Andlegir dvergar í smáríki

íslenskt viðskiptasiðferði.jpgAð undanförnu hefur mikið verið rætt og ritað um þetta kunningja- og klíkusamfélag sem okkur finnst svo ægilega gaman að búa í. Það er einhvernveginn einsog fólk sé að átta sig á því fyrst núna hvað nálægðin og klíkutengslin eru þjóðfélagslega eyðileggjandi. Fyrirlestrar hafa verið haldnir og nú nýverið kom út góð bók eftir Styrmi Gunnarsson þar sem hann m.a. fjallar ítarlega um kunningjasamfélagið og nálægðina sem er hér allt að drepa.

Árið 1997, fyrir heilum 12 árum síðan, tóku nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð langt og ítarlegt viðtal við mig sem birtist í skólablaði þeirra þá um haustið. Þegar ég les viðtalið núna þá finnst mér einsog það hafi verið tekið í dag. Ætla að birta hér brot úr þessu viðtali, orðrétt:  

Spyrill: "Hvernig finnst þér Ísland miðað við önnur lönd? Hvað mætti betur fara?"

islenskir_fagmenn.jpgStormsker: "Klakinn er ágætur í rauninni og að mörgu leiti betri en mörg önnur lönd, þ.e.a.s. landið sem slíkt, en ekki fólkið. Geta og hæfileikar skipta hér engu máli þegar kemur að því að fá sér embætti. Menntun og gráður virðast ekki skipta hér nokkru einasta máli heldur fyrst og fremst það að eiga frænku í hirðinni, vera sonur forstjórans, þekkja deildarstjórann, hafa farið á fyllerí með vini eigandans, vera tengdasonur ritarans eða eitthvað þvíumlíkt. Þetta er ástæðan fyrir amatörmennskunni hér á flestum sviðum. Þótt þú sért menntaðasta séní veraldarinnar þá skiptir það akkúrat engu máli hér á þessu axlarklappslandi ef þú ert ekki kunningi kunningja forstjórans. Það er náttúrulega fámennið sem gerir þetta af verkum. Allir eru skyldir en sumir eru skyldari en aðrir. Fámennið gerir það semsé af verkum að þjóðfélagið getur ekki kallast þjóðfélag án gæsalappa og sviga. Þetta er bananalýðveldi einsog ég hef ítrekað í það óendanlega. Afskaplega úrkynjað og óinteresant.

En einsog ég segi, landið sem slíkt er gott og veðurfarið er að mörgu leiti ágætt, ef maður vill leggjast í þrúgandi þunglyndi, en það má hinsvegar segja margt misjafnt um kerfið og fólkið einsog gengur. Þó íslendingar séu kannski ekki manna skemmtilegastir, heiðarlegastir og klárastir þá mættu þeir samt vera tveimur milljónum fleiri, hversu einkennilegt sem það kann nú að hljóma."

 

Flokkapólitík og kreddur

 

Spyrill: "Ertu hlynntur einhverri stefnu í stjórnmálum?"

scratch_my_back.gifStormsker: "Nei, ég er ekki einstefnumaður, hvorki í pólitík né öðru. Ég held að menn sem vilja draga sjálfa sig í litla og þrönga dilka séu afskaplega lítils virði sem hugsandi verur. Ég get svosem sagt að ég sé afar frjálslyndur jafnaðarmaður, hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn, en ég held að enginn myndi vita hvað ég ætti við. Blind trú á stefnur og isma er fyrir idjóta. Flokkapólitíkin hérna er sömuleiðis fyrir idjóta, eða sýnist þér margir á Alþingi vera með snjalla hausa á hálsinum? Ég spurði einu sinni frekar þunna þingkonu hvað hún væri stór. Hún sagði: "Ég er 1,70." Ég sagði þá við hana að ég væri að spyrja um hæð, ekki greindarvísitölu. Flokkakerfið og kjördæmaskipanin gerir það að verkum að það er ekki hægt að tala um neina alvöru pólitík hér á landi. Hérna er ekki nein önnur pólitík en valdapólitík; að sitja sem fastast á sínum breiða rassi á valdastóli og maka krókinn og sökkva sér á kaf oní kjötkatlana.

Uppistaðan í öllum flokkum er hin landlæga tröllheimska seigdrepandi afturhaldssemi, þ.e.a.s. framsóknarmennska. Ef snefill af hinni annars ágætu frjálshyggju kemst inní landið, þá breytist hún á stundinni í einokun, samkeppnisleysi, einkavinavæðingu og dellu. Hér komum við aftur að þessu skelfilega fámenni."

Svo mörg voru þau orð sem ég lét falla fyrir 12 árum síðan. Ekkert hefur breyst og ekkert mun breytast því fólkið vill ekki raunverulegar breytingar. Það vill sama gamla eitraða grautinn í sömu gömlu skálinni.

 

 

(Þessi grein birtist í Mogganum í morgun)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það má heldur ekki gleyma því að stundum gjalda menn líka fyrir kunningjasamfélagið, góðir og hæfir starfskraftar eru ekki nýttir því einhver hefur áhyggjur að því að það verði  túlkað sem klíkuskapur... já það er vandlifað í henni veröld, ef fámenn er.

(IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 17:50

2 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 28.11.2009 kl. 18:12

3 identicon

Þegar Árni Matt þáverandi fjármálaráðherra seldi ættingjum og vinum góssið á Keflavíkurflugvelli á slikk var hann spurður hvort það væri ekki siðleysi að afhenda þessi verðmæti sínu venslafólki.  Svar hans var greindarlegt eins og þínar bollaleggingar Sigurlaug - "eiga þau að gjalda þess að vera í fjölskyldunni?"  Málið dautt og enginn spurði meir - kanski af því að fólk var búið að fá upp í kok af svona sjónarmiðum. 

Nei Sigurlaug - þínar áhyggjur eru ekki vandamálið. 

Íslenska hrunið stafaði ekki af ótta ráðamanna við að ráða kunningja sína til starfa!!!

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 10:46

4 identicon

Ekki hef ég nú miklar áhyggjur af því Gísli minn eins og þú virðist halda, en hins vegar er þetta staðreynd þó Árni hafi nú ekki sett það fyrir sig.  Þekki bara aðila sem lenti í þessu, þ.e að fullmargir af ættinni töldust vinna á viðkomandi stað og ekki við hæfi að ráða fleiri jafnvel þó engin annar hafi sótt um.  En það var auðvitað heiðarlegt fólk þar þó vamm þeirra hafi örlítið farið í öfgar, því sagði ég að vandlifað er í henni veröld.

(IP-tala skráð) 29.11.2009 kl. 17:29

5 Smámynd: Gísli Ingvarsson

"Ef snefill af hinni annars ágætu frjálshyggju kemst inní landið, þá breytist hún á stundinni í einokun, samkeppnisleysi, einkavinavæðingu og dellu. Hér komum við aftur að þessu skelfilega fámenni." þetta sitat er fullgóð samantekt á því sem síðan skeði!

Gísli Ingvarsson, 29.11.2009 kl. 19:59

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sverrir hvort er verra...klíkustarfssemi, eða að vera ekki í klíkunni ?

Haraldur Baldursson, 30.11.2009 kl. 15:43

7 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurlaug, það var gerð könnun fyrir stuttu þar sem kom fram að 80% starfsmanna í stjórnsýslunni og embættismannakerfinu hefðu ekki verið ráðnir á faglegum forsendum heldur vegna klíkuskapar. Þetta kom mér akkúrat ekkert á óvart.

Lifi íslensk amatörmennska!

Sverrir Stormsker, 30.11.2009 kl. 17:09

8 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ómar, kreppukveðjur.

 

Gísli (nr. 3), ég veit ekki um nokkurn einasta mann á Íslandinu góða sem hefur þurft að gjalda fyrir það að vera “rétt” tengdur.

Sverrir Stormsker, 30.11.2009 kl. 17:16

9 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurlaug (nr.4), ég talaði við Árna Sigfússon á þessum tíma og það var alveg augljóst að það var búið að ráðstafa eignunum á varnarliðssvæðinu til “réttra” aðila þó hann hafi ekki sagt það berum orðum. Árni Matt fjármálaráðherra sá um að góssið færi á gjafaprís til vina og vandamanna. Minnir að það hafi staðið til að rannsaka þennan vibba allansaman en að sjálfsögðu dagaði það uppi í kerfinu einsog öll önnur íslensk pólitísk viðskiptasnilld.

Sverrir Stormsker, 30.11.2009 kl. 17:19

10 Smámynd: Sverrir Stormsker

Gísli (nr.5), já ég er ennþá hjartanlega sammála sjálfum mér

Sverrir Stormsker, 30.11.2009 kl. 17:21

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Haraldur, Jónas Kristjánsson ritstjóri orðaði þetta ágætlega á sínum tíma. Hann sagði: "Hinn dæmigerði Íslendingur hefur þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur."

Rétt hjá honum.

Sverrir Stormsker, 30.11.2009 kl. 17:27

12 identicon

Svo það sé á hreinu hafi einhver ekki skilið það, þá er ég ekki að verja klíkuskap af nokkurri tegund og þá alls ekki Árna Matt, eina sem ég var að benda á að það virkar í hina áttina líka, ég þekki það þó þið gerið það ekki.

Öfgarnar eru í báðar áttir það er alveg á tæru. Því er mjög mikilvægt að setja  þær reglur sem mismuna ekki fólki við ráðningu í hinu opinbera kerfi. Hitt er svo annað mál að í einkabissnesnum geta gilt aðrar reglur, ég mundi til dæmis ekki láta bjóða mér það í mínu fyrirtæki að fá ekki að ráða því hvern ég ræð til vinnu.

(IP-tala skráð) 30.11.2009 kl. 18:39

13 identicon

Allt rétt hjá þér að vanda.

Pétur Halldórsson (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 19:49

14 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sigurlaug, þú segir: "Ég mundi til dæmis ekki láta bjóða mér það í mínu fyrirtæki að fá ekki að ráða því hvern ég ræð til vinnu."

Alveg hjartanlega sammála. Femístar eru reyndar ekki sammála okkur. Þeir vilja kynjakvóta í opinber fyrirtæki og einkakompaní. Þeir eru á því að það skipti öllu máli hvað fólk sé með milli fótanna en ekki eyrnanna.

Pétur, að sjálfsögðu

Sverrir Stormsker, 2.12.2009 kl. 12:04

15 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Eftir allar  útþurrkanir í 3korter!! Sendi ég bara brosið með gullönnunum   Maggi Steinþórs vinur minn girnist þær. Ætla að kaupa hljómplötur fyrir þær! 

Helga Kristjánsdóttir, 3.12.2009 kl. 03:08

16 Smámynd: Pétur Harðarson

Í allri þessari umræðu um klíkuskap á klakanum þá fæ ég ekki séð hvað fámennið kemur málinu við.  Hverju myndi það breyta að á Íslandi byggi milljónaþjóð?  Þýddi það ekki einfaldlega að klíkurnar hefðu fleiri til að svína á?  Er til að mynda enginn klíkuskapur á Indlandi, í Kína, Bandaríkjunum eða Rússlandi?  Það væri ágætt markmið út af fyrir sig ef íslenska þjóðin stefndi á heimsmet í fólksfjölgun með skipulögðum samförum en það myndi litlu breyta um klíkuskapinn í landinu.

Pétur Harðarson, 4.12.2009 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband