Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Hemmi Gunn

Hemmi GunnÞetta er í annað eða þriðja sinn á fáeinum árum sem ég frétti af andláti Hemma Gunn. Síðast andaðist hann hér heima fyrir nokkrum árum eftir langa dvöl í Tælandi en reis þá upp á þriðju mínútu eftir smá lífgunartilraunir og varð ekki meint af. Það eru ekki allir sem komast lifandi frá dauðanum. En núna held ég að þetta sé endanlega búið.

 

Það var einmitt Hemmi sem kynnti Tæland fyrir mér fyrir tæpum áratug. Ég var þá á leið til Kína og hann sagði að ég yrði að koma við í Tæ, þó ekki væri nema bara í viku. Þessi vika varð mjög löng. Svo gaman er að lifa lífinu lifandi í Tælandinu góða að það eru ekki allir sem lifa það af. Mikið gaman, mikið grín, mikið djammað, mikið vín, alltaf sólin, alltaf jólin. Það er auðvelt að deyja þar sem gaman er að lifa. Við getum allavega huggað okkur við að hann dó hjá góðu og jákvæðu og hláturmildu fólki.

 

Sjálfum fannst Hemma verulega gaman að hlæja einsog allir vita. Flestir fara að hlæja þegar þeir heyra eitthvað fyndið en Hemmi þurfti enga ástæðu til. Hann bara byrjaði að hlæja og þá varð allt voðalega fyndið. Yfirleitt hló hann og talaði samtímis.

 

Þegar hann fór með mér í júróvisjónferðina til Dublin hér um árið þá var hann eitt sinn nálægt því að kafna úr hlátri, í orðsins fyllstu. Við sátum tveir á hótelbarnum (hvar annarsstaðar?) og hann var með fullan túllann af rækjusamloku og bjórfroðu þegar hann fór að skellihlæja. Hann reyndi að halda munninum lokuðum og við það varð hann einsog útþaninn hamstur í framan, og svo kom að innsoginu og þá festust einhverjar ótuggnar rækjur í kokinu á honum þannig að hann stóð á öndinni. Ég var farinn að sjá fyrir mér fyrirsagnir blaðanna: „Hemmi Gunn kafnaði úr hlátri í Dublin." En þetta reddaðist og hann hélt lífi. Í bili.

 

Þar sem Hemmi var með ofurhressustu sprelligosum í bænum þá hélt maður að hann yrði alveg svakalega langlífur, en hláturinn lengir greinilega ekki lífið. Lengir kannski munninn meðan á hlátrinum stendur en ekki mikið meir. Kannski er bara best að vera alltaf í fýlu til að tryggja að maður verði eins langlífur og Jóhanna Sig. Mér skilst að hún sé frá bronsöld. Allavega ekki brosöld. Til eru manneskjur sem hafa orðið á annað hundrað ára gamlar og jafnvel eldri án þess að þeim hafi nokkurntíma stokkið bros á allri sinni gríðarlega löngu ævi. En nóg um Jóhönnu.

 

Fólk er misjafnt. Hemmi hló og hló og hló þar til hann dó, á besta aldri. Aðrir flissa aldrei svo mikið sem eitt fliss en ná samt „versta" aldri. Ég held það sé nú betra að taka Hemma á þetta og reyna að hafa soldið gaman af öllum þessum íslensku leiðindum, og það er alveg hægt - ef maður býr í Tælandi. Þó að hláturinn lengi kannski ekki lífið þá er aldrei að vita nema menn geti lengt hláturinn alveg frammá tíræðisaldur.

 

Við hæfi að Hemmi skyldi hafa dáið í "The land of smiles," einsog Tæland er jafnan kallað. Kæmi ekki á óvart að hann hafi drepist úr hlátri. Í „banastuði."

Þó að hann hafi verið spaugsamur og hláturmildur þá var hann alvöru gæi, í víðum skilningi.

 

Jæja Hemmi minn. Að lokum, ef þú ert þarna einhversstaðar: Vertu hress, ekkert stress, ekkert mess, keep it fresh, play your chess with happiness, njóttu þess, yes yes yes. Bæ.

 

 

 

(Þessi minningargrein birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2013).


mbl.is Útför Hemma: Ekkert stress, bless bless
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband