Hver er glataðasti fjölmiðill ársins?

 

Það er hæpið að setja alla íslenska fjölmiðla undir sama hatt og afskrifa þá alla sem vonlaust rusl. Íslenskir fjölmiðlar er misvonlausir einsog annað rusl. Þeir eru flestir mjög sérhæfðir. Sumir hafa sérhæft sig í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína, aðrir í mannorðsmorðum og aðrir í hvortveggja o.s.fr. Enginn þeirra hefur ráð á kröftugri rannsóknarblaðamennsku, en kannski vantar ekki bara peninga heldur líka metnað og krítíska hugsun.

Þótt Agnes Bragadóttir hjá Mogganum sé ekki óskeikull dýrðlingur þá hefur hún engu að síður verið meira vakandi og unnið þarfara starf undanfarna mánuði en samanlagðar eftirlitsstofnanir landsins frá upphafi, og það væri óskandi að fleiri væru með svona gott nef.

Í Bandaríkjunum er frægur sjónvarpsþáttur sem kallast 60 mínútur en ég efast um að við Íslendingar gætum gert sambærilegan þátt sem héti 60 sekúntur.

Á flestum fjölmiðlum má ekki halla orðinu á einhverja tiltekna klíku, hvort heldur það eru ákveðnir auðmenn, stjórnmálaflokkur eða eitthvað þaðan af verra. Allir verða alltaf að tilheyra einhverju liði. Án þess að ég ætli að fara að leggja dóm á tiltekna fjölmiðla þá hafa tilaðmynda margir talað um Ríkissjónvarpið sem Bláskjá og að Björgólfsfeðgar njóti þar sérstakrar friðhelgi vegna vilyrðis sem þeir gáfu um 300 milljóna styrk, og aðrir hafa bent á að Bónusfeðgar njóti sérstakrar friðhelgi í DV, Fréttablaðinu, Bylgjunni, Stöð 2 og á Útvarpi Sögu. Hvað Útvarpi Sögu viðkemur þá hefur gomma fólks haft samband við mig og fullyrt að ástæðan fyrir því að síðasti þáttur minn með Jónínu Ben og Jóni Geraldi Sullenberger hafi ekki verið endurfluttur á kristilegum tíma þegar venjulegt fólk er vakandi sé sú að það megi greinilega ekki halla orðinu á Baug og Bónusfeðga á þessari ágætu útvarpsstöð. Ég hef svarað því til, einsog satt er, að ég hafi einfaldlega ekki hugmynd um ástæðuna fyrir þessu og beðið fólk um að hafa samband vð manneskjuna sem geti svarað þessu, Arnþrúði Karls.

Allskonar feðgar virðast vera í einhverju sérstöku uppáhaldi fjölmiðla. Á einni sjónvarpsstöðinni má t.d. ekki halla orðinu á himnafeðgana án þess að allt fari til helvítis.

Nú og svo eru fjölmiðlar sem sérhæfa sig sem plötusnúðar. Mörgum finnst t.d. stórskrítið að ríkið sé að reka diskótek einsog Rás 2 og hafa kvartað yfir því að Bubbi sé þar spilaður 10 sinnum á dag á meðan öðrum tónlistarmönnum, sem sumir hverjir eru jafnvel mun vinsælli, sé ýtt út af borðinu og fá ekki að heyrast. Það má allavega undrun sæta að Ríkisútvarpið, sem er með 3000 milljóna forskot á frjálsu fjölmiðlana, skuli þurfa að láta afskrifa skuldir og sé alltaf með allt í buxunum. Yfirbyggingin er greinilega allt of mikil og þar á bæ hlýtur hreinlega að viðgangast óhemju bruðl, sem sannar kannski kenninguna góðu um að menn fara betur með eigið fé en annarra.

Þó að fjölmiðlafrumvarpið hafi ekki verið alfullkomið frekar en önnur mannanna verk þá er dapurlegt að forsetinn, sem er í boði Baugs, skyldi hafa synjað því staðfestingar. Allt að því glæpsamlega vitlaust. Hefði þjóðin, sem er í boði Baugs, fengið að kjósa um þetta nauðsynlega frumvarp á sínum tíma þá hefði 90% hennar hafnað því vegna þess hún virtist gjörsamlega heilaþveginn af Baugsmiðlunum, og er kannski enn. Veit það ekki. Allavega held ég að þjóðin geti verið sammála um það að flestir fjölmiðlar hafi verið steinsofandi á gróðæristímanum (einsog hún sjálf) og þeir steingleymt að sinna hlutverki sínu, sem er að vera gagnrýnir á ríkjandi ástand og vera ávallt í sjórnarandstöðu.

Hér til vinstri á síðunni hef ég skellt inn þremur skoðanakönnunum þar sem ég spyr: Hvert er glataðasta dagblað ársins? Hver er glataðasta útvarpsstöð ársins? Hver er glataðasta sjónvarpsstöð ársins?   

(Fái einhverjir fjölmiðlar ekkert stig þá er það ekki endilega merki um það að fólki finnist þeir ekki glataðir heldur að því finnist aðrir fjölmiðlar ennþá glataðri).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ari Jósepsson

Ég fór til stöð 2 og hitti einn sem er með Island i dag hann var alveg orðlaus þegar ég talaði við hann haha

Ég man ekki hvað hann heitir enda er ég ekki i þessu geira hihi :)

Ari Jósepsson, 22.12.2008 kl. 13:00

2 Smámynd: Alfreð K

Ég veit ekki betur en að hún A.K. hafi fengið lán frá J. í Bónus á sínum tíma, þetta staðhæfði alla vega Hallgrímur Thorsteinsson (stýrir núna Vikulokunum á RÚV) í Íslandi í dag fyrir 3-4 árum (og hún neitaði því ekki) þegar upp úr sauð milli hennar og fyrrverandi meðeigenda Ú. Sögu (upphaflegi kvartettinn:  Arnþrúður, Hallgrímur, Ingvi H. og Sigurður G.).

Alfreð K, 22.12.2008 kl. 14:08

3 Smámynd: ThoR-E

Ég tek lítið sem ekkert mark á Morgunblaðinu.

Sérstaklega eftir að ég las drottningarviðtalið við Björgúlf ... þá missti ég allt álit á Agnesi Braga og Morgunblaðinu.

ThoR-E, 22.12.2008 kl. 17:22

4 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Styttist ekki í að þátturinn með Sullumbuller og Jóninu komi inná www.stormsker.net ??

Annars hefur Útvarp Saga alltaf dregið taum Baugs, (þá á ég við "útvarpsstjórann"), það hefur aldrei farið á milli mála.

Ingólfur Þór Guðmundsson, 22.12.2008 kl. 21:45

5 Smámynd: Sverrir Stormsker

Arnþrúður hefur sjálf skýrt aðkomu Baugsmanna að stöðinni með þessum orðum á bloggsíðu sinni: 

"Baugsmenn hafa aldrei styrkt mig eða mína Stöð. Fyrirtæki á vegum Baugs vildi kaupa Útvarp Sögu á árinu 2004. Samningsferli hófst og greiddu þeir kr. 5 milljónir inná samninginn. En ekki var gengið frá endanlegum samningi og var ákveðið að kaupin færu ekki fram. Fjárhæðin sem þeir höfðu reitt fram var endurgreidd með vöxtum og voru Baugsmenn ekki ánægðir með þau málalok. Ég tek það skýrt fram að ég hef aldrei heitt Jón Asgeir Jóhannesson og þekki hann alls ekki."

Meira veit ég ekki, en það er auðheyrt að henni hefur þótt illa að þeim vegið í gegnum tíðina og hefur margoft tekið upp hanskann fyrir þá og henni er fullkomlega frjálst að gera það og hafa sínar skoðanir á þessum görpum.

Sjálfum finnst mér ekkert vit í því að eitt og sama fyrirtækið (Baugsmenn) sé með 60% hlutdeild á matvörumarkaði, eigi tryggingafélög, flugfélög, tónlistarbransann, forsetann, banka og nær alla hina "frjálsu" fjölmiðla o.s.fr., - séu semsé með klærnar í öllum geirum samfélagsins. Veðsetja svo þjóðina upp yfir rjáfur og varpa skuldunum og ábyrgðinni á herðar henni og segja svo skælbrosandi á forsíðu blaðs síns DV í stríðsfyrirsagnarletri meðan þjóðin herðir sultarólina: "ÉG HEF ENGAR ÁHYGGJUR." 





[dvforsidajonasgeirjpg]





Mér finnst þetta ekki alveg nógu fallegt en það er til fólk sem dýrkar þetta og við því er ekkert að segja. Margur myndi nú segja að það hafi ekki verið illa vegið að Baugi heldur að Baugur hafi vegið illa að þjóðinni. 

Sverrir Stormsker, 22.12.2008 kl. 22:35

6 Smámynd: Sverrir Stormsker

Agnes Braga hefur velt við mörgum steininum og upplýst margt sem Fjármálaeftirlitið, stærsta svefnherbergi landsins, hafði ekki eða vildi ekki hafa hugmynd um.

Hvað varðar opnuviðtal hennar við Björgólf gamla þá finnst mér að hún hefði að ósekju alveg mátt ganga aðeins harðar fram. Annars voru það ekki beint spurningarnar sem voru bitlausar heldur miklu frekar svörin. Kallinn var soldið að klína þessu öllu á þjóðina, - þjóðin hefði verið með kaupæði og keypt sér of marga flatskjái og jeppa og hún gæti sjálfri sér um kennt. Soldið klént er það ekki?

http://web2.modmyprofile.com/mmc/funny/there-are-no-stupid-questions-just-stupid-people.gif

Meðan ég man: Viðtal við mitt við Jón Gerald og Jónínu verður vonandi komið inn á www.stormsker.net fyrir jól ef guð og Stormsker lofa. Læt vita á blogginu um leið og það gerist.

Sverrir Stormsker, 22.12.2008 kl. 22:59

7 Smámynd: Róbert Björnsson

Ömurlegasti fjölmiðillinn hlýtur að vera sá sem eyddi að mér skildist samtals 60 mínútum í gær í að útvarpa blaðrinu í Jóni Val Jenssyni!  How low can you go?   (útvarp Saga fær mitt aktvæði)

Róbert Björnsson, 23.12.2008 kl. 03:52

8 Smámynd: Sverrir Stormsker

Róbert Bangsó. Það er hægt að fara mikið mikið neðar,-  t.d. með því að eyða tveimur klukkutímum í "blaðrið" í honum. Það er nú þannig með Jón Val vin okkar að hann þarf alltaf lágmark klukkutíma, jafnvel þótt hann sé bara spurður hvað klukkan sé. Samt myndi nú mun frekar vilja hlusta á hann en ríkisstjórnina.

En í hvaða "frjálsa" fjölmiðli öðrum hefði ég fengið að taka tveggja tíma viðtal við þau Jón Gerald Sullenberger og Jónínu Ben. Geturðu ímyndað þér að Baugsmiðlarnir hefðu gefið grænt ljós á það? ALDREI, enda þökkuðu þau mér kærlega fyrir að fá Loksins að tjá sig. Þegar Jónína kom fyrst í viðtal til mín í júlí síðastliðnum þá hafði hún Aldrei fyrr fengið að tjá sig um aðdraganda Baugsmálsins. Það viðtal breytti áliti mjög mjög margra á Jónínu og hennar upplýsingum um Baug. (Baugsdýrkunin var þá í algleymingi). 

Og þegar ég tók langt viðtal við Jón Gerald í byrjun október þá fór fólk að átta sig á að kannski hefði þessi maður nú sitthvað til síns máls. Það er útilokað að hann hefði fengið að tjá í tvo tíma í Nokkrum öðrum fjölmiðli. Hann hefði í mesta lagi fengið 10 mínútur hjá Agli Helga og ekki eina sekúntu á Baugsmiðlunum.

Ég hef hinsvegar mikið verið spurður um það hversvegna í ósköpunum síðasti þáttur minn (viðtal við Jón Gerald og Jónínu) hafi ekki verið endurfluttur á kristilegum tíma, en um það hef ég enga hugmynd.

Þó að allt sé ekki snilld sem renni útúr Útvarpi Sögu þá er hún samt nauðsynlegur opinn vettvangur fyrir ólíkar skoðanir og það er því kannski ekki að ástæðulausu að margir mætir menn segi að þar fari fram "eina raunverulega stjórnarandstaðan."

Njótið skötuvibbans. Skál  

Sverrir Stormsker, 23.12.2008 kl. 09:09

9 Smámynd: Alfreð K

Útvarp Saga er ágæt útvarpsstöð þó að hún sé ekki fullkomin (frekar en aðrar útvarpsstöðvar), þar fá að minnsta kosti skoðanir allra sem vilja (og þora) að koma fram, Arnþrúður virðist ekki hafa verið að loka á neinn, fékk meira að segja Hannes H. í viðtal til sín fyrir skemmstu.

Það sem er athyglisvert hins vegar, hvað hún (og tveir aðrir) hafa verið óþreytandi að gagnrýna einn mann árum saman á stöðinni (og jafnvel gera því skóna að sá maður sé óheiðarlegur). Á móti þessu hefur hins vegar lítil sem engin gagnrýni nokkurn tíma heyrst af sömu aðilum á tiltekið fyrirtæki úti í bæ, sem eins og Sverrir segir eru komnir með „klærnar í alla geira samfélagsins.“ Þar hefur bara ríkt þögnin ein, því miður.

Varðandi ummæli hennar um tengsl sín við Baug, þá vekur það athygli að hún kýs að nefna bara soninn í því sambandi (sem hún segist aldrei hafa hitt og þekkja ekki neitt) en minnist ekki á föðurinn (sem oftast er kenndur við Bónus).

Í sambandi við rannsóknarblaðamennsku, þá mættu að mínu viti alveg vera til fleiri Agnesir Bragadætur (og fleiri Jónar Bjarkar), málið er svo stórt og neyðin slík.  Og þótt hann teljist ekki til rannsóknarblaðamanns þá held ég að það mætti alveg þakka Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir margar þarfar og góðar ábendingar á undanförnum misserum.

Alfreð K, 23.12.2008 kl. 11:40

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

í hvert sinn sem ég aulast til að ýta á númer 4 á útvarpinu í bílnum er eitthvað fólk að tuða í innhringingartíma.. þetta virðist vera ALLAN daginn og á hvaða tíma sem er.. stöðin er útvarp Saga. vægast sagt leiðinleg stöð sem virðist byggja tilveru sína á fólki sem hefur innhringingaþörf og telur að aðrir hafi áhuga á misfullu fólki og misgáfuðu fólki sem er að láta ljós sitt skína í útvarpi... 

Meiri músik og minna mas.. ef á að masa hafið það þá með viti..

BTW, Stormsker þátturinn þinn er fínn og ekkert út á hann að setja !  

Óskar Þorkelsson, 23.12.2008 kl. 12:07

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Alfretos. Það er rétt að Vilhjálmur Bjarnason á margar góðar þakkir skyldar fyrir að hafa vaðið með ostaskerann á ýldustykki íslensks fjármálalífs.

Óskaríos. Því miður er ekki hægt að segja öllum innhringjurum að tala af viti því sumir eru illa hélaðir og aðrir vel steiktir, en kannski er þetta þverskurður þjóðarinnar. Það er alltaf risky að opna fyrir símann því í einu vettvangi getur stöðin breyst í Útvarp Sambýli. Sjálfur geri ég lítið sem ekkert af því að "heyra hver er á línunni" því ég hef enga þörf fyrir að vita það. En þetta er fín þjónusta við þá liggur mikið á hjarta, - svona einskonar munnlegt blogg. Pirrar mig ekki baun.

Sverrir Stormsker, 23.12.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband