4.5.2009 | 14:00
Þjóðlegur heiðarleiki Vinstri grænna
Steinríkur J. Sigfússon hefur margsagt að hann myndi frekar troða sér ofan í trjátætara en að samþykkja aðildarumsókn í ESB. Klippingin sem hann er með á hausnum virkar einsog hann hafi reynt það einhverntíma, þannig að ég trúi honum fullkomlega.
Enginn stjórnmálamaður hefur talað meira um heiðarleika undanfarna áratugi en Steinríkur, nema ef vera skyldi kollegi hans, Stalin. Ef hann samþykkir draum Jóhönnu um aðildarumsókn í ESB í skiptum fyrir ráðherrastóla þá er hann einfaldlega að svíkja kjósendur sína. Það er ekki flóknara en það. En auðvitað gerir Steinríkur það ekki. Hann er heiðarlegur stjórnmálamaður. Á íslenska vísu. Að vísu.
Draumur Steinríks er og hefur alltaf verið að einangra landið gjörsamlega fyrir umheiminum. Helst með gaddavír, hringinn í kringum landið. Við megum nefnilega ekki glata þjóðlegum einkennum okkar frekar en górilluaparnir í Amazon-frumskóginum. Við eigum að ríghalda í okkar þjóðlegu krónu og séríslenska hagkerfi og flytja aldrei inn í landið svo mikið sem eina erlenda radísu án þess að ofurtolla hana uppí hæstu hæðir, til að vernda alíslenska þjóðlega framleiðslu. Erlend samkeppni er frá djöflinum komin einsog allt sem viðkemur frelsi.
Allt sem gæti skapað atvinnu er stórhættulegt þjóðarhag. Það á allsekki að finna olíu og hvað þá að vinna hana. Kvótakerfið ber að styðja vegna þessa að auðlindir hafsins eiga að vera í sterkum séríslenskum sægreifakrumlum. Einstaklingsfrelsi er hreinn og tær viðbjóður sem ber að hefta eins mikið og kostur er.
Kjósendur hafa getað gengið að þessari draumsýn Steinríks vísri og þessvegna kusu þeir hann og VG.
Kvöldið fyrir kosningar talaði hann um heiðarleika sinn ca 10 sinnum og þá fór ég að skilja afhverju hann neitar að skila 15 millunum sem hann fékk útúr eftirlaunafrumvarpinu sem hann samþykkti skælbrosandi, og sýna þannig gott fordæmi. Það er jú vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá fór ég líka að skilja afhverju hann styður kvótakerfið og hið vel heppnaða sjávarauðlindarán. Það er vegna þess hvað hann er heiðarlegur. Þá áttaði ég mig líka á afhverju hann dældi út bændastyrkjum í þau kjördæmi sem flokkur hans var valtur í, korteri fyrir kosningar. Það er jú vegna þess hvað hann er stálheiðarlegur. Þá rann líka upp fyrir mér afhverju hann lagði ekki öll spilin á borðið varðandi Evrópusambandið FYRIR kosningar og gerði kjósendum sínum það kristalskýrt að hann myndi aldrei svíkja stefnuskrá flokks síns og kjósendur sína með því að kvitta undir draum Jóhönnu og ekki kvika svo mikið sem hænufet frá einangrunarstefnu sinni. Það er náttúrulega vegna þess hvað hann er alveg hreint makalaust heiðarlegur alíslenskur þjóðlegur stjórnmálamaður.
Maður á alltaf að treysta fólki sem klifar á því hvað það sé heiðarlegt. Þessvegna eru bílasalar, lögfræðingar og stjórnmálamenn fólkið sem maður á að treysta fullkomlega. Helst í blindni. Þegar ég heyri einhvern segja: "Ég er heiðarlegri en Lalli Johns og Stalin, báðir til samans," þá kikna ég alltaf í hnjáliðunum og beygi mig í duftið og kýs manninn samstundis til forseta eða á þing eða til hvers sem vera skal.
Ísland mun aldrei svo mikið sem blikka ESB meðan Steinríkur situr á ráðherrastóli og hvað þá á þremur ráðherrastólum samtímis. Ef einhver maður svíkur ekki kjósendur sína þá er það Steinríkur því hann er maðurinn sem talar mest um séríslenskan þjóðlegan heiðarleika sinn, og við vitum jú öll hvernig íslenskur heiðarleiki er?
![]() |
Ný ríkisstjórn um næstu helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.5.2009 kl. 02:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)