Saga um ástir og örlög

Husasundid godaÍ húsasundi mættumst við að morgni,

það magnþrungin var ást við þriðju sýn.

Ég kunni enga karlmannlegri siði

en kyssa þig og horfa í augu þín.

 

Ísinn brast í okkar litlu hjörtum,

ástarblómin rótum skutu í þeim.

Við fundum strax að fengjum við að njótast

þá fjandinn mætti eiga þennan heim.

 

Sem í draumi dagar bjartir liðu,

við drukkum lífið einsog kampavín,

ólmuðumst og okkur veltum látlaust

uppúr sælustundum líkt og svín.

 

Vid gengum nidrad tjornAllt ég man úr árbók minninganna.

Við ótal sinnum gengum niðrað tjörn

og hugsuðum um hamingjuna okkar

og hvort við skyldum reyna að eignast börn.

 

Allt var dásemd, dýrðlegt ævintýri,

hver dagur sem við lifðum, satt er það,

en þó bar við að beiskir böðlar reyndu

að breyta okkar kærleikslind í svað.

 

Já til var mannfólk öfundsjúkt sem sagði

að samband okkar færi í hund og kött

og væri helber öfuguggaháttur

og alveg gjörsamlega útí hött.

 

Ég trúði þessum mönnum mátulega,

já mikið var ég efins fyrst um sinn.

En þessi orð með hörmulegum hætti

hljóta að hafa greypst í huga þinn,

 

Einn a gangi huxiþví stuttu síðar komstu til að kveðja,

eitt kyrrlátt kvöld um miðjan september,

og tjáðir mér með orðum augna þinna

að þú vildir hverfa burt frá mér.

 

Og síðan hefur sál mín spurul leitað

að svörum um hin döpru endalok.

Aldrei mun ég elska nokkuð framar.

Af öllu hef ég fengið uppí kok.

 

Astin minÉg hugsa um þig alla daga og nætur

og oft ég reika um kynlegt húsasund

miður mín og hræðilega hryggur.

Ég held ég verði að fá mér annan hund.

 

 

 

(Gerði þetta átakanlega ástarkvæði um tvítugt. Birtist í ljóðabók minni Vizkustykki, 1991) 


Bloggfærslur 13. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband