6.11.2009 | 11:40
Loksins Loksins. Íslandi er borgið
Jæja, loksins er hún komin í verslanir, platan sem ég og heimsbyggðin höfum beðið eftir með óþreyju frá því í byrjun árs, "Tekið stærst uppí sig" með Serði Monster. Það mátti ekki seinna vera því ég var nær dauða en lífi. Loksins getur maður farið að hlusta á hjartnæma söngva um útrásarvíkinga, femínista, kúluvambir bankanna, stjórnmálafroska, drullupumpur og aðrar hetjur þjóðfélagsins. Í tilefni dagsins hef ég sett lagið "Mín slísí saga er sönn" í tónlistarspilarann hér til vinstri á síðunni, (þar má einnig finna lögin "Þann dag er Klakinn dó" og "Tíu lygnir landráðamenn" af plötunni) og svo ætla ég að birta hér brot úr viðtali sem birtist við Serði um plötuna í júlí:
"Siðferðið er í molum á Islandi. Siðgæðisvitundin er engin. Serðir Monster er náttúrulega akkúrat rétti maðurinn til að bæta úr því. Það sem Ísland vantar sárlega núna á þessum alvarlegu siðlausu tímum er almennilegt klám. Femínistar hljóta að geta verið mér sammála um það. Við þurfum að efla nýsköpun á því sviði. Ég er að að reyna að leggja mitt af mörkum með þessari hjartnæmu plötu minni.
Þessi 19 laga plata mín væri bókstaflega barmafull og þarmafull af eðal klámi ef ekki væri kreppa. Það er nefnilega kreppa í landinu þó það hafi ekki verið auglýst víða. Og þessari meintu kreppu verður maður einnig að gera skil. Platan er þessvegna bland í poka, rétt einsog eistu. Þau eru líka svona bland í poka.
Þó að kreppunni fylgi gjaldþrot, atvinnuleysi, hjónaskilnaðir, fólksflótti og svoleiðis fjör þá eru líka neikvæðar og alvarlegar hliðar og það eru þær hliðar sem ég er að reyna að koma auga á. Kreppan er nefnilega ekki bara skemmtun og húllumhæ og eintóm hamingja einsog allir halda. Það eru líka slæmir punktar við hana sem sakar ekki að gefa gaum."
Sakar ekki að geta þess að Hagkaup neitar að selja plötuna vegna þess að þeim þykir umslagið víst eitthvað dónalegt. Þeim finnst ekkert dirty við það að útrásarvíkingarnir skulu hafi tekið þjóðina í kakóið en þeim finnst gasalega dirty að ég skuli hafa teiknað mynd af athæfinu. Svona er Ísland í dag. Ætli ég verði ekki að klæða plötuna í nærbuxur eða umslag eða eitthvað svoleiðis svo að sprellinn og sprellið sjáist ekki. Hagkaup er það siðavant fyrirtæki og má ekki vamm sitt vita. Humm humm. Platan er hinsvegar komin í allar betri búðir.
Hér er svo textinn við lagið "Mín slísí saga er sönn." Þess má geta að lagið fæst ekki spilað á Bylgjunni, hvernig sem skyldi nú standa á því. Hver á eiginlega öll þessi bannaglöðu kompaní?
Mín slísí saga er sönn
(Lag: Jacques Brel. Texti: Sverrir Stormsker)
Ég átti höll og eðal bíl,
og einkaþotu, jú og krakkaskríl,
já ég var æðislegur gaur.
Ég var dáður, átti aur,
núna ataður er aur.
Nú ógeðslanda drekk eg dræ,
og drepst á hverju kvöldi yfir Sky.
Ég bý í venjulegri blokk.
Drottinn, þetta er þvílíkt sjokk.
Fjandans helvitis fokking fokk.
Ég er foj, ég'er í fönn.
Öll min slísí saga'er sönn.
Þó´hún sé lygileg
er hún sannari en ég.
Goodbye mitt sukk og svínarí
og svindilbrask og glæpakompaní
hvar ég fékk bellibrögðum beitt.
Fyrir það ég fékk jú greitt.
Fólkið skilur ekki neitt.
Goodbye mín snekkja'og lúxuslíf.
ég lengur ekki'í einkaþotum svíf.
Nú tek ég strætó einsog pakk.
Horfinn er minn kadilakk.
Ég fæ klígju, ullabjakk!
Ég er foj, ég'er í fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
En öll lög eru hjóm,
ég mun ekki fá neinn dóm.
Goodbye mitt skuggalega líf,
ég lengur ekki neina tinda klíf,
jú það er marflatt þetta sker.
Engir dalir eru hér,
aðeins krónur, því er ver.
Ég á í felum í útlöndum
jú eitthvað pínupons af milljörðum.
Ég held ég flýji'af Íslandi.
Hér eru allir hvíslandi
ef ég er eitthvað sýslandi.
Ég er foj, ég'er í fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
En öll lög eru hjóm,
ég mun aldrei fá neinn dóm.
Ég er foj, ég'er í fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
Hún er svívirðileg,
hún er sönn en ekki ég.
Fólk gargar á mig, gefur mér púst
fyrir það eitt að hafa´allt lagt í rúst.
Já þetta er nú þakklætið.
Ég mun aldrei finna frið
fyrr en ég eignast almættið.
Goodbye minn faðir, fjandi er hart
að flýja þegar ógert er svo margt.
Svo mörgu´á eftir að stela hér.
Fjölda banka á þetta sker.
When you see them I´ll be there.
Ég er foj, ég'er i fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
Ekkert í þessu skil,
allt er farið fjandans til.
Ég er foj, ég'er i fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
Þó hún sé lygileg
er hún sannari en ég.
Ég er foj, ég'er í fönn.
Öll mín slísí saga'er sönn.
En öll lög eru hjóm,
ég mun aldrei fá neinn dóm.
Ég er hálfviti já,
jibbí jibbí jibb jei,
algjör hálfviti já,
ligga ligga ligga lá.
Serðir Monster: Söngur, bakraddir, kassagítar, píanó, orgel,
rafmagnsgítar, trommur, bassagítar, hljómborð.
Útsetning: Sverrir Stormsker, með hliðsjón af útsetningu Terry Jacks.
Upptökustjóri: Sverrir Stormsker.
Stúdíó: Fjarupptökur.is, Flúðaseli 86.
Upptakari: Snorri Idol Snorrason.
Hljóðblöndungar: Vilhjálmur Guðjónsson og Sverrir Stormsker.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Og platan fæst í öllum bestu verslunum landsins áttir þú að segja.
Offari, 6.11.2009 kl. 11:57
Offari, já auðvitað, hvernig læt ég! Breyti þessu einn tveir og ringó.
Sverrir Stormsker, 6.11.2009 kl. 12:51
Þegar okkar fremsti textahöfundur gefur út enn eitt meistarastykið, þá mætir "Heilbrigð skynsemi á svæðið og kaupir SEX eintök" og ég hvet alla meðLIMI aðdáandaklúbbs SSverrirs til að taka mig til fyrirmyndar í þessu máli SEX skal það vera. Ég vona að KÓNGURINN láti svo sjá sig í flestum betri verzlunum landsins & gef mér að það verði hátt ris á félagnum þegar hann áritar þessa snild. Þessi plata á eftir að bjarga geðheilsu fólksins sem enn býr á þessu náskeri.
Jakob Þór Haraldsson, 6.11.2009 kl. 13:40
Heyr heyr Jakob. Vel mælt. Með hverju ætti KÓNGURINN árita?
nicejerk, 6.11.2009 kl. 14:59
Jakob Þór, jújú ég mun mæta með kúlupennann og kúlupenísinn að vopni í einhverjar verslanir og krota eitthvað hjartnæmt á plötuna. En talandi um kúlu þetta og kúlu hitt: Er alveg búið að skafa undan Ögmundi greyinu í Icesave málinu? Hefur kallinn ekki lengur balls til að standa í skankana? Steingrímur J. hefur greinilega fengið kúlulán hjá honum.
Sverrir Stormsker, 6.11.2009 kl. 18:07
Icejerk, ég mun bara árita með því sem hendi er næst. Læt það gossa á umslagið. Jafnaldrinn stendur – alltaf fyrir sínu. Ekki vandamálið.
Sverrir Stormsker, 6.11.2009 kl. 18:08
Hvað finnst Stormskerinu um það að Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi ritstolið og eignað sér "Náskers" nafnið sem þú gafst honum Jóni Ásgeiri í Bónus hér forðum? Þarftu ekki að fara fram á stefgjöld í hvert skipti sem hann birtir þetta?
Emmcee, 7.11.2009 kl. 18:08
Til hamingju með nýjasta meistaraverkið Serðir, og fari Hagkaup í fúlan pitt fyrir pempíuháttinn. Veistu hvort og hvar er hægt að nálgast Tekið stórt- og stærra upp í sig? Skildist einhverntíman að þetta væru orðin ófáanleg verk.
Reputo, 8.11.2009 kl. 02:51
Emmcee, ég lít nú allsekki svo á að Hannes Hólmsteinn vinur vor hafi stolið eða eignað sér Náskers nafnið sem ég bjó til á Jón Ásgeir, öðru nafni Jón Násker, og birtist fyrst í þessari grein minni HÉR þó hann noti það oft, sem er bara hið besta mál. Öllum er frjálst að brúka þetta orð á viðskiptasnillinginn rétt einsog öllum er frjálst að brúka "uppnefnin" Serðir Monster og Samspillingin sem ég bjó til á sínum tíma, sællar minningar.
Þau eru orðin ansi mörg orðin sem ég hef búið til og eru komin inní tungumálið enda gaf ég út heila nýyrðabók árið 1997 sem er löngu uppseld. Ég væri eflaust orðinn öskrandi milli og jafnvel snargeðveikur útrásarvíkingur ef ég ætlaði að fara rukka "stefgjöld" í hvert skipti sem menn brúkuðu eitthvað úr þessu blessaða nýyrðasafni mínu , en það þætti mér frekar fráleitt. Mér hefur hinsvegar þótt soldið fúlt þegar menn hafa tekið heilu síðurnar úr þessari bók minni og haft það sem uppistöðu í uppistand (stand up show) eða birt þetta á netinu eða í tímaritum einsog þeir hafi verið að búa þetta til sjálfir. Slíkt varðar við að við höfundarréttarlög og það er ekki mér að kenna.
Ég skal viðurkenna að mér fannst svolítið einkennilegt þegar Hannes útskýrði tilurð orðsins "náhirðin" mjög vandlega í grein en sleppti alveg að minnast á tilurð orðsins "Násker" (í samtengingunni Jón Násker) sem hann notaði svo af miklum krafti í sömu grein.
En sem ég segi: Hannesi og öðrum er frjálst að nota Jón Násker á sama hátt og Jón Násker notar Samspillinguna.
Sverrir Stormsker, 8.11.2009 kl. 04:57
Reputo, takk fyrir það. Plöturnar "Tekið stórt uppí sig" og "Tekið stærra uppí sig" eru löngu uppseldar og gjörsamlega ófáanlegar en það má kaupa þær í downloadi á síðunni: www.gogoyoko.com/artist/stormsker
Sverrir Stormsker, 8.11.2009 kl. 05:02
Þetta með stefgjöldin var nú meira upp á grínið sagt, en mér finnst samt lágmark að taka það fram hvaðan hann hafi fengið þetta "lánað", sérstaklega í ljósi fyrri reynslu HHG af ritstuldi. Hefði t.d. getað skrifað fyrst þegar hann nefnir þetta: "Jón Násker, eins og Sverrir Stormsker kallar hann,..."
Má vera að HHG hræðist að vera bendlaður við lestur á þessu annars ágæta bloggi þínu, Sverrir?
Emmcee, 8.11.2009 kl. 10:28
Fluttur til Nær-Ópí eða fjær og nú er sko hægt að fjór kanta aftur eins og dagana forðum í risaeðlunni sami fjöldi rúma og þar sem ég bjó fyrir langa löngu með Bar-ein faranum er ég hunsa, ásamt litlum, stórum og ferköntuðum eskimóum í skapi til brúks og láns. Húsið Made in 2010 enda hamrað í grennd enda hljóta smiðir að hafa fengið þróunar aðstoð frá Biskup eða peði ?! Jari nú happy, breytur og þreyttur eftir lang-flugið, en helli uppá svart whisky og skelli mér síðan á Goodfellows. P.S mundu ég grilla pylsur fyrir ss í Jan enda 50 vikna gamallll í pullsum talið. Ussss svona segir maður nú ekki..
Einar B Bragason , 8.11.2009 kl. 12:05
Emmcee, sammála fyrri parti.
Það má svosem vel vera að Hannes kallinn hræðist alveg gríðarlega að vera bendlaður við þetta skelfilega blogg mitt, en efast samt um það. Hann hlýtur nú að hafa skoðað vafasamari síður en þessa
Sverrir Stormsker, 8.11.2009 kl. 14:02
Einar LSD Bragason, ég verð endilega að fá að prófa þetta stöff sem þú ert á. Hvað er Nær Óp eða SírÓp eða hvað þetta heitir?
Hvaða risaeðlu ertu að tala um? Steingrím J. Sigfússon?
Hver er Bar-einfarinn? Er hann skyldur Bar-tvífaranum?
Hverjir eru þessir litlu og stóru eskimóar sem þú fékkst lánaða?
Hvaða hús er þetta sem þú ert að tala um og hvaða smiðir eru þetta sem fengu fróunaraðstoð biskups? Og hvaða biskub er þetta? Ólafur Skúlason?
Hver er þessi Jari apaköttur og hvaða langflug fór hann í? Flaug hann hátt eftir jónureykingar?
Hvaða Goodfellows ertu að tala um? Ertu að tala um bíómyndina eða einhvern bar?
Hver er 50 vikna gamall í pulsum talið? Biskupinn? Og þá hvaða biskup?
Þú verður að skýra þetta nánar ef ég á að geta fengið einhvern botn í þetta mál.
Hvernig líður okkur annars í dag kallinn minn? Bara allir í stuði eða bara allir á stuði?
Sverrir Stormsker, 8.11.2009 kl. 14:25
tími til kominn-til hamingju
zappa (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 15:58
Til hamingju með útgáfuna. Þetta mátti ekki tæpara standa, svona rétt til að bjarga jólunum ( ekki eins og steingrímur joð geri það ). Núna get fært brauðristina úr baðherbegginu hætt á rítalíninu.
Þórhallur Rúnar Rúnarsson, 8.11.2009 kl. 20:17
Kaupi þessa um leið og ég eignastt pening ! snilldar plötu um*slag*
Sævar Einarsson, 8.11.2009 kl. 23:02
zappa, takk fyrir það. Erfið fæðing, vægast sagt. Svo fyrst byrjar stríðið fyrir alvöru eftir fæðinguna við allskonar gamaldags útrásarapakattarkompaní og fæðingarhálfvita. Gaman gaman
Sverrir Stormsker, 9.11.2009 kl. 01:58
Þórhallur, við skulum nú rétt vona að Steingrímur J. hækki skattana uppí 90% í miðri kreppunni. Það er jú svo greindarlegt. Áfram VG!
Sverrir Stormsker, 9.11.2009 kl. 02:01
Sævarinn, uppörvandi að heyra að þú skulir hafa góðan smekk, sem þýðir líklegast að þú látir ekki sjá þig í Hagkaupum næstu árin, því "heiðarlega" og "siðprúða" komapaníi. Skal skrifa fljótlega ítarlega greinargerð um vinnubrögðin þar á bæ í Morgunblaðið og birta emailinn sem þeir sendu dreifingaraðila mínum um ástæður þess að þeir neita að selja nýju plötuna mína "Tekið stærst uppí sig."Það er frekar hlálegt sjónarspil.
Það er nefnilega ekki bara umslagið sem þeir þykjast láta fara fyrir brjóstið á sér heldur einnig titill plötunnar (sem er frægt alþýðlegt orðatiltæki, sem má mistúlka ef menn eru dónalegir í hugsun) og svo segja þeir að listamannsnafnið, Serðir Monster, sé ekki boðlegt í þessum heilugu heiðarlegu verslunum, - nafn sem má t.d. finna á forsíðum þeirra blaða sem verslanirnar eru að selja).
Með þessum heilagleikakomplexum sínum er þetta stálheiðarlega fyrirtæki að brjóta jafnaræðisregluna margfrægu. Þetta eru víst ekki fyrstu reglurnar sem Baugsfyrirtækin brjóta. Þau hafa brotið samkeppnislög uppá ca 350 milljónir. Nokkuð vel af sér vikið miðað við "heiðarleikann" sem þau hafa presenterað í miðlum sínum árum saman.
Það má einnig "undrun sæta" að fyrsta lag plötunnar "Mín slísí saga er sönn," sem fjallar um raunir útrásardólgs, skuli ekki fást spilað á Bylgjunni. Maður fer að velta því fyrir sér hver eigi eiginlega þessi fyrirtæki!! Eru þau virkilega ennþá á einni og sömu krumlu sama dólgsins? Ári eftir hrunið?
Sverrir Stormsker, 9.11.2009 kl. 03:14
Ég er smekkmaður, ég man ekki hvor diskurinn það var "Tekið stórt uppí sig" eða "Tekið stærra uppí sig" sem var bannaður í sölu í Kaupfélaginu "SAH" nema hann væri pakkaður inn í lokaðar umbúðir því sómak*æru* fólki var eitthvað misboðið. Auðvitað vill Hafskaup ekki selja diskinn, Náskerið er örugglega ekkert sérstaklega áægður með þig
Sævar Einarsson, 9.11.2009 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.