Foreldraminning

 

VILHELMÍNA NORÐFJÖRÐ BALDVINSDÓTTIR

Fædd 30. september 1930 og lést 8. febrúar 2019

 

Vilhelmína Norðfjörð BaldvinsdóttirMamma var heilsteypt og vönduð kjarnakona af gamla skólanum. Afar ólík þessum heimtufreku sífrandi sjálfsvorkunnarpissudúkkum sem nú ríða húsum og öðru í dag.

 

Hún var mjög samviskusöm, vandvirk og vinnuglöð og skilaði alltaf pottþéttu verki. Hún var orginal og laus við áhrifagirni og lét ekki stjórnast af tískusveiflum og áliti annarra. Öfugt við mig þá þoldi hún ekki óreglu, leti og ómennsku. Það fannst mér skrýtið.

 

Frá því ég var 7 ára kallaði hún og aðrir mig aldrei annað en Láka. Stundum Láka jarðálf. Ég var víst örlítið úr hófi fram hrekkjóttur og óþekkur. Stundum byrsti hún sig þegar ég var yngri og reyndi eftir fremsta megni að siða mig til: „Heyrðu nú mig Láki jarðálfur! Nú hættir þú að setja sprengjur í vindlana hans pabba þíns og reynir að fara að haga þér einsog maður! Þú ert orðinn fertugur og þetta gengur ekki lengur!“

 

Mamma var svakalega músíkölsk og lagviss. Hún samdi t.d. lagið „Sem ljúfur draumur“ sem Helena Eyjólfs söng inná plötu 1966 og náði mikilli hylli. Um árabil söng hún alt millirödd með Selkórnum. Og ekki bara með Selkórnum heldur söng hún líka millirödd með Elvis, Bítlunum, ABBA og öðrum góðum flytjendum sem hún heyrði í útvarpinu inní eldhúsi þegar hún var að hræra í sínum grautarpottum og sjóða sínar ýsur.

 

Hún lék sér að því annarshugar að syngja flóknar milliraddir án þess að fara nokkrusinni útaf laginu. Þetta var henni jafn eðlislægt og að anda. Hún átti ekki langt að sækja þetta, pabbi hennar var kórsöngvari og einn af stofnendum Karlakórsins Vísis á Siglufirði, og móðurætt hennar var þéttpökkuð af söngfuglum og hljóðfæraleikurum.

 

Þar sem mamma elskaði tónlist þá var það henni mikið fagnaðarefni þegar hún sá mig nokkurra mánaða gamlan skríða á harðaspani að útvarpsskápnum í stofunni þegar ákveðin lög komu, reisa mig upp á afturlappirnar með bleyjuna á bossanum, styðja mig við skápinn og fara að dilla mér á fullri ferð.

  

Eftir það varð ég eftirlætið hennar og fékk í laumi bestu þjónustuna (leyniþjónustuna) af systkinunum á Hótel Mömmu það sem eftir var. Ég var að auki yngstur og með englalokka og tikkaði því í öll box sem kjörið dekurbarn og mömmudrengur þrátt fyrir óþekktina.

 

Þegar ég fór að semja lög í löngum bunum 10 ára gamall þá varð mamma strax minn allra mesti aðdáandi. Hún þreyttist aldrei á að syngja og lofsyngja þessi lög mín sem mörg hver urðu löngu seinna ansi vinsæl. Sem vinur stóð hún sterk og óbifandi með Láka sínum hvað sem á bjátaði. Hún var kletturinn í mannhafinu sem aldrei haggaðist og aldrei brást.

 

Hún var óeigingjarnasta, ósérhlífnasta, umhyggjusamasta, fórnfúsasta og besta manneskja sem ég hef kynnst. Ungarnir hennar voru henni allt. Á hátíðardögum fékk hún sér aldrei sæti við matarborðið fyrr en allir voru alveg örugglega búnir að fá sitt. Hún lét sjálfa sig alltaf mæta afgangi, og át hann jafnvel. Fólk þurfti að mana hana til að fá sér sæti og slaka á. Hún setti sjálfa sig alltaf í síðasta sæti í orðsins fyllstu merkingu. En í mínum huga og í mínu hjarta var hún og er og verður alltaf í fyrsta sæti.

 

 

(Þessi minningargrein birtist í Morgunblaðinu í morgun).

 

 

 

Finnst við hæfi að birta hér í sömu færslu minningargrein sem ég skrifaði um karl föður minn á sínum tíma:

 

 

ÓLAFUR BERGMANN STEFÁNSSON

Fæddur 12. september 1926 og lést 21. mars 2013.

 

Ólafur Bergmann StefánssonPabbi, eða „kallinn“ eins og hann jafnan var kallaður af okkur í fjölskyldunni, var margslunginn náungi. Hann var mjög vinsæll meðal samstarfsmanna sinna hjá Flugfélaginu og þar var hann í góðum flug-félagsskap. Heima var hann ekki í alveg jafn góðum félagsskap, enda við krakkarnir frekar þreytandi kvikindi.

 

Hann gat verið fljótur upp og jafn fljótur niður aftur – líka tröppurnar. Minnti soldið á John Cleese í Fawlty Towers. Hann var mínútugæi og skelfilega samviskusamur. Allt varð að vera 100% og hann þoldi ekkert fúsk og rugl.

 

Hann hafði gaman af að gleðjast með góðum, sem sagt er, en alltaf mætti kallinn í vinnuna, bláedrú, á mínútunni, alveg fjallfrískur og sprellfjörugur, og í þannig skapi var hann alveg þangað til hann kom heim til sín. Hann sagði oft að hann væri í fríi þegar hann væri í vinnunni.

 

Kallinn hafði vit á því að reka mig að heiman þegar ég var 17 ára, af því ég neitaði að verða sprenglærður rykfallinn háskólafagidjót, og þá rofnaði samband okkar í nokkur ár.

 

Það var ekki fyrr en hann var um sextugt sem ég fór að kynnast hans bestu hliðum. Hann var t.d. mjög meinhæðinn og stríðinn og hafði afar glöggt arnarauga fyrir öllu því neikvæða sem lífið hefur uppá að bjóða. Eins og hann var nú hjartahlýr og viðkvæmur þá hafði hann einstakt lag á að finna veiku blettina á fólki og stinga pínulítið í þá með meinfyndnum nastí athugasemdum.

 

Eitt sinn vorum við í veislu og til okkar gekk virtur bókmenntagúrú sem minnti soldið á apa í framan. Pabbi tók í spaðann á honum og kynnti sig sem Homo sapiens. Apinn gladdist ekki en það gerðum við feðgarnir að sjálfsögðu.

 

Kallinn var afar hugmyndaríkur, frumlegur, framsýnn, listrænn og frjór. Hann hafði mikinn áhuga á auglýsingasálfræði og ætlaði sér að opna fyrstu íslensku auglýsingastofuna um miðbik síðustu aldar en rakst á of marga veggi. Menn vissu ekkert um hvað hann var að tala svo hann gaf þetta upp á bátinn.

 

Um svipað leyti fékk hann umboð fyrir BMW en rakst á of marga veggi. Gaf það frá sér. Leiddist veggir. Fyrir ca. tveimur áratugum varð hann sér úti um umboð fyrir stóru flettiskiltin sem nú eru út um alla borg. Hann talaði við allskonar steingelda blýantanaggrísi í kerfinu til að fá að koma þessu upp en rakst alls staðar á veggi. Gafst loks upp og sagði þessum flónum að hoppa uppí óæðri endann á sér, sem sé munninn.

 

Stuttu síðar spruttu þessi flettiskilti upp út um allt á öllum þeim veggjum sem hann var alltaf að rekast á, sem þýðir að „réttur“ maður hafi hirt þetta, sem er alllýsandi fyrir íslenskt viðskiptasiðferði.

 

Það voru mistök hjá kallinum að velja sér Ísland sem búsetuland því hann var stálheiðarlegur sómamaður. Enda hætti hann í lögfræði og guðfræði eftir tveggja ára nám. Skellti sér þess í stað til útlanda og kláraði þar flugumsjónarnám og vann hjá Flugfélaginu í 50 ár.

 

Hann umbar lítt drulludela og fávita og átti því skiljanlega mjög fáa íslenska vini. Honum þótti vænt um dýr og átti skynsama og viðræðugóða kisu. Og ekki síðri eiginkonu.

Ég kveð kallinn með elsku, trega og söknuð í hjarta. Hann var óneitanlega eftirminnilegur karakter.

 

 

(Þessi minningargrein birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2013).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Sæll Sverrir.

Betri minningargreinar er varla hægt að gera.

Ég var nú svo heppinn að kynnast foreldrum þinum eilítið vegna

vinnu sem ég var þar að gera. Þvílíkt sómafók.

Votta þér mína samúð. Það er alltaf erfitt að kveðja

sína nánustu. 

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 27.2.2019 kl. 19:01

2 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurður, þakka þér kærlega.

Sverrir Stormsker, 28.2.2019 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband