28.11.2009 | 14:39
Andlegir dvergar í smáríki
Að undanförnu hefur mikið verið rætt og ritað um þetta kunningja- og klíkusamfélag sem okkur finnst svo ægilega gaman að búa í. Það er einhvernveginn einsog fólk sé að átta sig á því fyrst núna hvað nálægðin og klíkutengslin eru þjóðfélagslega eyðileggjandi. Fyrirlestrar hafa verið haldnir og nú nýverið kom út góð bók eftir Styrmi Gunnarsson þar sem hann m.a. fjallar ítarlega um kunningjasamfélagið og nálægðina sem er hér allt að drepa.
Árið 1997, fyrir heilum 12 árum síðan, tóku nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð langt og ítarlegt viðtal við mig sem birtist í skólablaði þeirra þá um haustið. Þegar ég les viðtalið núna þá finnst mér einsog það hafi verið tekið í dag. Ætla að birta hér brot úr þessu viðtali, orðrétt:
Spyrill: "Hvernig finnst þér Ísland miðað við önnur lönd? Hvað mætti betur fara?"
Stormsker: "Klakinn er ágætur í rauninni og að mörgu leiti betri en mörg önnur lönd, þ.e.a.s. landið sem slíkt, en ekki fólkið. Geta og hæfileikar skipta hér engu máli þegar kemur að því að fá sér embætti. Menntun og gráður virðast ekki skipta hér nokkru einasta máli heldur fyrst og fremst það að eiga frænku í hirðinni, vera sonur forstjórans, þekkja deildarstjórann, hafa farið á fyllerí með vini eigandans, vera tengdasonur ritarans eða eitthvað þvíumlíkt. Þetta er ástæðan fyrir amatörmennskunni hér á flestum sviðum. Þótt þú sért menntaðasta séní veraldarinnar þá skiptir það akkúrat engu máli hér á þessu axlarklappslandi ef þú ert ekki kunningi kunningja forstjórans. Það er náttúrulega fámennið sem gerir þetta af verkum. Allir eru skyldir en sumir eru skyldari en aðrir. Fámennið gerir það semsé af verkum að þjóðfélagið getur ekki kallast þjóðfélag án gæsalappa og sviga. Þetta er bananalýðveldi einsog ég hef ítrekað í það óendanlega. Afskaplega úrkynjað og óinteresant.
En einsog ég segi, landið sem slíkt er gott og veðurfarið er að mörgu leiti ágætt, ef maður vill leggjast í þrúgandi þunglyndi, en það má hinsvegar segja margt misjafnt um kerfið og fólkið einsog gengur. Þó íslendingar séu kannski ekki manna skemmtilegastir, heiðarlegastir og klárastir þá mættu þeir samt vera tveimur milljónum fleiri, hversu einkennilegt sem það kann nú að hljóma."
Flokkapólitík og kreddur
Spyrill: "Ertu hlynntur einhverri stefnu í stjórnmálum?"
Stormsker: "Nei, ég er ekki einstefnumaður, hvorki í pólitík né öðru. Ég held að menn sem vilja draga sjálfa sig í litla og þrönga dilka séu afskaplega lítils virði sem hugsandi verur. Ég get svosem sagt að ég sé afar frjálslyndur jafnaðarmaður, hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn, en ég held að enginn myndi vita hvað ég ætti við. Blind trú á stefnur og isma er fyrir idjóta. Flokkapólitíkin hérna er sömuleiðis fyrir idjóta, eða sýnist þér margir á Alþingi vera með snjalla hausa á hálsinum? Ég spurði einu sinni frekar þunna þingkonu hvað hún væri stór. Hún sagði: "Ég er 1,70." Ég sagði þá við hana að ég væri að spyrja um hæð, ekki greindarvísitölu. Flokkakerfið og kjördæmaskipanin gerir það að verkum að það er ekki hægt að tala um neina alvöru pólitík hér á landi. Hérna er ekki nein önnur pólitík en valdapólitík; að sitja sem fastast á sínum breiða rassi á valdastóli og maka krókinn og sökkva sér á kaf oní kjötkatlana.
Uppistaðan í öllum flokkum er hin landlæga tröllheimska seigdrepandi afturhaldssemi, þ.e.a.s. framsóknarmennska. Ef snefill af hinni annars ágætu frjálshyggju kemst inní landið, þá breytist hún á stundinni í einokun, samkeppnisleysi, einkavinavæðingu og dellu. Hér komum við aftur að þessu skelfilega fámenni."
Svo mörg voru þau orð sem ég lét falla fyrir 12 árum síðan. Ekkert hefur breyst og ekkert mun breytast því fólkið vill ekki raunverulegar breytingar. Það vill sama gamla eitraða grautinn í sömu gömlu skálinni.
(Þessi grein birtist í Mogganum í morgun)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)