista hausinn.
Ólöf Jara Skagfjörð er góð söngkona einsog mamman og reynir að bjarga því sem bjargað verður en það er einsog að setja sérríber á ruslahaug. Vonlaust mál. Dæmið er six feet under.

 

Frekari upplýsingar eru hér


Aðgerðir skila árangri, ekki skiltagerðir

geisp.jpgÞað er sárt að segja það en ég get lofað ykkur því kæru krepplingar og hef það frá fyrstu hendi að stjórnmálamenn taka akkúrat Ekkert mark á fundahöldum einsog þeim sem úlpurnar eru að halda niðrá Austurvelli. Þeim gæti ekki verið meira sama. Pulsujapl og geisp og dösuð ræðuhöld hrófla ekki við sálarró þeirra. Friðsamleg skiltamótmæli í þessum dúr bíta ekki á þá frekar en rök á fávita.

 

Ef fólk heldur að Gandhi og Martin Luther King og þeirra gengi hafi iðkað svona svefndrukkin mótmæli þá er það regin misskilningur. Það var borgaraleg óhlýðni sem skilaði árangri.

 

geieieisp_768452.pnghippo-yawn.jpgStjórnmálamenn voru ekki sáttir við að Kryddsíldinni þeirra skyldi hafa verið sturtað niður en þeir eru hinsvegar afar sáttir við sakleysisleg ræðuhöld og hangs niðrá Austurvelli. Við eigum ekki að láta þessa slímsetustjórnmálamenn og spillingarforkólfa í bönkum og skítafyrirtækjum vera sátta. Við erum ekki sátt við þá og á meðan þeir sýna engan vilja til úrbóta skulu þeir ekki vera sáttir við okkur. Við eigum að fara verulega í taugarnar á þeim. Við eigum að flæma þá út úr grenjum sínum með óhlýðni og taumlausum leiðindum.

Eitt er víst: Aðgerðir skila árangri, ekki skiltagerðir.

 

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

 

Bendi hér á gott erindi sem Eva Hauksdóttir flutti á Opnum borgarafundi í Iðnó í fyrradag.

Viðtal mitt við Evu Hauks og Sturlu Jónsson verður endurflutt á Útvarpi Sögu FM 99,4 á "besta tíma" í kvöld klukkan 20:00 til 22:00.


mbl.is Fjórtándi fundurinn á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband