Munurinn á stjórnmálamönnum og almennum borgurum

amma_gamla.jpgÞessa hryllingssögu sagði amma mér þegar ég var á viðkvæmasta aldri. Eitthvað um fertugt. Þess má geta til fróðleiks, þó það komi sögunni ekki beint við, að hún vann lengst af við þjónustustörf á hinum ýmsu götuhornum stórborganna og var vel rið...liðin af öllum sem til hennar leituðu.

Ég hafði spurt ömmu gömlu: "Amma gamla, er einhver svo mikill munur á stjórnmálamönnum og okkur, þessum svokölluðu almennu borgurum? Ég meina, eru þeir ekki líka fólk? " Amma setti upp vandlætingarsvip og hristi hausinn einsog ég væri orðinn eitthvað geðveikari en venjulega og jafnvel á leiðinni inná þing. Svo varð hún íbyggin á svip, strauk sér um ósnyrt skeggið og plokkaði flatlýs uppúr nærbuxunum sem hún kramdi annarshugar milli fingranna. Loks tók hún til máls og sagði mér eftirfarandi sögu:

 

skíthaus.jpgDag einn fór prestur til rakarans. Eftir klippinguna spurði hann hvað hann ætti að borga mikið og rakarinn svarar:

"Ég get ekki fengið af mér að taka við peningum frá heilögum ríkisstarfsmanni - himnaríkisstarfsmanni. Sumir segja að þið séuð atvinnulygarar og skíthausar en það er guð einn sem dæmir að endingu. Ég gaf þér klippingu við hæfi. Allt í boði hússins."

Presturinn þakkar kærlega fyrir sig og fer sína leið. Daginn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu sér hann hvar þakkarkort liggur við dyrnar og nokkrir kassar af þrælsterku messuvíni og heilu pokarnir af oblátum með paprikubragði.

 

lífvörður Ólafs konungs Grímssonar.jpgStuttu síðar kemur lífvörður hans hátignar, Ólafs Ragnars, í klippingu. Hann er með afar langan haus, einsog lífverðir af gamla skólanum eru yfirleitt með, og býst því við að þurfa að borga einhverja reiðinnar býsn. Eftir þessa líka fínu herraklippingu spyr lífvörðurinn hvað hann eigi nú að borga margar milljónir flotkróna fyrir herköttið. Rakarinn svarar:

"Þó að svínaflensuna megi kannski rekja til Óla grís þá er Ólafur konungur hreinn dýrð...dýrlingur og ég kann ekki við að þiggja peninga af manni sem er í þjónustu hans hátignar. Ég ætla ekki að svína á þér. Þú færð þetta frítt."

Lífvörðurinn þakkar pent fyrir sig og gengur hamingjusamur á braut. Þegar rakarinn mætir til vinnu daginn eftir bíður hans þakkarkort við dyrnar og heill haugur af fálkaorðum og stórriddarakrossum.

 

hagfræðiprófessor.jpgStuttu síðar birtist hagfræðiprófessor með stærðar skalla sem minnti á gatið á ósónlaginu. Þrjú einmanaleg hár stóðu uppúr hausnum á honum einsog kaktusar í eyðimörk.

"Fá hjá þér eina kótelettuklippingu," segir spekingurinn.

"Einmitt. Þú ert akkúrat með hráefnið sem þarf í væna kótelettu. Þrjú ýlustrá. Ekki málið," segir kraftaverkalæknirinn og fer að klippa og klippa einsog hann eigi lífið að leysa þannig að það er einsog 10 skæri séu á lofti samtímis. Eftir hamaganginn spyr prófessorinn hvað hann eigi nú að borga honum margar alíslenskar fallnar flotkrónur fyrir áreynsluna. Rakarinn svarar:

"Þú ert illa launaður kallinn minn og ég hef ekki brjóst í mér til að vera að taka við peningum af aumingjum og vesalingum sem kunna ekki að telja upp að þremur. Þar að auki ertu með jafn lítið á hausnum og í honum svo þetta er ekkert mál. Þetta er ókeypis."

Prófessorinn klökknar af þakklæti og gengur bljúgur á dyr. Morguninn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu bíður hans þakkarkort við innganginn og heilu raðirnar af bráðnauðsynlegum fróðleiksbókum einsog t.d:  "How to Improve Your Business," "Becoming More Successful" og "How to Rape a Nation Without Breaking Your Dick" o.s.fr.

 

stjórnmalamaður.jpgStuttu síðar sest stjórnmálamaður í stólinn og hann fær þessa líka skínandi fínu mafíósaklippingu. Stjórnmálamaðurinn brosir breitt þannig að skín í blóðrauðar vígtennurnar og þegar hann spyr hvort hann neyðist ekki til að borga eitthvað fyrir þetta, segir rakarinn: 

"Heyrðu elsku vinur, þú ert að vinna óeigingjarnt og stórkostlegt starf fyrir okkur smælingja þessa lands. Þú hugsar aldrei um eigin hag heldur aðeins þjóðarhag. Þú hefur harðsoðið fjöregg þjóðarinnar í hendi þér og vinnur fórnfúst starf sem þjónn almennings og ég get ekki fengið af mér að rukka slíkt erkifí...slíkan erkiengil."

Stjórnmálamaðurinn brosir allan hringinn, hoppar uppúr stólnum af kæti og hraðar sér út. Morguninn eftir þegar rakarinn mætir til vinnu sér hann hvorki þakkarkort né gjafir við dyrnar einsog svo oft áður heldur einungis langa biðröð af stjórnmálamönnum.

 

Amma gamla sagði að þetta væri grundvallarmunurinn á stjórnmálamönnum og almennum borgurum.

Bloggfærslur 28. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband