26.4.2013 | 17:12
Formenn flokkanna og frammíkallar fjölmiðlanna
Jóhanna Sig var kvödd í dag og ríkisstjórn hennar verður bráðkvödd á morgun. Jóhönnu voru færðar rósir í tilefni hátíðarhaldanna. Líklega þyrnirósir. Í hennar sporum hefði ég sagt: "Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir."
En nóg um fögnuð, flugelda og dýrðarstundir. Við skulum ekki alveg tapa okkur í fagnaðarlátunum. Ég horfði á formenn 6 stærstu flokkanna á Stöð 2 í gærkvöld. (Verður ekkert spjallað við hina 200 formennina?) Þar kom margt skrítið fram. Guðmundur Steingrímsson, formaður Smáfylkingarinnar, líkti vogunarsjóðunum við góða og fróma fjárfesta og sagði að það væri óábyrgt af íslenskum stjórnmálamönnum að tala um þá sem hrægamma. (Allur heimurinn kallar þá sínu rétta nafni: Hrægamma). Slíkt tal gæti fælt frá aðra heiðarlega fjárfesta. Jájájájá.
Þarna var sterkur samhljómur með Scamfylkingunni (einsog í öðrum málum), sem hefur lengi talað um að ekki megi styggja þessa stálheiðarlegu snillinga því ímynd okkar gæti beðið hnekki útávið. Á svipaðan hátt talaði okkar ástkæra norræna velferðarstjórn í Icesave-málinu; við yrðum að borga þessa ólögvörðu kröfu því annað gæti eyðilagt orðspor landsins og allt færi hér í rauðglóandi hurðarlaust helvíti. Og svo er ennþá verið að tala um Sigmund Davíð sem lýðskrumara nr. 1 og gefið í skyn að hann hafi tekið þessa einörðu afstöðu gegn Icesave-ánauðarsamningunum sem sannfæringarlaus tækifærissinni til að skapa sér betri stöðu á svelli stjórnmálanna. Það getur varla talist málefnaleg og heiðarleg gagnrýni. Er það?
Katrín Jakobsdóttir var flott og lagði áherslu á að viðhalda skattastefnu ríkisstjórnarinnar, en eins og allir vita felst hún í því að skattpína almenning og fyrirtæki útúr kreppunni. Og útúr landinu. Og útúr heiminum, ef vel á að vera. Þetta er reyndar hagfræði sem enginn skilur nema íslenska velferðarstjórnin, en það er viss kostur.
VG og Scamfylkingin ætla að gera gasalega margt gott og göfugt eftir kosningar: Hjálpa eldri borgurum (oní líkkisturnar), fylla veski öryrkja (af reikningum), bjarga heimilum landsins (frá skuldaleiðréttingum), flæma óþurftarlið einsog lækna og hjúkrunarfólk úr landi og byggja svo hátæknisjúkrahús að því loknu. O.s.fr. Semsé halda áfram þaðan sem frá var horfið. Þarft verk og þrifalegt. Þau eru jú öll í hreingerningunum.
Þau ætla að sanna það EFTIR kosningar að hjarta þeirra slái með heimilum landsins en ekki bönkunum og fjármagnsöflunum. Við trúum því að sjálfsögðu. Gott mál.
Sigmundur og Bjarni voru ansi málefnalegir og svöruðu samviskusamlega, í þau fáu skipti sem þeir fengu að svara. Yfirleitt spurði fréttadúettinn þá einnar aðalspurningar og dembdi síðan á þá tíu aukaspurningum meðan þeir voru að svara aðalspurningunni. Það var frekar þreytandi, idjótískt, ófaglegt og ekki beint upplýsandi fyrir fróðleiksþyrsta áhorfendur. Tilhvers var þá leikurinn gerður ef ekki til að upplýsa fólk? Koma í veg fyrir að rök þeirra heyrðust?
Birgitta var fín. Með annan vinkil á hlutina. Svolítið öðruvísi, en þannig langar Guðmund Steingrímsson einmitt að vera. Stefna hans flokks í fjármálum, fyrir utan að ganga um borð í Titanic (ESB) og taka upp evru, virðist aðallega fólgin í því að gaumgæfa hugmyndir hinna flokkanna og pikka svo úr þær skárstu, því sjálfir hafa þeir engar. Stefnu flokksins má orða í tveimur orðum: Þeir ætla að "skoða málin."
Einsog venjulega fékk Sigmundur Davíð aldrei að klára svör sín og stöðugt var gripið frammí fyrir honum, aðallega af fréttakonunni og Árna Páli. Það sem uppúr stendur í þessari kosningabaráttu er hve stór hluti íslensks fjölmiðlafólks er svakalega hlutdrægur, óheiðarlegur í vinnubrögðum, illa að sér og asskoti dasaður.
![]() |
Jóhanna kvödd með rósum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.4.2013 kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)