Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Er geðslegt að reyna að geðjast öllum?

This Is My Life er líklega eina íslenska Júrósigurlagið sem fólki virðist fyrirmunað að muna eða raula eftir tíundu hlustun. Virðist ótrúlega auðgleymanlegt lag. Og þó: Menn geta ekki gleymt lagi sem þeir hafa aldrei getað munað.

Íslendingar vilja sko ekki senda aðra Silvíu Nótt í Júróið og ekkert fjandans grín einsog Ha Ha Ha we say Hí Hí Hí. Þeir vilja fólk sem er að taka þátt í þessari grínkeppni af fullri alvöru. Þeir vilja Alvöru volgt flatt óáfengt öl sem engum getur svelgst á.

Einsog smáborgara er háttur þá eru Íslendingar afar viðkvæmir fyrir því hvaða augum umheimurinn lítur þá og vilja fyrir engan mun verða sér til minnkunnar á erlendri grund og blóðroðnuðu því af blygðun þegar Silvía var að fíflast bláedrú á Grikklandi. Sjálfir rúlla þeir flestir sauðdrukknir um bari erlendis öskrandi og ælandi og eru hvarvetna til ama og leiðinda en það finnst þeim ókey vegna þess að þeir eru ekki í sjónvarpinu.

LortiLadaVið kjósum ekki lengur það lag sem okkur sjálfum finnst best heldur það lag sem við höldum að muni falla öllum útlendingum í geð. En sá sem reynir að gera öllum til hæfis gerir engum til hæfis. Við hefðum t.d. aldrei þorað að senda finnsku skrímslin út. “Hvað gætu útlendingar haldið um okkur?”

Hvort hefði verið betra að senda Mercedes Club út í djóki eða Eurobandið í fullri alvöru? Veit það ekki, en alvaran er nú oft broslegri en grínið.

Fretrick Homar

 

(Þessi pistill birtist í blaðinu 24 Stundir, 8. mars síðastliðinn) 

 

Ég minni að sjálfsögðu á þátt okkar Halldórs E, "Miðjuna," á Útvarpi Sögu 99.4 milli klukkan 16:00 og 18:00 í dag, miðvikudag. Gestur þáttarins að þessu sinni er rithöfundurinn eitursnjalli Einar Már Guðmundsson. Eldri þætti má nálgast á www.stormsker.net 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband