Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
27.8.2008 | 07:03
Feministur
Feministar hafa barist fyrir mörgu greindarlegu síðustu ár, t.d. því að börn á fæðingardeildum klæðist fötum í kynlausum litum; drengir skulu allsekki vera í bláum fötum og stúlkur allsekki í bleikum því þetta geti haft gríðarleg áhrif á afkomumöguleika stúlknanna í framtíðinni að sögn feminista. Augljóst.
Fleiri dæmi: Feministum finnst mjög niðurlægjandi að konur kallist ráðherrar." Konur tilheyri nefnilega ekki mannkyninu heldur kvenkyninu. Ég stakk uppá starfsheitinu ráðherfa" og þær hljóta að vera mjög ánægðar með það. Feministar kvörtuðu mikið yfir Smáralindarbæklingi en þar sást stúlka beygja sig eftir dóti. Stúlkur eiga ekki að beygja sig á myndum því þá er auðvitað verið að gefa til kynna að þær séu hórur.
Feministar fóru fram á að svæsin Toyota auglýsing yrði bönnuð en þar sást kona með pilsið svo langt upp um sig að það sást meiraðsegja í hnén á henni. Ógeðslegt. Feministar sögðu að það væri verið að hlutgera líkama kvenna. Einmitt. Toyota fór að tilmælum feminista og fjarlægði auglýsinguna, sem sýnir að það er til nokkuð sem heitir karlkellingar. Svoleiðis tuskur lúffa fyrir hverskyns rugli af ótta við að vera stimplaðar karlrembusvín. Ef fólki finnst öfgafeministar slæmir og allar þeirra hugmyndir, þá myndi ég nú segja að karlkellingarnar sem framfylgja kröfum þeirra væru 10 sinnum verri, - því slæm hugmynd er bara slæm hugmynd, en það að framkvæma slæma hugmynd af ótta við karlrembusvínsstimpilinn er alveg yfirmáta aulalegt. Öfgafeminismi er vondur í orði, en verri á borði.
Feministum hefur tekist að breyta sjálfri Biblíunni á þann hátt að ef Krissi segir t.d: Hey bræður, eru ekki allir í stuði?" þá er það í dag: Hey bræður og systur, eru ekki allir í stuði?," jafnvel þó engar systur hafi verið á svæðinu.
Orðið feministi" er karlkyns orð og því ber að breyta á stundinni í feminista," - hún femínistan. Must! Algjört Must!
Þessi pistill birtist í 24 stundum 9. ágúst, án djókmyndanna.
Minni á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni verður enginn annar en söngvaskáldið hárprúða Bjartmar Guðlaugsson. Munum spjalla um allt milli himins og jarðar, t.d. afhverju mömmur geifli alltaf á sér munninn þegar þær maskara augun og hvort borgarstjórinn í Reykjavík megi láta sjá sig á kaffihúsum í borginni eða eingöngu á Goldfinger í Kópavogi og hvort það eigi að grafa göng milli Vestmannaeyja og Grímseyjar.
Fyrri "Miðjur" má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
23.8.2008 | 14:07
For(n)maður Framsóknar og viðhengi hans
Einsog frægt er orðið þá rauk Guðni Ágústsson for(n)maður Framsóknarflokksins út úr þætti mínum "Miðjunni" á Útvarpi Sögu fyrir skömmu. Ég held að það hafi aldrei gerst fyrr að stjórnmálamaður hafi rifið af sér tólin og rokið á dyr í fússi úr miðju viðtali, og þá á ég náttúrulega við heyrnartólin. Það var tvennt sem ég tók eftir að honum mislíkaði stórlega, annarsvegar að ég skyldi hafa minnst á að hann væri sveitamaður og hinsvegar að ég skyldi ekki vera gapandi og slefandi af hrifningu yfir landbúnaðarkerfinu, semsé niðurgreiðslunum, beingreiðslunum, verndartollunum, ofurstyrkjunum, innflutningshöftunum og allri þeirri snilld.
Hann tók það afar skýrt fram að hann væri borgarbarn og neitaði því staðfastlega að hafa nokkurntíma átt belju og mér þykir það svolítið skrítin yfirlýsing af framsóknarmanni úr sveit, einu stærsta fjósi Suðurlands. Það er ekkert til að skammast sín fyrir að vera sveitamaður og beljuhluthafi.
Guðni fyrtist við þegar ég sagði að að íslenska landbúnaðarkerfið væri peningaklósett sem um 15 milljörðum af skattfé landsmanna væri sturtað niður í árlega. (Við eigum heimsmet í þessu einsog öðru gáfulegu). Hann sagði þessa upphæð kolranga en rökstuddi það ekki nánar heldur bifaðist af geðshræringu og hvolfdi í sig sjóðandi heitu kaffi. Hann fyrtist ennþá meira við og herti á kaffidrykkjunni þegar ég sagði að íslenskur landbúnaður hlyti að þola utanaðkomandi samkeppni úr því að hann væri svona stórkostlegur og allt væri baneitrað sem kæmi að utan. Neytendur ættu einfaldlega að fá að velja og hafna. Orðið samkeppni" virtist fá þennan fyrrum lambbúnaðarráðherra frjálshyggjustjórnarinnar" til að nötra af bræði. Hann lyftist upp úr stólnum yfir óskammfeilni minni þegar ég spurði hann hvort að landbúnaðurinn væri til fyrir okkur neytendur eða hvort að neytendur væru til fyrir landbúnaðinn. Kaffikannan hvarf ofan í hann. Það sem gerði útslagið varðandi flótta hans úr stúdíóinu var ekki beljudjók heldur einfaldlega skilningsleysi mitt á guðdómlegri framsóknarmennsku, afdalamennsku, einangrunarhyggju. Ég er eins lítill framsóknarmaður og hægt er að hugsa sér svo það er kannski ekkert skrítið að ég skyldi fara í þær taugar á Guðna sem hann var ekki búinn á. En auðvitað átti hann ekki að flýja út úr stúdíóinu einsog ofverndað niðurgreitt fjallalamb á leið á grillið heldur bara að svara spurningum mínum og beina mér, afvegaleiddum sauðinum, á rétta braut, semsé á hinn beina og breiða framsóknarveg sem liggur til himnaríkis sérhagsmuna og afturhalds. Hann æddi rauðþrútinn af bræði fram á gang og fór fram á það við lögfræðing Sögu að þessi þáttur yrði aldrei endurfluttur og að ég yrði rekinn. Bíddu, er gæinn í kínverska kommúnistaflokknum? Vill hann hefta tjáningarfrelsið líkt og innflutning á búvörum? Er ekki nóg að þroski Framsóknar sé heftur? Kannski finnst Íslendingum sjálfsagt að stjórnmálamaður skipti sér af frjálsri útvarpsstöð með þessum hætti enda erum við vanir pólitískt skipuðu útvarpsráði frá því við kveiktum fyrst á varpinu, en þetta getur varla talist í lagi árið 2008.
Í kjölfar þáttarins geystist framsóknarþingmaðurinn Bjarni Harðarson fram á bloggvöllinn til að þrífa upp eftir for(n)manninn og sagði að ég hefði orðið mér til skammar en tók jafnframt fram að hann hefði ekki hlustað á þennan umrædda þátt og ætlaði sér aldrei að gera það. (Sjá: http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/603970/). Greindarlegt. Framsóknarlegt. Ef að Guðni og framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að það hafi verið ég sem hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni hversvegna var Guðna þá svona mikið í mun að þátturinn yrði ekki endurfluttur en mér ekki? Bjarni Harðarson laug því uppá mig á moggabloggi sínu að ég hefði viðhaft ærumeiðandi ummæli um Steingrím J., Árna Mathiesen og Sigurbjörn biskup. Þessu hefði Bjagni líklegast ekki logið ef hann hefði hlustað á þáttinn, en sumir kjósa að skjóta fyrst og spyrja svo, og þykir kúl. Hvað yrði sagt um bókagagnrýnanda sem rakkaði niður verk opinberlega eingöngu af afspurn nokkurra félaga? Hann yrði réttilega sagður sauðheimskur og rekinn á nóinu.
Til fróðleiks fyrir Framsókn og aðra má geta þess að það má hlusta á þáttinn og hneykslast á undirrituðum á www.stormsker.net.
Eina sem gæti kallast ærumeiðandi ummæli viðvíkjandi þættinum er þessi lygi Bjarna Harðarsonar þingmanns að ég hafi viðhaft ærumeiðandi ummæli. Það má skoða það mál. Endurtek: Þann dóm felldi hann í ofanálag án þess að hafa heyrt þáttinn, sem hlýtur að teljast heims(ku)met?! Mér finnst það ábyrgðarhluti af mönnum sem hafa þann starfa að setja okkur almúganum lög að þeir skuli í valdhroka sínum ljúga opinberlega uppá fólk sem þeir starfa í umboði fyrir. Ég, einsog aðrir Íslendingar, er að sjálfsögðu orðinn vanur því að stjórnmálamenn ljúgi að mér en ég hef ekki átt því að venjast að stjórnmálamenn ljúgi uppá mig á opinberum vettvangi. En það má kannski venjast því frá þeim einsog öðrum. Ég veit ekki á hvaða vegferð Framsóknarflokkurinn er en hann sækir allavega ekki fram á við. Meiraðsegja nafn flokksins stenst ekki skoðun. Eftir fáein ár mun Guðni segja við Bjarna: Þar sem 2 framsóknarmenn koma saman á flokksþingi, þar er 100% mæting."
Þessi grein birtist í 24 Stundum, 12. ágúst.
Bloggar | Breytt 24.8.2008 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
2.8.2008 | 21:24
Þáttur Stormskers með Guðna ekki endurtekinn
Einsog hlustendur Útvarps Sögu hafa eflaust tekið eftir þá var þátturinn með mér og Guðna Ágústssyni ekki endurtekinn klukkan 4 í dag einsog til stóð og búið var að auglýsa villt og galið. Ég hef sjálfur ekkert heyrt í Arnþrúði vinkonu minni og fæ yfirleitt síðastur manna að vita hvenær þáttur minn er endurtekinn, en ég trúi því ekki að óreyndu að Arnþrúður láti framsóknarforkólfana beygja sig og breyta sinni frjálsu og óháðu útvarpsstöð í ófrjálsa og háða. Ef að þátturinn verður endurtekinn þá vona ég fyrir hönd hlustenda að það verði ekki á einhverjum fáránlegum tíma þegar allir eru í móki. Ef hann verður hinsvegar ekki endurtekinn þá er ég hættur med det samme því ég myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum vilja starfa á fjölmiðli sem væri í vasanum á stjórnmálamennum sem reyndu að hefta mitt tjáningarfrelsi. En sem ég segi: Ég trúi því ekki að kröftug spaugsöm manneskja einsog Arnþrúður láti einhverja grafalvarlega sveppi segja sér fyrir verkum.
Ég þykist vita að Halldór E og Markús Þórhallsson séu ekki beint ánægðir með það frekar en ég að hafa verið að kynna endurflutning þáttarins á tilteknum tíma sem svo var ekkert að marka, og ég hef aldeilis fengið að heyra það í mín eyru að hlustendur eru ekki par ánægðir heldur. En ég get því miður ekki beðist afsökunar á einhverju sem ég ræð engu um.
Guðni fór fram á það við Arnþrúði strax eftir viðtalið að þátturinn yrði ekki endurfluttur og að ég yrði rekinn. Ef að Guðni og litlu framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að ég hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni sjálfur hversvegna er þeim þá svona mikið í mun að þátturinn verði ekki endurtekinn? Framsóknarmenn og aðrir stjórnmálamenn verða að fara að skilja að þeir eiga ekkert með að vera að grauta í frjálsum fjölmiðlum og reyna að hafa áhrif á hvað þar er sagt og gert. Læt meira heyra í mér síðar um þetta mál.
Þátturinn verður kominn inná heimasíðu mína á mánudaginn: www.stormsker.net hvað svo sem afturhaldssamir framsóknarstrumpar reyna að röfla í mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (66)