Fjórflokkurinn bjó til Besta flokkinn

 

sofandi nautSlagorð Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum er: Vekjum Reykjavík! Broslegt að flokkur sem svaf á verðinum í aðdraganda hrunsins skuli velja sér þetta slagorð. Samfó er stærsta svefnherbergi landsins. Þeir mættu nú alveg byrja á því að rumska sjálfir. Svo eru þeir með svæfingalækni í forsvari. Sá gæi er svo fær í sínu fagi að hann gæti talað naut í svefn og jafnvel svæft það svefninum langa. Þetta eru svefnpillurnar sem ætla að "vekja Reykjavík." Einmitt. Þeir tala einsog flokkur þeirra sé ekki í ríkisstjórn. Þetta lið er ennþá allt steinsofandi á sínu vinstra græna eyra. Þeir skilja ekki að Reykjavík er vöknuð. Hroturnar í Fjórflokknum hafa vakið okkur. Stór hluti borgarbúa hefur opnað augun og er búinn að fá uppí kok af svefndrukknum Fjórflokknum og öllum hans innantómu svæfandi froðufrösum og er tilbúinn að sýna það í verki í dag. Þeir sem þurfa virkilega að vakna og rífa sig upp á rassgatinu eru atvinnustjórnmálamennirnir.

 

Glens er ekkert grín

Íslenskt dýralíf.Þegar ég heyrði fyrst um framboð Jóns Gnarrs og hans ísbjarnarblús hugsaði ég: "Enn ein þvælan. Ekki meiri dellu takkfyrir. Ætlar þetta rugl í Íslendingum engan endi að taka? Það ætti að læsa alla þjóðina inní búri í húsdýragarðinum með hinum svínunum."

En svo fór ég að skoða dæmið galopnum huga. Á heimasíðu Besta flokksins er að finna fjölmargt skynsamlegt og skemmtilegt, einsog t.d. hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar um að flytja húsin í Árbæjarsafni í Hljómskólagarðinn og lífga hann við, gera listir að grunnþætti í skólastarfi, o.s.fr., og svo er alvaran krydduð með dágóðu spaugi, t.d. skotum á femínistajafnrétti: "Við erum eini flokkurinn á Íslandi sem er með þá kröfu að næsti forseti Íslands verði einhver þroskaheft kelling."

Margt gott fólk er á lista Besta flokksins, t.d. Einar Örn Benediktsson og ég veit að þar fer ljónklár og hugmyndaríkur framkvæmdamaður, þó hann sé tónlistarmaður. Enginn þarf að efast um að þetta fólk muni ekki gera sitt besta til að koma mynd á borgarómyndina. Eitt er víst að ljótari og leiðinlegri getur hún varla orðið. Ég vil mun frekar sjá spaugsamar ráðdeildarsamar húsmæður og húskarla í borgarstjórn með brjóstvitið í lagi en háalvarlega bannaglaða félagsvísindamenntaða talíbana og hélaðar skýrslukynjagreinandi femínistabullur. Og hver segir að greindur skapandi grínisti þurfi endilega að verða verri borgarstjóri en t.d. svæfingalæknir eða geimréttarhagfræðingur?

 

Fjórflokkurinn er kominn til að fara

deaf_blind_dumbFólk er búið að horfa uppá VG og Samfó í landsmálunum svíkja kosningaloforðin á færibandi og klúðra öllu sem hægt er að klúðra eftir hrun með fádæma klunnaskap, óheiðarleika, heimsku, vanhæfni og landráðatilburðum og fólk er búið að horfa uppá bakhnífasirkus og óheilindi Fjórflokksins í borginni og er skiljanlega búið að fá æluna út um báðar nasir. Hroki atvinnupólitíkusanna bætir ekki úr skák: "Við erum ábyrgir fagmenn. Látið okkur alvöru  proffana um að losa ykkur úr ógöngunum sem við komum ykkur í."

Fjórflokkurinn er í fílabeinsturni og hlustar ekki á fólk. Hann er blindur og heyrnarlaus. Fjölfatlaður. Neitar að breyta vinnubrögðum sínum og reita arfann í eiginn garði. Hann vinnur á móti fólkinu og hefur gert sig að óvini þess númer 1. Þessvegna varð Besti flokkurinn til. Besti flokkurinn er í raun alfarið í boði Fjórflokksins. Þetta er faktískt eini valkostur þeirra sem vilja gefa Fjórflokknum langt frí og ennþá lengra nef. Fólk kýs tvíhöfðagæa til að snýta fjórhöfða.

 

Lifi leiðindin!

formadurinnEf alvarlega þenkjandi fólk gæti reynt að gleyma því eitt augnablik að Jón Gnarr hafi húmor, sem virðist stórhættulegt að hafa í dag, og myndi lesa aðgerðaráætlun Besta flokksins fordómalaust, þá sæi það bestu og skemmtilegustu stefnuskrána sem boðið er uppá fyrir þessar kosningar. Þó að stefnuskrár stjórnmálaflokka séu þau plögg í þessum heimi sem minnst er farið eftir þá gefa þær engu að síður vísbendingu um það hvernig landið liggur í viðkomandi flokki og á hvaða nótum hann hugsar.

Jón Gnarr er frumlegur og frjór og vonandi kjarkaður og kann að hugsa út fyrir pappakassann, og því fyrirtaks borgarstjóraefni í alla staði, þrátt fyrir að hafa þann hræðilega galla að vera fyndinn. Georg Bjarnfreðarson er nú orðinn George Best. Það er alveg ástæðulaust fyrir fólk að vera hrætt við nýtt blóð og nýja vendi í borgarstjórn. Fjórflokkurinn þarf ráðningu. Nýir vendir sópa ekki bara best. Þeir flengja líka best.

 

 (Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Grein dagsins. Þú hittir beint í mark. Og markið er afturendinn á fjórflokknum.

Sævar Helgason, 29.5.2010 kl. 08:28

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

"Við erum ábyrgir fagmenn. Látið okkur alvöru  proffana um að losa ykkur úr ógöngunum sem við komum ykkur í."

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.5.2010 kl. 08:48

3 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sævar, rassinn á Fjórflokknum hefur aðeins 1 tilgang: Að drulla yfir landslýð. Svona rass á maður að sparka í, og jafnvel tak....

Förum ekki nánar útí þá sálma. 

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 09:50

4 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jóhanna, Jón Gnarrsson þarf ekki að hafa fyrir því að flytja froska til landsins einsog hann er að pæla í. Það er nóg af þeim í Fjórflokknum.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 09:55

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Ég heillaðist af þessari setningu svo ég setti töfrakall fyrir aftan, setningin minnir mig á mann sem sagðist vera sinn eiginn sálfræðingur.  Það er eflaust nóg af froskum í Fjórflokknum,  en spurning um ísbjörninn?

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.5.2010 kl. 10:21

6 Smámynd: Sævar Einarsson

"Ég vil mun frekar sjá spaugsamar ráðdeildarsamar húsmæður og húskarla í borgarstjórn með brjóstvitið í lagi en háalvarlega bannaglaða félagsvísindamenntaða talíbana og hélaðar skýrslukynjagreinandi femínistabullur."

Þarna hittir þú alveg í mark sem svo oft sem áður Sverrir,  flokksbundið fólk þarf að fara að hugsa út fyrir pappakassann, setjum X við Æ því að kjósa annað er óvirðing við lýðræðið.

Sævar Einarsson, 29.5.2010 kl. 10:55

7 Smámynd: Anepo

http://img704.imageshack.us/img704/8779/kosning.jpg

þetta segir allt sem segja þarf um hvernig fjórflokkurinn raunverulega er.

Anepo, 29.5.2010 kl. 11:42

8 Smámynd: Sævar Einarsson

Það er nú reyndar bókstafurinn B við framsókn en ekki F en hverjum er svo sem ekki sama :P

Sævar Einarsson, 29.5.2010 kl. 11:49

9 Smámynd: Sævar Einarsson

Og D við Sjálfstæðisflokkinn, en hverjum er ekki drullusama um það líka, sami grauturinn.

Sævar Einarsson, 29.5.2010 kl. 11:53

10 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jóhanna, held hinsvegar að enginn, hvorki sálfræðingar né aðrir, geti læknað fjórflokkinn. Þetta er langlegusjúklingur í coma sem þarf að kippa úr sambandi.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 12:28

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Sævarinn, merkilegt samt hversu margir halda dauðahaldi í Fjórflokkinn. Minnir soldið á guðsótta og trúarbrögð, - kaþólikka og mótmælendur og svoleiðis ger. 

Ég er hinsvegar "mótmælandi" í öðrum skilningi.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 12:38

12 Smámynd: Sverrir Stormsker

Anepo, það er gott og klárt fólk innanum í öllum flokkum, en megnið er vægast sagt frekar kæst. Flokkakerfið sjálft náttúrulega dragúldið. Skil ekki hvað þokkalega heiðarlegt fólk sér við þetta. Ætli maður geti orðið háður rottueitri?

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 12:45

13 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Fjórflokkurinn talar um dýrmæta reynslu sem sé svo mikilvæg á erfiðum tímum.

Mín kynni af dýrmætri reynslu innan verkalýðshreyfingarinnar er dýrmæt reynsla getuleysis, hjarðhegðunnar og ákvörðunarfælni. Af fenginni reynslu hef ég því ákveðið að kjósa ekki þessa yfirgengilega ömurlegu fjórflokkavitleysu eina ferðina enn. En þar fara hin raunverulegu grínframboð sem vekja ekki nokkra einustu kátínu.

Loksins er komið framboð með fína stefnuskrá sem er raunverulegur valkostur við fjórflokkinn. Að skila auðu jafngildir einu atkvæði á hvern fjórflokkana.

Búinn að kjósa Besta flokkinn, Stattu þig Jón við treystum á þig!

Frábær samantekt Sverrir.

Ragnar Þór Ingólfsson, 29.5.2010 kl. 13:12

14 Smámynd: Anepo

Það er rétt sverrir. En því miður eru þeir ekki margir góðir og klárir eftir.

Því meir sem vinirnir safnast saman í flokkunum sjá BEN og hans fjölskyldu.

Því  verri og verri verður stjórnunin því þar er farið eftir blóðtengslum ekki gáfum.

Ég kaus einnig besta flokkinn og þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég skammast mín ekki fyrir að mæta á kjörstað.

ég kaus alltaf áður samfylkinguna því að fjölskyldan mín gerði það. Gerði það með frekar þungt hjarta en hugsaði að þeir væru eina svarið við sjálfstæðisflokknum en eru greinilega bara jafn slæmir þegar annað kemur í ljós.

Anepo, 29.5.2010 kl. 14:46

15 Smámynd: Skrolli

Rosalega ferðu alltaf með langt mál. Það sem þú ert í raun og veru að segja er að fjórflokkarnir séu ekki málið og Jón Gnarr sé svarið og hans flokkur. Búið ekkert meira að segja.

Ertu kominn heim frá Tælandi? Ef ekki, vertu þá bara lengur.

Skrolli, 29.5.2010 kl. 14:57

16 Smámynd: Sævar Einarsson

Skrolli, ekki svona bitur, brostu og vertu hress :)

Sævar Einarsson, 29.5.2010 kl. 15:36

17 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég kyzi grínið frekar en zwínið fjórflezkaða, ef ég hefði nú búzetu til, eiginlega mezt fyrir ízbjörninn.

Fjandakornið, ég kyzi frekar ízbjörninn en fjórflokkinn...

Steingrímur Helgason, 29.5.2010 kl. 16:46

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

fínn pistill Sverrir

Skrolli.. thailand er skrifað taíland á íslensku. 

Óskar Þorkelsson, 29.5.2010 kl. 17:58

19 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ragnar, það þarf að breyta kosningakerfinu. Auð atkvæði verða að hafa vægi á við nýtt atkvæði svo boðin komist til skila og lýðræðið virki: Því fleiri auð atkvæði - því færri stólar. Efni í aðra ítarlega grein.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 21:08

20 Smámynd: Sverrir Stormsker

Anepo, það má heimfæra það uppá stjórnmálastéttina sem Bó Halldórs sagði einhverntíma um slappan hússöngvara sem hafði breytt um lúkk: "Ný föt -  sama röddin."

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 21:14

21 Smámynd: Sverrir Stormsker

Skrolli, Jón Gnarr er ekki hið endanlega svar, enda sagði ég það aldrei, en hann er óneitanlega von og múrbrjótur og í raun eini valkostur þeirra sem vilja gefa Fjórlokknum væna pásu.

Ég hefði greinilega átt að hafa mál mitt lengra og ítarlegra svo að þið samfylkingarmenn næðuð þessu örugglega líka.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 21:23

22 Smámynd: Sverrir Stormsker

Zteingrímur, flezt er betra en hinn galtómi fjórhöfði. Zvei mér þá.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 21:48

23 Smámynd: Sverrir Stormsker

Óskar, þakka þér fyrir hönd Skrolla en bendi samt á að þessi síða mín var ekki hugsuð sem stafsetningarorðabók fyrir seinfæra.

Sverrir Stormsker, 29.5.2010 kl. 21:58

24 Smámynd: Sigurjón

Sæll Sverrir.

Gaman að sjá að þú ert farinn að skrifa aftur hér og vertu velkominn heim (sértu nýkominn frá Asíu).

Svo er alveg merkilegt þegar illa skrifandi menn fara að leiðrétta aðra.  Skari skrípó mættur með fimm aura brandara og þykist þess umkominn að finna að skrifum annarra.

Óskar: Á íslensku eru nöfn landa skrifuð með stórum staf og einnig er stór stafur í upphafi setningar!  Ertu virkilega ekki með barnaskólapróf eða hvað?

Kveðjur, Sigurjón (með barnaskólapróf í íslensku)

Sigurjón, 1.6.2010 kl. 00:44

25 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Sigurjón.

líklega er það bara ritstíll sem Óskar hefur tileinkað sér, að skrifa með litlum stöfum.

sjálfur hef ég tileinkað mér þann stíl, í kommentakerfinu, með þeirri undantekningu þó að sérnöfn hefjast á stórum staf.

Sverrir. lítið við þennan pistil að bæta nema ameni.

Brjánn Guðjónsson, 1.6.2010 kl. 20:26

26 Smámynd: Sigurjón

Sæll Brjánn.

Þeir sem tileinka sér ,,ritstíl" hafa þar með enga innistæðu til að leiðrétta aðra og gefa í skyn að þeir skrifi ekki rétt.  Gerir þú það annars?

Kv. SV

Sigurjón, 1.6.2010 kl. 23:48

27 Smámynd: Sverrir Þór Magnússon

Hvernig væri að hafa hönnu Birnu með ís í húsdýragarðinum ?

Sverrir Þór Magnússon, 2.6.2010 kl. 12:54

28 Smámynd: Alfreð K

„Það ætti að læsa alla þjóðina inní búri í húsdýragarðinum með hinum svínunum.“

Heyr, heyr! 

Við fengum í heimsókn tvo myndarlega ísbirni árið 2008 sem hefðu áreiðanlega sómað sér vel í Húsdýragarðinum.  Leitt að við kusum að fara aðra leið með þá.

Og ekki að það sé neitt „issjú, “ en alltaf ánægjulegt (og virðingarvert) að sjá íslenzkum réttritunarreglum (gömlum og nýjum) í hvívetna fylgt, líka niðri í bloggheimum.

Alfreð K, 2.6.2010 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband