Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
25.6.2008 | 07:14
Reykingar og hávaðamengun
Við sátum um kvöld á rómó veitingastað hér í borg, ég og vinkona mín. Kertaljós, notaleg tónlist í bakgrunni, góður matur - og kelling með organdi smákrakka á næsta borði. Hún hefði allt eins getað mætt með loftbor. Ég spurði þjóninn hvort ég mætti kveikja mér í vindli, það væri örugglega minni mengun af honum en öskurapanum. Nei, ég mátti það ekki, ég yrði að sýna tillitssemi. Ég spurði þá hvort hann væri til í að sýna þá tillitssemi að biðja mömmuna við hliðina að sýna gestum þá tillitssemi að borða heima hjá sér með loftbornum sínum. Nei, það vildi hann ekki. Ég spurði: Eru reykingar bannaðar en hávaðamengun leyfð á veitingastöðum þar sem fólk vill njóta næðis? Hann heyrði ekki hvað ég sagði fyrir öskrum og gekk í burtu. Stemman var í molum og við hröðuðum okkur út með hlustaverk.
Daginn eftir skruppum við til útlanda. Flugvélin var þéttsetin. Langt flug fyrir höndum. Fyrir framan okkur sat kelling með hágrenjandi smákrakka í fanginu. Einmitt það sem vantaði. Farþegarnir hrylltu sig og fóru að raða í sig svefntöflum og róandi, allir nema litli loftborinn sem var í gangi á öskrandi ferð alla leiðina. Engum kom dúr á auga. Ein lítil róandi barnatafla í réttan munn og öll vélin hefði steinsofnað. Kannski vantar sérbása fyrir ómálga flugdólga? Ég ætlaði að fara að kveikja mér í vindli en mundi að ég varð að sýna tillitssemi.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum 14. júní)
Í þætti mínum "Miðjunni" í dag klukkan 16:00 á Útvarpi Sögu fm 99.4 verður gestur minn Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaskáld. Hann var í spjalli hjá mér fyrir fáeinum vikum og þar sem hann er mikill sagnabrunnur þá er ekki annað hægt en að rekja aðeins fleiri garnir úr honum, - allavega eina ósmurða görn.
Síðustu 4 þættir verða komnir inn á síðu mína www.stormsker.net fyrir helgi. Njótið vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
18.6.2008 | 05:39
Nýskotinn nýbúi
Í textavarpinu í gær stóð:
"Hvítabjörninn á Skaga hefur verið felldur" (fallegur feldur).
"Björninn var aldraður og kvenkyns."
Einmitt: Aldraður og kvenkyns. Semsagt tvær góðar og gildar ástæður til þess að skjóta hann.
Stefán (lík)Vagn Stefánsson yfirlögga á Sauðarkróki sagði að dýrið hefði tekið á rás í átt til sjávar "og því var ekki annað í stöðunni en að skjóta það, því miður."
Hefði dýrinu semsagt verið hlíft ef það hefði tekið á rás í átt til byggða? Í hvaða átt hefði dýrið átt að stefna til að sleppa lifandi? Það hafði vit á að yfirgefa klakann svo fljótt sem auðið var en var skotið á flótta. (Ekki gott til eftirbreytni fyrir nýbúa).
Meiraðsegja Björgólfur Thor bauðst til að standa straum af kostnaði við björgun dýrsins en allt kom fyrir ekki. Björninn reyndi að flýja land og það er nokkuð sem verður aldrei liðið. Þar að auki var hann aldraður og kvenkyns í þokkabót og þá segir það sig náttúrulega sjálft að hann var dauður um leið og hann steig á land.
Mér finnst að við eigum að taka vel á móti öldruðum dösuðum ísbjörnum. Við eigum að gefa þeim eitthvað annað í vömbina en kúlu. Við eigum ekki að fara með þá einsog gamla fólkið. Við eigum að svæfa þá og flytja úr landi, svona svipað og flestar þjóðir vilja gera við múslima.
Íslenskt dýralíf
Gestur þáttar míns, Miðjunnar, á Útvarpi Sögu í dag milli 16:00 og 18:00 verður hinn óumdeildi Hannes Hólmsteinn Gissurarson, en hann var einnig gestur minn síðasta miðvikudag en þá rakti hann t.d. rómantískan vinskap sinn við Auði Laxness og Jón Ólafsson Skífubónda, en þau tvö hefur Hannes sem kunnugt er styrkt fjárhagslega og staðið við bakið á í gegnum þykkt og þunnt.
(Það má hlusta á fyrri þætti á www.stormsker.net. Síðustu 3 þættir eru ekki enn komnir inn en það gerist fljótlega).
Bloggar | Breytt 19.6.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)