Er hetjuskapur að viðurkenna aulaskap sinn?

Dagur BMargir eru búnir hæla Degi B. Eggertssyni í hástert fyrir það fáheyrða drenglyndi og gáfnamerki að hafa dregið idjótasamþykkt sína og meirihlutans til baka og viðurkenna stórfelld mistök sín og biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu, fúski og rugli.

(Ég hef reyndar hvergi séð hann biðjast afsökunar). Það er ekki á hverjum degi sem stjórnmálamenn sýna þann hetjuskap að viðurkenna aulaskap sinn.

 

Sumir vinstrimenn húðskamma hann reyndar fyrir að hafa dregið rugl sitt til baka og vilja að hann klúðri hlutunum ennþá meira en orðið er með þeim rökum að bágur efnahagur landsins eigi að víkja fyrir mannréttindum, einsog það sé í verkahring smáborgarstjóra að bjarga heiminum, en svo eru aðrir vinstrimenn niðrá jörðinni sem segja að hann sé „maður af meiru“ og „maður að meyru“ og „maður með meiru“ fyrir að hafa séð að sér. Þeir virðast aldrei ætla að geta lært að koma þessum einfalda frasa skammlaust frá sér.

 

Sú góða dama, Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, gengur svo langt að segja að Dagur hafi hvorki meira né minna en „brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á mistök...“ og bætir við: „Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.“

 

Já. Akkúrat. Svona viljum við hafa stjórnmálamennina. Þeir eiga að brjóta blöð og helst lög líka. Þeir eiga að klúðra hlutunum big time, reyna svo að klóra sig útúr vandanum og kenna öðrum um, hlaupa úr einu lygahorninu í annað og neyðast svo til að viðurkenna glópsku sína og stjarnfræðilegt dómgreindarleysi og muldra svo afsökunarbeiðni oní hálsmálið og málið dautt.

 

Hvernig er hægt að kalla eitthvað "mistök" sem hefur verið í undirbúningi mánuðum saman með lögfræðingum og innkaupastjórum og öllu tilheyrandi? Það eru ekki "mistök." Það er ásetningur. Einbeittur brotavilji.

Katrín Júl hefði því frekar átt að segja að Dagur hefði "brotið blað í íslenskri pólitík með því að viðurkenna að honum og meirihlutanum hafi orðið á ásetningsbrot."

En það hefði kannski ekki komið eins vel út fyrir samfólin.

 

Eftir því sem Björk Vilhelms segir þá var búið að undirbúa þessa sniðgöngutillögu í heilt ár, en samt var hún vanhugsuð. Menn geta þá rétt ímyndað sér hvað þetta lið er lengi að hugsa. Ekki nema von að meirihlutinn hafi ekki getað séð fyrir viðbrögð Gyðinga í Bandaríkjunum. Hefði þurft lágmark 20 ár til að kveikja á perunni.

Alveg glæpsamlega vitlaust gengi.

En svona eiga pólitíkusar að vera. „Þetta er það sem við höfum verið að kalla eftir.“ Lútum höfði í auðmýkt og undirgefni og færum Degi gull, reykelsi og myrru. Krjúpum í lotningu við fótskör meistarans. Vér skulum biðja.

 

Jón GnarrÉg efast samt um að Dagur hafi „brotið blað í íslenskri pólitík“ með því að viðurkenna axarsköft sín og handabakavinnubrögð. Ég man nú ekki betur en að fyrirrennari hans og fyrirmynd, Jón Gnarr, hafi gert fátt annað en að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar á þeim, á milli þess sem hann var að gera þau. Þetta var full time job. Ef eitthvað var gert þá voru það mistök og þau voru viðurkennd og beðist afsökunar á þeim. Svona gekk þetta árið um kring. Mistök - þau viðurkennd - beðist afsökunar. Þetta var Dags-skipunin.

 

Gnarrinn var alltaf fyrstur manna til að viðurkenna að hann vissi minna en ekkert um málefni borgarinnar og að hann hefði ekki hugmynd um hvort hann væri að koma eða fara. Er hægt að hugsa sér betri eiginleika sem geta prýtt borgarstjóra?

Vanhæfni er vanmetinn kostur.

 

Hann sagði að það væri ekki til sá hlutur innan borgarkerfisins sem hann hefði minnsta skilning á. Hann má þó eiga að hann viðurkenndi það.

Stjórnmálin voru svo djúpt sokkin á þessum tíma að einu kröfurnar sem fólkið gerði til stjórnmálamanna voru að þeir viðurkenndu að þeir væru froskar sem vissu ekkert í sinn haus.

 

HofsvallagataJón Gnarr var ekkert að reyna að fela það og uppskar miklar vinsældir fyrir vikið. Fólk var ekkert að ætlast til þess að hann gerði eitthvað af viti og breytti gangi himintunglanna heldur bara að hann væri að hirðfíflast í Gleðigöngunni og þrengja götur borgarinnar og búa til hjólreiðarstíga og fuglahús og gefa lóðir til trúarsafnaða og viðurkenna að hann vissi ekki neitt.

 

GnarrMaður sá hann ekki í sjónvarpinu öðruvísi en að hann væri að biðjast afsökunar á einhverju klúðri og játa að hann hefði ekkert vit á þessu eða hinu og hefði ekki sett sig inní málin því hann væri með athyglisbrest og gæti ekki haldið sér vakandi á fundum sökum leiðinda og vissi í raun ekkert hvað hann væri að gera þarna.

 

Svona eiga borgarstjórar að vera. Og þessvegna var hann svona vinsæll og mikils metinn. Hann viðurkenndi nefnilega að hann væri alveg úti að aka í öllum málum og vissi nákvæmlega ekkert í sinn haus. Og þessvegna urðu þeir svona góðir vinir, hann og Dagur. Þeir áttu svo margt sameiginlegt. Enda borgin að stefna í gjaldþrot.

 

Það var einmitt Jón Gnarr sem átti þá hugmynd að fara með smáborgarstjóraembættið í útrás og slíta sambandinu við Moskvu fyrir að brjóta á réttindum samkynhneigðra. Hann sendi umvöndunarbréf til Moskvu en var ekki svarað. Lengra náði það ekki.

Ekki veit ég hversvegna hann sendi ekki svipað bréf til Saudi-Arabiu, Írans og annarra múslimaríkja en þessi hugmynd hans var semsé kveikjan að þeirri vanhugsuðu ruglsamþykkt sem núverandi meirihluti var að draga til baka.

 

Dagur moskunnarÞó að Jón hafi ekki náð að slíta sambandinu við Moskvu fyrir að brjóta á réttindum samkynhneigðra þá bætti hann og Dagur úr því með því að gefa islamistum lóð undir mosku en einsog allir vita þá eru samkynhneigðir í hávegum hafðir meðal islamista. Aðeins femínistar og geitur eru hærra skrifaðar.

 

 

KlúsóKröfurnar sem vinstrimenn gera til borgarstjóra síns, hvort sem hann heitir Jón Gnarr eða Dagur Bé eða Klúsó eða eitthvað annað, eru fyrst og fremst þær að hann kunni að viðurkenna allt sitt klúður, glópsku, dómgreindarleysi, aulaskap, fúsk og fáfræði, og kunni jafnvel líka að biðjast afsökunar á afglöpum sínum í starfi. Ef hann kann þetta tvennt, og jafnvel ekkert annað, þá er hann virkilega góður og mikilhæfur borgarstjóri í þeirra augum. Mikill leiðtogi og stjórnvitringur. Jafnvel hetja.

 

Ef mistökin eru vel meint þá þykja þau ókei. Ruglið þarf að vera „sett fram af góðum hug,“ einsog Dagur orðaði það. Það er nefnilega hugurinn á bak við klúðrið sem skiptir máli. Svo þegar maður er búinn að fokka öllu upp þá á maður að segja einsog Saxi læknir, kollegi Dags og fyrirmynd í mörgu:

 

Saxi læknir„Æjæ, þarna skar ég aðeins of djúpt. Ég er búinn að stórskemma skurðarborðið. En þetta var ekki mér að kenna. Sjúklingurinn hreyfði sig of mikið, enda ódeyfður. Huhu. Afhverju horfa allir svona á mig? Ókei þá, ég gerði smá mistök. En þið hefðuð örugglega ekki gert þetta betur. Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftirá. Huhu. Afhverju horfa allir ennþá svona á mig? Jæja þá, sorry, ef ykkur líður betur með það.“

 

Svona á að gera þetta. Þetta er það sem góður stjórnmálamaður þarf að kunna: Að klúðra hlutunum, játa klúðrið og biðjast afsökunar á klúðrinu. That´s it.

Dagur er búinn að gera þetta þrennt samviskusamlega og því eru alveg hverfandi líkur á því að hann muni segja af sér. Ekki nema að fylgi hans sjálfs eða Samfó færi niður í mínus-tölu, semsé undir frostmark og færi að nálgast helkul. Þá myndi hann hugsanlega þurfa að brjóta grýlukerti af oflæti sínu og láta losa sig úr stólnum með logsuðutæki.

Líka ef það kæmi í ljós að það væri nú eitthvað meira en lítið bogið við þetta allt og að hann væri með óhreinan maðk í pokahorninu og að það væri mjöl í mysunni, svo maður sletti nú smá vigdísku.

Það þarf nefnilega ekki að vera að allar krullur séu komnar til grafar.

 

Ef maður færi fram á það með mikilli eftirfylgni og og hávaða og látum að hætti vinstri öfgamanna að Dagur segði af sér og pakkaði saman ekki seinna en strax þá myndu mótrök vinstrisinnaða góða og gáfaða fólksins með réttu skoðanirnar vera eitthvað á þessa leið á bloggsíðum og kommentakerfum samfélagsmiðlanna, einsog ævinlega í öllum málum:

 

„Hei þú þadna fávitynn þynn, voru sjallar eyttkvað betry þegar þeyr voru í meyrihluta í borgynni, ha? Svaraðu því hellítis rasystinn þynn. Ertu búinn að gleima Hönnu Byrnu? Og var það ekky Davýð Oddson sem samþygti að troða okkur í Ýrakstríðið? Ha? Var það eyttkvað betra? Það ætti nú bara að leggja Sjallaflokkin nyður.

Ég skal bara seija þér það að krystni er sko ekkert betry en ýslam ef þú heldur það djös úddlendingahatarynn þynn, eða ertu kansky búinn að gleima krozzferðonum og öllu þvý? Ha? Akkuru má ekky hleipa 50.000 flóttamönnum til lansins? Þetta er bara fólk eins og við. Sástu ekky mindyna af druknaða sírlenska stráknum í fjörunny? Ha? Fynst þér það ekki næg ástæða tyl að Evróba opny landamæry sýn uppá gátt og bjóði 5 miljónnyr flóttamanna velkommna frá Myðausturlöndum og Afrýku og Öfganistan og Albanýju? Ha? Þú ert bara fullur af mannvonsku og mannhatry. Þú ert bara badnamorðyngi. Það er málið. Ertu einkver sjalli djösins nasystinn þynn? Eða ertu kansky giðingarottusleikja með íslamófóbíu hellítys rasystadjöfullynn þynn? Ha? Eða ertu kansky í frammsóknarfloknum? Þú hlítur að vera sona þjóðrembusvýn sem kant þjósönginn og Öxul við Árna og alt það og elskar Ýsland. Vynnuru á Údvarpi Sögu eða kvað? Þyð eruð bara óumburðarlint og fordómafult pakk og vont fólk með ógisslegar skoðannyr og það ætti að drepa ikkur öll.“

 

 

Jæja. Það er blessuð blíðan.

Mikið er ég nú feginn að vera almennilegt illmenni með rangar skoðanir á öllum hlutum.

 

 

(Þessi grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 26. september 2015).


mbl.is Greinargerð tillögu verði felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Svona eiga pistlar að vera.  Ég er búinn að lesa þá marga eftir þig en ég held að þessi slái þeim öllum við.

Jóhann Elíasson, 25.9.2015 kl. 10:42

2 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jóhann, takk fyrir það. Gleður mig að heyra.

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 11:30

3 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Frábært hjá þér kæri Sverrir. Hér þarf engu við að bæta !

Vale Sverrir.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 25.9.2015 kl. 11:51

4 identicon

 Sverrir, þessi pistill bjargar alveg hjá mér deginum ;)

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 25.9.2015 kl. 12:02

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Alveg frábær, maður liggur í hláturkasti. 

Hér er þó alvaran ekki síður en gamanið.

Bara eitt atriði nú: Gott hjá þér að vekja athygli á stjórnarháttum (!) Jóns Gnarr. Og þar kom t.d. eitt fram: umvöndunarbréf hans til Moskvu vegna samkynhneigðra, þótt hann þegði gagnvart öðrum löndum, sem virkilega fara illa með samkynhneigða. 

Aldrei sendi hann bréf til Saudi-Arabíu, Írans og annarra múslimaríkja þar sem samkynhneigðir eru hengdir opinberlega eða varpað fram af klettum.

Það er eins og í sniðgöngumálinu: ráðizt að þeim, sem eru með miklu skárra ástand í mannréttindamálum heldur en önnur lönd eins og Kína (sbr. Tíbet!), Norður-Kórea og Saudi-Arabía, sem nú hefur þar að auki (það síðastnefnda) drepið miklu fleiri í Jemen heldur en féllu á Gaza í fyrra eftir flugskeytaárásir þaðan.* Aldrei réðust Jemenar á Saudi-Arabíu.

 

En vinstri menn í borginni sögðu ekki bofs við því að Saudi-Arabía gaf eina milljón dollara til róttækari moskusafnaðarins á Íslandi, þótt ímaminn þar hafi verið afar hvass í yfirlýsingu um samkynhneigða!

* http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/2020609/#comment3589272

 

Jón Valur Jensson, 25.9.2015 kl. 12:04

6 Smámynd: Benedikt Halldórsson

 Takk Sverrir!

Benedikt Halldórsson, 25.9.2015 kl. 13:04

7 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki búin að jafna mig í maganum vegna hláturs. Þvílíkt gott að þú sért mættur aftur í bloggið.

Bjargar deginum. M.b.kv.wink

Sigurður Kristján Hjaltested, 25.9.2015 kl. 13:16

8 Smámynd: Sverrir Stormsker

Predikarinn, ekki slæmt.

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 13:33

9 Smámynd: Sverrir Stormsker

Kári, gott að einhver bjargaði þínum Degi:)

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 13:37

10 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jón Valur, vinstrimenn eru flestir hverjir illa þjakaðir af pólitískri rétthugsun og það eru því miður ekki til nein lyf við þessu eða plástrar. Þetta er einhver hvimleiðasti og hættulegasti heilasjúkdómur ever, nátengdur heimsku, og er að ganga af vesturlöndum dauðum.

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 13:41

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Benedikt, það var lítið.

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 13:42

12 Smámynd: Jón Snæbjörnsson

þetta var hressandi að lesa .. takk

Jón Snæbjörnsson, 25.9.2015 kl. 13:47

13 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurður Kristján, ég er alltaf að heyra að ég sé að bjarga Degi. Mér er farið að líða soldið illa með þetta. Skal ekki koma fyrir aftur.

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 13:49

14 Smámynd: Ívar Pálsson

Snillin er aðall þinn, Sverrir.

Ívar Pálsson, 25.9.2015 kl. 14:09

15 Smámynd: Guðmundur Jóhannsson

Bara snildar skrif, þakka þér fyrir að létta lund mína. Dr.Stormsker.  

Guðmundur Jóhannsson, 25.9.2015 kl. 14:19

16 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jón, Ívar og Guðmundur, njótiði vel drengir. Samt ekki endilega hvors annars :)

Sverrir Stormsker, 25.9.2015 kl. 14:36

17 Smámynd: Sigurjón Símonarson

Stormskerið klikkar ekki, flottur pistill og ekkert nema sannleikur

Sigurjón Símonarson, 25.9.2015 kl. 16:05

18 Smámynd: Unnur Eggertsdóttir

Virkilega vel orðaður pistill Sverrir.

Unnur Eggertsdóttir, 25.9.2015 kl. 17:42

19 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Takk fyrir þennan pistil, háttvirtur og virðingarverður Sverrir STORMSKER (sem ekki gefst upp við skerin sem stormurinn feykir skoðunum þínum að upplýsingalandi lygafjölmiðlanna pólitísku :).

Okkur vantar fleiri svona óheflaða sannleiksdrengi á Íslandi og víðar í veröldinni.

Viska þín er vísdómur sem enginn kann að skilgreina betur en þú Sverrir. Það er frábært að hafa svona opinberlega heiðarlegan einstakling eins og þig, til að segja sannleikann á hreinskilinni, óheflaðri og skiljanlegri íslensku.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.9.2015 kl. 18:39

20 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Sæll Stormsker. Flottur pistill. Hann Dagur framdi ekki landráð hann framdi borgarráð. Dagur fer aldrei út fyrir 101. 

Guðlaugur Hermannsson, 25.9.2015 kl. 20:10

21 Smámynd: Mofi

Bara ef fréttir væru skrifaðar með svona banvænni kímni og auga fyrir kjarna málsins 

Mofi, 25.9.2015 kl. 21:52

22 Smámynd: Svanur Guðmundsson

Skemmtilegur penni, halltu áfram að skrifa og gleðja okkur hin!

Svanur Guðmundsson, 26.9.2015 kl. 01:05

23 Smámynd: Sverrir Stormsker

Þakka ykkur umburðarlyndið gott fólk. Ég er ekki á facebook þannig að ef ykkur líst þokkaleg á greinina þá megið þið gjarnan deila henni þar.

Sverrir Stormsker, 26.9.2015 kl. 06:02

24 Smámynd: Lárus Árni Wöhler

Hahaha....ekki gott að borða morgunmat og lesa þessa grein...hahaha...klapp fyrir Skerinu.

Lárus Árni Wöhler, 26.9.2015 kl. 07:13

25 Smámynd: K.H.S.

Takk fyrir Að láta mig gleima öllu baslinu og brosa og hlæja af hjartans lyst. Èg fæ að dreifa þessu . Bestu kveðjur.

K.H.S., 26.9.2015 kl. 13:22

26 Smámynd: Hallgeir Ellýjarson

Það sem er merkilegt við þetta allt saman er það hversu sama Íslendingum og Evrópubúum almennt er um mannréttindabrot Palestínumanna á eigin fólki. Það er eins og fólk geri engar kröfur til múslimana á meðan fingrinum er stöðugt bent á gyðingana, þó þeir hafi stofnað þarna ríki sem er menningarlega og siðferðislega hundruðum ára á undan norminu í þessum heimshluta.

Það er enginn að biðja Palestínumenn um að hætta að drepa homma eða að koma fram við konur eins og húsdýr. Enginn biður Hamas um að hætta að nota almenna borgara í mannlegan skjöld. Sameinuðu Þjóðirnar gagnrýna Ísrael meira en Norður-Kóreu, Íran, Sádí-Arabíu, Kína og Rússland til samans.

Palestínumenn gera þá kröfu að Palestínskt ríki verði laust við gyðinga en að þeir fái hinsvegar allir aðgang að Ísrael (þar sem arabar eru nú þegar 15% íbúa). Hamas er svo með það í stefnuskránni sinni að það eigi að útrýma öllum gyðingum. Þrátt fyrir þetta þá eru það Ísraelsmenn sem mest eru ásakaðir um rasisma.

Hér er siðmenning og ómenning að takast á og það er merkilegt að fleiri Íslendingar virðast stilla sér upp með ómenningunni sem er föst á miðöldum. 

Hallgeir Ellýjarson, 26.9.2015 kl. 18:20

27 Smámynd: Jens Guð

Einhver verður að brjóta blöðin.  Ekki gera þau það sjálf.  

Jens Guð, 26.9.2015 kl. 19:41

28 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Hvernig var "Dags"formið hjá þér Sverrir, þegar þú setur saman þessa grein? Þú ert svona hálf hjákátlegur í öfgunum, enda mæra þig óspart tröllin.

Jónas Ómar Snorrason, 26.9.2015 kl. 20:33

29 Smámynd: Ólafur Unnarson

Þetta er sannur sannleikur takk fyrir þetta  besta sem ég hef lesið í langan tíma takk takk

Ólafur Unnarson, 27.9.2015 kl. 13:06

30 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Hressandi tilbreyting að sjá borgarstjórnarbjánaskapnum lýst á jafn átakanlega nákvæman hátt eins og þú gerir hér (og í blogginu sem á undan kom), minn kæri vin. Bara að fleiri hefðu hugrekki til að tukta til svona himinhrópandi hálfvitagang. Alveg stórmerkilegt rannsóknarefni hvernig áhöfnin á borgarskútunni er mönnuð ár eftir ár. Ekkert nema heilaþvegnir vinstri apakettir og femínasnar í eineltingaleik við almenna skynsemi. Sigla fullu stími sama bakborðshringinn þar til dallurinn sekkur vegna slagsíðu eða lætur sig vaða inn í velmerktan skerjagarðinn. Alveg hreint magnaður andskoti.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 27.9.2015 kl. 16:14

31 Smámynd: Sverrir Stormsker

Lárus, það er langbest að lesa þessa grein uppí rúmi með brennandi heitt kaffi í höndunum og munninn fullan af rjómatertu.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 19:55

32 Smámynd: Sverrir Stormsker

K.H.S, alveg guðvelkomið að dreifa þessu fagnaðarerindi um allar jarðir.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 19:57

33 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hallgeir, mæltu manna heilastur.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 20:01

34 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jens, hugsanlega rétt hjá þér. Hef aldrei pælt þessu. Skrítið að enginn skuli hafa skrifað doktorsritgerð um þetta.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 20:03

35 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jónas, það er bara eitt tröll á þessum kommentaþræði og ég held að við vitum báðir hver það er. Farðu nú að skrifa eitthvað á eigin blogsíðu kallinn minn.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 20:04

36 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ólafur, þetta er allavega ekki ósannur sannleikur, svo mikið er víst:)

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 20:05

37 Smámynd: Sverrir Stormsker

Helga, já þetta er magnaður andskoti. Einkennilegt helvíti. Stórfurðulegur djöfull. Alveg merkilegt djöfulsins andskotans heitasta hurðarlaust helvíti.

Vér skulum biðja.

Sverrir Stormsker, 27.9.2015 kl. 20:07

38 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sverrir Stormsker. Væri ekki rétt að senda Páfanum skeyti (eins og sagt var), svo hann viti hvað fólki finnst? Á öllum tröppum þjóðfélagsstigans? Þú ert svo vel sannleikans pennafær, og gætir komið einhverju trúar-verðugu og friðar-vitrænu á framfæri við þennan talsmann valdastofnunarinnar, sem stýrir heimsatburðunum.

Ja, ég held að Vatíkanið gæti ekki misskilið skilaboð frá þinni rödd sannleikans. Þín rödd er ekki talandi tungum tveimur, og ljúgandi með báðum. Gæti verið lærdómsríkt fyrir Vatikanveldis-sprotana.

Guð blessi og hjálpi villuráfandi alheims-villuráðandi Páfaveldinu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.9.2015 kl. 02:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband