Svona er dæmigerð þingmannsræða um þessar mundir:
"Hæstvirtur forseti. Ég er aumingi og hálfviti og vinn við það að hafa vit fyrir þessari þjóð. Mér þykir ákaflega leitt ad hafa steinsofið á verðinum meðan bankahrunið átti sér stað. Sömuleiðis þykir mér miður að vera hálfviti. Ég geri mér ljóst að ég er ekki starfi mínu vaxinn en hver er það svosem í okkar frændaþjóffélagi þar sem klíka skiptir meira máli en geta, menntun og hæfileikar? Ég hefði mátt vera gagnrýninn í hugsun, en til þess að vera gagnrýninn i hugsun þá þarf maður að geta hugsað Eitthvað og það er ekki beint mín sterkasta hlið frekar en annarra þingmanna einsog frægt er orðið um gjörvalla heimsbyggðina. Þjóðin sjálf á við sama vanda að glíma og þessvegna kýs hún okkur aulana á þing. Aftur og aftur. Við alþingismenn erum þverskurður og spegilmynd þjóðarinnar. Við erum semsagt fífl. Við erum asnar og amatörar en við erum að reyna að gera okkar besta þó það komi náttúrulega ekkert útúr því nema rugl.
Bankahrunið kom mér og öðrum þingmönnum alveg gjörsamlega í opna skjöldu þrátt fyrir allar kolsvörtu skýrslurnar og spárnar sem við vorum bókstaflega að drukkna í. Við vorum sjálfumglöð og værukær og gjörsamlega útá túni og veltum okkur uppúr bittlingunum og ferðadagpeningunum og spillingunni einsog svín og reyktum of mikið af sterku stöffi, og ég ætla að vona að þessir yndislegu tímar séu ekki liðnir. En þess ber þó að geta að fólkið í mínum flokki reykti ekki nánda nærri eins mikið og hyskið í hinum flokkunum og við tókum lítið sem ekkert oní okkur. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað. Við öxlum ábyrgð með því að sitja áfram sem fastast.
Ég á minn þátt í þessu andavaraleysi sem við höfum gerst sek um undanfarna klukkutíma og jafnvel undanfarna áratugi. Það er bara eitt orð sem getur strikað út allt mitt rugl og það er: Sorry.
Ég hefði mátt vera vakandi og ég hefði mátt sleppa því að eyða tíma mínum og annarra þingmanna í tittlingaskít og bullshit einsog hvort öryrkjar og gamalmenni ættu rétt á að lifa af í þessu landi og hvort það væri réttlætanlegt að fólk gæti lifað af laununum einum saman o.s.fr. o.s.fr. Við hefðum mátt hugsa um það sem skipti máli og vera ekki með hausinn á bólakafi uppí rassgatinu á okkur. Við hefðum t.d. átt að taka nokkur ár í að ræða það alveg oní kjölinn hvort kornabörn ættu að klæðast bleikum fötum eða bláum á fæðingardeildum og hvort ekki mætti finna smekklegt kvenkyns orð yfir ráðherra o.s.fr. En gert er gert. Við erum nú einusinni Íslendingar og elskum aukaatriði og þrætur um nonsens.
Mér þykir þykir þetta miður fyrir Sjálfan mig, ekki aðra, og ég hef beðist afsökunar á þessum fávitahætti mínum. Það getur enginn gert að því þótt hann sé hálfviti en það var fólkið í landinu sem kaus mig til að gegna þessu ábyrgðarlausa embætti. Sökin er þessvegna ekki bara mín heldur líka fólksins sem kaus mig, aumingjann. Það eru bara kálfar sem kjósa naut á þing.
En hvað um það. Ég segi einsog Saxi læknir þegar hann hafði óvart höggvið sjúkling sinn i herðar niður: "Afhverju horfa allir svona á mig? Manni getur nú mistekist."
Við þjóðina vil ég segja þetta: Ekki gleyma að kjósa mig og minn flokk aftur i næstu kosningum. Aftur og aftur og aftur og aftur. Það er engin hætta á að við getum klúðrað hlutunum meira en við höfum þegar gert. Við áttum okkar þátt í því að sökkva þjóðarskútunni til botns en nú getur leiðin bara legið uppá við. Við erum rétta fólkið í það björgunarverkefni. Hryðjuverkamaður sem sprengir byggingu í loft upp er akkúrat rétti maðurinn til að endurbyggja hana. Treystið okkur. Við kunnum þetta þó við séum víðáttuvitlausir hlandaular.
Við eigum ekki alltaf að vera að horfa í baksýnisspegilinn. Við eigum að horfa á allar fögru brunarústirnar sem eru framundan. Það eru mjög spennandi tímar framundan fyrir okkur þingmenn. Við eigum að kjósa flokka, ekki fólk, vegna þess að í skjóli flokkanna hljóta hálfvitar eins og ég brautargengi. Hugsið ykkur bara; ég væri að raða kerrum í Bónus ef ég hefði ekki gengið í minn flokk og sleikt rassgöt og sagt já og amen við öllu sem formaðurinn bullaði. Ég er nefnilega ekki snillingur heldur spillingur.
Jæja. Við játum mistök okkar og öxlum ábyrgð með því að biðjast afsökunar. Sorry og málið dautt. Kæru kjósendur, ég treysti á yfirgripsmikla heimsku ykkar og ósjálfstæði. Hún hefur aldrei brugðist. Sjáumst í kjötklefanum."
![]() |
Sekt og sakleysi á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)