1.10.2008 | 09:05
Vonlaus fegrunaraðgerð
Jakob Frímann miðborgarstjóri á ekki létt verk fyrir höndum. Hann á að breyta ljótustu miðborg norðan Suðurpóls í ljótustu miðborg norðan Alpafjalla.
Og hvernig á þessi lýtaaðgerð að fara fram? Með því að brenna borgina til grunna? Nei, það væri vissulega góð byrjun, en það á semsé að taka spreibrúsa af listrænum unglingum. Það á að vera fyrsta skrefið. (Væri ekki nær að taka spreibrúsana af lögreglunni?)
Svo á að setja sæta plástra á opin svöðusár sem eru út um allt í miðbænum. Alltsaman tilgangslausar bráðabirgðaaðgerðir.
Íslensk húsagerðarlist
Vandinn er ekki fólginn í spreibrúsakrökkum heldur skipulags"sérfræðingum" borgarinnar og íslenskum arkitektum og almennu séríslensku smekkleysi. Hér ægir öllu saman: Litlir ljótir Hans-og-Grétu-kofar við hliðina á ennþá smekklausari og andlausari glerbyggingum. Hverjir aðrir en Íslendingar hefðu plantað stíllausum glerklumpi á milli Apóteksins og Hótel Borgar? Eða bankaklumpi í Lækjargötu á milli Iðnó og fjörgamals krúttlegs piparkökuhúss? Eða nútíma tannlæknabyggingu við sömu götu við hliðina á gamla hornhúsinu sem brann?
Lækjargata er líklega hlæjilegasta gata í Evrópu. Þar ægir saman öllum stílum í fullkominni dellu, en þetta á víst að heita Main Street Reykjavíkur, sú gata sem hér áðurfyrr skipti borginni í vestur og austur.
Það er engin heildarmynd á neinu, bara hryggðarmynd. Borgin er rugl. Meiraðsegja sjálft Óráðhúsið er einsog blanda af stórkallalegum hermannabragga og grísku hofi og rústar alveg heildarmynd hinnar snotru Tjarnargötu. Hofbragginn sem slíkur er ókey en rímar ekki við umhverfið, í raun alveg úr tengslum við umhverfið einsog fólkið sem þar er innandyra. Perlan er með því smartara hér í borg en hún myndi varla sóma sér vel niðrí Aðalstræti frekar en gamla Mogga"höllin."
Borgir mættu gjarnan vera í uppbyggingu og stíl einsog ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Maður segir helst ekki:
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,
við erum gestir sem dá sig.
Einir koma og aðrir fara í dag
og ég er að skíta á mig.
After Before
Það verður að vera eitthvert vitrænt og listrænt samræmi í hlutunum og einhver heildar strúktúr sem gengur upp einsog krossgáta.
Þessi nýja fegrunaraðgerð miðborgarinnar er einsog að ráða mann til að ryksuga öskuhaugana. Hvað stoðar að meika herfu? Borgin er einsog greppitrýnið á Michael Jackson og við verðum bara að feisa" það. Hún er vonlaust tilfelli sem hvorki Kobbi né hans hægri hönd, guð almáttugur, getur fegrað úr þessu.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 17.maí síðastliðinn. Hefur borgin eitthvað fríkkað síðan þá?)
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en stórtenórinn Kristján Jóhannsson. Þó ég hafi sagt í málsháttabók minni: "Betri eru kynórar en tenórar," þá slagar Stjáni langt uppí rakan draum enda með bestu söngvurum sem Akureyri hefur alið. Hann er um þessar mundir að syngja óperuna Ommolettó í Nýja Bíói fyrir fullum kofa og ég ætla t.d. að spyrja hann út í það ævintýri og hvort hann væri til í að halda styrktartónleika fyrir íslensku "auðkýfingana" (ofurbótaþegana) sem nú eru að missa allt sitt, - og meira til í buxurnar. Er Dabbi saklaus englakrullóttur sprelligosi á einhjóli með lúður eða er hann kaldrifjaður bankaræningi sem vill vaða í Jón Ásgeir með vélsög og gleypa hann með húð og hári, einsog Jón sjálfur vill meina? Er Dabbi með stærra gin en Ljón Ásgeir? Þessu getur að sjálfsögðu enginn svarað nema Kristján Jóhannsson stórtenór og stórlax, innsti koppur í búri íslenskra yfirmafíósa.
Fyrri þætti má finna á síðu minni: www.stormsker.net
3 síðustu verða komnir inn annað kvöld.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.10.2008 kl. 09:03 | Facebook
Athugasemdir
Ég verð greinilega líka að hlusta á Kristján.
Það er rétt sem þú segir, hann er frægur fyrir óvæntar uppákomur í viðtölum. Vildi ég gæti sagt það sama um mig.
Sverrir Stormsker, 1.10.2008 kl. 09:45
Ó borg mín borg..
Gulli litli, 1.10.2008 kl. 11:58
Segi það nú líka verða að fara að hlusta á þáttinn þinn. Þú er frábær og húmorinn þinn lengir lífið.
Rut Sumarliðadóttir, 1.10.2008 kl. 12:58
Má ekki fegra RVK með því að hafa ókeypis bjór fyrir alla... öl gerir allt fallegra, ekki bara konur
DoctorE (IP-tala skráð) 1.10.2008 kl. 15:15
Bretaprinsessan hlustar alltaf.
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 1.10.2008 kl. 16:00
Keep on trucking S
Ómar Ingi, 1.10.2008 kl. 18:11
Í Rúmeníu í tíð Ceaucescu voru vangefnir og alvarlega geðsjúkir ólaðir fastir við koppa og geymdir lengst úti í sveit.
Hér... hér fá þeir vinnu við borgarskipulag.
Ásgrímur Hartmannsson, 1.10.2008 kl. 22:15
Það koma túristar allstaðar að úr heiminum að skoða þetta, þetta má ekki skemma!
Sigfús Axfjörð Sigfússon, 2.10.2008 kl. 01:01
Kvitt
Ómar Ingi, 2.10.2008 kl. 19:03
Sjáðu til, Lilli minn - arkitektarnir sem TEIKNUÐU fallegu húsin eru löngu dauðir. Arkíteknarnir í dag, sem nota fínu og flottu forritin í tölvunum vita að það er auðveldst að gera beinar línur og búa til kubbalda. Nú þeir sem spreyjuðu öll húsin í gömlu fallegu vesturborg með skeljasandi eru líka búnir á því, enda datt það úr tisku rétt á eftir bárujárninu. Við neyðumst víst öll til að lifa í fjárans nútímanum þar sem Davíð öskrar í Seðlabankanum og Kristján syngur "Ókeypis" fyrir góðan málstað............
Lísa Björk Ingólfsdóttir, 5.10.2008 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.