Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Formenn flokkanna og frammíkallar fjölmiðlanna

Jóhanna Sig var kvödd í dag og ríkisstjórn hennar verður bráðkvödd á morgun. Jóhönnu voru færðar rósir í tilefni hátíðarhaldanna. Líklega þyrnirósir. Í hennar sporum hefði ég sagt: "Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir."

En nóg um fögnuð, flugelda og dýrðarstundir. Við skulum ekki alveg tapa okkur í fagnaðarlátunum. Ég horfði á formenn 6 stærstu flokkanna á Stöð 2 í gærkvöld. (Verður ekkert spjallað við hina 200 formennina?) Þar kom margt skrítið fram. Guðmundur Steingrímsson, formaður Smáfylkingarinnar, líkti vogunarsjóðunum við góða og fróma fjárfesta og sagði að það væri óábyrgt af íslenskum stjórnmálamönnum að tala um þá sem hrægamma. (Allur heimurinn kallar þá sínu rétta nafni: Hrægamma). Slíkt tal gæti fælt frá aðra heiðarlega fjárfesta. Jájájájá.

Þarna var sterkur samhljómur með Scamfylkingunni (einsog í öðrum málum), sem hefur lengi talað um að ekki megi styggja þessa stálheiðarlegu snillinga því ímynd okkar gæti beðið hnekki útávið. Á svipaðan hátt talaði okkar ástkæra norræna velferðarstjórn í Icesave-málinu; við yrðum að borga þessa ólögvörðu kröfu því annað gæti eyðilagt orðspor landsins og allt færi hér í rauðglóandi hurðarlaust helvíti. Og svo er ennþá verið að tala um Sigmund Davíð sem lýðskrumara nr. 1 og gefið í skyn að hann hafi tekið þessa einörðu afstöðu gegn Icesave-ánauðarsamningunum sem sannfæringarlaus tækifærissinni til að skapa sér betri stöðu á svelli stjórnmálanna. Það getur varla talist málefnaleg og heiðarleg gagnrýni. Er það?

Katrín Jakobsdóttir var flott og lagði áherslu á að viðhalda skattastefnu ríkisstjórnarinnar, en eins og allir vita felst hún í því að skattpína almenning og fyrirtæki útúr kreppunni. Og útúr landinu. Og útúr heiminum, ef vel á að vera. Þetta er reyndar hagfræði sem enginn skilur nema íslenska velferðarstjórnin, en það er viss kostur.

VG og Scamfylkingin ætla að gera gasalega margt gott og göfugt eftir kosningar: Hjálpa eldri borgurum (oní líkkisturnar), fylla veski öryrkja (af reikningum), bjarga heimilum landsins (frá skuldaleiðréttingum), flæma óþurftarlið einsog lækna og hjúkrunarfólk úr landi og byggja svo hátæknisjúkrahús að því loknu. O.s.fr. Semsé halda áfram þaðan sem frá var horfið. Þarft verk og þrifalegt. Þau eru jú öll í hreingerningunum.

Þau ætla að sanna það EFTIR kosningar að hjarta þeirra slái með heimilum landsins en ekki bönkunum og fjármagnsöflunum. Við trúum því að sjálfsögðu. Gott mál.

Sigmundur og Bjarni voru ansi málefnalegir og svöruðu samviskusamlega, í þau fáu skipti sem þeir fengu að svara. Yfirleitt spurði fréttadúettinn þá einnar aðalspurningar og dembdi síðan á þá tíu aukaspurningum meðan þeir voru að svara aðalspurningunni. Það var frekar þreytandi, idjótískt, ófaglegt og ekki beint upplýsandi fyrir fróðleiksþyrsta áhorfendur. Tilhvers var þá leikurinn gerður ef ekki til að upplýsa fólk? Koma í veg fyrir að rök þeirra heyrðust?

Birgitta var fín. Með annan vinkil á hlutina. Svolítið öðruvísi, en þannig langar Guðmund Steingrímsson einmitt að vera. Stefna hans flokks í fjármálum, fyrir utan að ganga um borð í Titanic (ESB) og taka upp evru, virðist aðallega fólgin í því að gaumgæfa hugmyndir hinna flokkanna og pikka svo úr þær skárstu, því sjálfir hafa þeir engar. Stefnu flokksins má orða í tveimur orðum: Þeir ætla að "skoða málin."

Einsog venjulega fékk Sigmundur Davíð aldrei að klára svör sín og stöðugt var gripið frammí fyrir honum, aðallega af fréttakonunni og Árna Páli. Það sem uppúr stendur í þessari kosningabaráttu er hve stór hluti íslensks fjölmiðlafólks er svakalega hlutdrægur, óheiðarlegur í vinnubrögðum, illa að sér og asskoti dasaður.


mbl.is Jóhanna kvödd með rósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Ben ætlar ekki að segja af sér

Þegar stjórnmálamenn fá dasað fylgi í skoðanakönnunum segja þeir gjarnan eitthvað á þessa leið:

Við förum ekki eftir skoðanakönnunum heldur niðurstöðum kosninga. Tvær vikur eru langur tími í pólitík. Þó við séum með kúkinn í buxunum þá skulum vera alveg róleg og bíða og sjá hvað kemur uppúr kjörkössunum.

Núna er Bjarni að pæla í að segja af sér út af slæmu gengi í skoðanakönnunum, einkum og sérílagi út af niðurstöðu vafasamrar sérpantaðrar skoðunarkönnunar. Það er ansi galið, sérstaklega í ljósi þess að Hanna Birna hefur aðspurð líst sig hæstánægða með þessa bakstungukönnun. Alvöru gæar láta ekki fjósa sig svo glatt.

Vera má að þjóðin beri ekki mikið traust til Bjarna en ég býst við að þjóðin og Bjarni sjálfur beri enn minna traust til Hönnu Birnu eftir það sem á undan er gengið. Bakstungusár gróa ekki svo glatt.

 

Þegar maður leggur hnetuna í bleyti og raðar saman öllum brotunum í þessu ókræsilega púsluspili þá getur niðurstaðan aðeins orðið ein, þvert ofaní spár hinna mætustu manna:

Bjarni mun ekki segja af sér.

Nema náttúrulega að maðurinn sé bara eitthvert snarvankað sirkusnöttkeis, en þá á hann bara að fá sér einhjól og lúður og rauða krulluhárkollu og ganga í VG.


mbl.is Óvissa um framtíð Bjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfseyðingarflokkurinn

geir_haarde.jpgForysta Sjálfstæðisflokksins hefur verið í frekar miklu hakki eftir að Don lét af störfum. Ætti eiginlega að kallast Sjálfseyðingarflokkurinn. Geir Haarde var ekki alveg sá sprækasti í bransanum og átti það til að skjálfa einsog lauf í vindi þegar honum voru sagðar fréttir af þessu svokallaða “hruni.” Var einhvernveginn fæddur til að grillast. Var kastað frá völdum og dreginn á strýinu fyrir Landsdóm, vel pungsparkaður og bakstunginn af andstæðingum sínum. Var grillaður alveg innað beini og snæddur af “sorgmæddu” samverjunum í VG og “samherjunum” í Samfó.

 

Og nú er farið að kynda undir Bjarna Ben. Andstæðingar hans hafa verið að kasta í hann logandi eldspýtum einsog hverja aðra áramótabrennu frá því hann tók við þessu eldfima leiðindadjobbi en að þessu sinni eru það sjálfir samflokksmenn hans, nánir samstarfsmenn Hönnu Birnu, sem sjá um að reka formann sinn í bakið og þræða hann uppá tein og heilgrilla hann með epli í kjaftinum einsog hvern annan drullugölt. Frekar ódrengileg og ókræsileg kokkamennska. Kallinn verður líklega orðinn well done um miðnætti. Það er nefnilega siður sómakærra Sjálfstæðismanna að græða á daginn og grilla á kvöldin.

 

Feillinn sem Hanna Birna gerði í aðdraganda Landsfundarins, sem hún bauð sig fram til formanns á, var að segjast myndu hreinsa til í þingflokknum næði hún kjöri. Maður heillar ekki kafskítugar klóakrottur með grænsápu. Maður boðar ekki líf í grafhvelfingu. Auðvitað var hún ekki kosin af landsfundarmönnum. Það var hinsvegar þeirra feill. Þeir kusu sér hinn umdeilda og miður vinsæla en vansæla Bjarna Ben, með vafning sér um háls, – góðan gæa en ekki beint líklegasta aflakónginn á míglekum dallinum. Það hefur komið á daginn að fiskarnir flýja undan honum einsog fætur toga.

 

bjarni_ben.jpgNú er Bjarni kominn með nokkra vel brýnda kjöthnífa í bakið frá flokksfélögum sínum, stuðningsmönnum Hönnu Birnu, m.a. fyrrum kosningastjóra hennar, algerlega án hennar vitneskju, að sjálfsögðu. Einmitt. Maður talar aldrei um alvarlega hluti við kosningastjórann sinn.

 

Hanna Birna er hinsvegar ekki alls ókunnug hnífum því ég man að samstarfsmaður hennar og fyrrum borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, kvartaði sáran undan þrálátum eymslum í baki í hvert skipti sem hann snéri í hana bakinu. Loks snéri hann endanlega við henni baki en þá var hann líka kominn með heilu hnífasettin og kjötsöxin og keðjusagirnar í bakið og sagðist hafa verið plataður og svikinn af henni, í bak og fyrir. (Sjá t.d. HÉR)  Það má vera að kallinn hafi eitthvað verið að misskilja hlutina en þetta vildi hann nú meina. Núna vinnur Ólafur sem læknir á einhverri heilsugæslustöð, baki brotnu.

 

Á morgun vinnur Bjarni Ben kannski á Grillinu á Hótel Sögu, og þá meina ég ofan á grillinu, nú eða sem bíldælingur á einhverri bensínstöð, hugsanlega N1, þó það sé áreiðanlega ekki mjög heilsusamlegt fyrir svona logandi hræddan mann að vinna nærri bensínstöð. Ef aðförin virkar og hann er svældur burt með þessum hætti þá má reikna með að það reki fleyg í gegnum flokkinn, sem þýðir að þó að aðförin "virki" þá getur hún ekki virkað. Hönnu Birnu verður skiljanlega kennt um og varla verða stuðningsmenn Bjarna innan flokksins sælir með hana og þessar lyktir mála. Þetta lúalega athæfi mun gera flokknum meiri óleik en leik þegar upp er staðið.

 

Það getur verið skammvinn sigurvíma að kljúfa flokk í herðar niður og mikill Bjarna(r)greiði við flokkinn og kjósendur og sjálfan eftirmanninn (konuna), jafnvel þótt tilgangurinn sé gasalega góður og göfugur. Maður getur óvart rotað drukknandi mann (og flokk) með því að henda til hans björgunarhring. Ef maður rekur hníf í bak einhvers þá getur það komið í bakið á manni. Ég tek undir með Oscar Wilde: “A true friend stabs you in the front.”     


mbl.is „Ég útiloka ekkert“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband