25.6.2009 | 13:59
Spáum í spámiðla
Uppgangstímar hjá einum eru niðurgangstímar hjá öðrum. Niðurgangstímar hjá þjóðinni eru t.d. uppgangstímar hjá miðlum og spámönnum og spámiðlum. Enda eru þeir farnir að auglýsa grimmt í útvarpinu:
"Viltu láta spá fyrir um framtíð þína? Tímapantanir hjá Pálínu peningaplokkara í síma bla bla bla."
"Viltu vita hvort þú eigir einhverja framtíð? Tek að mér að segja fólki hluti sem hver froskur ætti að geta sagt sér sjálfur. Pantaðu tíma hjá Gunna grunna í síma bla bla bla."
"Eru fjárhagsáhyggjurnar að sliga þig? Er þér illt eftir innrás útrásarvíkinganna í kakóið á þér? Láttu Samma svikahrapp spá fyrir þér í síma bla bla bla. Klukkutíminn á aðeins krónur 9.990. Veiti óniðurfellanleg kristallskúlulán. Aldrei of seint að vera tekinn aftur í afturendann."
Við eigum alveg hreint ótrúlega marga og margvíslega miðla; transmiðla, glansmiðla, spámiðla, skjámiðla, smámiðla, útvarpsmiðla, talnaspekinga, galna-spekinga og allskyns spákellingar sem lesa í lófa og iljar og rýna í kristallskúlur, fjallageitagarnir, spil og bolla og hlandkoppa og guð má vita hvað. Allt þetta spekingakraðak á eitt sameiginlegt: Enginn þeirra sá hrunið fyrir.
Ef öll þessi spámenni gátu ekki séð fyrir mestu hörmungar Íslandssögunnar, þetta stærsta gjaldþrot heimssögunnar, þá geta þeir varla verið mikið næmari en hauslaus prumphænsni og alveg hreint hverfandi líkur á að þeir hafi nokkuð að segja af viti.
Þeir geta í mesta lagi sagt:
"Þetta er allt mjög jákvætt. Þú þarft t.d. ekki að hafa neinar áhyggjur af peningum þegar fer að líða á árið. Það er vegna þess að þú munt ekki eiga neina. Og þú munt af sömu ástæðu ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af framtíðinni. Það er ekki hægt að hafa áhyggjur af því sem maður á ekki. Þetta er semsagt alltsaman mjög jákvætt.
Ég sé hérna mjög fallega götu. Veit ekki alveg í hvaða samhengi. Jú, núna sé ég það: Þú og þín fjölskylda verðið borin út á þessa götu mjög fljótlega, ef guð lofar. Það eru ekki allir sem lenda á svona fallegri götu get ég sagt þér. Þetta er allt mjög jákvætt. Þú ert mjög lánsamur maður. Ég vil samt ekki tala meira um "lán," nema hvað ég sé að fagleg ríkisstjórnin mun senda Mr. Bean með Svavari Gestssyni í næstu atrennu til að ná almennilegum uppgjafarsamningi. Mjög jákvætt. Virkilega jákvætt alltsaman.
Hérna sé ég snöru og gálga og það hlýtur nú að vera eitthvað jákvætt við það. Jú, þú munt hvorki hanga í vinnunni né símanum þegar nær dregur jólum. Tekur fljótt af. Mjög jákvætt. Alltaf jafn lánsamur. Ég myndi semsagt ekki fara að fylgjast með framhaldsþáttum í sjónvarpinu ef ég væri þú. Tekur því ekki. Sem er mjög jákvætt.
Ertu sáttur við mig? Flott. Það gera 9.990 krónur. Ef ég væri þú, sem ég er sem betur fer ekki, þá myndi ég borga þetta strax því þetta verður komið uppí 350.000 kall um mánaðarmótin með dráttarvöxtum og lögfræðikostnaði. Það er nú ýmislegt sem maður hefur lært af bönkunum. Takk fyrir kærlega. Guð veri með þér. Þú verður kominn til hans fljótlega. Engar áhyggjur. Mundu að vera jákvæður. Blessaður."
Aðeins þrjár tegundir miðla eru verri en hinn klassíski miðill og þær eru: Íslenskur gjaldmiðill, íslenskir fjölmiðlar og íslenskir verðbréfamiðlar.
Eftir allt bankasvindilbraskið og spákaupmennskuna sem þjóðin hefur þurft að þola undanfarin ár þá held ég að miðlaspámennska og andaheimasólheimanonsens sé ekki akkúrat það sem hún þarf á að halda um þessar mundir. Og þó: Lifi svindlið og svínaríið!! Lifi geðveikin!! Skrifum undir Icesave-aftökuna og aftanítökuna með bros á vör!! Förum til spámiðla!! Verum jákvæð í garð svindlara og peningaplokkara!! Lifi jákvæðnin!!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Trúmál og siðferði, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Facebook
Athugasemdir
Einstök lýsing á þessu spá-bulli. Að geta spáð í gegnum síma,eru meiriháttar hæfileikar. En veistu hvað,prufaði að spá fyrir "spátrúaðri"konu,fyrir áeggjan systurdóttur sem ég var í mat hjá. Þekkti hana ekki neitt,var bara kúl og sagðist sjá mann(það vilja stútungskellingar heyra),sem væri frá Raufarhöfn eða Þórshöfn,ýmislegt fleira sem ég er ekki að orðlengja, Viti menn hún leit á mig sem alvöru,það gerði maðurinn frá ´Raufarhöfn hann smellpassaði,gaman hefði verið að segja þetta gerir 5.990,með afslætti,svona til að kanna viðbrögðin.
Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2009 kl. 14:37
Margur vitleysingurinn sækir í spámiðla og trú þegar að kreppir, það er ekki hægt að gera neitt heimskara.
Mesta heimska í heimi, fólk sem selur trú/yfirnáttúrulegt crap á að lögsækja, það er ekki nokkur munur á þeim og Nígeríusvindlurum... nema kannski eru Nígeríusvindlararnir skömminni skárri.
Við sjáum þetta heimska bull í kristni, bæði hjá ríkiskirkju sem og öðrum ruglukollum... komið til gudda, ég er með miða
DoctorE (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 15:09
Jamm en svo er það þetta með að fá einhverskonar huggun og trú á framtíðina. Mörgum veitir víst ekki af. Í raun ekki svo mikill munur á þessu og fara á barinn og væla þar í barflugum og barþjónum.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 25.6.2009 kl. 15:22
Helga. Þú hefðir kannski bara átt að rukka kellingardöðluna. Trúfífl elska að borga fyrir "greiðann." Nótulaus viðskipti. Einhver guðdómlegur andi að handan segir að miðlar eigi að svíkja undan skatti.
Allir geta náttúrulega farið útí þennan andaheimamonkeybissness ef þeir rækta svindlarann í sér og hafa nógu skítlegt eðli. Þegar það er búið að taka þjóðina í alblóðugt rassgatið þá finnst mér samt soldið blóðugt að fara að leika sama leikinn undir formerkjum "miðilshæfileika."
Makalaust að enginn miðill eða sjáandi í heiminum skyldi hafa séð fyrir heimskreppuna og alíslenska hrunið sem er svo svakalegt að það fer í heimsmetabókina. Í alvöru. Þeir sjá bara einhverja týnda eyrnalokka og utanlandsferðir. Algjörð himpigimpi.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 16:00
DoctorE. Miðlar hanga utaní 253. grein almennra hegningarlaga en þar stendur að noti maður sér bágindi annars manns, einfeldni hans og fákunnáttu í gróðaskyni þá varði það fangelsi allt að tveimur árum.
Nígeríusvindlarar fara í fangelsi en íslenskir "miðlar" fara hinsvegar í útvarpið og setja upp samkomur og hafa það náðugt. Hvað ætli yrði gert við kolsvartan Nígeríumann sem myndi koma hingað og setja á fót miðlastarfsemi og spástofu? Beint í grjótið.
Sömuleiðis er frekar dapurt að hugsa til þess að það sé verið að skera niður í menntakerfinu en ekki hróflað við "þjóðkirkjunni" og öllum hennar atvinnulygurum. Um 6 milljarðar á ári fara í það djöfullega batterí. Lygin er styrkt en sannleikurinn skorinn niður. Það eru svona þjóðir sem geta ekki þroskast og fara til helvítis í öllum skilningi.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 16:20
Þór Þórunnars Tora Victoria (heitirðu virkilega ekkert meira?). Sjá 253. grein almennra hegningarlaga hér í svari hjá mér nr. 5. "Miðlar" eru að auki oft í því að gefa læknisfræðileg ráð sem fólk tekur mark og þá eru þeir nú komnir út á ansi hálan ís. Þetta er í raun óendanlega forheimskandi starfsemi.
Ef fólk vill borga "miðlum" fyrir að láta hræra í hausnum á sér og blekkja sig og fylla sig falsvonum og fallsvonum þá getur fólk varla mikið verið að kvarta yfir verðbréfamiðlurum og blekkingarmeisturum bankanna sem nörruðu fólk í viðskipti við sig og plötuðu það uppúr skónum. Stærri í sniðum en í raun nákvæmlega sama tó-pakkið. Trúgirni er ávísun á fall. Við ættum að reyna að klippa á trúgirnið.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 17:45
Jú nafnið sem foreldrarnir gáfu mér er Þór Ludwig Stiefel en mér fannst það of langt fyrir bloggið ;)
Annars var ég að taka undir þetta með þér - vil bara meina að það er ekki svo mikill munur á spámiðlum og öðrum veruleikaflótta.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 25.6.2009 kl. 17:58
Mér finnst leiðinlegt að heyra að spámenn séu bornir saman við fréttamiðla. Vissulega eru spámenn loddarar...það mega þó allir vita það fyrirfram. Fréttamiðlar hins vegar gefa sig út fyrir að vita hvað þeir eru að tala um, sem sjaldnast er rétt.
Haraldur Baldursson, 25.6.2009 kl. 18:33
Eru ekki allir miðlar
Ómar Ingi, 25.6.2009 kl. 19:09
Þór Ludwig Stiefelsi Þórunnars Tora Victoria, nr. 7. Jújú, ég veit alveg hvað þú átt við og veit þú varst að taka undir með mér .
Fólk finnur eflaust huggun í þessu miðlanonsensi, en munurinn á barþjóni sem menn liggja hágrenjandi á öxlinni á og svo "miðlum" er að miðlabransinn er fjárplógsstarfsemi og ætti því að meðhöndlast sem slík.
Allur almenningur myndi hinsvegar náttúrulega brjálast ef þessi blekking yrði tekin frá honum. Þannig að ég segi bara: Verði fólki að góðu. Höldum áfram að láta svikahrappa taka okkur í bílskúrinn. Höldum áfram að trúa öllu einsog nýju neti, stjórnmálamönnum, prestum, bankamönnum, miðlum o.s.fr. No problem.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 19:39
Haraldur. Sammála þér, og sjálfum mér. Nefni einmitt fjölmiðla í pistlinum um fyrirbæri sem eru jafnvel verri en klassískir svikamiðlar.
Það skrítna við andaheimamiðlana er að þeir vilja vera teknir jafn alvarlega og fjölmiðlarnir og það skrítna við fólk er að það tekur þá jafn alvarlega. Það borgar einum svikamiðli um 6000 kall fyrir klukkutímann, sem er ca jafn mikið og það borgar fyrir einn fjölmiðil á mánuði, og trúir hverju einasta orði beggja miðla.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 20:14
Ómar. Jújújújú, það eru allir alveg gasalega miklir miðlar. Ég sé hérna gamla konu með hvítt yfirvaraskegg. Er amma þín farin? Eða drakk ég of mikið Absint í gærkvöldi?
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 20:20
Þetta er orðrétt úr útvarpsþætti sem Þórhallur miðill var með og naut gífurlegra vinsælda:
Fórnarlamb: "Ég veit það ekki."
Þórhallur: "Er enginn ættingi þinn þaðan?"
Fórnarlamb: "Nei."
Þórhallur: "Ég skil þetta ekki en það sækir svo mikið á mig eitthvað með Akranes, jæja, hafðu það í huga góða... Jæja, pabbi þinn hann er farinn?"
Fórnarlamb: "Eh, nei."
Þórhallur: "Ahhh, er það mamma þín?"
Fórnarlamb: "Eh, nei, en amma dó fyrir nokkrum árum."
Þórhallur: "Já...takk. Einmitt. Hér er gömul kona...og hún hlær svona dátt...þetta er amma þín. Henni líður vel núna þeirri gömlu. Heyrðu var hún mikið að prjóna?"
Fórnarlamb: "Já."
Þórhallur: "Og hún bakaði pönnukökur, ósköp bakaði hún mikið af pönnukökum."
Fórnarlamb: "Eh, já, jú, einmitt."
Þórhallur: "ah, já, takk, takk, hún segir þér að hafa ekki áhyggjur af stráknum sem hefur verið veikur, kannastu við það?"
Fórnarlamb: "Eh, nei."
Þórhallur: "Ertu viss, þú átt tvö börn?"
Fórnarlamb: "Nei, eitt barn."
Þórhallur: "Það er stúlka?"
Fórnarlamb: "Já."
Þórhallur: "Já, einmitt, en enginn veikur strákur sem þú kannast við?"
Fórnarlamb: "Tja, sonur vinkonu minnar var dálítið veikur."
Þórhallur: "Já, einmitt, einmitt, amma þín segir þér að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af stráknum, það verður allt í lagi."
Fórnarlamb: "Takk, ég skila því til vinkonu minnar."
Jens Guð, 25.6.2009 kl. 22:03
Jens. Er þetta virkilega orðrétt samtal Þjórhalls og einhvers fórnarlambs? Ég trúi þér alveg sko því þetta er svona ekta Þjórhallur. Bráðfyndið
Þjórhallur og þessir miðlar mega eiga að þeir eru drepfyndnir, án þess að vita af því. Þetta eru ómeðvituðustu húmoristar landsins. Mér finnst að það eigi að gefa út það fyndnasta úr útvarpsþáttum þeirra á 5 geisladiska safni. Svona einsog Tvíhöfða og Matthildi. Myndi rjúka út.
Sverrir Stormsker, 25.6.2009 kl. 23:04
Þetta er skráð orðrétt eftir segulbandsupptöku af þættinum. Hér er annað samtal sem reyndar er skráð eftir glöggu minni en er sennilega ekki 100% orðrétt. En fór nokkurn veginn svona fram:
Þórhallur: "Ég þarf að fara með þig austur fyrir fjall."
Fórnarlamb: "Ja, ég þekki ekkert til þar."
Þórhallur: "Ég er að tala um svæðið Hveragerði, Selfoss, Þorlákshöfn..."
Fórnarlamb: "Nei, ég þekki ekkert til þar."
Þórhallur: "Ég er að tala um þetta svæði: Hveragerði, Selfoss, Akranes, Borgarfjörð."
Fórnarlamb: "Pabbi er frá Borgarfirði eystri."
Þórhallur: "Takk fyrir. Ég er að tala um Borgarfjörð. Það kemur hér upp nafn á bænum..."
Hér nefndi Þórhallur nafn á sveitabæ. Ég man ekki hvert nafnið var.
Fórnarlamb: "Ég veit að það er bær þarna með þessu nafni. En ég kannast ekki við neitt þar."
Þórhallur: "Spurðu pabba þinn um þennan bæ. Nafnið kemur hér skýrt fram."
Jens Guð, 25.6.2009 kl. 23:33
Útvarpsstöð hefur í nokkur ár? hafa s.k. miðla í vinnu. Þeir hafa verið með klukkustundarþátt á viku.
Eins og þú kemur inná, þá nota þeir mismunandi aðferðir við að fremja spárnar. Þeir spá í hitt og þetta dót, kannski spá þeir líka hver í annan. Sennilega spá þeir líka í veðrir, allavega fyrir feitar helgar.
Heyrði e-a þætti en varð svo bumbult af heimskunni að ég hefði stokkið upp þótt ég hefði verið með holskurð og á hækjum (fékk mér svo fjárstýringu, nei, fjar....)
Einn var hrokafullur og afspyrnu góður með sig. Annar var væminn einfeldningur, illa talandi. Einn var svo vitlaus að það eiginlega tók mann sárt á fylgjast með.
Ákvað þó að fylgjast með þessum síðastnefnda, þrátt fyrir ógleði og bakflæði. Aulahrollurinn náði þeim hæðum að gæsahúðin á mér fór oddaflug.
70% af því sem sagt var >>>> nákvæmlega eins hjá öllum. Restin var loðin og teygjanleg, röng eða "þú áttar þig á þessu"
Nú er enn á ný kominn miðill sem auðvitað veit allt, og kannski veit hann það, hvað veit ég; ekki spæ ég. Á milli gullkornanna sem hrjóta, já, hmm hrjóta af hans vörum er hann svo fyndinn að eigin smekk að hlustendur uppskera hýenuhlátur með jöfnu bili. Ég ætla EKKI að "rannsaka" þennan.
Eygló, 26.6.2009 kl. 02:39
Jens, nr. 15. Ekki er þetta síðra samtal . Jafnvel ennþá steiktara. Þarna teygir Bjórhallur sig frá Hveragerði og uppá Akranes í leit að ömmu sálugu og talar um þetta sem sama svæðið. Afhverju sagði hann ekki bara: "Ég er að tala um þetta svæði þú veist: Vestmannaeyjar, Grímsey og landið þar á milli - já Ísland." Þetta hlýtur að vera einhverskonar met í miðladellu.
Árið 2002 flutti ég pistil á Stöð 2 um miðlastarfsemi og í þeim pistli bjó ég m.a. til samtal milli miðils og innhringjara eftir að hafa hlustað á nokkra þætti með Flórhalli. Sjá Hér. Ég kryddaði þetta náttúrulega soldið til að undirstrika ruglið, en kannski hefði ég ekki þurft að krydda þetta neitt miðað við þessi fáránlegu og fyndnu samtöl sem þú birtir hér orðrétt. Algjört bíó!!
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 04:14
Óskar. Hvað varð um Þróhall spyrðu? Hann gufaði upp fljótlega eftir að ég flutti þennan pistil Hér á Stöð 2, 2002. Slæmt, vegna þess að mér fannst hann bráðfyndinn skemmtikraftur, þó hann vissi kannski ekki af því sjálfur.
Í þessum pistli gaf ég einmitt fjölhæfum miðlum nafnið "fjölmiðlar" og dýrum miðlum nafnið "gjaldmiðlar." Að öðru leiti var þetta frekar hvöss ádrepa. Jafnvel drepandi
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 04:46
Maí. Miðlabull virðast hafa alveg hroðaleg áhrif á líkamsstarfsemi þína. Mína líka, en ekki svona svakaleg einsog þú lýsir. Þetta er náttúrulega stórhættulegt helvíti en það sem gildir er að vera fljótur að slökkva á útvarpinu þegar maður finnur að maður er að fá útbrot og velgju í vélindað. Michael Jackson var of seinn á sér. Heyrum ekki meira í honum í bráð, nema þá í gegnum miðla, og þá er voðinn vís.
Merkilegt hvað útvarpsmiðlar tala afspyrnu slæma íslensku. Skrítið að enginn draugur að handan skuli ekki geta vanað þá...ég meina vanið þá af geðsýk....þágufallssýkinni, í það minnsta.
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 05:31
Tökum Silvia Brown... http://www.youtube.com/watch?v=xKX5yB-H2tI
Þetta er ein frægasta spákerlingin, hún hefur haft rangt fyrir sér algerlega en samt fer fólk til hennar... vegna þess að fólk er fávitar.
Sama þegar fólk fer til presta eða annarra trúarnötta... fólk er heimskt.
Tökum hann Sússa, gaurinn er uppskáldaður af kaþólsku kirkjunni, hann var aldrei til, guð var aldrei til... fólk kaupir þetta samt, vegna þess að fólk er heimskt og sjálfselskt.
Tökum Mumma sem reið á hesti til himnaríkis, skáldaði tilviðbótar upp úr biblíu, fólk trúir þessu vegna þess að fólk er margt hvert bara heimskt og sjálfselskt
En þú?
DoctorE (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 12:03
Ég lést í fyrra samkvæmt einni spákonu. Er ennþá að bíða eftir lottovinningnum.
Siggi Lee Lewis, 26.6.2009 kl. 12:13
Siggi L L, guð veri sálu þinni náðugur. Áttarðu þig á því? Ertu sáttur? við að vera dauður?
Eygló, 26.6.2009 kl. 12:27
Sáttur? Er eitthvað annað í boði?
Siggi Lee Lewis, 26.6.2009 kl. 13:15
Þetta er texti úr auglýsingu sem Hnakkus nýtti sem hráefni í óborganlega færslu um "englaheilun" og önnur vísindi. Hún er í sömu deild og spámiðla færslan þín Sverrir.
Haraldur Hansson, 26.6.2009 kl. 13:23
Ég er sammála þeim sem staðhæfa að miðlarnir séu eldklárir* en viðskiptavinirnir auðtrúa kjánar.
*peningaplokkarar
Eygló, 26.6.2009 kl. 13:41
allt sem þessir midlar midla ad handan er ad folk lagi til i sokkaskuffunum eda færi til koll i eldhusi. Eg vona ad þegar eg er daud og sendi skilabod ad handan ad þau skilabod verdi eitthvad adeins dypri...
SM, 26.6.2009 kl. 14:50
DoctorE, nr. 21. Fólk fór líka í hrönnum til Láru miðils (hún var einn frægasti miðillinn hér á árum áður), jafnvel eftir að það var búið að fletta ofan af henni sem svikahrappi.
Houdini fletti ofan af hverjum einasta miðli í veröldinni á sínum hérvistardögum.
Breski "töfrasálfræðingurinn" Derren Brown hefur mikið verið í því að sýna fólki fram á að "miðlar" séu sjónhverfingamenn en ekki andaheimagæar. Sjálfur getur hann gert allar þeirra kúnstir og miklu meira til.
En það er margt í henni veröld sem við skiljum ekki og sjáum ekki, þannig að ég held alltaf öllu opnu. Gef öllu séns. Kannski leynist einhversstaðar einn EKTA miðill. Veit það ekki.
Sama á við um guð. Ég gerði einusinni vísu í fullyrðingastíl og hún er svona:
Það er í lagi
að dýrka og dá
drottinn, hér um bil.
Hængur er á
og hann er sá
að hann er ekki til.
En auðvitað hef ég ekki hugmynd um, frekar en nokkur annar maður á jörðinni, hvort að helvítis "kallinn" sé til eða ekki. Nú ef hann er til þá má hann vera til fyrir mér. Ef hann skapaði manninn í sinni mynd og maðurinn er kóróna sköpunarverks hans þá getur hann varla verið uppá marga fiska. Snargeðveikur fjöldamorðingi. Samkvæmt biblíunni er hann mjög langt frá því að vera með öllum mjalla. Hælismatur. Mitt síðasta verk væri að fara að kóa með honum og tilbiðja hann ef svo illa skyldi vilja til að hann væri til.
Ég gerði heila stóra ljóðabók um allar þessar pælingar sem heitir "Með ósk um bjarta framtíð." Löngu uppseld. Ætti að vera skyldulesning í guðfræðideild Háskólans sem og annarsstaðar . Félagið Vantrú ætti t.d. að vera með hana í gullöskju í glerskáp.
Hvað um það. Ég stend ennþá við það sem ég sagði þegar ég var 17 ára: "Ég efast um mikilvægi trúarinnar en trúi á mikilvægi efans." Ég er sammála mér.
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 15:42
Siggi Lee. Blessuð sé minning þín. Síðast þegar ég sá þig þá varstu frekar fölur. En varstu þá virkilega dauður? Ertu búinn að fá dánarúrskurð?
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 15:46
Haraldur Hansson. Þakka þér. Verulega góð grein hjá þessum Hnakkusi sem þú linkar á. Bráðsmellin.
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 16:04
Maí. Viðskiptavinir miðlanna hljóta náttúrulega upp til hópa að vera "auðtrúa kjánar" einsog þú segir, en ég get ekki verið sammála þér um það að miðlarnir séu "eldklárir."
Þessir íslensku virka flestir á mig sem nautheimskir fúskarar. Kunna varla að skrifa nafnið sitt. Þegar blekkingin er AUGLJÓS þá geta þeir varla verið mjög klárir.
Ég hef hinsvegar séð nokkra eldklára svikamiðla erlendis og það er mjög gaman að fylgjast með þeim. Svoleiðis gæar eru jafnframt stúderaðir í sálfræði og töframennsku, en það er enginn þessara íslensku. Þeir reyna eingöngu að fara þetta á dugnaðinum og peningagræðginni og þá verður þetta náttúrulega bara hlálegt. Lélegir glæpamenn.
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 16:20
Sylvía. Skilaboðin "að handan" eru aldrei merkilegri en miðillinn.
Bendi aftur á grein mína HÉR.
Sverrir Stormsker, 26.6.2009 kl. 17:01
Ég var ekki fölur heldur fullur. Dánarvottorðið verður gefið út þegar ég dey. Ég held að spákonan hafi verið að meina áfengisdauða.
Siggi Lee Lewis, 26.6.2009 kl. 18:19
Hvers vegna lofar mannkynið sumar tegundir af svindli... ríkisvæðir svindlið, ver svindlið út í ystu æsar, byggir svindltilbeiðsluhallir.... samkynhneigðir æstir að komast inn í svindlið þó svo að það sé alveg ljóst að þeir eru hataðir af svindlurunum, svindlmanual beinlínis segir að það eigi að grýta þá til dauða.. svindlmanuall segir að konur séu ~50% af verðgildi karla, eiginlega búpeningur, svindmanuall segir að það eigi að grýta óþekk börn til dauða... að allir eigi að losa sig við alla peninga og alles, lifa eins og fuglar.
Mannkynið er klikkað :)
DoctorE (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 19:40
Konur eru gallaðar útgáfur af körlum....
Siggi Lee Lewis, 26.6.2009 kl. 21:44
Ég endurskoðaði fyrri athugasemd og um leið hug minn, hugheilan. Ég lít á þig sem mikinn mann fyrir ábendinguna og mig sem ennþá meiri mann að hafa tekið tilsögn.
Auðvitað þurfa þessir peningaplokkarar ekki að vera neitt eldklárir,
þurfa ekki einu sinni að vera bara klárir.
Nóg að vera meðal hálfviti til að peningaplokka ráfandi sauðina sem reka inn trýnið og ljá þeim eyra (eyru) og opna fyrir þá hug og hjarta og punginn.
Eygló, 26.6.2009 kl. 22:14
Siggi Lee, nr. 33. Veit ekki um þá spákellingu sem gerir greinarmun á fyllerísdauða og þessum endanlega.
Sverrir Stormsker, 27.6.2009 kl. 00:44
DoctorE, nr. 34. Alltof margar spurningar í einu holli. Biblían er einkennilegur samsetningur. Vonlaust að fá hana áritaða af "höfundi," enda höfundarnir nokkuð margir. Dauðlegir. Vanheilagir. Þrátt fyrir að þetta eigi nú að heita "heilög" ritning.
Sverrir Stormsker, 27.6.2009 kl. 01:00
Sigg Lee, nr. 35. Í biblíunni er talað um að konur hafi verið skapaðar úr rifbeini karlsins. Karlar tala nú samt oft um konur sem "pain in the ass." Biblían mætti vera aðeins nákvæmari í þessum efnum sem öðrum.
Sverrir Stormsker, 27.6.2009 kl. 01:14
Maí, nr. 36. Batnandi konu er best að lifa, á sama hátt og batnandi skáldi er best að skrifa
Sverrir Stormsker, 27.6.2009 kl. 01:26
"Pain in the ass"? Hugsanlega hafa konur þá verið skapaðar úr rófubeini karlmanna??
Kommentarinn, 27.6.2009 kl. 16:08
Þið eruð svo ungir strákar,svo þið munið ekki eftir Dave Allen,eða hvað? Skoskur grínari með þætti sem syndir voru á Ruv. fyrir 30 árum.(Deyavú tilfinning sækir að mér) Hann sat á barstól með borð sér við hlið,reykti vindla drakk það sem hann sagði vera Wisky og reitti af sér brandara. Man sérstaklega eftir einum sem fór að mestu í að lýsa því,þegar karl og kona voru sköpuð. Hugsið ykkur hvernig við hefðum litið út ef konan(frekjuskassið) hefði verið sköpuð fyrst ,hún hefði skipt sér af verkinu: örlítið meira þarna, já tvo af þessum osfrv. Gleðilegt sumar.
Helga Kristjánsdóttir, 28.6.2009 kl. 04:39
Kommentarinn. Þú hefur greinilega náð þessu .
Helga. Þó ég sé nú ekki beint að deyja úr elli þá man ég vel eftir Dave Allen. Hann var reyndar írskur, ekki skoskur. Írar eru upp til hópa sérlega góðir spaugarar.
Guð er líka ágætur. Með svartan húmor. Gálgahúmor. Þessvegna skapaði hann nú mannkynið. Sagt hann hafi byrjað á kallinum. Maður byrjar jú alltaf á að gera uppkast. Svo tók hann til við að drullmalla kellinguna úr rifbeini eða rófubeini kallsins. Held samt að hann hafi skapað kellinguna úr vitlausa beininu. Femínistar hljóta nú að vera sammála því
Sverrir Stormsker, 28.6.2009 kl. 13:26
Jæja já,írskur,hlakkaði alltaf til að sjá þættina hans. Gátur tilverunnar maður minn,þær hafa oft verið að flækjast fyrir mér,en altént er manneskjan meistaraverk. Efnið í hana ekki risavaxið að stærð. Fengum það í arf,lærðum að blanda og láta það hefast. Skapaði hann karlinn fyrst? Æi já var búin að gleyma, Adam rófulausi. Lifi humorinn.
Helga Kristjánsdóttir, 28.6.2009 kl. 17:16
Helga. Mér finnst mannskepnan vera frekar svona dasað sköpunarverk. Eiginlega hálf mislukkkuð framleiðsla. Við þurfum að nota gleraugu, heyrnartæki, hárkollur, gervitennur o.s.fr. Við erum stagbættar fuglahræður og erum svo vitlaus í hroka okkar að við köllum okkur "kórónu sköpunarverksins. Við kunnum ekki einusinni að hlaupa. Það þykir flott að ná 10 km hraða. Ræsisrottur eru meiraðsegja fótfráari en við.
Við höfum ekkert þefskyn. Það hafa verið gerðar mælingar á hundum og þeir eru víst með 100 þúsund sinnum næmara þefskyn en við. Hundinn köllum við "skynlausa skepnu." Við erum víst eina dýrategundin sem býr til trúarbrögð og heldur að guð sé að fylgjast með hverju fótmáli okkar. Hlálegt. Ekki nema von að allur heimurinn skuli vera á geðlyfjum.
Sverrir Stormsker, 28.6.2009 kl. 17:34
Þessi mynd á vel við. Eina sem við höfum fram yfir dýrin er langhlaupið.
http://purplemass.com/wp-content/uploads/2009/05/humans_vs_animals.jpg
Kjartan Ólason, 29.6.2009 kl. 04:30
Ljómandi pistill, en mér finnst vanta hagfræðinga í listann. Það eru nú spámiðlar í lagi og þeir sáu allt fyrir... eftir á.
Halldóra Traustadóttir, 29.6.2009 kl. 14:26
Hér er komin hugmynd að umhverfisvænu sprotafyritæki , með vott af kvenfrelsi, jafnrétti og alþjóðahyggju. Þarf að útfæra ruglið aðeins betur þá er þetta komið. Allt í anda VG.
Berglind Guðmundsdóttir, 30.6.2009 kl. 14:07
haha :)
Ari Jósepsson, 1.7.2009 kl. 16:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.