Hannes Þór Helgason - Minning

 

HannesÉg var svo lánsamur að kynnast Hannesi útí Asíu fyrir nokkrum árum. Hann staldraði þar yfirleitt við í viku í senn, nokkrum sinnum á ári og þá var alltaf glatt á hjalla. Við urðum strax góðir félagar og flökkuðum þarna víða um lönd tveir okkar liðs í fínum fílingi. Ég minnist margra langra ánægjulegra heilsubótargöngutúra í sólinni þar sem við spjölluðum um lífsins næturgagn og nauðsynjar og horfðum á litfagrar blöðrur á strætum og torgum. Á kvöldin var regla hjá okkur að fara á einhvern freistandi gæðastað og gæða okkur á safaríkum skinkum og gómsætum skonsum.

Það var alltaf gaman að fá Hannes í heimsókn. Hann var fyrirtaks þunglyndiseyðir. Hann var glaðsinna og lét hverjum degi nægja sína hamingju. Man ekki eftir að hafa séð hann setja upp skeifu nema þegar hann reyndi einusinni í bríaríi að járna hest í Phnom Penh, en meiraðsegja það mistókst. Hann var jákvæð týpa með góða nærveru og var hrifnari af flestu öðru en þrætubókarfræðum, rógi og leiðindum. Kannski þessvegna sem hann var svona oft erlendis. Ég varð aldrei var við beiskju eða biturð hjá honum í garð nokkurs manns þrátt fyrir að allir hlutir gengju ekki alltaf einsog í lygasögu.  

Það er þyngra en tárum taki að það skuli hafa verið slökkt á þessum skæra hlýja loga.    

Læt hér fylgja með litla vísu sem ég gerði um Hannes vin minn, um leið og ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð.

 

Hann var sanngjarn, hlýr og dyggur,

hláturmildur, gæskusjóður.

Hann var mannvin, trúr og tryggur,

traustur, sigldur, drengur góður.

 

 

(Þessi minningargrein birtist í Mogganum í morgun).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

 R.I.P

Ómar Ingi, 28.8.2010 kl. 15:23

2 Smámynd: Sigurjón

Sæll Sverrir.

Ég votta þér og fjölskyldu Hannesar dýpstu samúð.  Það er skelfilegt að vita til þess að svona góður drengur skuli vera tekinn frá þeim sem hann þekktu.

Kv. Sigurjón

Sigurjón, 2.9.2010 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband