Loksins Loksins. Íslandi er borgið

umslagið fallega.jpgJæja, loksins er hún komin í verslanir, platan sem ég og heimsbyggðin höfum beðið eftir með óþreyju frá því í byrjun árs, "Tekið stærst uppí sig" með Serði Monster. Það mátti ekki seinna vera því ég var nær dauða en lífi. Loksins getur maður farið að hlusta á hjartnæma söngva um útrásarvíkinga, femínista, kúluvambir bankanna, stjórnmálafroska, drullupumpur og aðrar hetjur þjóðfélagsins. Í tilefni dagsins hef ég sett lagið "Mín slísí saga er sönn" í tónlistarspilarann hér til vinstri á síðunni, (þar má einnig finna lögin "Þann dag er Klakinn dó" og "Tíu lygnir landráðamenn" af plötunni) og svo ætla ég að birta hér brot úr viðtali sem birtist við Serði um plötuna í júlí:

 

"Siðferðið er í molum á Islandi. Siðgæðisvitundin er engin. Serðir Monster er náttúrulega akkúrat rétti maðurinn til að bæta úr því. Það sem Ísland vantar sárlega núna á þessum alvarlegu siðlausu tímum er almennilegt klám. Femínistar hljóta að geta verið mér sammála um það. Við þurfum að efla nýsköpun á því sviði. Ég er að að reyna að leggja mitt af mörkum með þessari hjartnæmu plötu minni.

Þessi 19 laga plata mín væri bókstaflega barmafull og þarmafull af eðal klámi ef ekki væri kreppa. Það er nefnilega kreppa í landinu þó það hafi ekki verið auglýst víða. Og þessari meintu kreppu verður maður einnig að gera skil. Platan er þessvegna bland í poka, rétt einsog eistu. Þau eru líka svona bland í poka.

Þó að kreppunni fylgi gjaldþrot, atvinnuleysi, hjónaskilnaðir, fólksflótti og svoleiðis fjör þá eru líka neikvæðar og alvarlegar hliðar og það eru þær hliðar sem ég er að reyna að koma auga á. Kreppan er nefnilega ekki bara skemmtun og húllumhæ og eintóm hamingja einsog allir halda. Það eru líka slæmir punktar við hana sem sakar ekki að gefa gaum."

 

Sakar ekki að geta þess að Hagkaup neitar að selja plötuna vegna þess að þeim þykir umslagið víst eitthvað dónalegt. Þeim finnst ekkert dirty við það að útrásarvíkingarnir skulu hafi tekið þjóðina í kakóið en þeim finnst gasalega dirty að ég skuli hafa teiknað mynd af athæfinu. Svona er Ísland í dag. Ætli ég verði ekki að klæða plötuna í nærbuxur eða umslag eða eitthvað svoleiðis svo að sprellinn og sprellið sjáist ekki. Hagkaup er það siðavant fyrirtæki og má ekki vamm sitt vita. Humm humm. Platan er hinsvegar komin í allar betri búðir.

 

Hér er svo textinn við lagið "Mín slísí saga er sönn." Þess má geta að lagið fæst ekki spilað á Bylgjunni, hvernig sem skyldi nú standa á því. Hver á eiginlega öll þessi bannaglöðu kompaní? Wink

 

 

 

Mín slísí saga er sönn

(Lag: Jacques Brel. Texti: Sverrir Stormsker)

 

Ég átti höll og eðal bíl,

og einkaþotu, jú og krakkaskríl,

já ég var æðislegur gaur.

Ég var dáður, átti aur,

núna ataður er aur.

 

Nú ógeðslanda drekk eg dræ,

og drepst á hverju kvöldi yfir Sky.

Ég bý í venjulegri blokk.

Drottinn, þetta er þvílíkt sjokk.

Fjandans helvitis fokking fokk.

 

Ég er foj, ég'er í fönn.

Öll min slísí saga'er sönn.

Þó´hún sé lygileg

er hún sannari en ég.

 

Goodbye mitt sukk og svínarí

og svindilbrask og glæpakompaní

hvar ég fékk bellibrögðum beitt.

Fyrir það ég fékk jú greitt.

Fólkið skilur ekki neitt.

 

Goodbye mín snekkja'og lúxuslíf.

ég lengur ekki'í einkaþotum svíf.

Nú tek ég strætó einsog pakk.

Horfinn er minn kadilakk.

Ég fæ klígju, ullabjakk!

 

Ég er foj, ég'er í fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

En öll lög eru hjóm,

ég mun ekki fá neinn dóm.

 

Goodbye mitt skuggalega líf,

ég lengur ekki neina tinda klíf,

jú það er marflatt þetta sker.

Engir dalir eru hér,

aðeins krónur, því er ver.

 

Ég á í felum í útlöndum

jú eitthvað pínupons af milljörðum.

Ég held ég flýji'af Íslandi.

Hér eru allir hvíslandi

ef ég er eitthvað sýslandi.

 

Ég er foj, ég'er í fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

En öll lög eru hjóm,

ég mun aldrei fá neinn dóm.

 

Ég er foj, ég'er í fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

Hún er svívirðileg,

hún er sönn en ekki ég.

 

Fólk gargar á mig, gefur mér púst

fyrir það eitt að hafa´allt lagt í rúst.

Já þetta er nú þakklætið.

Ég mun aldrei finna frið

fyrr en ég eignast almættið.

 

Goodbye minn faðir, fjandi er hart

að flýja þegar ógert er svo margt.

Svo mörgu´á eftir að stela hér.

Fjölda banka á þetta sker.

When you see them I´ll be there.

 

Ég er foj, ég'er i fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

Ekkert í þessu skil,

allt er farið fjandans til.

 

Ég er foj, ég'er i fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

Þó hún sé lygileg

er hún sannari en ég.

 

Ég er foj, ég'er í fönn.

Öll mín slísí saga'er sönn.

En öll lög eru hjóm,

ég mun aldrei fá neinn dóm.

 

Ég er hálfviti já,

jibbí jibbí jibb jei,

algjör hálfviti já,

ligga ligga ligga lá.

 

 

 

Serðir Monster: Söngur, bakraddir, kassagítar, píanó, orgel,

rafmagnsgítar, trommur, bassagítar, hljómborð.

 

Útsetning: Sverrir Stormsker, með hliðsjón af útsetningu Terry Jacks.

Upptökustjóri: Sverrir Stormsker.

Stúdíó: Fjarupptökur.is, Flúðaseli 86.

Upptakari: Snorri Idol Snorrason.

Hljóðblöndungar: Vilhjálmur Guðjónsson og Sverrir Stormsker.


Bloggfærslur 6. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband