17.6.2009 | 23:20
Dínamítkassinn og reyksprengjurnar
Skiljanlegt að Joly dínamítkassi skuli fara í fjölmiðla með kvartanir sínar þegar hún finnur að ríkisstjórnin er máttlaus reyksprengja sem vill hafa allt í þoku og gufu og vill halda áfram að vaða reyk. Eftir því sem Joly dínamítkassi segir sjálf þá hefur ekki verið hlustað á ráðleggingar hennar því Íslendingar kunna þetta jú alltsaman miklu betur. Það voru nefnilega þeir sem bjuggu til þetta mesta efnahagsglæparugl heimssögunnar og finnst að þeir hljóti þessvegna að vera akkúrat réttu mennirnir til að rannsaka það.
Ríkisstjórnin og kerfisþursarnir hafa fram að þessu reynt að bleyta í dínamítinu og sagt við Joly óbeinum orðum: "Hey þú þarna gamla beygla, þykist þú ætla að fara að segja OKKUR fyrir verkum? Hvern fjandann ertu að gera með vasaljós inní okkar myrkrakompum? Við erum íslenskir sjálfstæðir amatörar og látum ekki einhverja útlenska gribbu stjórna okkur og vasast í okkar myrkraverkum. Við erum búnir að vera á kafi í spillingunni áratugum saman þannig að við hljótum að vita hvað við erum að gera. Ef við kunnum að drulla á okkur þá hljótum við líka að kunna að skeina okkur, þó við munum ekki í svipinn hvernig eigi að snúa peningaseðlunum. Vertu úti!"
Rannsókninni hefur verið haldið í fjársvelti og þegar Joly dínamítkassi hefur beðið um að fá hér skrifstofu til afnota þá hefur þetta verið undirtónninn: "Heyrðu kelling, hvað ertu alltaf að ybba gogg? Geturðu aldrei verið til friðs? Við höfum nóg annað að gera við peningana en að eyða þeim í þig og þína óæskilegu rannsókn á spillingunni og hruninu. T.d. þurfum við að hækka laun þingmanna og kerfissaltstólpa. Hvernig væri nú að þú myndir sýna smá sjálfsbjargarviðleitni og drullast með þína fokking fartölvu og allt þitt blaðarusl niðrá Kaffi Amsterdam eða Ölver og vinna þar? Heldurðu að við séum einhver félagsmálastofnun? Láttu spillinguna og okkur stjórnmálamennina sem hrærumst í henni í friði. Það er ekki svefnfriður fyrir þér kellingartuska. Vertu úti! Úti í Noregi!"
Auðvitað verður Joly dínamítkassi þreytt á þessu viðmóti og fer í fjölmiðla. Þá verða stjórnarvampírurnar hræddar því þær óttast ekkert meira en dagsljósið og kastljósið. Þær gætu fuðrar upp. Enda er núna fyrst örlítið farið að hlusta á Joly dínamítkassa - eftir þriggja mánaða vertu-úti-viðmót og endalausa útúrsnúninga, hindranir og vegatálma. Hún hafði náttúrulega vit á því að fara ekki í útrásarvíkingafjölmiðlana. Býst við að henni þyki það lyginni líkast að stærstu fréttaveitur landsins skuli ennþá vera í eigu eins útrásarvíkings. Það hlýtur að teljast eitt af mörgum heimsmetum okkar í heimsku sem hún hristir hausinn yfir.
Ekki má gleyma að það var ekki ríkisstjórnin sem hafði rænu á að draga Joly spæjó uppá Klaka heldur þáttagerðarmaður útí bæ. Lýsandi fyrir áhugaleysi og hugmyndafátækt stjórnmálamanna. Nokkrum mánuðum síðar var hún ráðin af stjórnvöldum og líklegast ætlast til að hún gerði ekki neitt frekar en þau sjálf, en líklega þótti hún heppileg sem ásýnd trúverðugleika. Íslenskur trúðsveruleiki þurfti alvarlegt andlit trúverðugleika.
Joly er eini erlendi sérfræðingurinn sem er að vinna í málinu þrátt fyrir þrábeiðni hennar um að fá fleiri slíka sér til aðstoðar. Á það hefur ekki verið hlustað frekar en annað, ekki fyrr en hún dró það fram í Kastljósið. Þá á að "skoða málið," einsog það heitir á máli pólitísku svæfingalæknanna.
Joly dínamítkassi er reyndur spæjari og finnur að sjálfsögðu áhugaleysið í kerfinu á að upplýsa nokkurn skapaðan hlut. Sauðsháttur og viðvaningsháttur stjórnvalda og embættismannakerfisins hefur ekki farið framhjá henni og henni finnst skiljanlega nóg komið af "stjórnun með skipulögðu aðgerðarleysi," einsog hún kallar það réttilega.
Púðurkellingarnar í ríkisstjórninni ráða Joly dínamítkassa og humma svo fram af sér allar ráðleggingar hennar. Sá sjúklingur er náttúrulega ekkert annað en rakið erkifífl sem reynir að segja heilaskurðlækninum hvernig hann eigi að vinna vinnuna sína: "Nei, þú átt ekki að nota svona beittan hníf. Þú átt að nota flísatöng og bitlausar tánaglaklippur."
Munurinn á íslenskum stjórnmálamönnum og Joly er að íslenskir stjórnmálamenn eru sérfræðingar í að klúðra hlutunum en Joly er sérfræðingur í rannsóknum á glæpsamlegu klúðri. Þeir eiga að opna svefndrukkin augun, sperra upp asnaeyrun og hlusta og halda sig á mottunni og halda sér saman og fara að ráðum hennar og reyna að læra og reyna að skilja að þjóðin hefur miklu meiri þörf fyrir eina Joly en þá alla til samans.
Það þarf dínamít til að sprengja upp maðkétið silalegt gegnumrotið kerfið og komast að krimmunum en ekki máttlausar reyksprengjur. Fýlubomburnar í ríkisstjórninni og embættismannakerfinu hafa reynt að svæla dínamítkassann burt frá rannsókninni en þær verða að fara að skilja að það eru ekki þær sem eru hæfar heldur Joly og ef þær munu ekki fara að ráðum hennar, sem hún var fengin hingað til að gefa þeim, þá mun allt heila klabbið springa í andlitið á stjórninni og stjórnin springa í loft upp í kjölfarið vegna þess að þjóðin sjálf er að springa.
(Birtist í Morgunblaðinu, 17. júní 2009)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)