6.11.2007 | 09:40
Bónus gefur ekki Krónu eftir
Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem það var gert óheimilt að breyta verðum í verslunum á þeim tíma sem verðkönnun fór fram. Broslegt. Í dag verður ASÍ að hringja í verslanir og tilkynna þeim hátíðlega að þeir séu á leiðinni til þeirra að gera verðkönnun. Hlálegt. Það er svona svipað og ef löggan myndi alltaf hringja í grunaða menn og láta þá vita að hún væri á leiðinni að gera húsleit hjá þeim svo þeir gætu nú örugglega fengið tækifæri til að hvítþvo íbúðina. Það er samkomulag ASÍ og verslananna að svona skuli þetta vera, sem segir kannski allt um það hverjir það eru sem ráða ferðinni.
Ekki ætla ég að leggja neinn dóm á það hvort að ásakanirnar séu á rökum reistar um að Krónan og Bónus hafi haft með sér verðsamráð og/eða beitt blekkingum og allskyns auvirðilegum trikkum þegar verðkannanir ASÍ hafi verið gerðar, en ég ætla að birta hér nokkur brot úr afar einkennilegu Kastljósviðtali (31.okt) við þá Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra ASÍ og Guðmund Marteinsson framkvæmdastjóra Bónus því ég held að fólk hafi ekki tekið eftir því hvað þeir voru skelfilega missaga og ósannfærandi, báðir tveir. Hef eftir þeim orðrétt:
Gylfi hjá ASÍ: Menn geta ekkert átt von á því að við séum að koma með verðkannanir, það fær enginn að vita af því fyrirfram, en þegar við mætum í verslunina samkvæmt verklagsreglunum, sem er reyndar mikill ágreiningur um, en samkvæmt verklagsreglunum þá látum við vita af því þegar við mætum að við séum að gera verðkönnun fyrir ASÍ og það er fyrst eftir að þær upplýsingar koma fram að einhver möguleiki er á því að fara að hagræða verðum í búðinni.
(Í alvöru? Og afhverju skyldi nú vera mikill ágreiningur um þessar verklagsreglur? Skyldi það vera vegna þess að eftirlitsaðilanum ASÍ skuli þykja það djöfullegt að þurfa að beygja sig undir vilja þeirra sem þeir eiga að hafa eftirlit með?)
Spyrill (undir lok viðtals): En er ekki ofsalega veikt og tannlaust af ykkur að koma bara á skrifstofutíma og hringja á undan...?
Gylfi: Við hringjum ekkert á undan...
Spyrill: Nú þið gefið ykkur fram þarna þegar þið mætið.
Gylfi: Það er fólgið í því að við hringjum á undan, við mætum á staðinn sko...
Spyrill: Þið mætið á staðinn og þeir vita af því. Það var verið að lýsa því í útvapinu að þegar þið komið á staðinn þá eru bara gefnar meldingar um það inn í búð að þið séuð að koma og þá í einhverjum tilvikum breytt um verð.
Gylfi: Ef að svo er þá er það klárlega brot á þeim verklagsreglum sem við höfum sameiginlega mótað með versluninni.
Spyrill: Má ekki líka alveg heimfæra það upp á það að framkvæmd ykkar á verðkönnunum er pínulítið veik gagnvart neytendum í landinu sem treysta á þær?
Gylfi: Uuu Já hún er veik að því leitinu ef það er sko ásetningur verslunarinnar að blekkja okkur sem neytendur og þá getum við aldrei búið til það kerfi sem kemur í veg fyrir það. Við höfum tildæmis alveg meðvitað ekki farið í verslanir sem eru með rafrænar hillumerkingar. Við getum ekki farið í þær vegna þess að við byrjum á því að melda okkur við verslunina að við séum mættir og þá er ekki nema að ýta bara einu sinni á tölvuna og þá breytast öll verð í búðinni og kassanum á augnabliki.
Spyrill spyr Guðmund í Bónus: Þetta er orðið hægt samkvæmt tækni og þið eruð að taka upp þessar rafrænu merkingar?
Guðmundur: Já allar okkar nýjustu búðir eru með, með hérna rafrænum verðmerkingum.
(Þá stoðar nú lítið fyrir ASÍ að fara í Bónus verslandir).
Spyrill: Er þetta hægt, er bara hægt að ýta á takka og breyta verðum?
Guðmundur: Já ef þú...ef þú...ég meina.. já það er ekkert mál.
Spyrill: Kemur það til greina að gera það eða gerið þið það í einhverjum tilfellum þegar...?
Guðmundur: Bónus breytir Aldrei verði á meðan að hérna verðkönnun er í gangi. Aldrei. Það er bara...það er algerlega skýrt.
Fyrr í viðtalinu hafði Gylfi í ASÍ sagt: Þetta eru auðvitað stórar búðir og oft á tíðum fjöldi manns í búðinni þannig að við getum ekkert haft yfirlit yfir það hverju er verið að breyta, en við tökum hilluverð. Það verður þá að breyta verðum í öllum hillum í búðinni til þess að þessi blekking gangi upp.
Spyrill spyr Guðmund í Bónus: Hversvegna ætti fólk að koma fram í dag og ljúga þessu? (Um 10 meint vitni að blekkingum og svínaríi).
Guðmundur: Ljúga...þú veist...sko þú ert að að hérna hérna að koma með hérna einhverjar ásakanir hérna á mig...sko..klárlega...það sem er...það sem er...það sem er búið að vera í fréttum hérna í kvöld eru grafalvarlegar ásakanir á hendur fyrirtækinu.
(Verulega sannfærandi svar við spurningunni!!)
Spyrill: Það er líka grafalvarlegt ef að sá sem að selur fólki mest af matvælum hefur rangt við í verðkönnunum. Það er grafalvarlegt líka.
Guðmundur: Nákvæmlega það sem ég er að segja að sjónvarpsáhorfendur núna heima í stofu hlusta hérna á það að ég...ég þræti fyrir málið. Eina sem ég get sagt, ég kveð Samkeppnisstofnun til að skoða þetta mál og það strax og fella sinn dóm í þessu máli. (Svo fór hann snögglega yfir í allt annað mál sem enginn var að spyrja hann um): Ég hef Aldrei, nota bene, hvorki hitt eða heyrt þessa hérna þessa starfsmenn hérna Krónunnar sem að hérna er verið að vitna í. Það er verið að tala um að við höfum verið að hittast á einhverjum kaffihúsum og eitthvað. Þetta er Alrangt. Eg ber einn ábyrgð á á hérna verðlagningu í Bónus. (o.s.fr)
Spyrill: Er eitthvað til í því að það sé hærra verð hjá ykkur síðdegis og um helgar þegar þið eruð nokkuð vissir um að það sé ekki verið að mæla verð?
Guðmundur: Nei, klárlega ekki, en ég viðurkenni það að Bónus hefur hækkað verð um helgar og það er bara partur af því hérna að vera í þessum bransa, hvort sem að verð lækkar eða hækkar.
Spyrill: Það er hærra verð hjá ykkur um helgar?
Guðm: Neinei, neinei, þú veist, neinei, það er ekki svoleiðis, en þa það sko, verð lækka um helgar og verð hafa hérna hafa hækkað um helgar.
Nokkrum dögum seinna, þann 5.nóv. sagði Guðmundur í viðtali á Útvarpi Sögu: Bónus hefur hækkað verð um helgar og það er ekkert að því. Við þurfum að borga laun o.s.fr...Það er alveg sama hvað maður gerir, það eru allir óánægðir.
Það er nefnilega það.
Nú hefur Bónus dregið sig útúr verðlagseftirliti ASÍ og segir Krónuna hafa svindlað í verðkönnunum. Það sama segir Krónan um Bónus. Hvor um sig er sannfærður um að hinn viðhafi svik og blekkingar og þeir ættu nú að vita hvernig kaupin gerast á eyrinni.
Ég skil ekkert í því hversvegna þeir hjá ASÍ eru að gera verðkannanir þegar það er minnsta mál í heimi að blekkja þá uppúr skónum og það vita þeir sjálfir og það vita að sjálfsögðu verslanirnar og það vita neytendur núna í dag. Ef eitthvað er þá veita þessar verðkannanir neytendum falskt öryggi og það er mun verra en ekkert öryggi, einfaldlega vegna þess að ef menn búa við falskt öryggi þá sofa þeir á verðinum og halda að allt sé í himnalagi, en ef þeir búa við ekkert öryggi þá halda þeir vöku sinni og eru viðbúnir hverskyns blekkingum og svínaríi. Segir sig sjálft. ASÍ er þjófavörn sem virkar ekki. Batteríslaus reykskynjari. Gerir ekki aðeins ekkert gagn heldur ógagn. Sem verðkannari er ASÍ algerlega vonlaust og vanhæft kompaní.
Það sakar ekki að hin steinsofandi Samkeppnisstofnun rumski og reyni að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn eins og Guðmundur leggur til, en ég myndi nú leggja til í leiðinni að þessar bjánalegu reglur um að ASÍ þurfi að tilkynna hástöfum komu sína í verslanir verði aflagðar ekki seinna en strax!
Í þessum skrifuðu orðum kemur það fram í fréttum að Björgvin Sigurðsson, okkar verulega góði viðskiptaráðherra, ætli að efla Neytendastofu svo hún geti fylgst með matvælaverði á rafrænan hátt þannig að útilokað verði í framtíðinni að verslunarmenn geti haft í frammi hefðbundin svik og blekkingar og þurfi nauðbeygðir að láta af því leiðindablöffi sínu að hækka og lækka vöruverð 1000 sinnum á dag.
Gott að heyra. Makalaust að það þurfi viðskiptaráðherra til að slá á langa fingur íslenskra kaupmanna.
(Sjá skoðannakönnun hér til vinstri á síðunni).
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Facebook
Athugasemdir
Hringdi fyrir nokkrum árum í eitthvad apparat sem hét Verdlagseftirlit eda álíka útaf ískyggilegri hækkun á ákvednum hlut í verslun sem ég vandi komur mínar í. Taladi vid næs konu sem tók undir med mér. Ég hélt í einfeldni minni ad eitthvad kæmi útúr símatalinu - sem gerdist ekki. Hefdi allt eins getad hringt í lobbý á hóteli í Tansaníu.
Ég er bullandi handviss um ad kaupmennirnir hlægja ad ASÍ - og neytendur mæta bara med vaselínid!
Jóhann (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 10:01
Já, neytendur á Íslandi hafa lengi látið taka sig í tvöfalda bílskúrinn, það virðist vera eitthvað óbreytanlegt ástand. Makalaust hversu umburðarlyndið sem sést að öðru leyti ekki, blómstar þar sem neytendur eru eins og opinmynntir ungar í hreiðri sem éta allt hrátt sem oní þá er troðið. Það er næstu eitthvað krúttlegt við við aulaháttinn.
En það voru ekki ótalandi pólverjar sem mættu mér fyrir sautján árum eða svo, þegar ég mætti í Bónus til að gera verðkönnun. (Þá var ég umsjónarmaður neytendasíðu DV og gerði vikulega verðkönnun í stæðstu matvörubúðunum.) Það voru sko þeir Bónusfeðgar í eigin persónu sem buðu glaðlega góðan daginn með svunturnar á bumbunum. Þar unnu þeir báðir hörðum höndum frá morgni til kvölds og gengu í hvaða verk sem var. Þetta voru magnaðir strákar skal ég segja þér.
Nú verður sjálfsagt allt vitlaust hjá þér Sverrir minn, því það hefur ekki verið vænt til vinsælda að bera það við að bera þeim vel söguna eða bera af þeim blak, eða þannig.
En ég segi þetta til áminningar um að það stórveldi sem Bónus er orðið gerðist ekkert fyrir galdur. Það varð til vegna slitlausrar vinnu þessa manna, sem nú eru að uppskera ríkulega árangur erfiðis síns. Og megi þeir vel njóta.
Við fögnuðum því af seingleymdri gleði þegar Bónus opnaði og við snargræddum á að allt matvöruverð lækkaði til muna til margra ára. Nú er allt vitlaust af því að þeir græddu á því líka.
Alltaf í boltanum, er það ekki..?
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.11.2007 kl. 10:37
Vaselín er málið.....andskotans....
Gulli litli, 6.11.2007 kl. 10:38
Alveg er það magnað að þegar svona mál koma upp að hver sem betur getur, sér "glæpamenn" í hverju horni sem að græða á tá og fingri á "neyð" náungans. Það er enginn neyddur til að kaupa sínar nauðsynjar í Bónus eða Krónunni. Það fer reyndar að verða erfitt að kaupa inn annars staðar en það er ekki KrónuBónus að kenna, heldur Bónusheilunum, sem gerðu Bónus að því sem að það er í dag og væla svo yfir því að þeir græði. Auðvitað græða þeir og þeir eiga að græða, þess vegna eru þeir að þessu. Held ég að einhverjar verðkannanir breyti engu um það hvar fólk verslar, auglýsingar frá búðunum eru miklu áhrifameiri heldur en vitneskja um það hvort sykurinn kosti krónu minna úti á Granda en inni í Holtagörðum. En endilega að stofna ríkisverðeftirlit, það er alltaf eitthvað dót sem að vill vera á jötunni. Dálítið "Orvillesk" hugmynd.
Yngvi Högnason, 6.11.2007 kl. 13:47
Það er bara verst hvað kastljósið tók vægt á þessu, það á auðvitað ekki að láta menn komast upp með svona öööömurleg svör og misræmi í þeim eins og þú bendir á. Fjölmiðlamenn eru bara kellingar hérna á klakanum.
Gunnar (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 14:40
Ég jarma nú á þessa jötuuxa hjá ASÍ ef þessu er farið eins og SS lýsir því hér að ofan. Það er nú bara í besta falli hlægilegt. Á sama hátt og ruglið á DV forðum, þegar alltaf var farið í þessar ferðir kl hálf ellefu á fimmtudögum. Ég náði þó að breyta því í að farið var á ýmsum tímum og dögum og enginn nema ég vissi hvenær. En sé þetta rétt sem fram kemur hér þá er ekki nema von að verslunarstjórarnir fái sér vindil og segi um þetta brandara sín á milli.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.11.2007 kl. 14:55
Ég vil hvetja alla neytendur til að gefa Krónunni og Bónus frí nú í nóvember. Ég held að það sé það eina sem þessir aðilar skilja.
Mæli með því að við sendum öllum sem við þekkjum að taka frí frá Krónu og Bónus nú í nóvember.
Jóhann (IP-tala skráð) 6.11.2007 kl. 18:32
Þú getur trútt um talað Keli minn, flúðir land eins og fætur toguðu og varst steinhættur að nenna að grilla í gaddinum... ó, gleymdi eitt augnablik að ég forðaði mér líka. Skemmtileg tilviljun. -Eru annars einhverjir eftir þarna nema pólverjar og lettar hvort sem er? Og þeim má vera sama um vöruverð, þeir fluttu með sér iðnina hraðar hendur og fljótir fætur og stórþéna á henni, hvað sem kílóið af rauðum eplum kostar í Krónunni.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 6.11.2007 kl. 20:16
Góð grein, mjög áhugaverð. Skrýtið hvernig menn svara... og enn betra er að sjá þetta á blaði :D sést svo vel hver mergurinn málsins er.
Hrafnkell :D þú ert ávallt snillingur í svörum og sannur. Og svona til að taka það fram, þá er þetta ekki kaldhæðni.
ViceRoy, 6.11.2007 kl. 21:38
Eins og tryggur Framsóknarmaður sagði eitt sinn: Ef það fæst ekki í Kaupfélaginu þá vantar mig það ekki.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.11.2007 kl. 16:49
Sá þennan þátt og fannst þetta voða bogið, þessar umræður, var farið úr einu í annað og Sigmar eins og einhver auli, reyndi að vera voða grimmur en það var alveg misheppnað hja honum. Hvað með að fá einhvern tölvuhakkara til að fara í þetta með rafrænu verðin...geta þeir færustu ekki allt, hvar er DV núna..
alva (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 21:54
Þetta eru fífl
spritti (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 17:15
Allt annað mál... Á morgun klukkan 2. koma saman á Kaffi París nokkrir einstaklingar sem vilja íslenskt réttarkerfi jarðað í sinni núverandi mynd... Ef þú vilt koma þá ertu boðinn velkominn... Að sjálfsögðu verður þér boðinn kaffibolli ...frítt, ef þú lætur sjá þig
Guðrún Magnea Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.