Dínamítkassinn og reyksprengjurnar

ráðherra.jpgSkiljanlegt að Joly dínamítkassi skuli fara í fjölmiðla með kvartanir sínar þegar hún finnur að ríkisstjórnin er máttlaus reyksprengja sem vill hafa allt í þoku og gufu og vill halda áfram að vaða reyk. Eftir því sem Joly dínamítkassi segir sjálf þá hefur ekki verið hlustað á ráðleggingar hennar því Íslendingar kunna þetta jú alltsaman miklu betur. Það voru nefnilega þeir sem bjuggu til þetta mesta efnahagsglæparugl heimssögunnar og finnst að þeir hljóti þessvegna að vera akkúrat réttu mennirnir til að rannsaka það.

 

skeinipappír stjórnmálamanna.jpgRíkisstjórnin og kerfisþursarnir hafa fram að þessu reynt að bleyta í dínamítinu og sagt við Joly óbeinum orðum: "Hey þú þarna gamla beygla, þykist þú ætla að fara að segja OKKUR fyrir verkum? Hvern fjandann ertu að gera með vasaljós inní okkar myrkrakompum? Við erum íslenskir sjálfstæðir amatörar og látum ekki einhverja útlenska gribbu stjórna okkur og vasast í okkar myrkraverkum. Við erum búnir að vera á kafi í spillingunni áratugum saman þannig að við hljótum að vita hvað við erum að gera. Ef við kunnum að drulla á okkur þá hljótum við líka að kunna að skeina okkur, þó við munum ekki í svipinn hvernig eigi að snúa peningaseðlunum. Vertu úti!"

 

nýju föt keisaranna.jpgRannsókninni hefur verið haldið í fjársvelti og þegar Joly dínamítkassi hefur beðið um að fá hér skrifstofu til afnota þá hefur þetta verið undirtónninn: "Heyrðu kelling, hvað ertu alltaf að ybba gogg? Geturðu aldrei verið til friðs? Við höfum nóg annað að gera við peningana en að eyða þeim í þig og þína óæskilegu rannsókn á spillingunni og hruninu. T.d. þurfum við að hækka laun þingmanna og kerfissaltstólpa. Hvernig væri nú að þú myndir sýna smá sjálfsbjargarviðleitni og drullast með þína fokking fartölvu og allt þitt blaðarusl niðrá Kaffi Amsterdam eða Ölver og vinna þar? Heldurðu að við séum einhver félagsmálastofnun? Láttu spillinguna og okkur stjórnmálamennina sem hrærumst í henni í friði. Það er ekki svefnfriður fyrir þér kellingartuska. Vertu úti! Úti í Noregi!"

 

stjórnmálavampírur.jpgAuðvitað verður Joly dínamítkassi þreytt á þessu viðmóti og fer í fjölmiðla. Þá verða stjórnarvampírurnar hræddar því þær óttast ekkert meira en dagsljósið og kastljósið. Þær gætu fuðrar upp. Enda er núna fyrst örlítið farið að hlusta á Joly dínamítkassa - eftir þriggja mánaða vertu-úti-viðmót og endalausa útúrsnúninga, hindranir og vegatálma. Hún hafði náttúrulega vit á því að fara ekki í útrásarvíkingafjölmiðlana. Býst við að henni þyki það lyginni líkast að stærstu fréttaveitur landsins skuli ennþá vera í eigu eins útrásarvíkings. Það hlýtur að teljast eitt af mörgum heimsmetum okkar í heimsku sem hún hristir hausinn yfir.

 

eva_joly.jpgEkki má gleyma að það var ekki ríkisstjórnin sem hafði rænu á að draga Joly spæjó uppá Klaka heldur þáttagerðarmaður útí bæ. Lýsandi fyrir áhugaleysi og hugmyndafátækt stjórnmálamanna. Nokkrum mánuðum síðar var hún ráðin af stjórnvöldum og líklegast ætlast til að hún gerði ekki neitt frekar en þau sjálf, en líklega þótti hún heppileg sem ásýnd trúverðugleika. Íslenskur trúðsveruleiki þurfti alvarlegt andlit trúverðugleika.

 

Joly er eini erlendi sérfræðingurinn sem er að vinna í málinu þrátt fyrir þrábeiðni hennar um að fá fleiri slíka sér til aðstoðar. Á það hefur ekki verið hlustað frekar en annað, ekki fyrr en hún dró það fram í Kastljósið. Þá á að "skoða málið," einsog það heitir á máli pólitísku svæfingalæknanna.

 

íslensk stjórnmál.jpgJoly dínamítkassi er reyndur spæjari og finnur að sjálfsögðu áhugaleysið í kerfinu á að upplýsa nokkurn skapaðan hlut. Sauðsháttur og viðvaningsháttur stjórnvalda og embættismannakerfisins hefur ekki farið framhjá henni og henni finnst skiljanlega nóg komið af "stjórnun með skipulögðu aðgerðarleysi," einsog hún kallar það réttilega.

 

Púðurkellingarnar í ríkisstjórninni ráða Joly dínamítkassa og humma svo fram af sér allar ráðleggingar hennar. Sá sjúklingur er náttúrulega ekkert annað en rakið erkifífl sem reynir að segja heilaskurðlækninum hvernig hann eigi að vinna vinnuna sína: "Nei, þú átt ekki að nota svona beittan hníf. Þú átt að nota flísatöng og bitlausar tánaglaklippur."

 

islenskur_inspector_kluso.jpgMunurinn á íslenskum stjórnmálamönnum og Joly er að íslenskir stjórnmálamenn eru sérfræðingar í að klúðra hlutunum en Joly er sérfræðingur í rannsóknum á glæpsamlegu klúðri. Þeir eiga að opna svefndrukkin augun, sperra upp asnaeyrun og hlusta og halda sig á mottunni og halda sér saman og fara að ráðum hennar og reyna að læra og reyna að skilja að þjóðin hefur miklu meiri þörf fyrir eina Joly en þá alla til samans.

 

Það þarf dínamít til að sprengja upp maðkétið silalegt gegnumrotið kerfið og komast að krimmunum en ekki máttlausar reyksprengjur. Fýlubomburnar í ríkisstjórninni og embættismannakerfinu hafa reynt að svæla dínamítkassann burt frá rannsókninni en þær verða að fara að skilja að það eru ekki þær sem eru hæfar heldur Joly og ef þær munu ekki fara að ráðum hennar, sem hún var fengin hingað til að gefa þeim, þá mun allt heila klabbið springa í andlitið á stjórninni og stjórnin springa í loft upp í kjölfarið vegna þess að þjóðin sjálf er að springa.

 

 

(Birtist í Morgunblaðinu, 17. júní 2009)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Heyr, heyr!

Þráinn Jökull Elísson, 18.6.2009 kl. 00:01

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Alltaf góður! Svalandi að fá að brosa biturleikann burt. Eva Joly beitir vonandi dinamiti á kerfi krimmana.

Helga Kristjánsdóttir, 18.6.2009 kl. 00:10

3 Smámynd: Eygló

Djössins fúlt, maður getur ekkert þrasað við þig. Sammála öllu sem hér stendur og örugglega fleiru?

Fegin að þetta fór í Moggann.   Stolt af þér sonur sæll. Mamma 78

Eygló, 18.6.2009 kl. 00:10

4 Smámynd: Sverrir Þór Magnússon

Þú nafni segir hlutina eins og flestir sjá, hins vegar getur þetta pakk sem meirihlutinn kaus ekki séð hlutina svona einfallt, ljótt að segja enn VG vill og ætlar sér að styðja Samfokk í því að eyðileggja framtíð allra barna sem hér fæðast næstu áratugina. Ég vill frekar deyja hungurmorða og einn heldur enn að borga fyrir þessa spilamenn, hvað er næst til að henda í breta (lBrown=shit).

Við eigum ekki að gefa (Brown) skít eftir í þessu máli.

Ég legg til að þú fáir aldrei fálka,arnar, eða starra orðu : hinsvegar átt þú að fá listamannalaun eins lengi og þú getur skemmt okkur og haldið púlsinum gangandi.

Skál fyrir þér og þínum skrifum.

Sverrir Þór Magnússon, 18.6.2009 kl. 00:25

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Góður dálkur hjá þér Sverrir. Skiljanlega þarf að losna við Joly -enda ekki nógu Jolly.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 18.6.2009 kl. 00:42

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Zkerið er ekkert Zkar....

Steingrímur Helgason, 18.6.2009 kl. 01:49

7 Smámynd: Sverrir Stormsker

Þráinn. Já Heyr heyr, en verst að stjórnin skuli ekki heyra neitt.

Helga Kristjáns. Joly á að fá að nota þær aðferðir og þau meðöl sem duga án afskipta frá stjórnmálafroskum. Ef hún sem sérfræðingur telur handsprengjur og scudflaugar nauðsynlegar til að komast að kjarnanum þá á amatörstjórnin að láta hana fá þær þegjandi og hljóðalaust en ekki afhenda henni skrúflykil og heftiplástur.

Sverrir Stormsker, 18.6.2009 kl. 02:29

8 Smámynd: Sverrir Stormsker

Maíja. Já slæmt að við skulum ekki geta þrasað neitt mamma nr. 78. Eyðileggur alveg daginn. Gengur bara betur næst.

Sverrir Stormsker, 18.6.2009 kl. 02:32

9 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sverrir. Ekki alveg nógu hressandi að við skyldum hafa farið úr öskunni í eldinn eftir kosningar með því að bæta Vinstri Gráu oná svart. Ég sagði það reyndar í mörgum greinum fyrir kosningar en fólk var blindað af aðdáun á þessum hentistefnukommúnistum og vildi eitthvað “nýtt” og “heiðarlegt.” Einmitt.

 

Annars reddaði þessi kröftugi gröfumaður á Álftanesi alveg deginum hjá mér. Fólk í sömu aðstöðu mætti gjarnan taka hann til fyrirmyndar. Þetta er maður sem kann að ýta við hlutunum í orðsins fyllstu merkingu.

Sverrir Stormsker, 18.6.2009 kl. 02:34

10 Smámynd: Sverrir Stormsker

Hildur Helga. Merkilegt með ríkisstjórnina hvað hún er áfjáð í að losna við gott fólk úr landi þrátt fyrir fagrar hátíðarræður um annað. Það er ekki bara Joly sem er að fá uppí kok heldur einnig þúsundir fjölskyldna. Þjóðin liggur helsærð í rúminu og þá kemur ríkissstjórnin og kæfir hana með kodda. Alveg óskiljanlegt.

Sverrir Stormsker, 18.6.2009 kl. 02:37

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Zteingrímur. Já, Zkerið er ekkert Zkar og Zteingrímur Helgazon á alltaf Zvar. Vildi ég gæti zagt það zama um Zteingrím J. Zigfúzzon.

Sverrir Stormsker, 18.6.2009 kl. 02:41

12 Smámynd: Karl Löve

Merkilegur þessi Sverrir Þór. Núverandi ríkisstjórn tók við eitruðu skriflegu loforði Geirs Haarde til Hollendinga um að ríkissjóður myndi ganga í ábyrgð. Ég er EKKI að lofa eða mæla með núverandi útgáfu af þessum samning þ.e. það sem maður hefur fengið að heyra.

En ef þessi ríkisstjórn segir "na na na ekkert að marka" það var önnur ríkisstjórn sem lofaði þessu en ekki við hvað þá? Er orðspor okkar ekki nægilega í svaðinu nú þegar? Ég veit ekki hvað fólk er að hugsa þegar það heldur að hægt sé að gefa öllum fingurinn þegar við sitjum uppi með Svarta-Pétur.

Ég skil það fólk og ég er reiður og svekktur líka en það verður að horfa lengra en til næstu mínútu. Ég vil ekki að núverandi útgáfa með þessum okurvöxtum sé veitt ríkisábyrgð en við munum þurfa að borga á einn eða annann hátt okkar hlut. Þegar fólk hrópar á stjórnmálamenn sama hvar í flokki þeir eru þá gleymist það alltaf að það er almenningur sem kýs þessi ósköp yfir sig.

Ég vil losna við hvern einn og einasta stjórnmálamann sem núna situr á þingi og þá sérstaklega þetta krabbamein sem fjórflokkurinn er en það mun aldrei verða á meðan fólk heldur með stjórnnmálaflokki eins og knattspyrnuliði.

Karl Löve, 18.6.2009 kl. 09:27

13 Smámynd: Haraldur Baldursson

Hvernig upprætir maður Mafíuna á Sikiley ?
Er það hægt ?
Er þetta kannski einkenni eyjasamfélags eins og okkar líka ?
Hvað er jafnvel Eva Joly getur þetta ekki heldur ?

Opin stjórnsýsla er eina móteitrið sem til er gegn klíkunum, nei sorry ég meina stjórnmálaflokkunum. Verst við opna stjórnsýslu að trekkurinn er svo mikill að það dauðlangar öllum, sem við kjötkatlana sitja, að loka henni aftur. En svo ég festist nú ekki í neiðkvæðni og væli, þá mætti sjá fyrir sér að óháð deild (sem sagt skipuð Svissneskum varðliðum) fylgdi eftir markmiðum hennar með bannfæringavaldi gegn þeim sem loka vilja. Sólarfælnar Vampírur stjórnkerfisins ættu þá óhægt um vik með að skella hurðinni á opna stjórnasýslu.

Þetta með svissnesku varðliðana er sennilega það gáfulegasta sem ég hef látið frá mér síðustu 5 mínútur.

Haraldur Baldursson, 18.6.2009 kl. 10:09

14 identicon

Ég sé ekkert í spilunum nema byltingu...

DoctorE (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 12:09

15 Smámynd: Fjölnir Geir Bragason

HÉR ÁÐUR RIGNDI BOÐORÐUM

EN NÚ ER KOMIN SLYDDA

SVO BRÝNA ÞURFUM BOÐORÐIN

OG BLÝANTANA AÐ YDDA

SÆMA SVERRIR YDDARAKROSS HINNAR ÍSLENZKU SKÁLKAORÐU TAKK FYRIR...

Fjölnir Geir Bragason, 18.6.2009 kl. 12:34

16 Smámynd: Einar B  Bragason

Góður að vanda ! Ég er hættur á fangavaktinni og ætla framvegis að vera lykla-pési :) og læsa þetta stjórnarhyski inni fyrir það eitt að vera til! Kv  fyrrverandi fangelsismálastjóri.. P.S. Óska eftir góðri byssu, má vera framhlaðningur og taka mikið af grófu salti.

Einar B Bragason , 18.6.2009 kl. 12:56

17 Smámynd: Berglind Guðmundsdóttir

Sjólí kellingin hefur komist að því að stjórnmálamenn leysa engan vanda.  Þeir eru vandamálið.

Berglind Guðmundsdóttir, 18.6.2009 kl. 14:37

18 Smámynd: Heimir Tómasson

Það er svosem engu við að bæta Sverrir minn.... takk fyrir þennan pistil.

Heimir Tómasson, 18.6.2009 kl. 16:05

19 Smámynd: Finnur Bárðarson

Tek undir með Doctornum

Finnur Bárðarson, 18.6.2009 kl. 18:26

20 Smámynd: Sverrir Stormsker

Karl, nr. 12. Hvað varðar þennan “blessaða” Icesave samning þá virðist hann vera ansi risky, svo ekki sé meira sagt. Ekki nema von að stjórnin hafi farið með hann einsog mannsmorð svona lengi. Hann gæti nefnilega mjög auðveldlega orðið þjóðarmorð. Við erum algerlega sett undir hæl þessara þjóða. Slæmar tvíbökur, einsog maður segir

Fjórflokkurinn er einkennilegt fyrirbrigði sem þjóðin dýrkar. Í kosningum er spurt: Hvort viltu krabbamein, hvítblæði, heilablóðfall eða aids? Kostaboð. Fólk velur alltaf eitt af þessu og fær svo tvennt eða þrennt fyrir eitt. Alveg harðánægt.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:06

21 Smámynd: Sverrir Stormsker

Haraldur. Vantrú trú mín á íslensku eftirliti, sama hvaða nafni það nefnist, er svona frekar óendanlegt. Það hefur aldrei neitt komið útúr íslenskum spillingarrannsóknum enda er samtryggingarköngulóarvefurinn hér afar vel ofinn.

Óháð deild erlendra varðliða væri vel þegin. En hver ætti að ráða slíka deild? Stjórnmálamafíurnar? Hvorki embættismannakerfið né stjónmálamafíurnar vilja láta fylgjast með sér enda ljósfælnari en nokkur vampíra. Svo þetta er víst borin von. Þetta er og verður bananalýðveldi og bannalýðveldi.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:12

22 Smámynd: Sverrir Stormsker

DoctorE. Ég sé hinsvegar ekkert annað í spilunum en svartapétra. Það væri vissulega mjög ánægjulegt að sjá hér kröftuga byltingu þar sem yrði stokkað vel og rækilegu upp í öllu draslinu og gefið uppá nýtt. Sé það þó ekki gerast. Hver og einn getur hinsvegar gert sína byltingu einsog ýtustjórinn á Álftanesi. Það gæti orðið verulega kröftugt andsvar gegn vibbanum og óréttlætinu.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:16

23 Smámynd: Sverrir Stormsker

Fjölnir. Þakka góða vísu. Þessi verður aldrei of oft kveðin frekar en góð ýsa of oft freðin.

 

Einar fv. fangelsismálastjóri. Fólk grenjar hér útá grautinn því það á ekki salt í hann, svo það eru litlar líkur á að þú getir fengið mikið af grófu salti í framhlaðninginn. Þar að auki þá er búið að banna allt “gróft” hér á Klakanum.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:19

24 Smámynd: Sverrir Stormsker

Berglind. Það er erfitt að leysa þetta vandamál sem stjórnmálamenn eru. Þetta er vandamál sem fólk kýs yfir á fjögurra ára fresti - stundum á skemmri tíma ef það er orðið mjög þurfandi fyrir frekari vandamál.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:20

25 Smámynd: Sverrir Stormsker

Heimir. Takk fyrir það.

 

Finnur. Ég tek yfirleitt alltaf undir með Doctornum enda með skemmtilegri bloggurum.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 00:22

26 Smámynd: Jens Guð

  Við sitjum uppi með eitthvað sem heitir embættismannakerfi og afbrigði sem kalla má samtryggingakerfi.  Ein útfærslan kallast helmingaskiptareglan.  Sem nær þó einnig yfir það sem við skilgreinum sem fjórflokkinn.  Síðastnefnda fyrirbærið kristallast augljósast í utanríkisþjónustunni.  Þar er raðað á jötuna vin okkar,  Jón Baldvin,  og Guðmund Árna Stefánsson og Svavar Gestsson og...og...  Fyrsta verk Ingibjargar Sólrúnar sem utanríkisráðherra var að "aðla" bestu vinkonu í sendiherraembætti.  Við höfum einnig nýleg dæmi um að flokksgæðingar hafi verið "aðlaðir" sem sendiherrar án þess að "þurfa" að gegna þannig embætti.  Gjörningarnir hafa bara verið til þess að koma viðkomandi á "spenann" (les = feit eftirlaun). 

  Spyrja má:  Bjuggust menn við að gengi útrásarvíkinga myndi bíða með hendur í skauti þegar Eva Joly færi að kroppa í veldi þeirra (framferði þeirra)?  Nei.  Nú er allt undir og öllum meðölum er beitt til að "fá að vera í friði" (njóta griðhelgi).  Nýlegur leiðari Fréttablaðsins tekur af allan vafa. 

Jens Guð, 19.6.2009 kl. 01:11

27 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jens. Það virðist allsekki mega laga til í utanríkisþjónustunni og spara þar. Við bókstaflega verðum að hafa sendiráð í hverju einasta krummaskuði heimsins.

Held það standi til að opna sendiráð í Amazon frumskógunum því það vanti vel launað djobb handa Kolbrúnu Halldórs.

Svo er í bígerð að opna eitt sendiráð í Vestmannaeyjum og annað í Hrísey því tveir ráðherrar hafa greinst með geðhvarfasýki og þurfa betra atlæti.

Pétur Blöndal fékk vægt hjartaslag á útvarpsstöð fyrir stuttu þegar minnst var á hvort það ætti að lækka laun þingmanna, ráðherra og embættismanna. Hann sagði að slíkt væri stórhættulegt því þá fengjum við ekki hæft fólk í þessi djobb.

Ég spyr: Hafa svona margir hæfir menn verið að gegna þessum djobbum fram að þessu? Hafa þessir menn verið að vinna einhver afrek fyrir utan að koma Klakanum á kaldan klaka? Margir þeirra ættu að borga þjóðinni hverja krónu til baka sem þeir fengu fyrir að sofa í stólum sínum.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 02:59

28 Smámynd: Sverrir Stormsker

Árni. Takk fyrir síðast. Ég malaði þig reyndar í síðustu umferð 4 - 0. Menn muna greinilega bara það sem þeir vilja muna

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 03:01

29 Smámynd: Karl Löve

Stormsker: Ég er að rembast við að vera raunsær í þessu öllu.

Hér er vísa sem á vel við alla núlifandi stjórmálamenn:

Upp er skorið engu sáð

allt er í varga ginum,

þeir sem að aldrei þekktu ráð

þeir eiga að bjarga hinum.

Svo er hér önnur um alla þá sem enn blaðra blindir í vörn fyrir "sínum" stjórnmálaflokki. (Les: trúfélag)

Hrekkvís kyndir heiftarbál

hræsnin veður elgin.

Aulabárði er alltaf mál

orð að leggja í belginn.

Karl Löve, 19.6.2009 kl. 13:04

30 Smámynd: Sverrir Stormsker

Karl. Góðar vísur. Veit ekki eftir hvern sú fyrri er en hin er eftir Örn Arnarson, eitt af mínum uppáhaldsskáldum. Hann gerði aðra vísu um ríkisstjórnina og hún er svona:

Hávært tal er heimskra rök,

hæst í tómu bylur.

Oft er viss í sinni sök

sá er ekkert skilur.

Svo gerði hann enn aðra um ríkisstjórnina sem endaði svona (man ekki fyrri partinn):

Sumir hafa tungur tvær

og tala sitt með hvorri.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 14:27

31 Smámynd: Karl Löve

Stormsker: Takk fyrir þessar uplýsingar. Ég átti auðvitað að taka fram að ég væri ekki höfundur enda vil ég ekki vera sakaður um ritstuld.

Læt hér fylgja með nokkrar sem ég á en veit ekki hverjir eru höfundar. Þær eiga það sameiginlegt að hægt er að smyrja þær á stjórnmálamenn.

Orð þín eru einskis nýt

auma kjaftabulla,

hjartað orðið hart af skít,

heilabúið drulla.

Ill þín verða ævikjör

algjört bras og pína,

ef blekkir þú með bros á vör,

bestu vini þína.

Augun spegla innri mann

einatt þar við lesum,

að þú hýsir andskotann,

ásamt fleiri pésum.

Karl Löve, 19.6.2009 kl. 16:28

32 Smámynd: Sverrir Stormsker

Karl. Þrælgóðar vísur. Vissi ekki að það væri búið að yrkja svona mikið um Steingrím og Jóhönnu. Kondu endilega með fleiri ef þú átt. Það er must að gefa þetta út í bók og gefa ríkisstjórninni í kveðjugjöf innan fárra mánaða. Vonandi sem fyrst.

Sverrir Stormsker, 19.6.2009 kl. 17:29

33 Smámynd: Karl Löve

Stormsker. EKKI bjóða mér þetta. Ef þú ætlar að fylkja þér í hóp þeirra hanga á "sínum" flokki þá ertu engu betri en þeir. Ef þú ert þeirrar trúar að það verði eitthvað betra hér ef Siðblind(Sjálfstæði)flokkurinn og Framsóknarhóran tækju við þá ertu með sama gullfiskaminnið og þú vænir aðra um. Með þessum orðum er ég ekki að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina en af mörgum slæmum kostum er hún illskást í bili.

Varðandi Jóhönnu vil ég segja; ég hef fylgst með hennar störfum frá því að hún byrjaði á þingi. Það má sjálfsagt margt um hana segja eins og okkur öll en eitt mikilvægt má hún eiga og það er orðheldni og að vera í sambandi við venjulegt fólk. Gleymum ekki að hún vildi alls ekki taka þetta að sér. Það var gífurlegur þrýstingur á hana því hún nýtur trausts svo margra.

Ég held að þó að sjálfur Gabríel erkiengill væri forsætisráðherra þá væri hann orðinn illa liðinn vegna þeirra hörmungaraðgerða sem þarf að gera. Við erum í stuttu máli í hyldjúpum skít þökk sé Siðblinda(Sjálfstæðis)flokknum og Framsóknarhórunni sem bera höfuð og herðar yfir aðra þegar kemur að ábyrgð á ástandinu.

Karl Löve, 19.6.2009 kl. 18:03

34 Smámynd: Sverrir Stormsker

Karl. Ef þú gætir bent mér á EITT ORÐ þar sem ég mæli með því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framasóknarflokkurinn ættu hreint endilega að taka við af Samspillingunni og kommúnistunum í VG þá væri það vel þegið. Ég hef verið að furða mig á dýrkun fólks á fjórflokknum í undanförnum greinum - dýrkun sem má einna helst líkja við trúarbrögð eða hollustu við íþróttafélög. Ertu ekki læs?

Þú talar um orðheldni "heilagrar" Jóhönnu." Áttu þá við skjaldborgina sem hún lofaði að reisa um heimilin? Þú talar um að hún sé "í sambandi við venjulegt fólk." Hún er búin að vera einsog mubla í Félagsmálaráðuneytinu undanfarin 100 ár og er fyrir löngu búin að missa allt jarðsamband. Annars væri hún ekki að fara að skattpína fátæklinga og sökkva Klakanum endanlega með meingölluðum nauðungarsamningi. Maður á helst ekki að nefna Jóhönnu og Steingrím J. í sömu setningu og "orðheldni" nema maður sé náttúrulega blindaður af aðdáun á þessum stjórnvitringum. 

Þú segir að hún hafi alls ekki viljað taka þetta að sér. Er það þessvegna sem hún fór í framboð og tók að sér forsætisráðuneytið? Er hún að fórna sér? Er hún Kristur endurborinn? Gat hún ekki bara sagt nei? Hefur hún engan sjálfstæðan vilja? Er hún að fórna sér fyrir þjóðina? Mér sýnist hún frekar vera að fórna þjóðinni. Þó hún njóti trausts margra þá er ekki þar með sagt að hún sé traustsins verð.

Ég var að biðja þig um skemmtilegar vísur en ekki taumlausa aðdáun þína á manneskju sem lætur undan "gífurlegum þrýstingi" og getur ekki staðið í lappirnar þegar á reynir.

Sverrir Stormsker, 20.6.2009 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband