16.11.2010 | 22:45
Litli grísinn
Í bókinni Stormskerið eftir Björgvin G. Sigurðsson fyrrv. bankaránsmálaráðherra lýsir hann því þegar Davíð Oddsson, þá seðlabankastjóri, kom askvaðandi á fund ríkisstjórnarinnar í aðdraganda bankahrunsins og tilkynnti að þetta land okkar á norðurhjara veraldar væri farið norður og niður, - semsé ennþá norðar og neðar og gjörsamlega veg allrar veraldar. Grípum niður í skruddunni:
"Nú hafa útrásarvíkingarnir skuldsett landið þannig að landráðum líkist, sagði Davíð og gaf Ólafi Ragnari Grímssyni vænt olnbogaskot í leiðinni - uppklappaðir af forsetanum og fleiri fínum mönnum, bætti hann við. Skerum á landfestar og skuldirnar við útlönd, sagði hann. Skiljum víkingana og þeirra brask eftir. Þá losnar þjóðin við erlendu skuldirnar og við getum haldið áfram betur sett en nokkru sinni fyrr."
Að þessari tölu lokinni barði hann í ríkisstjórnarborðið af svo miklu afli að borðbúnaðurinn tókst á loft og kaffið skvettist í frosin andlit fundargesta. Því næst reif hann í krullurnar á sér og öskraði einsog ljón: "Og reyniði svo að láta hendur standa fram úr ermum helvítis amlóðarnir ykkar! Djöfulsins dusilmenni og leppalúðar sem þið getið verið! Hálfvitar! Láttu græða eistu í punginn á þér þú þarna Geir gunga eða Gay gauð eða hvað þú nú heitir örlagaræfillinn þinn! Þú titrar einsog lauf í vindi! Þú ert meiri kellingartuska en Imba Solla erkiapi! Og vakna þú þarna Jóhanna ráðherfa, you bloody motherfucker! Rífið ykkur upp á rassgatinu andskotans prumphænsnin ykkar og látið verkin tala!"
Svona á náttúrulega að taka á þessu. Í alvöru. Af festu, ákveðni og röggsemi. Ef Dabbi Don hefði verið við stjórnvöldinn á þessum tíma þá hengju útrásarhlandaularnir núna roðflettir á skreiðarhjalli og allar þeirra eigur væru djúpfrystar.
Steingrímur J. raðlygari sagði í kosningabaráttunni að kæmist hann til valda þá yrði hans fyrsta verk að hafa hendur í hári bankaræningjanna og láta kyrrsetja eigur þeirra, en auðvitað var það ómarktækt vinsældahjal einsog hans var von og vísa. Eftir kosningar sneri hann öllu á haus: Almenningi var látið blæða út og ríkisstjórnin hélt hlífiskildi yfir útrásardólgum og öðrum kúluvömbum bankanna, enda ófáir stjórnmálamenn innvinklaðir í dýpsta sorann. Skylt er skeggið hökkunni. Og staðan er eins í dag.
Núna fyrst, tveimur árum eftir hrun, er gerð húsleit hjá meintum bankaræningjum, sem er líklega heimsmet í vitleysu á sviði stórglæparannsókna. Allir eru yfirheyrðir í fyrirtækjum þeirra, hver einasti starfsmaður; alveg frá pappírstætarameisturum uppí skúringakellingar, - allir nema hinir "grunuðu." Það borgar sig ekki að vera að ónáða þá. Þeir gætu orðið tens og misst legvatnið. Sérstakur saksóknari gæti að auki þurft að blæða á þá fari með limmósínu eins og hann þurfti að gera með Sigurð Einarsson.
Hvað ætti Sérstakur saksóknari svosem að finna í skúffum hinna grunuðu bankaræningja heilum tveimur árum eftir glæpinn annað en klámblöð, afrifna miða á Bubbatónleika og svo kannski notaða smokka undir rúmi eftir veislur með útrásarmellum og öðrum stjórnmálamönnum? Ef einhver markverð tölvugögn finnast þá er það kraftaverk. Hvaða almennilegi innanbúðarbankaræningi lætur ekki endurnýja tölvuflota sinn eftir vel heppnað heimsklassa rán?
Læt hér fljóta með texta við lag af nýju plötunni minni "Látum verkinN tala," sem kemur út næsta mánudag. Lagið, sem heitir Litli grísinn, má finna í tónlistarspilaranum hér til vinstri á síðunni. Kalli Bjarni syngur og ég er á öllum hljóðfærum einsog venjulega:
(Lag og texti: Sverrir Stormsker)
Þegar ég var ungur var ég ólýsanlegt frat,
átti´ei nærbuxur til skiptanna,
raðaði í Bónushillur dósadrullumat
og dreymdi um að vinna á lyftara.
En veldið jókst og pyngjan óx er Kaupþing kynntist mér,
með komu þeirra breyttist mín tilvera.
Áður en ég vissi var ég orðinn billjóner
sem alsæll skuldaði 1000 milljarða.
Sagan hún flaug, ég setti´upp geislaBaug,
sá var sko þyngri´en blý.
Hringurinn minn, hann horfinn er um sinn,
- hann mun samt birtast á ný.
Ég lán tók fyrir öllu, já ég þurrjós mína þjóð,
það er ljóst að ég var "lánsamur."
Mínum löngu Baugfingrum ég tróð í sérhvern sjóð
því að sama skapi var ég ránsamur.
Ég keypti félög, mergsaug þau, ég átti bara allt,
allt er hægt að fá með pyngjunni.
Skjótt ég komst að raun um það að fólk er líka falt,
fyrir slikk ég keypti þingmenni.
Ég lánalínur tók í nefið, gerðist Glitnisblók,
lét greipar sópa´um allt uns Klakinn sökk.
Þá fór ég úr hreinu kóki yfir í dollu-diat kók,
en duldi´á vísum stöðum seðlamökk.
Að strjúka lubba´um höfuð frjálst það núna erfitt er,
að eiga falda sjóði er mikil raun.
GeislaBaugurinn herðist mjög að höfðinu á mér,
en hvað með það? Ég kaupi Litla Hraun.
Sjá hér er ÉG, Íslendingurinn,
útrásin guðdómleg.
Þjófur er hver? Hann þrengist hringurinn.
Það er ljóst að ekki´er það ég.
Ég mun um síðir í vasa mína flytja fjársjóðinn,
fúlgur eru enn til skiptanna,
svo eflaust mun að lokum rætast æskudraumur minn
sem er að fara að vinna á lyftara.
Ekki boðaður til yfirheyrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ljóð, Stjórnmál og samfélag, Tónlist | Breytt 18.11.2010 kl. 02:51 | Facebook
Athugasemdir
Mér varð á að skella upp úr.
Jens Guð, 16.11.2010 kl. 23:26
Jens, ég skellti líka uppúr þegar ég las að núna fyrst væri farið að gera húsleit hjá "viðskipta"englunum orðumprýddu. Við hlæjum þó varla jafn dátt og þeir.
Meðan ég man; takk kærlega fyrir færeysku bragðgóðu öllarana sem þú slakaðir mér í afmælisgjöf. Verulega hressandi humlar.
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 00:03
Góður að venju
Hérna er eitthvað til að hressa þig http://ommi.blog.is/blog/ommi/entry/1117075/
Ómar Ingi, 17.11.2010 kl. 00:13
Líflegur leirburður atarna, zlurk til þín...
Steingrímur Helgason, 17.11.2010 kl. 00:20
Þú klikkar ekki drengur.
Þórarinn Baldursson, 17.11.2010 kl. 00:37
Hressileg hugarfró,þegar gamalt hró er með S.J.Ö. í sigtinu.(Þetta fattar þú).
Helga Kristjánsdóttir, 17.11.2010 kl. 00:50
Ómar, mér líst bara vel á þetta heimavídeó. Ansi skemmtileg þessi danska fjölskylda sem þú átt. Svona á fólk að vera
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 02:01
Zteingrímur, takk fyrir það. Zkál fyrir því að það zkuli ennþá vera til nóg að zkála í!
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 02:03
Þórarinn, klikkaðir menn geta ekki klikkað, - meira en orðið er.
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 02:05
Helga, Los Dabbos er oft með sjö froska í sigtinu. Missir sjaldan marks.
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 02:12
Það er alltaf verulega hressandi að móttaka pillurnar frá þér. Vildu að þær kæmu oftar. Stórskemmtilegt lag og texti líka - og Feministinn ekki síðri.
Grefill, 17.11.2010 kl. 06:32
Gott lag!
Sumarliði Einar Daðason, 17.11.2010 kl. 09:00
Grefill, takk fyrir það.
Sumarliði, þetta venst.
Sverrir Stormsker, 17.11.2010 kl. 14:28
Sverrir, mætum á Austurvöll fimmtud. 18. kl. 14.00, biðjum Alþingi um, frjálsar handfæra veiðar,
sem leysa fátæktar og atvinnu vanda Íslendinga!
Aðalsteinn Agnarsson, 17.11.2010 kl. 21:50
haha góður
Jón Snæbjörnsson, 18.11.2010 kl. 11:35
Aðalsteinn, ég var í kampavínsveislu í dag með kvótakóngum og aðal forsprökkum L.Í.Ú. þannig að ég komst því miður ekki niðrá Austurvöll, en ég mæti pottþétt næst.
Sverrir Stormsker, 18.11.2010 kl. 19:35
Jón, ekki sem verstur.
Sverrir Stormsker, 18.11.2010 kl. 19:36
Þvílík snilld Sverrir! þetta er með þínum bestu lögum kæri vin!!! (vantar bara að ég spili á munnhörpu í miðkaflanum)
Guðmundur Júlíusson, 19.11.2010 kl. 23:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.