26.4.2013 | 17:12
Formenn flokkanna og frammíkallar fjölmiðlanna
Jóhanna Sig var kvödd í dag og ríkisstjórn hennar verður bráðkvödd á morgun. Jóhönnu voru færðar rósir í tilefni hátíðarhaldanna. Líklega þyrnirósir. Í hennar sporum hefði ég sagt: "Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir."
En nóg um fögnuð, flugelda og dýrðarstundir. Við skulum ekki alveg tapa okkur í fagnaðarlátunum. Ég horfði á formenn 6 stærstu flokkanna á Stöð 2 í gærkvöld. (Verður ekkert spjallað við hina 200 formennina?) Þar kom margt skrítið fram. Guðmundur Steingrímsson, formaður Smáfylkingarinnar, líkti vogunarsjóðunum við góða og fróma fjárfesta og sagði að það væri óábyrgt af íslenskum stjórnmálamönnum að tala um þá sem hrægamma. (Allur heimurinn kallar þá sínu rétta nafni: Hrægamma). Slíkt tal gæti fælt frá aðra heiðarlega fjárfesta. Jájájájá.
Þarna var sterkur samhljómur með Scamfylkingunni (einsog í öðrum málum), sem hefur lengi talað um að ekki megi styggja þessa stálheiðarlegu snillinga því ímynd okkar gæti beðið hnekki útávið. Á svipaðan hátt talaði okkar ástkæra norræna velferðarstjórn í Icesave-málinu; við yrðum að borga þessa ólögvörðu kröfu því annað gæti eyðilagt orðspor landsins og allt færi hér í rauðglóandi hurðarlaust helvíti. Og svo er ennþá verið að tala um Sigmund Davíð sem lýðskrumara nr. 1 og gefið í skyn að hann hafi tekið þessa einörðu afstöðu gegn Icesave-ánauðarsamningunum sem sannfæringarlaus tækifærissinni til að skapa sér betri stöðu á svelli stjórnmálanna. Það getur varla talist málefnaleg og heiðarleg gagnrýni. Er það?
Katrín Jakobsdóttir var flott og lagði áherslu á að viðhalda skattastefnu ríkisstjórnarinnar, en eins og allir vita felst hún í því að skattpína almenning og fyrirtæki útúr kreppunni. Og útúr landinu. Og útúr heiminum, ef vel á að vera. Þetta er reyndar hagfræði sem enginn skilur nema íslenska velferðarstjórnin, en það er viss kostur.
VG og Scamfylkingin ætla að gera gasalega margt gott og göfugt eftir kosningar: Hjálpa eldri borgurum (oní líkkisturnar), fylla veski öryrkja (af reikningum), bjarga heimilum landsins (frá skuldaleiðréttingum), flæma óþurftarlið einsog lækna og hjúkrunarfólk úr landi og byggja svo hátæknisjúkrahús að því loknu. O.s.fr. Semsé halda áfram þaðan sem frá var horfið. Þarft verk og þrifalegt. Þau eru jú öll í hreingerningunum.
Þau ætla að sanna það EFTIR kosningar að hjarta þeirra slái með heimilum landsins en ekki bönkunum og fjármagnsöflunum. Við trúum því að sjálfsögðu. Gott mál.
Sigmundur og Bjarni voru ansi málefnalegir og svöruðu samviskusamlega, í þau fáu skipti sem þeir fengu að svara. Yfirleitt spurði fréttadúettinn þá einnar aðalspurningar og dembdi síðan á þá tíu aukaspurningum meðan þeir voru að svara aðalspurningunni. Það var frekar þreytandi, idjótískt, ófaglegt og ekki beint upplýsandi fyrir fróðleiksþyrsta áhorfendur. Tilhvers var þá leikurinn gerður ef ekki til að upplýsa fólk? Koma í veg fyrir að rök þeirra heyrðust?
Birgitta var fín. Með annan vinkil á hlutina. Svolítið öðruvísi, en þannig langar Guðmund Steingrímsson einmitt að vera. Stefna hans flokks í fjármálum, fyrir utan að ganga um borð í Titanic (ESB) og taka upp evru, virðist aðallega fólgin í því að gaumgæfa hugmyndir hinna flokkanna og pikka svo úr þær skárstu, því sjálfir hafa þeir engar. Stefnu flokksins má orða í tveimur orðum: Þeir ætla að "skoða málin."
Einsog venjulega fékk Sigmundur Davíð aldrei að klára svör sín og stöðugt var gripið frammí fyrir honum, aðallega af fréttakonunni og Árna Páli. Það sem uppúr stendur í þessari kosningabaráttu er hve stór hluti íslensks fjölmiðlafólks er svakalega hlutdrægur, óheiðarlegur í vinnubrögðum, illa að sér og asskoti dasaður.
Jóhanna kvödd með rósum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.4.2013 kl. 12:13 | Facebook
Athugasemdir
Það er til siðs að vera með blóm í jarðarförum. Sendi aðstandendum jafnaðarmannastefnunnar samúðarkveðjur.
Viðar Freyr Guðmundsson, 26.4.2013 kl. 17:29
Það geri ég líka, með sorg í hjarta...eða þannig.
Sverrir Stormsker, 26.4.2013 kl. 19:06
Góður pistill
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 26.4.2013 kl. 23:30
Þessi vinstri velferðarstjórn sem hangir hefur í fjögur ár er kannski nauðsynlegur vitnisburður þess að við viljum þetta helvíti aldrei aftur! Kannski þurfti fjögur ár til þess. Ef við köllum þetta yfir okkur aftur er okkur andskotans sama um landið, fólkið, og umhverfið, sem við þá flýjum væntanlega flest!
Björn Finnbogason, 27.4.2013 kl. 00:02
Sæll Meistari, þú hittir ávalt naglann á höfuðið og ég veit hreinlega ekki hvar við værum án þín... mér varð hugsi um þína tímamóta útvarpsþætti á útvarpi sögu og ég man að þeir voru svo aðgengilegir á vefsíðunni þinni eftir það ... er einhverstaðar hægt að nálgast þessa snilld? Það voru mörg gull móment í Miðjunni !
Takk fyrir að gera umræðuna ögn líflegri Stormsker !
mbk,
Morgunstjarnan
Morgunstjarnan, 27.4.2013 kl. 00:12
Takk fyrir þennann frábæra pistill ..svo hverju orði sannara ...
rhansen, 27.4.2013 kl. 02:09
Stormsker klikkar ekki! Gott að þú nefnir þessa hvimleiðu fram í köll spyrjenda,þau bókstaflega ærast ef turnarnir tveir byrja að tala,eru greinilega höll undir stjórnina,það höfum fengið að heyra í 4 ár.
Helga Kristjánsdóttir, 27.4.2013 kl. 02:36
Frábær pistill - stal honum - athugasemdirnar hér fyrir ofan eru líka frábærar - Bestu þakkir
Ólafur Ingi Hrólfsson, 27.4.2013 kl. 04:25
Þorsteinn, þakka þér.
Björn, það er rétt. Ég frábið mér velferð ef hún felst í stjórn einsog þessari sem nú er að fara suður og niður. Eða einsog ég segi í textanum: "Gefum þeim ævilangt frí. Kjósum þá ekki á ný."
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 12:47
Morgunstjarnan, þessa útvarpsþætti mína, sem ég var með á Útvarpi Sögu á því góða ári 2008, má finna á stormsker.com. Þessi síða hefur verið lokuð um einhvern tíma en ég skal fara að drífa í því að opna hana. Pottþétt í næsta mánuði. Gott þú skyldir minna mig á þetta.
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 12:56
rhansen, takk fyrir það. Held það sé ekki hægt að ljúga uppá lygarana í þessari ofríkisstjórn.
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 12:59
Helga, já það er undarlega mikið af sósíalistum og kommúnistum (má nota þessi orð í dag?) í fjölmiðlageiranum. Það virkar einhvernveginn þannig. Svo eru fjölmiðlarnir líka prýðis stökkpallur inná alþingi.
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 13:09
Ólafur, ekki málið. Þú veist að þjófnaður er löglegur á Íslandi. Þjóðarsport.
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 13:12
Allt er þetta nú gott og blessað hjá Sverri - nema eitt. Birgitta var alls ekki í þættinum í gær.
Guðjón Friðriksson, 27.4.2013 kl. 13:49
Heill og sæll Sverrir æfinlega; og aðrir gestir þínir !
Stórkostleg lýsing; sem þín var von og vísa, til. Vildi minna þig á; í framhaldi líkkistu tilvitnunarinnar, að bæta hefði mátt við, hinum einkar þægilegu Catacombum undir Rómarborg, til dæmis - Jóhanna hefði getað samið við Ítali, um geymzlutíma óákveðinn, fyrir þann hluta landsmanna, sem fallið hefir; bókstaflega, fyrir ''björgunar'' aðgerðum þeirra Steingríms, hérlendis.
Svo; ég komi þessu lítilvæga tæknilega atriði að, Sverrir.
Með beztu kveðjum; sem oftar - og áður /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 27.4.2013 kl. 15:20
Guðjón, ég veit alveg nákvæmlega hvað ég var að horfa á kallinn minn. Til að einfalda þetta svolítið fyrir "sumum" þá var ég að horfa á Stöð 2 með formönnum 6 stærstu flokkanna, samkvæmt skoðanakönnunum, líklega 25. apríl. Til að þetta færi ekki á milli mála þá setti ég inn mynd með þeim formönnum sem komu fram. Þeir voru: Árni Páll Árnason, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðmundur Steingrímsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Sjá: mynd). Ef þú trúir mér ekki þá er síminn hjá 365 miðlum: 5125000. Ertu nokkuð í VG? :)
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 17:22
Óskar, jebb, sjúkrabíll þeirra Steingríms og Jóhönnu er búinn að valta yfir ófáa.
Sverrir Stormsker, 27.4.2013 kl. 17:29
Snilldarpistill. Það er engu við þetta að bæta.
Benedikt Helgason, 27.4.2013 kl. 19:50
Nýja fjölmiðlahannaða fimmflokksteymið skreytir forsíðu Fréttablaðsins í dag; kosningadag "lýðveldisins", þann 27. apríl 2013.
Ferfalt "húrra" fyrir því! Eða hvað?
Stolt starfsmanna fjölmiðla/frídagblaða þessarar fámennu eyju, hljóta að vera stoltir af sinni glæru og gegnsæju fjölmiðlasnilligáfu.
Þjóðar-Útvarp Saga er að sjálfsögðu ekki með í upptalningunni hér að ofan.
Silfur-drengurinn blekkti á sunnudögum, hefur svo sannarlega komið upp um þetta leikrit fyrir einhverjum mánuðum/misserum. Það sjá menn ef þeir horfa á alla þættina hans, og sjá hvernig fólk er hægt og rólega heilaþvegið af þessum RÍKJA-FJÖLMIÐLI, sem kallaður er RÚV/stöð 2.!!!
Þeir kunna að flétta (múta/hóta/kúga) saklaust og grunlaust heiðarlegt fólk inn í spillinguna og lögbrotin, þessir tæru "snillingarnir" þarna í fílabeins-heimsstjórnar-píramídaklíkunni á toppnum. Þeir kaupa bara alla ríkisfjölmiðla, með bankaránsfengnum!
Það er nauðsynlegt að almenningur birti sannleikann eftir bestu þekkingu og getu, um hvernig svikin fara fram í þessum vestræna heimi.
Það er engu að tapa og allt að vinna, ef almenningur tekur áhættuna og segir frá spillingunni.
Topparnir í heims-píramídanum treysta á að almenningur þori að segja frá.
Á þöggun og mútum/kúgunum/blekkingum flýtur lygin.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.4.2013 kl. 20:28
...topparnir í heims-píramídanum treysta á að almenningur þori ekki að segja frá...
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.4.2013 kl. 20:35
Gott blogg, mjög gott eins og venjulega. Og nú eru kosningar búnar og úrslitin ljós. Framsókn getur haldið upp á 100 ára spillingarafmælið 2016 eftir næstbestu kosningu í sögu flokksins. Aðeins 1931 hafa þeir fengið fleiri menn kosna á þing.
Jón Pétur Líndal, 28.4.2013 kl. 12:47
Benedikt, takk fyrir það.
Anna, það er ekki flóknara en það.
Sverrir Stormsker, 28.4.2013 kl. 17:20
Jón Pétur, bleeeesaður. Þú verður nú að gefa Framsókn í það minnsta eitt prik fyrir að hafa endurnýjað sig að fullu og skrúbbað sitt greni hátt og lágt og hent á haugana tregustu uxunum og leiðinlegustu forsjárhyggjuforkólfunum. Það mættu hinir armar fjórflokksins einnig mátt hafa vit á að gera. ENGINN þeirra Framsóknarmanna sem nú eru að fara á þing sátu á þingi fyrir 2009, ekki einu sinni formaðurinn, sem er greinilega mjög skarpur tappi, sama hvað hver segir. Svo má náttúrulega gera því skóna að aftursæti Framsóknarbílsins sé alveg drekkhlaðið illa þefjandi innmúruðum mafíósum en við höfum enga haldbæra vissu fyrir því. Afhverju ættu þeir að hanga þarna í aftursætinu þegar þeir eru allir orðnir öskrandi millar?
Sverrir Stormsker, 28.4.2013 kl. 17:50
Sæll Sverrir.
Þetta er frábær pistill hjá þér að vanda, hafði gaman af.
Íris Edda Jónsdóttir, 29.4.2013 kl. 11:01
Íris, ég þakka.
Sverrir Stormsker, 29.4.2013 kl. 19:30
Sæll Sverrir,
ég hef alltaf haft horn í síðu Framsóknarflokksins, óskaði þá alltaf burt þegar þeir voru í stjórn með Sjálfstæðismönnum, spillingin þvílík og gegndarlaus þar á bæ, ekki að Sjálfstæðismenn hafi verið neinir englar -og jú, kannski í samanburði- en ég vona að með nýju heiðarlegu fólki í brúnni eins og Sigmundi, Frosta og Vigdísi þurfi maður ekki að hafa eins miklar áhyggjur af spillingunni sem einkennt hefur þennan flokk nánast frá upphafi, það er nefnilega ekki nóg að skipta bara um andlit þingmannanna, þótt það sé vissulega nauðsynlegt skref og formaðurinn er með frambærilegri mönnum sem maður hefur séð í alllangan tíma og mundi ég líkast til kjósa hann og hina sem ég nefndi áðan í persónukosningu.
Alfreð K, 29.4.2013 kl. 22:26
Já Sverrir, ég geri mér grein fyrir að þeir sýna alveg ný andlit eins og vel rekin afskriftafyrirtæki hafa löngum gert þegar bæta þarf ímyndina. Ég bíð afslappaður eftir að sjá að þessi hreingerning dugi. Hefði haft gaman af að sjá þetta fólk í framboði með þessa stefnu undir einhverju öðru merki en Framsóknarflokksins. Það gleymdist alveg að skúra það út úr fjósinu í hreingerningunni. Hefðu þau boðið fram undir t.d. heitinu lánalækkunarflokkurinn hefðu þau líklega fengið 3-6% fylgi og næstum ekkert af því frá þeim sem kusu þau sem framsóknarmenn. Þetta veldur mér kvíða um að málefnin skipti minna máli en gamla flokksheitið og að undir sjónvarpsborðunum sé Sigmundur hlekkjaður við einhverja skítuga flokksfjötra. En ekkert veit maður með vissu, það kemur í ljós. Ég er minnugur þess að bjartsýni er best í miklu hófi eftir að Steingrímur varð fjármálaráðherra í síðstu ríkisstjórn við mikinn fögnuð þjóðarinnar. Hann kom nú ekki úr gamalgrónu vandræðafjósi, heldur nýlegu og fínu sem aldrei hafði klikkað áður en það var tekið í notkun.
Jón Pétur Líndal, 1.5.2013 kl. 19:17
Alfreð, alveg sammála.
Sverrir Stormsker, 3.5.2013 kl. 14:10
Jón Pétur, þó ég sé álíka vel innrættur og Láki jarðálfur þá á ég erfitt með að ímynda mér að góðu og frómu fólki einsog Eygló, Vigdísi, Frosta og Sigmundi Davíð og öllu hinu nýja liðinu hafi verið plantað í Framsóknarflokkinn einsog hverjum öðrum rósum í arfabeð flokksins til að gefa honum nýja og fagra ásýnd. Það er soldil lítilsvirðing í því fólgin að gera því skóna að allt þetta ágæta fólk séu viljalausar og sannfæringalausar tuskudruslubrúður í strengjum einhverra stórhættulegra alheimsglæpona einsog Halldórs Ásgríms, Finns Ingólfs og TortÓla Ólafs. Þó ég hafi aldrei getað þolað Framsóknarflokkinn þá ristir hatur mitt á nýju og velviljuðu fólki innan hans ekki svona svakalega djúpt einsog hjá "sumum." Hatur er reyndar ekki til í mínu hjarta til nokkurs manns.
Ég held að enginn hafi kosið þennan flokk í blindri trú á kosningaloforðin. Það er misskilningur. Fólk var einfaldlega með æluna útum báðar nasir eftir fjögurra ára viðveru "velferðarstjórnarinnar" og vildi fá fólk í ríkisstjórn sem væri með einhverja stefnufestu og raunverulegan vilja til að standa með þjóðinni en ekki bönkunum og fjármagnsöflunum. Og svo er þetta einnig spurning um dug, kjark og greind formannanna. Það stöff verður hver og einn að meta eftir sínu höfði. It takes one to know one. Þetta er nú allt og sumt.
En hvað varðar hóflega bjartsýni þá tek ég undir með sjálfum mér:
Eyðum öfgum
í öllu rófi.
Verum hófsöm
í hófi.
Sverrir Stormsker, 3.5.2013 kl. 15:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.