Best er að vera einn í biðröð

Konur og menn eða konur og aðrir menn eða menn og aðrar konur hafa alveg gríðarlega þörf fyrir að tilheyra einhverjum hópi, hvort heldur það er íþróttafélag, stjórnmálaflokkur, trúarregla, listakreðsa, samtök, félög, félagasamtök, klúbbar eða eitthvað þaðanaf óskemmtilegra, og vilja alveg ólmir falla inní hópinn, vera eins og restin, - einsog það er nú eftirsóknarvert. Ég hef oft undrast hvað hjarðeðlið er ríkt í fólki. Menn festa sig á einhvern tiltekinn hóp einsog hrúðurkarlar, ekki endilega vegna sannfæringar og sjálfstæðis hugsjónamannsins, heldur miklu frekar vegna öryggisleysis múgmennisins.
Hjarðmennska og ragmennska eru tvær hliðar á sama peningi.

 

Í stjórnmálum er algengt að menn aðlagi sannleikann að flokksskoðuninni frekar en skoðanir sínar að sannleikanum. Eins er oft hálf spaugilegt að fylgjast með atkvæðagreiðslum á alþingi þegar huglæg og loðin mál eru til afgreiðslu, t.d. siðferðileg álitamál sem skiptar skoðanir ættu alla jafna að vera um innan flokka, t.d. hvort eigi að banna slátrun á skjöldóttum kanínum á sunnudögum eða eitthvað svoleiðis. Heill flokkur getur alfarið verið á móti slíku máli, allir sem einn í flokknum, og annar flokkur getur verið eindregið hlynntur því, allir sem einn í flokknum. Afskaplega idjótískt og gungulegt.

 

Flokksforma�ur � p�ltiStundum getur heill stjórnmálaflokkur verið alfarið sammála um það að gult sé fallegra en bleikt, - og þetta þýðir náttúrulega að menn eru ekki að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu heldur eru menn einfaldlega sammála um að það borgi sig að vera sammála forystusauðnum og skera sig allsekki úr hjörðinni. Þetta gerist í öllum flokkum og er kallað praktík og framapot og að “spila með liðinu” og þykir bera vott um geipileg klókindi, en er þó lítið annað en hjarðmennska og ragmennska í allri sinni ömurð og ótti við að enda sem kótelettur og lærisneiðar í árlegri grillveislu flokkanna. 

 

Sk�lakerfi�Þarsem ég veit hvað fólk leggur mikið uppúr því að vera sammála þá held ég að flestir geti nú verið sammála um það að strax í barnaskóla er tekið til við að framleiða róbotta og fáráðlinga. Þar er ekki beint verið að ýta undir skapandi hugsun og sjálfstæði persónuleikans. Okkar ríkisrekni guð er t.d. kenndur sem óvéfengjanleg sagnfræði og sannindi meðan hagnýtum staðreyndum um lífið er blásið út af borðinu. Ekkert er spáð í umframgáfur eða sérhæfileika til hugar eða handa heldur er öllum troðið í sömu kvörnina. Allir eiga að gera eins, vera eins, hugsa eins, skrifa eins, þegja eins og gleypa loft eins – og skot. Svo eldast krakkarnir, - ég segi eldast, ekki þroskast, og verða að fyrirtaks leiðitömum múgmennum. Þeir örfáu sem koma óskaddaðir úr þessari hakkavél persónuleikans eru yfirleitt kallaðir frekjuhundar, antísósíal sérvitringar, glæpamenn, snillingar eða eitthvað ennþá hræðilegra.

 

hálfvitarBirtingarform hjarðmennskunnar eru margvísleg: Sumir þeirra sem hafa lært að segja já og amen allt sitt líf, planta sér einsog áður sagði stundum í stjórnmálaflokk og þaðan í sali alþingis til að þessi kunnátta þeirra komi að notum. Aðrar hópsálir líma sig á eitt fótboltafélag til að geta baulað í kór og búið til bylgjur á leikjum með hinum hópsálunum, og svo er þetta eina fótbóltafélag tilbeðið ævina á enda jafnvel þótt það tapi getu og drabbist niður og hætti með öllu að geta hitt boltann og klúðri hverjum leiknum á fætur öðrum í óendanlegu kunnáttuleysi. Svona ævilöng dýrkun þykir af einhverjum ástæðum bera vott um tryggð og traust, en ekki heimsku. Ekki veit ég afhverju. Hver heldur með glötuðu liði bara afþví hann hefur haldið með því frá fæðingu, annar en fæðingarhálfviti?

 

Margir líta svo á að Laxness hafi svikið hugsjónir sínar þegar hann gaf skít í kommúnismann, en það er ekki rétt. Hann gerði hinsvegar það sem fólki er mjög illa við: Hann þroskaðist. Maður á ekki að vera sauðtrúr hugsjónum sínum heldur fyrst og fremst sjálfum sér og maður ætti aðeins að hafa þá einu hugsjón að vera trúr sjálfum sér.

 

Gaman gamanFólki finnst ægilega gaman og nauðsynlegt að vera í kór með alla hluti; fara í banka á sama tíma, versla á sama tíma, helst í fjölsóttustu versluninni, mótmæla klámráðstefnum þegar andúðin er orðin ríkjandi, fara í bíó þegar það er troðið, fara í ísbúðir á sama tíma, bíða í biðröðum og fleira gaman. Meiraðsegja ellilífeyrisþegar sem eru löngu hættir að vinna og ættu að hafa nægan tíma, fara í búðir á sama tíma, - seinni part föstudags þegar allt er pakkað. Er ég virkilega sá eini sem finnst best að vera einn í biðröð? Og það er einsog engum þyki ís góður nema þegar sést í sólarglætu.

 

Menn vilja alltaf rotta sig saman, gera allt saman, gera allt eins, segja allt eins, haga sér eins, undir eins, ganga í tískufötum, helst í takt, vera með “réttu” hárgreiðsluna, “réttu” skoðanirnar, vera á eins bílum, (enda allir bílar orðnir svo eins að ekki sér lengur mun á Benz og Skoda), falla inní hópinn, falla í kramið, vera á tjaldstæðum innanum þúsundir eins manna, labba allir saman á Menningarnótt, vera saman í ferðafélagi og ganga í samfylkingu uppá Esju með samræmdu göngulagi, samtaka, vera sammála um að vera Draumahus islendingsinssamferða í SAM bíó á sama tíma og samferðamennirnir, vera í samlæstri samlokaðri sambúð og búa samtryggðir samábyrgir og samþjappaðir í blokk - sambýli.

Sumir auð(ir)menn eru meiraðsegja reiðubúnir að borga 250 milljónir fyrir að fá að búa í blokk því það er búið að segja þeim að blokkin sem um ræðir sé ekki venjuleg bæjarblokk heldur alveg gasalega fín mið-bæjarblokk í skuggalega flottu hverfi. Alvöru millar myndu aldrei kaupa sér íbúð í venjulegri almúgablokk, hversu flott sem íbúðin væri. Nei, þeir kaupa sér nákvæmlega eins íbúð í millablokk því þeir vilja vera innanum aðra milla svo það fari ekki á milli mála að þeir séu millar þegar þeir segja fólki hvar þeir eigi heima. Þetta er jú svo fínt. Það væri ekki nema ef Jón Ásgeir myndi kaupa sér kjallarakompu í Yrsufellinu að millastrollan myndi fylgja á eftir og kaupa upp allar kjallaraholur í Breiðholtinu. Hjarðmennskan lifi!

 

Fólk fer útí lönd á sama tíma, til landa sem eru í tísku og helst fer það aftur og aftur á sama staðinn, sinn samastað, þangað til hann fer úr tísku, meiraðsegja á sama hótelið og hangir þar saman allan tímann í einni íslendingasamþjöppun, í samkrulli og samfloti með sínum sama fararstjóra, samfarastjóra, sem smalar þeim öllum saman í rútu og saman fara allir að skoða sömu hlutina og sama tóbakið með sömu augum.
Mér er svosem sama.

 

Íslendingar standa saman í úlpubiðröðum og á íþróttaleikvöngum og hingað og þangað en þeir virðast aldrei geta Staðið Saman þegar brýna nauðsyn ber til, einsog tildæmis þegar peningastofnanir, stórfyrirtæki og misvitrir stjórnmálamenn eru að taka þá í kakóið. Þá sundrast þeir og hlaupa einsog fætur toga með kleprana í buxunum hver í sína holu og fara að snakka um óréttlætið í sínum vel einangruðu vakúmpökkuðu eldhúsum.

Hjarðmennska og ragmennska eru nefnilega tvær hliðar á sama peningi.  
                      

HJAR�ARhagi 

 

      Heimskingjarnir hópast saman,

      hefur þar hver af öðrum gaman.

      Eftir því sem þeir eru fleiri

      eftir því verður heimskan meiri.

                                      



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Hafsteinsdóttir

Mikið er ég óskaplega sammála (**..finn...hvernig...kvörnin...malar...mig...**)

Sigríður Hafsteinsdóttir, 2.11.2007 kl. 02:14

2 identicon

er þetta ekki eftir Káinn ?

Hannes Hall (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 04:05

3 Smámynd: Markús frá Djúpalæk

Þvílík öndvegis þvæla, hvernig datt þér þetta í hug eiginlega? Hér ríkir einstaklingsframtakið og sjálfstæðið út í hörgul.

Markús frá Djúpalæk, 2.11.2007 kl. 08:41

4 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Sammála þér núna, þú ert sko snilldarpenni. Ég fer aldrei í biðraðir, er ekki í klúbbum, stjórnmálaflokki eða félagasamtökum, ég rekst svo illa í hóp...

Jónína Dúadóttir, 2.11.2007 kl. 09:18

5 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ótrúlegur,

Hér opinberast hin gargandi snilld bloggsins.

Kjartan Pétur Sigurðsson, 2.11.2007 kl. 11:14

6 Smámynd: Gulli litli

Ég ætla að stunda hjarðmennsku og vera sammála hinum.....

Gulli litli, 2.11.2007 kl. 11:38

7 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Það getur vissulega verið gaman saman, en tveir í hóp og einn í röð hentar mér betur, enda alltaf verið kötturinn sem fór sínar eigin leiðir.

Besta færsla sem ég hef lesið á blogginu, og ætti að vera skyldulesning fyrir stjórnmálamenn og aðrar skoðanaskækjur. Hafðu þökk fyrir.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 2.11.2007 kl. 11:48

8 identicon

Mig langar að vera sammála þér að mjög miklu leyti. Ég hef reyndar mjög litla tilhneygingu til að láta skoðun mína í ljós hér á bloggsíðum WWW. Þau fáu skipti sem það hendir að ég segi mína skoðun þá yfirleitt þakkar viðkomandi bloggverji innlegg mitt en segir jafmframt frá því að ég hafi misskilið eitthvað. En eftir að hafa lesið og lesið allar þær greinar aftur og fram get ég ekki komið auga á miskilninginn heldur hitt að að viðkomandi bloggverji þurfi bara einhvern til að rífast við. Þess vegna held ég ekki út bloggsíðu og ef þú værir trúr innihaldi þessa bloggs hjá þér myndir þú ekki heldur gera það. En vegna þess að þú gerir það dreg ég þá ályktun að þú viljir bara vera eins og hinir en átt frekar erfitt með það af því þú hefur skapað þér nafn fyrir að vera öðruvísi. En þessi grein er samt aldeilis frábær hjá þér.

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 12:09

9 identicon

Ágæt gagnrýni á aumustu alþýðu allra þjóða.

Hjarðmennskan er vel þekkt um allan heim, en sú sundrung sem verður þegar samstöðu er virkilega þörf, hún er sér-íslensk.
Síðustu línurnar fyrir kvæðið eru átakanlega sannar.

Baldur McQueen (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 12:36

10 identicon

Þú ert svo sannarlega orðfimur og sniðugur maður kæri Sverrir! Mann grunar einna helst að þú sért óskilgetin sonur "Páls Vilhjálmssonar" eftir Guðrúnu Helgadóttur. En hver ættu þá að vera hin réttu örlög Íslendinga? Hvernig eiga millar að haga sér? Er til einhver stöðluð skoðun þjóðfélagsgagnrýnanda sem að við hin getum þá farið eftir og miðað við svo við fáum nú ekki á okkur svona skammir og háð? Og hverjir eru hinir vitru(andst. heimsku)? Hvað er það sem hinir vitru menn eins og þú gera öðruvísi en við, hin heimsku?

Ja mér er bara spurn..

P.S. Horfðu á björtu hliðarnar, hví ekki að dásama frekar en útlasta 

Ingi (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 13:45

11 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Góður.

Þorkell Sigurjónsson, 2.11.2007 kl. 14:46

12 identicon

Gud skabte æslet og sagde til det: 'Du skal kaldes et æsel. Du skal knokle

dagen lang og blive kaldt dum som tak. Du skal blive 20 år gammel.

Æslet svarede: 'Det lyder ikke som et godt liv. Kan vi ikke sige, at jeg

skal blive 5 år?'. Gud accepterede.



Så skabte Gud hunden. Gud sagde: 'Du skal kaldes en hund, leve som et

underkastet dyr, leve af rester ved middagsbordet og passe på huset.

Du bliver 35 år gammel.' Hunden svarede: 'Kan vi ikke sige, at jeg

skal blive 15 år?'. Gud accepterede.



Så skabte Gud papegøjen. Gud sagde: 'Du skal kaldes papegøje. Du skal

sidde i et hjørne af stuen og gentage alt, hvad folk siger til stor

irritation for alle. Du skal blive 75 år.' Papegøjen: 'Kan vi ikke

nøjes med, at jeg bliver 50 år?' Gud accepterede.



Så skabte Gud manden. Gud sagde: Du skal være et menneske og kaldes

manden.

Du skal leve det gode liv. Du skal være klog og intelligent og du

skal bestemme over denne verden. Du skal leve i 20 år.' Manden: 'Det

lyder som et rigtig godt liv, men kan jeg ikke få de 15 år æslet ikke

ville have, de 20 som hunden afslog og de 25, som papegøjen ikke

havde lyst til?' Gud accepterede.



Derfor lever manden et dejligt liv, indtil han bliver 20. Så bliver

han gift. De næste 15 år knokler han dagen lang og bliver kaldt dum

som tak. Så får han børn, lever af rester fra bordet og passer på

huset de næste 20 år.

De sidste 25 år sidder han i hjørnet af stuen og gentager alt hvad

folk siger, til stor irritation for alle .

Halli (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 16:12

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Fantavel skrifað hjá þér, Sverrir. Mig langar helst til að hrópa húrra og segjast vera sammála þessu öllu. Ég er það bara ekki. Hjarðhyggjan eins og þú bendir réttilega á er mjög hættuleg, sérstaklega í stjórnmálum þar sem fólk er ráðið til að hafa eigin skoðanir; en mér finnst hún skaðlaus þegar kemur að boltabullum. Þú hittir ekki í mark þegar þú bendir á auðmennina og allt þeirra flotta dót. Málið er að þeir eru ekki að reyna að vera eins flottir og allir hinir, heldur ennþá flottari, númer eitt. Það er einmitt einstaklingshyggjan sem þú bendir á að sé hjarðhyggjunnii hollari. Þetta eru tvær hliðar á sama málinu. Hvort tveggja er jafn slæmt. Að ná yfirvegun og geta stillt eigin viðhorf til lífsins á einhvers konar jafnvægi milli hjarðhyggju og einstaklingshyggju væri skref í rétta átt.  Takk fyrir að hefja þessi mál á loft.

Hrannar Baldursson, 2.11.2007 kl. 18:33

14 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Ég er sammála að flestu leiti. Eins kindarlega og það ku hljóma, enda fátt hallærislegra en að vera í samtökum um einstaklingshyggju.

Þeir örfáu sem koma óskaddaðir úr þessari hakkavél persónuleikans eru yfirleitt kallaðir frekjuhundar, antísósíal sérvitringar, glæpamenn, snillingar eða eitthvað ennþá hræðilegra.

Mér þykir þetta einstaklega skondið því ég þekki ágætis fjölda af fólki sem bindur bagga sína ekki eftir samferðamönnum sínum heldur eftir eigin geðþótta og ákvörðunum og er hver einn og einasti þeirra kallaður eitthvað af þessu og ég hef sjálfur verið uppnefndur flest af þessu af sauðsvörtum múgsálum.

Mig minnir að það hafi verið trésmiðurinn frá Nasafret (þessi sem var nelgdur) sem sagði að vegurinn að paradís væri þyrnum stráður, kræklóttur og þröngur, sem það að hugsa og taka ákvarðanir fyrir sjálfan sig er. Hvað varðar dystópískan helming  þessarar eftirlífsáfangastaða skilst mér að þangað liggji beinn og breiður vegur, og bíði æsku draumalönd.

;-)

Kúdós. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 2.11.2007 kl. 19:08

15 Smámynd: Gísli Hjálmar

Góður ...

Gísli Hjálmar , 2.11.2007 kl. 19:39

16 identicon

Flottur,klikkar "sjaldan"

Fólk talar um orðheppni,hefur þetta eitthvað með heppni að gera ?.............djöfull blífur humorinn í skammdeginu.

Hallgerður Langbrók P+etirsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 20:25

17 Smámynd: Heidi Strand

Heidi Strand, 2.11.2007 kl. 21:19

18 Smámynd: Karl Tómasson

Ég held minn kæri Sverrir að það sé auðveldara að hjóla með vindinn í bakið. Hitt er annað að hjóla með vindinn í fangið getur verið töff.

Bestu kveðjur frá Kalla tomm úr Mosó.

P.s. Hvenær eigum við að taka snóker?

Karl Tómasson, 2.11.2007 kl. 23:34

19 identicon

Bévitans snillingur ertu maður..

alva (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 00:04

20 Smámynd: Fríða Eyland

Þarna kom það sem ég var að bíða eftir frá þér " Dómsdagsræðan" mæli með að ég elski þig barasta fyrir þessa færslu, það er gaman að lifa þegar bloggið virkar en byltingin verður sennilega ekki fyrr en 2012 miðað við þróun sögunnar hingað til. Bendi þér á eina færslu sem enginn þorir að ger athugasemd við miðað við hvað margir eru orðnir langþreyttir á bræðrareglunni

Það er löngu kominn tími fyrir þessa frábæru færslu , ég er ekki að seiga að þú sért fullkominn en ótvíræðar vinsældir yðar benda til að það sé eitthvað í þig spunnið 

Fríða Eyland, 3.11.2007 kl. 01:39

21 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Snilld

Marta B Helgadóttir, 3.11.2007 kl. 02:12

22 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ert þú ekki inni á blogginu? Hvaða heimska hjörð er það?

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 3.11.2007 kl. 11:14

23 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Tær snilld hjá þér og myndlíkingin að hakka alla saman í hakkavélinni segir sitt um hópsamfélagið sem við búum í

Guðrún Magnea Helgadóttir, 3.11.2007 kl. 13:27

24 Smámynd: Svartinaggur

Frábærir pistlar Sverrir - ósvikin skemmtun.

En kæri J. Einar Valur Bjarnason Maack, trésmiðurinn var frá Nasaret (nasafret er annað orð yfir snýtur).

Svartinaggur, 3.11.2007 kl. 15:03

25 identicon

Sverrir, þú ert frábær, þetta sem þú skrifar hér er mjög gott fær mann til að brosa. Það oft gott að þurfa/vilja ekki að vera í venjulega ferlinu á Íslandi. En aftur ná móti eru sumir sem vilja vera þar og oft eru það traustustu boltarnir sem best er að leita til ef eitthvað bjátar á hjá okkur sem höfum valið hið óhefðbundna ferli.

Takk fyrir mig, þú ert listamaður með sanni. Skrifað í stríðshrjárri Líberíu, Vestur Afríku. Birgir Guðbergsson.

Biggi G. (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 19:39

26 Smámynd: Yngvi Högnason

Mikið assgoti ertu búinn að ná þér í góða hjörð og mjálmandi jákór.

Yngvi Högnason, 3.11.2007 kl. 23:53

27 Smámynd: Fríða Eyland

Yngvi í hvaða kór ert þú ?

Má ekki láta fólk vita af því að manni líkar það sem að það skrifar  

Fríða Eyland, 4.11.2007 kl. 01:49

28 Smámynd: Morten Lange

Stórskemmtileg færsla, Sverrir !
Mikið bull, en mikilvægir sannleiksmolar inn á milli. Næst þegar þú rambar á eitthvert málefni þar sem þér finnst samtakamáttur kæmi sér vel, gerðu eitthvað í því  (?).  Skrifaðu texta / lag sem kafar svolítið ofaní þessu, stofnaðu undirskriftalista á netinu (dæmi) eða efndu til mótmælagöngu niður Laugaveg   :-)

Morten Lange, 4.11.2007 kl. 12:03

29 Smámynd: Bergur Thorberg

Dauðir fiskar fljóta með straumnum.

kv. Bergur Thorberg

Bergur Thorberg, 4.11.2007 kl. 17:28

30 identicon

Fokk hvað ég er sammál þér. Ég, vestfirðingurinn, hef alltaf haldið því fram að blessaða borgarliðið fíli að hanga í röð, að það fari frekar þangað þar sem röðin er, ég geri það ekki. húrra fyrir mér!

Einar Örn (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 20:02

31 identicon

Andskotans snillingur

Sigurður Helgi Magnússon (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 17:34

32 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Ég er ósammála.  Best er að vera þolimóður í biðröð og hleypa þeim sem vilja vera einir í biðröð framfyrir.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 6.11.2007 kl. 08:37

33 Smámynd: Stefán Jónsson

Ólafur pá hefði tekið undir með þér:
"...því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þau koma fleiri saman."

Stefán Jónsson, 7.11.2007 kl. 11:49

34 Smámynd: Púkinn

Púkinn er að sjálfsögðu sammála - sérstaklega varðandi hið gráa, mannskemmandi skólakerfi sem reynir að steypa alla í sama mót.

Púkinn, 10.11.2007 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband