"Raddir fólksins" segja okkur að þegja

islenskur_motmaelandi_2.jpgVið eigum öll að mæta niður á Austurvöll í dag klukkan 15 til að grjóthalda kjafti. Það margborgar sig. "Raddir fólksins" segja okkur að þegja og þá náttúrulega þegjum við. Við erum hlýðin og góð. Mótmæli hafa alltaf gert sig best með því að mæta stundvíslega á tilteknum degi á eitthvað fallegt torg eða víðáttumikla gresju einsog Austurvöll, með pípuhatt, einglyrni, montprik og vaxborið yfirvaraskegg (sé maður karlmaður eða trukkalessa), og grjóthalda sér saman í algerðri kyrrstöðu. Gæta verður ýtrustu kurteisi og háttprýði. 

 

Blessuð jólabörnin mega ekki halda að það gangi eitthvað á í þjóffélaginu og við megum ekki raska svefnfriði alþingismanna og eftirlitsstofnanna. Þar að auki eru bankar þarna í kring og það er ekkert vit í því að vera að trufla þá við niðurfellingu á skuldum sægreifanna og stórlaxanna. Hinn ofurviðkvæmi og grátgjarni Sigurjón Árnason bankastjóri er með heila hæð í Apatehúsinu þarna við hliðina og hann gæti fengið taugaáfall við pappírstætarann ef einhver færi að öskra á úrbætur og réttlæti.

 

islenskur_motmaelandi_1.jpgHörður Torfa vill ekki sjá neitt egglos við Alþingishúsið og menn eiga að ganga hægt um Fjármálaeftirlitsins dyr. Við skulum standa þarna steinþegjandi og hnípin klukkutímum saman og lygna aftur augunum og svífa inní draumaland kommúnismans og ímynda okkur sæluna þegar Vinstri grænir taka við völdum og leiða okkur inní sumarhús forsjárhyggjunnar.

 

Þjóðin er búin að þegja og hlýða í 1000 ár og það er ekki glóra í að fara að breyta því úr þessu. Það gæti bara skapað vesen. Stjórnmálamenn gætu farið að halda að við værum eitthvað annað en kjarklausir þýlyndir hlandaular og það væri allsekki nógu gott fyrir orðspor þjóðarinnar. Þögn skal það vera. Þögn er besta vörnin. Hlustum á "Raddir fólksins" og þegjum ástandið í hel.

 

Farðu að sofa byltingarbleyðan smáa,

brúkaðu ekki minnsta fjandans þráa.

Haltu kjafti, hlýddu og vertu góður.

Heiðra skaltu landsins Stóra bróður.

 

(Káinn og Stormsker) 


mbl.is Boða þögul mótmæli á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ja....Tetta er tad sem rikisstjornin hefur samtykkt, ad motmaelin seu fridsamleg...Ta tarf hun ekki ad ottast uppreysn folksins sem er ad sja a eftir aleigu-sinni i kjaftinn a bankakorlunum, utrasargaejunum...!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 20.12.2008 kl. 09:26

2 Smámynd: Bara Steini

Sembeturfer er Hörður ekki alráður....

Bara Steini, 20.12.2008 kl. 09:48

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Þögn er ein tegund mótmæla.

Hátt í 30 manns hafa haldið ræður á Austurvelli og annar eins fjöldi á öðrum fundum. Það hafa verið haldnir borgarafundir, Kastljósið er undirlagt, Silfrið líka og Ísland í dag. Fólk bloggar og skrifar í blöð, aðrir hafa hent eggjum og brotið rúður. Félög og hagsmunasamtök hafa tjáð sig í tugavís.

Þögnin getur verið hávær ef þeir sem hún er beint að kveikja á perunni. Hávaðinn hefur dugað skammt hingað til svo því ekki að reyna þetta líka.

Haraldur Hansson, 20.12.2008 kl. 11:08

4 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ég held það sé mikið ofmat á stjórnmálamönnum að halda að þeir kveiki á perunni við að hlusta á þögnina. Menn sem skilja ekki mælt mál skilja þögnina ennþá síður. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum að fást við einhverja heimskustu glámskyggnustu og spilltustu þursa í veraldarsögunni.

Það eina sem hefur komið út úr þessum mótmælum af viti er þegar hópur almennilegs fólks fór inní Landsbankagrenið og svældi út Tryggva Jónsson. Hvort sem það hefur verið farið að hitna undir honum áður eður ei þá hvarf hann allavega úr bankanum daginn eftir.

Svefnpurrkunum í Fjármálaeftirlitinu á ekki að líðast að neita að svara spurningum svo vikum og mánuðum skiptir. Það ætti að binda það í lög að þessir sveppir geri þjóðinni grein fyrir því vikulega hvern djöfulinn þeir eru að sýsla. Ef ekki þá er mér nokk sama þó þessar kanínur verði dregnir út á eyrunum.

Svo líst mér mjög vel á plott aðgerðahópsins sem hann kallar "Sveltum svínið" en um það má fræðast hér á mbl.is. Ef aðgerðir í þessum dúr eru linnulausar og óvæntar þá virka þær.

Þögn virkar allavega ekki. Það er borðliggjandi. Fjöldaþögn er merki sorgar og þrælmennsku. Hún er bælandi og drepur niður uppreisnarandann. Fólk hefur þriggja mínútna þögn þegar einhver deyr en ég hélt að það væri verið að reyna að blása lífi í þessa ofurþolinmóðu og þýlyndu þjóð. Þögn er fyrir aumingja á tímum sem þessum. Þögn á heima á súrefnislausum bókasöfnum og í líkhúsum en ekki á fundum þar sem réttlætiskennd og baráttuandi á að ríkja.

Sé engan tilgang í að mæta á þessa roluráðstefnu ef þetta er uppleggið.

Góðar stundir.

Sverrir Stormsker, 20.12.2008 kl. 15:08

5 Smámynd: Haraldur Hansson

Sæll Sverrir.

Ég skil hvað þú ert að fara og tek undir með þér varðandi margt. Það mætti t.d. krefja skilanefndirnar um upplýsingar; hvaða eignasafn eru þær að sýsla með í gömlu bönkunum? Hvers vegna þykir útlendum bankamönnum eitthvað djúsí við að eignast hlutabréf í þeim íslensku, sem eru fallít.

Það eiga allar tegundir mótmæla rétt á sér, þögnin líka. Við þekkjum dæmi um að áhrifamestu mótmælin voru að gefa blóm. Og sá sem hafði mest að segja í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar, var maður sem stóð kyrr.

En þagnarstöðu íslenskra mótmælenda er lokið. Það verður mótmælt upphátt næst, á þriðja í jólum.

Haraldur Hansson, 20.12.2008 kl. 15:55

6 Smámynd: Sverrir Stormsker

Gott að heyra. Þar sem stjórnvöld og blýantanaggrísir og útrásarræningjar lifa í öðrum heimi einhversstaðar skýjum ofar þá þurfa mótmælin að vera svo kröftug að þau berist til eyrna þeirra og nái að þröngva sér í gegnum allar hinar miklu hindranir að heilafrumunni.

Hvað er betra en almennilegt dýnamít um áramótin?!

Sverrir Stormsker, 20.12.2008 kl. 17:05

7 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Svo má alltaf velta því fyrir sér hvort tími "Hunts" kallsins sé kominn.  Hann virðist allavega halda það.

Magnús Sigurðsson, 20.12.2008 kl. 19:59

8 Smámynd: Ari Jósepsson

Haha ég er alveg sammála þér Sverrir það sem þú skrifaðir og ég held að ég hafi fattað það :)

Afhverju kræunuraka hann sig ekki bara hann Davið þá erum við i góðum höndum því sauðkindin er okkar 

og okkar land enn fiskurinn hann er alstaðar 

Ari Jósepsson, 21.12.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband