Færsluflokkur: Dægurmál
13.12.2007 | 12:49
Saga um ástir og örlög
Í húsasundi mættumst við að morgni,
það magnþrungin var ást við þriðju sýn.
Ég kunni enga karlmannlegri siði
en kyssa þig og horfa í augu þín.
Ísinn brast í okkar litlu hjörtum,
ástarblómin rótum skutu í þeim.
Við fundum strax að fengjum við að njótast
þá fjandinn mætti eiga þennan heim.
Sem í draumi dagar bjartir liðu,
við drukkum lífið einsog kampavín,
ólmuðumst og okkur veltum látlaust
uppúr sælustundum líkt og svín.
Allt ég man úr árbók minninganna.
Við ótal sinnum gengum niðrað tjörn
og hugsuðum um hamingjuna okkar
og hvort við skyldum reyna að eignast börn.
Allt var dásemd, dýrðlegt ævintýri,
hver dagur sem við lifðum, satt er það,
en þó bar við að beiskir böðlar reyndu
að breyta okkar kærleikslind í svað.
Já til var mannfólk öfundsjúkt sem sagði
að samband okkar færi í hund og kött
og væri helber öfuguggaháttur
og alveg gjörsamlega útí hött.
Ég trúði þessum mönnum mátulega,
já mikið var ég efins fyrst um sinn.
En þessi orð með hörmulegum hætti
hljóta að hafa greypst í huga þinn,
því stuttu síðar komstu til að kveðja,
eitt kyrrlátt kvöld um miðjan september,
og tjáðir mér með orðum augna þinna
að þú vildir hverfa burt frá mér.
Og síðan hefur sál mín spurul leitað
að svörum um hin döpru endalok.
Aldrei mun ég elska nokkuð framar.
Af öllu hef ég fengið uppí kok.
Ég hugsa um þig alla daga og nætur
og oft ég reika um kynlegt húsasund
miður mín og hræðilega hryggur.
Ég held ég verði að fá mér annan hund.
(Gerði þetta átakanlega ástarkvæði um tvítugt. Birtist í ljóðabók minni Vizkustykki, 1991)
Dægurmál | Breytt 14.12.2007 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
7.12.2007 | 06:30
GJALDMIÐLAR OG AÐRIR SVIKAHRAPPAR
Sýnir, vitranir, draumar, tarrotspil, kristalskúlukellingar, fylgjur, draugar, kaffibollaspámenni, stjörnuspámenni, happagripir, heilun, álfar, tröll, guð, djöfullinn, teskeiðabeygingar, skurðgoð, andalækningar, huldufólk, reiki, orkusteinar, fljúgandi furðuhlutir, talnaspeki, útfrymi, lófalestrarhryssur, miðlar.
Allt eru þetta fyrirbrigði sem trúgirnin þarfnast og gleypir ótuggin í öll mál, fyrirbrigði sem standa afskaplega djúpum rótum í vitsmunalífi heimsins, en þó sérílagi íslensku þjóðarinnar. Reyndar eiga mörg þessara fyrirbrigða það sameiginlegt með vitsmunalífi þjóðarinnar að tilvist þeirra er ekki sönnuð, en það er annað mál.
Töfrasnillingurinn mesti, Harry Houdini, vann fyrir sér á fyrstu árum sínum í galdrabransanum með því að bregða sér í gervi alvöru miðils og setti upp miðilsfundi út um kvappinn og kvippinn og blekkti auðtrúa skrílinn gjörsamlega uppúr bomsunum. Fyrir utan að vera þessi líka svakalega flinki blekkingarmeistari, þ.e.a.s. miðill, þá hafði hann einn kost sem afar sjaldgjæft er að finna hjá dæmigerðum miðlum: Hann var heiðarlegur - strangheiðarlegur blekkingameistari, og því hætti hann fljótlega þessum óleik. Hann sagði seinna: Fólkið var svo brjóstumkennanlegt og svo hrekklaust. Orðsendingar okkar að handan veittu þeim huggun, en það var ósönn huggun, ef það var þá ekki verra. Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Nú myndu margir vitna í Stormsker og segja:
Þegar vesælt viskumegn
veldur sálarfúa
þá er huggun harmi gegn
að hafa á nóg að trúa.
En Houdini var ekki sammála svona steypu. Svo fór að hann fékk alveg uppí kok af þessari glæpsamlegu draugastarfsemi sinni og sneri algerlega við blaðinu. Hann fór á miðlaveiðar. Þessi mesti töframaður allra tíma gerði það að heilagri skyldu sinni að afhjúpa bestu og frægustu miðla samtíðar sinnar, semsé að koma prettvísinni í hendur réttvísinnar. Og hann fór létt með það. Hann kunni jú öll trikkin í bókinni. Flestir þessara afhjúpuðu roðflettu miðla lentu í grjótinu. Houdini varð aðal ghostbuster heimsins; hann kvað niður þessa bölvuðu drauga sem kölluðu sig miðla, ekki bara tíu eða tuttugu, heldur fleiri hundruð, reyndar hvern og einn einasta sem hann komst í tæri við.
Eftir nokkurra ára rannsóknir á dulspekilegum drullusokkum varð hann orðinn svo sannfærður um að ekki finndist EINN ekta miðill á jarðarkringlunni að hann lét þau boð út ganga að hann skildi gefa gríðarlegar fjárhæðir hverjum þeim miðli sem sannað gæti að væri gæddur dulrænum gáfum og lofaði því að hann myndi leika eftir mun betur öll þau fyrirbrigði sem talin væru af andavöldum. Miðlar, sem hafa nú aldrei slegið höndinni á móti auðfengnu fé, streymdu að úr öllum heimshornum til að vinna pottinn, mættu á svæðið með alla sína blístrandi slæðudrauga og óþolandi útfrymi í farteskinu og bjuggu til hressilegan draugang með tilheyrandi húsgagnaskjálfta og röddum að handan og öllu því leiðinda nonsensi. Auðvitað fletti Houdini ofan af öllum þessum hræbillegu andaheimasvikahröppum og berstrípaði þá gjörsamlega og aldrei gekk potturinn út.
Ekki fannst EINN heiðarlegur og sannur miðill í veröldinni.
(Þess má geta að Lára miðill, sem var einn vinsælasti íslenski miðill síðustu aldar, var afhjúpuð sem svikahrappur og játaði hún brot sitt. Þrátt fyrir það flykktist fólk áfram til hennar í hrönnum opinmynnt af undrun, trúgirni og heimsku).
Eftir þessa krossferð Houdinis hurfu draugagangsmiðlar og aðrir útfrymisasnar að mestu af sjónarsviðinu, semsé þessir fjölhæfu töfrabragðamiðlar, eða fjölmiðlar, einsog ég kalla þá. En þarsem miðlastarfsemin gefur vel í aðra hönd, enda um nótulaus viðskipti að ræða, þá hurfu náttúrulega ekki miðlarnir. Þessir gjaldmiðlar breyttu bara um taktík; hættu að nenna að falla í trans og tala tungum og andarnir hættu að nenna að búa til skarkala og færa hluti úr stað á fundum o.s.fr. Ef við vippum okkur yfir til dagsins í dag þá má t.d. finna þessa gæa á útvarpsstöðvum og kallast þeir þá talnaspekingar og útvarpsmiðlar og tala þá fáránlegustu íslensku sem heyrst hefur utan sandkassa. Orðanotkun þessara vafasömu gúrúa ein og sér er næg ástæða til að senda þá rakleitt beint á næsta sambýli. Hér eru dæmi úr nokkrum þáttum:
Er þér illt í öllum tilfinningunum þínum?
Hefurðu orðið fyrir árekstri nýlega?
Hefurðu verið að fást við höfuðverk uppá síðkastið eða í gær?
Streymir venjan um þig að innanverðu?
Mér langar að tengja þig við móðir þína, en samt vill ég frekar tala um faðir þinn, er hann annars ekki alveg örugglega farinn?
Bar hann afi þinn ekki brjóst ömmu þinnar fyrir hagi?
Svona heimspeki, eða heimskuspeki, dýrkar fólk. Það elskar þetta. En takiði eftir því að þessi della, sem ég var að vitna í, er öll í spurningaformi? Blekkingarleikur miðilsins byggist nefnilega á spurningum, að fiska uppúr fólki. Sjálfur segir hann raunverulega ekki neitt heldur hagræðir bulli sínu algerlega eftir viðbrögðum og upplýsingum hins táldregna innhringjara og aðlagar vitleysuna að því sem hann nær að draga uppúr honum. Ef miðillinn röflar einhverja steypu og hittir ekki í mark þá er viðkvæðið alltaf þetta: Mundu þetta. Með þessu móti getur hann alltaf þóst hafa rétt fyrir sér þó hann viti ekkert í sinn haus, og þegar hann kemst ekkert áfram með viðmælanda og nær ekki að toga neitt uppúr honum þá fer hann að tala um neikvæða orku og sambandsleysi; við skulum prófa annan hlustanda.
Eða heldur einhver óbrjálaður maður að útvarpsmiðill gæti nokkurntíma hitt naglann á höfuðið um nokkurn skapaðan hlut ef hann fengi ekki fyrst að heyra í ginningarfíflinu, aldursgreina það og kyngreina það o.s.fr? Að sjálfsögðu ekki. Ef einhver hringdi nú inn og segði ekki orð heldur biði bara eftir fréttum að handan, (og það ætti nú að koma út á eitt ef útvarpsmiðillinn væri ekta), þá yrði miðillinn einnig kjaftstopp. Hann myndi ekki vita hvort kall eða kelling væri á línunni og hvað manneskjan væri gömul og hann færi jafnvel að spyrja ungling hvort hann væri kominn á eftirlaun, eða spyrja einhvern níræðan afa hvort hann væri að æfa ballet og hvort hann væri óléttur, og allt feikið færi í eina allsherjar steik, og ef hann fengi ekkert svar og héldi áfram að láta móðann mása án uppdreginna upplýsinga úr viðmælandanum þá væri hann kominn lengst út á tún innan nokkurra mínútna, jafnvel yfir Esjuna og til tunglsins og marga hringi þar í kring í óendanlegri vitleysu, og hann hefði alveg örugglega ekki kjark til að spyrja í lokin: Ertu sáttur við mig?
Miðill segir einfaldlega aldrei neitt að fyrra bragði, hann endursegir, vinnur úr upplýsingum. Slæmur miðill hefur engan úrvinnslunarhæfileika, enga mannþekkingu, lætur mikilsverð smáatriði fara framhjá sér, er andlegur þykkskinnungur og getur í raun ekki miðlað neinu nema eigin heimsku. Þannig er ástatt um flesta miðla. Góður miðill hinsvegar hlustar eftir fínustu blæbrigðum í röddum fólks, hefur góða ályktunargáfu, næma athygligáfu, er fljótur að kveikja, fljótur að tengja, er naskur í að vinna heildarmynd úr uppgefnum smáatriðum, hefur ríkulegt sálfræðilegt innsæi; veit semsé út á hvað blekkingin gengur.
Ginningarfíflið, þ.e.a.s. innhringjarinn er nær undantekningalaust allur af vilja gerður til að hjálpa miðlinum; er jákvæður og opinn og lætur honum í té allar þær upplýsingar sem hvaða meðalskussi sem er í blekkingarfræðunum ætti að geta unnið úr en samt nær miðillinn undarlega oft að klúðra þessu. Einsog það getur nú verið mikil unun að fylgjast með klárum og vönduðum svikamiðlum að störfum þá er að sama skapi alveg ferlega pínlegt að fylgjast með klunnum og leppalúðum sem kunna ekki trixin og láta endalaust koma sér í bobba.
Í andaheimum miðlanna rekst allt hvert á annars horn. Þeir geta sagst vera komnir í samband við einhverja draugakellingu og haft eftir henni allskonar draumfagrar setningar, algerlega orðrétt, um hvað henni líði nú vel og hvað allt sé nú með miklum blóma í himnaríki og að hún sé umvafin sóleyjum og englasöng og að hún sé hætt að finna til í mjöðminni og að hún hafi ekki myrt einn einasta mann síðan hún kom í ríki drottins o.s.fr., en þegar kemur að því að hún eigi að kreista útúr sér eigið nafn og hvort hún sé amma eða frænka eða langamma viðkomandi ginningarfífls þá virðist hún fara að tafsa alveg gríðarlega og heita annaðhvort Sigríður, Sigrún, Sigurrós, Sigurlína, Sigurvíma, Sig-eitthvað, og svo þarf að fara að fiska uppúr ættmennisginningarasnanum á símalínunni hvað hún heiti og hvort um sé að ræða ömmu hans, langömmu, fóstru gömlu, frænku eða eitthvað þaðan af verra. Alltaf þegar kemur að einföldum grundvallaratriðum viðkomandi draugnum, svosem nafni hans, starfi í lifanda lífi og ættartengslum við símafíflið þá verður allt voðalega loðið og sambandið við andaheiminn mjög slæmt. Ekki einn einasti útvarpsmiðill á jarðarkringlunni getur sagt skýrt og skorinort við innhringjara eitthvað á þessa leið, og haft rétt fyrir sér:
Ég nenni ekki að þykjast þurfa að tengja þig við einhverja manneskju eða tengja þig hingað og þangað. Það er einfaldlega komin hérna geysi hugguleg afturganga og hún segist vera langamma þín og heita Þórkatla Tíbrá Kristjánsdóttir, fyrrum til heimilis að Rassgötu 6 á Höfn í Hornyfirði, og engar refjar með það neitt. Ég þarf ekkert að veiða uppúr þér með lúmskum spurningum við hvað hún starfaði því hún er að segja mér að hún hafi unnið fyrir sér sem vörubílstjóri og skipamella. Hún hafi haft vel í sig og á, segir hún, þrátt fyrir mikinn starfsleiða, því hún hafi í raun verið í skápnum sem trukkalessa bróðurpart lífs síns, allt þar til hún tók í lappirnar á syni sínum, sem þá var um fimmtugt, og barði bónda sinn í hel með honum. Þá hafi hún komið útúr skápnum og byrjað með dvergvaxinni tattúveraðri netagerðarlessu. Þetta stemmir allt er það ekki? Ertu sáttur við mig? Gott. Takk takk takk.
Nei svona vafningalausar upplýsingar hvað varðar (óalgeng) nöfn og staðsetningar og slíkt getur enginn miðill veitt, því þegar kemur að beinhörðum staðreyndum að fyrra bragði þá fer sambandið að dofna og miðillinn að heyra gasalega illa, en eftir að hann hefur dregið einhverja vofu úr innhringjaranum með spurningaflóði þá getur hann hinsvegar haft orðrétt eftir henni ýmis nauðaómerkileg almenn skilaboð, t.d. að sér líði alveg gasalega vel og allt sé í gúdí fíling og að hún hafi ekkert merkilegra við tímann að gera í himnaríki en að fylgjast grannt með sinni jarðnesku famelíu og hún segi að barnabarn sitt þurfi að hætta að greiða svona mikið á sér hárið og snúast svona mikið í kringum sjálft sig og bla bla bla og bull bull bull. Þetta er hreint út sagt grátlega vitlaust.
Skilaboðin að handan eru að sjálfsögðu aldrei merkilegri en miðillinn. Þó hann segist þurfa að tengja innhringjarann við þetta og hitt, tengja hann við hina og þessa persónu, tengja hann útá land og tengja og tengja þessi líka reiðinnar býsn; tengja framhjá og tengja allt við alla og tengja alla við hitt og þetta út og suður einsog ofvirkur rafvirki, þá tengir hann aldrei eitt eða neitt. Hann bara tengir ekki. Það vantar einfaldlega alla tengingu í hann. Hann fær bara straum, - en alltaf að vísu voðalega jákvæðan straum. Jafnvel þó hann sé allur skaðbrenndur og flæktur í snúrunum þá er allt alveg obboslega jákvætt og gott. En afhverju tengja hlustendur ekki? Er virkilega ekki kominn tími til að tengja?
Svona gæti dæmigert samtal verið milli útvarpsmiðils og miðlatrúmanns:
- Trúirðu á svona?
- Já, ég hlusta alltaf á þig.
- Ég líka. En hver er Guðmundur? Farinn.
- Jaaaa....nú veit ég ekki...Hm...Nei veistu, ég þekki bara hreinlega engan með þessu nafni þótt ótrúlegt megi virðast. Þú verður bara að fyrirge...
- Það kemur strax hérna vestfjarðarbær, einhver þoka, vestfirðir, eitthvað fyrir vestan. Hvern þekkirðu fyrir vestan sem er farinn? Ekki jarðneskur.
- Ég þekki nú bara engan fyrir vestan.
- Jú víst.
- Neiiii, ég kannast ekki við...
- Jú, jújú, hár maður, hár eftir vexti, stór miðað við stærð. Ég þarf að tengja þig þarna á vestfirðina, vestfjarðarkjálkann, og ég þarf að tengja við tenginguna þarna fyrir vestan. Skilurðu Þetta?
- Nei, allt mitt fólk býr í Texas.
- Takk. Texas er fyrir vestan. Kannski ekki alveg á vestfjörðum en þú skilur hvað ég á við...Veistu, það er voðalega gott að tala við þig. Þú hefur svo mikið og jákvætt orkustreymi í tilfinningunum þínum. En segðu mér...segðu mér...segðu mér með þetta Texas. Er einhver hár maður þar? Grannur? Í köflóttri skyrtu?
- Já, en ekki í köflóttri skyrtu.
- Í hverju var hann þá?
- Hann var í fangelsi.
- Takk takk takk takk. Það er allt voðalega jákvætt og gott í kringum hann og honum líður voðalega vel. Nú brosir hann.
- Já en hann er ennþá lifandi. Hann fer í rafmagnsstólinn í næstu viku.
- (Þögn) ...Gott. Þá er hann nú svo gott sem dauður. En hver er Gunna? Guðrún, Gunnhildur, Guðríður eða Guð-eitthvað, Guðminn almáttugur, hárið á henni er gráhært og það er eitthvað að henni í hnénu. Hún er með svona hné. Ég þarf að tengja tengja tengja tengja þig alveg gríðarlega mikið við hnéð á henni. Það er svona einsog hún sé svona með eitthvað í hnénu, liðamót eða eitthvað. Það þarf að kíkja eitthvað á það.
- Ja afi haltraði soldið og hann hét einmitt Gunnlaugur.
- Takk takk. Konan hans kallaði hann einmitt Gunnu eftir að hún hafði séð hann að neðan. Hann biður voðalega vel að heilsa. Sendir dúndur stuðkveðjur til allra sem voru með honum á Bindindismótinu í Galtarlæk 1957.
- Jájá.
- Segðu mér, dóu afi þinn og amma ekki barnlaus? Áttu þau einhver börn?
- Jú, veistu, ég held að þau hafi átt einhver börn.
- Nei. Nei, þau áttu engin börn. Mundu bara hvað ég sagði. Ertu sátt við mig?
- Já, alveg obboslega.
- Það er gott, guð veri með þér vina mín. Og láttu þér líða vel í tilfinningunum þínum. Og hugsaðu meira um sjálfan þig. Þú getur ekki elskað aðra ef þú getur ekki elskast með sjálfri þér og þú getur ekki elskað aðra en sjálfa þig ef þú skilur hvað ég er að fara. Get aldrei munað þennan frasa. En mundu: Hugsaðu um sjálfa þig. (Hugsar sjálfur: Það geri ÉG. Annars væri ég ekki að vinna við að blóðmjólka trúgjarna vanvita og hræra í tilfinningum syrgjenda og gefa læknisfræðileg ráð og beygja hegningarlög um fjársvik).
- Ertu sátt við mig?
- Já, alveg gríðarlega sátt.
- "Guð veri með þér."
Ég spyr: Hver getur verið sáttur við svona píp? Hverskonar fólk trúir á svona rugl? Hverskonar draugar eru það eiginlega sem trúa á miðla? Fyrir utan náttúrulega að þessir gjaldmiðlar hanga utaní 253. grein almennra hegningarlaga en þar stendur að noti maður sér bágindi annars manns, einfeldni hans og fákunnáttu í gróðaskyni þá varði það fangelsi allt að tveimur árum, með vaselíni og júgursmyrsli og alle græer.
Útvarpsmiðlarnir enda yfirleitt þætti sína á guðsorði: "Guð sé með ykkur," eða "Guð blessi ykkur," eða "Gangið á guðs vegum" og stundum er jafnvel endað á seiðandi bæn með svæfandi tónlist í bakgrunni til að undirstrika að allt sé þetta nú gert með samþykki almættisins. En hvað skyldi Guð sjálfur segja um kukl og andaheimatengingar hverskonar? Í riti Drottins, Biblíunni, sem allir vilja ólmir láta kenna ungviðinu í skólum landsins, segir hinn umburðarlyndi og kærleiksríki Herra:
Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.
Svo mælir Drottinn. Þetta stendur orðrétt í Heilagri Ritningu, bók bókanna sem er grundvöllur þess "kristilega siðgæðis" sem við viljum fyrir alla muni boða í grunnskólum landsins. Miðlar og spákonur og þessháttar fólk er ekki beint efst á vinsældarlistanum hjá þeim gamla. Þar sem mér er illa við ofbeldi, enda trúlítill maður, þá get ég ekki samsinnt þessum fyrirmælum Drottins allsHerjar, en ég endurtek það sem Houdini sagði, heiðarlegi töframaðurinn sem mest vit hafði á miðlum og þeirra blekkingaraðferðum. Hann sagði, einsog áður sagði: Smátt og smátt varð mér ljóst hve ósæmileg svik það eru að flytja hrekklausu fólki lognar orðsendingar frá liðnum mönnum, og stundum verður það til þess að menn bíða alvarlegt tjón á sálu sinni.
Þetta er rétt hjá honum. Og menn mega ekki við því að bíða alvarlegt tjón á sálu sinni vegna þess að fólk sem trúir öllum hlutum og á alla hluti í blindni hlýtur að hafa beðið alvarlegt tjón á heila sínum.
Enda hér á Heilræðastöku sem ég gerði þegar ég var 17 ára og birtist í ljóðabók minni Kveðið í kútnum, 1982:
Blindri trú á eitthvað áttu að neita,
ef að þú ert sannfærður þú staðnar,
heimskan vex, þú hættir fljótt að leita,
hugsun skýr og rökrétt óðum hjaðnar.
Þetta er ekki þvaður vanhugsað,
þú mátt vera sannfærður um það.
(Skrifað árið 2002)
Dægurmál | Breytt 8.12.2007 kl. 06:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (59)
4.12.2007 | 02:14
Mannlífsviðtal um blogg
Í nýjasta hefti Mannlífs sem kom út fyrir stuttu er viðtal við mig um bloggið. Læt það vaða hér enda viðeigandi að birta viðtal um blogg á blogginu:
1. Búseta? Þar sem mér dettur í hug að búa hverju sinni. Heimurinn.
2. Hvernig tölva? Lítil ferköntuð sem hægt er að loka einsog skjalatösku, man ekki hvað hún heitir, Anal eða Ass-eitthvað, Assus eða Rassmus.
3. Áhugamál? Tónlist, billjard, heimspeki, textagerð, skrítnir og framandi staðir, bíómyndir, leikhús, handritagerð, krossgátur, sérkennilegar týpur, trúarbrögð, töfrabrögð, dulspeki, sálfræði, mannkynssaga, stjórnmál, ljóðlist, stjörnufræði, stangveiði, golf, borðtennis, kokkamennska, djók, skáldsögur, seinni heimsstyrjöldin, hraður tæknilegur fótbolti, spakmælaritun, badminton, mafían í USA á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar, auglýsingasálfræði, nýyrðasmíði, tennis, hundar, arkitektúr. Ekkert endilega í þessari röð.
4. Hver ertu? Einhverskonar einkennilegur hrærigrautur af öllum áhugamálum mínum og fleiru.
5. Hvaðan? Vesturbænum í Reykjavík.
6. Hvenær byrjaðirðu að blogga? 18. október síðastliðinn.
7. Hvers vegna bloggarðu? Ætlaði fyrst bara að birta eina vísu og búið en svo kom upp þetta mál með hommana og kirkjuna og mér fannst svo yfirnáttúrulega galið af hommum að vilja gifta sig í kirkju þess guðs sem er með yfirlýst ógeð á þeim samkvæmt Biblíunni að mér fannst ég verða að reyna að koma einhverri glóru í þessa umræðu. Svo hélt ég bara áfram að blogga en geri það náttúrulega bara þegar ég nenni því. Þetta er engin skylda eða kvöð.
8. Hvenær bloggarðu á sólarhringnum? Þegar ég er vakandi, semsé á næturna.
9. Hve löngum tíma eyðirðu í bloggið? Misjafnt. Pistlarnir mínir eru yfirleitt í lengra lagi því ég vil klára nokkurnveginn alveg það sem ég vil segja um hvert mál svo ég þurfi ekki að útskýra það frekar. Svara helst aldrei athugasemdum því ég hef séð á öðrum síðum hvað ofskýringar geta verið tímafrekar. Ákvað að sleppa slíku helst alveg. Ég vil ekki að skrifa örlitla pistla um ekki neitt fyrir fólk sem nennir hvorki að lesa né hugsa og þurfa síðan að útskýra það í löngum þrætum hvað ég var að reyna að segja. Það er semsé ekki af hroka heldur tímaskorti að ég svara helst engum.
10. Heldurðu að netlögga sé nauðsynleg? Ég held að pappalögga sé nauðsynlegri. Ég hélt að við værum að reyna að komast útúr kommúnismanum, ekki dýpra inní hann. Kínverjar dýrka svona gáttaþefsstarfsemi og ganga lengra og lengra í ruglinu. Þetta er í raun svo galin hugmynd að Svíar hljóta að taka hana upp. Síðan Íslendingar. Svo Vestmannaeyjingar.
11. Halda vinsældir bloggsins? Það finnst mér líklegt. Íslendingar hætta aldrei að hafa gaman af því að þræta og þjarka og dylgja og drulla yfir náungann. Ef maður skrifar t.d. um óþurft nagladekkja eða eitthvað svoleiðis þá gæti maður átt von á því að fá þau rök í athugasemdum að heyrst hafi að maður sé dópsali og hryðjuverkamaður. En þarna eru svo líka oft mjög áhugaverðar málefnalegar greinar klárra náunga og ólík sjónarmið sem vegast á og svo eru þarna þráhyggjusjúklingar, samsæriskenningasmiðir, trúarofstækishallelújahopparar og allskonar furðulegir frauðfroskar og svo náttúrulega fólkið sem er ekki rónni fyrr en maður er með það á hreinu hvað það fékk sér í morgunverð, alveg upp á korn. Semsé öll flóran. Bloggið er skrifleg Þjóðarsál. En miðað við hvað það eru ótrúlega margir illa skrifandi þarna þá finnst mér skrítið að einhver málverndunarfasisti skyldi ekki hafa lagt það til á degi íslenskrar tungu að banna bloggið gjörsamlega.
12. Hver er næsta bylting í tölvuheiminum? Tölva sem maður getur sett eitt A4 blað í og prentað beint á það og ef maður gerir vitleysu þá gæti maður þurrkað vitleysuna út með tippexi og prentað svo aftur réttu stafina ofan í. Svona nýjung myndi örugglega rjúka út.
13. Hvers vegna Moggabloggið? Hvers vegna ekki?
14. Hve lengi heldurðu að þú endist í að blogga? Ég er ekkert að hugsa um það meðan ég er að blogga, ekki frekar en að ég er alltaf að hugsa um það hvenær ég muni nú hætta að hugsa þegar ég er að hugsa. Gæti þessvegna misst áhugann á þessu á morgun og hætt. Finnst það reyndar mjög líklegt.
29.11.2007 | 06:11
Íþróttamenn - hommar - sama (tó)pakkið!!
Ég hef soldið verið að hugsa um íþróttir upp á síðkastið af einhverjum ástæðum. Einkennilegt nokk, því það er náttúrulega bara eitt bjálfalegra en að hugsa um íþróttir og það er að iðka þær. En ég hef komist að þokkalegri niðurstöðu og hún er þessi: Menn þurfa að vera verulega kinky og einkennilegir í hugsun til að sjá ekki að íþróttir eru lítið annað en dulbúið kynlíf og að íþróttamenn eru raknir hommar upp til hópa. Það er ekki bara að kynlíf sé íþrótt heldur eru íþróttir kynlíf. Frjálsar íþróttir frjálsar ástir eitt og hið sama. Þetta byrjar á forskólaaldri í köðlunum í leikfimisalnum og þróast svo uppí tæknilegra og ennþá dulbúnara sex. Íþróttir sökka en sumar sökka meira en aðrar. Það er til íþrótt sem sökkar svo svakalega að hún er einfaldlega kölluð sucker. (Stundum skrifað soccer). Skrítið að ferðast með Fokker til að fara að horfa á sucker.
En kíkjum aðeins á þetta. Rugby á tildæmis að heita gasalega karlmannleg íþrótt en er þegar betur er að gáð ekkert annað en hreinn hommaskapur, ef það er á annað borð hægt að tala um hreinan hommaskap. Rugby tottar feitt. Afhverju þarf alltaf einhver asni að glenna út á sér rassgatið og dilla því einsog gulrót framan í samherja sína í upphafi hverrar lotu? Og þegar einn apaköttur er felldur í grasið afhverju þurfa þá allir hinir að koma æðandi í sínum aðskornu rassborunáttbuxum og kasta sér ofan á hann þangað til þetta verður einsog mauraþúfa? Síðan hvenær hefur þurft 10 menn til að halda einum niðri? Aldrei. En það þarf auðvitað fleiri en tvo í hópsex. Þetta alltsaman verður fyrst skiljanlegt í ljósi þess að þarna eru spólgraðir hommar á ferð. Þegar maður fattar það þá segir maður í uppgötvunartóni við sjálfan sig: Jááá, auðvitað, þetta eru svona hommadindlar. Hvernig læt ég. Afhverju fara ekki fleiri en bara 10 uppá hann? Hverskonar væsklar eru þetta? Jááá, auðvitað. Þetta eru hommar.
Box þykir sömuleiðis alveg gríðarlega karlmannleg íþrótt en er þó lítið annað en dulbúinn hommaskapur. Hvað er hommalegra en 2 sveittir massaðir bjánar í stuttbuxum og faðmlögum? Getur einhver sagt mér það? Alltaf að vingsa höndunum óvart undir beltisstað. Ekkert vafasamt, neinei. Stundum eru heilu leikirnir ekkert annað en faðmlög og kjass og káf og eyrnanart. Sumir boxarar koma útúr hringnum (hringinum einsog Bubbi segir) með fleiri sogbletti en kjaftshögg. Ægilega karlmannlegt. Það er nú meira. Þetta eru hommar. (Annað mál: Boxhringurinn er eini hringurinn sem er ferhyrndur). Lýsingar Ómars Ragnarssonar á Sýn eru dæmigerðar fyrir andann sem svífur yfir vötnum:
Hann er alveg svakalega fallegur þessi. NEI, sjáiði brjóstkassann á honum. Vááááá! Það er ekki til arða af fitu á skrokknum á honum. Og lærin maður! Sjáiði lærin maður! Hann hlýtur að vera með rosalega stinnan rass líka. Ég er kominn með bóner. Haldiði að það væri ekki dúndur að fá að taka þennan í fjósið? VÁÁÁ!
Á þessum nótum eru lýsingar hans. Hann er að lýsa boxi en þó fyrst og fremst eigin kynórum. Box er fyrir kellingar, karlkyns kellingar. Það er ekki flóknara en það.
Hafnarbolti. Í þessari íþróttagrein fer augljósasta viðreynsluaðferðin fram. Leikmennirnir klóra sér án afláts í hreðjunum allan tímann meðan á leiknum og þeim sjálfum stendur og þarafleiðandi má gera gera ráð fyrir að þeir klóri sér ennþá meira í kakóinu að sturtu lokinni ef dæmið gengur upp. Semsé: Drullupumpuíþrótt út í gegn.
Ballet getur varla talist íþrótt og þaðanafsíður listgrein en flestir geta ímyndað sér hverskonar týpur sækja í þetta pungbindasprikl. Smá hint fyrir andlega öryrkja: Þeir sem ekki eru sundlaugaverðir, flugþjónar eða hárgreiðslumenn eru í ballet. Einhverju nær?
En höldum okkur við alvarlegar íþróttagreinar. Glíma. Það er nú eitt. Hommaskapur í öllum sínum náttfötum. Tveir spýtukallar að nugga lærunum uppvið punginn hvor á öðrum. Aumkunarvert og fíflalegt í senn. Og hvor um sig reynir að leggja hinn flatan. Allan tímann eru þessir asnar að toga í belti hvors annars einsog þeir eigi í gríðarlegum erfiðleikum með að halda buxunum uppum sig og það er auðvitað asnalegt og bælt í ljósi þess að maður veit að þeirra æðsta ósk er að vera með allt niðrum sig. Það er eitthvað stirðbusalegt og beljulegt við þennan dulbúna hommaskap enda séríslenskt fyrirbrigði. Þetta er svona viðreynsla framsóknarhommans. Ekki hægt að horfa edrú á þessa vitleysu.
Ekki frekar en júdó, sem verður að teljast einhver ömurlegasta hommaíþrótt í heimi. Meiraðsegja Gunnar á Krossinum gæti ekki afhommað júdókappana og þá er nú fokið í flest skjól. Það er vægast sagt frekar dasað að horfa á karlmenn veltast um gólf í grenjandi greddu og losta undir því yfirskini að hér sé um merkilega íþrótt að ræða. Munurinn á þessu rugli og leðjuslag er að leðjuna vantar. Það er allt og sumt. Þetta er ekkert annað en pjúra pornó. Soft pornó að vísu en pornó engu að síður. Hommapornó. Þetta er kattliðugt pakk sem getur komið sér í fáránlegustu stellingar, getur vafið löppunum marga hringi utanum háls andstæðingsins (gólffélagans) einsog eiturslöngur þannig að klofið nemi við smettið á honum. Svo er honum haldið þannig föstum í nokkurn tíma og alveg örugglega hvíslað frygðarlega í eyrað á honum á meðan: Finnst þér þetta gott? Fyrir svona sexshow eru menn að fá medalíur á Ólympíuleikum. Ef það er ekki svartur blettur á vestrænni siðmenningu þá er ég Sóley Tóma eða Kolrugluð Halldórsdóttir. Þessir delar eru yfirleitt hvítklæddir og það er náttúrulega bara til þess að tryggja að það sjáist örugglega ekki þegar þeir fá úr´onum.
Fleiri íþróttagreinar má nefna. Tildæmis sund. Hvað er sund annað en átylla fyrir perverta til að fara í sturtu með fólki af sama kyni. Þeir þora ekki að spyrja manninn á götunni beint: Hvað segirðu, þú ert með ansi ræktarlega bringu eigum við kannski að koma í sturtu saman? og þessvegna fara þeir í laugarnar og fóðra þar sitt óeðli undir yfirskini sundáhuga. Þetta sjá nú allir menn.
Handbolti er sömuleiðis svo augljós hommaíþrótt að það tekur því varla að nefna hana. Fylgist bara með hreyfingunum en þó aðallega þreifingunum í vörninni. Maður gæti haldið að þeir ynnu allir hjá Fróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna. Þessi íþrótt ber sannarlega nafn með rentu: Handballs. Viðurstyggð.
En ekki er fótboltinn skárri. Fótbolti er þvílíkur grenjandi öfuguggaháttur að það er leitun að öðru eins svínaríi á þessum hnetti. Menn eru fyrst og fremst í fótbolta til þess að stjúka rassinn á samherjum sínum þegar þeir hafa skorað. Þarf að ræða það eitthvað frekar? Stundum eru þessir kúkalabbar orðnir svo kynferðislega æstir þegar ekkert mark hefur verið skorað í langan tíma að loksins þegar einhver setur hann inn, semsé boltann í netið, þá ráðast þeir á hann slefandi og leggja hann flatan á jörðina og fara að kyssa hann og kjassa og strjúka hann allan hátt og lágt og riðlast á honum í hópum einsog kanínur. Það eru engar kanónur í fótbolta einsog íþróttafréttamenn eru svo gjarnir að klifa á heldur eingöngu kanínur. Hommakanínur. Og hvað er það fyrsta sem asnasparkari gerir þegar hann er búinn að skora? Jú, hann rífur sig úr skyrtunni í tryllingslegum ástarbríma til að gera snertingarnar nánari þegar félagarnir skutla sér á hann. Þetta ber allt að sama brund...brunni. Þegar andstæðingurinn á aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig þá safna þeir sér þétt saman og halda um slátrið á sér. Hálfvitar. Þeir eru ekki að passa á sér hausinn. Nei, þeir þurfa ekkert á honum að halda í fótbolta. En slátrið þurfa þeir að vera með í lagi ef þeir eiga að geta fengið eitthvað kikk útúr leiknum. Þessir asnasparkarar eru allirsaman saurþjöppur fram í fingurgóma og ættu að fara í lögformlegt umhverfismat.
Það má undrun sæta að sjálft Ríkissjónvarpið, sem dembir yfir okkur ótrúlega svæsnum spænskum dökkbláum myndum allar helgar, árið um kring, einsog t.d. Forrest Cunt og Hrafninn sýgur, skuli í þokkabót ausa íþróttaóhroða yfir "blá"saklaus börnin og það um hábjartan og blábjartan dag. Ég, sem góður og gegn skattborgari, ímynd siðgæðis og tandurhreins hugarfars, ætla að ganga í Vinstri Grænbláa og fara fram á það við Ríkissjónvarpið (Bláskjá) að það hætti tafarlaust að sýna þessar viðbjóðslegu sportklámmyndir. Látum ekki klámið ríða okkur - á slig.
Rokrassgatið kveður.
(Skrifað árið 2000)
Dægurmál | Breytt 1.12.2007 kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (53)
27.11.2007 | 13:13
Kærleikurinn
Kristur sagði: "Sannur kærleikurinn
sálunni lyftir.
Án kærleika eruð þér útskúfaðir delar,
eilífð sviptir.
Án kærleika eruð þér vítis furðufuglar
fjaðraklipptir."
Hví skapaði drottinn minnst af því sem mestu
máli skiptir?
(Úr ljóðabók minni "Með ósk um bjarta framtíð," 1997)
Dægurmál | Breytt 29.11.2007 kl. 06:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
22.11.2007 | 10:54
RÁÐHERFA
Ég sting hér með uppá orðinu ráðherfa fyrir öfgafemínur sem geta ekki með nokkru móti sætt sig við starfsheitið ráðherra.
Fyrir nokkrum árum gaf ég út frumsamda nýyrðabók þarsem ég lék mér að því að gefa þekktum orðum nýja merkingu jafnframt því að smíða ný. Minnir að ég hafi t.d. notað orðið senditík yfir sendiherra og orðið flygill yfir flugmenn og orðið bíldælingur yfir afgreiðslumann á bensínstöð og orðið andlitsdráttur yfir munnmök og orðið VitGrannir þýddi Vinstri Grænir. Þetta var náttúrulega allt hugsað sem djók, ekki "uppnefni," - vildi teygja aðeins á tungunni, fara í sleik við íslenska tungu, taka orðin á orðinu. Fjölmörg nýyrðanna náðu að festast í málinu og er það vel. Man ekki hvað ég kallaði ráðherra eða alþingismenn. Get birt úrdrátt úr þessari bók við tækifæri ef ég nenni því. Allavega gerði ég 1 stykki málshátt um yfirvaldið sem birtist í málsháttabók sem ég gerði og hann var svona: Betra er að ráða menn með réttu ráði en ráðamenn. Dettur þessi málsháttur oft í hug þegar ég hlusta á þá.
Þegar Steinunn Valdís var borgarstjóri þá talaði hún aldrei um sig sem borgarstýru af einhverjum ástæðum, líklegast þótti henni það ekki nógu virðulegt, en núna vill hún að tekið verði upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geti borið. Kannski er við hæfi að þessi tillaga hennar komi upp núna því það eru ekki margir klukkutímar síðan ný femínísk biblíuþýðing leit ljós dagsins þar sem alfaðirinn almóðirin var leiðrétt og systrum troðið við hliðina á bræðrum og karlkyni breytt í hvorugkyn þar sem því var viðkomið til að bókin yrði á máli beggja kynja og til að guð myndi ekki móðga femínur.
Karlar hafa hingaðtil ekki viljað láta kalla sig frúr, meyjur, freyjur, konur og mæður o.s.fr. og hafa verið snöggir að breyta starfsheitum sem bera slíkar endingar þegar þeir hafa farið í kvennadjobb án þess að hafa farið fram á hina femínísku geldingu tungumálsins að Bæði kynin verði að geta borið starfsheitin einsog Steinunn fer fram á. Þeir kallast t.d. ekki flugfreyjur heldur flugþjónar og flugþjóar, ekki skúringakellingar heldur ræstitæknar eða tuskubellir, ekki vændiskonur heldur gígalóar (gígalókar) o.s.fr. Enginn karl myndi segja aðspurður um starfsheiti: Ég er súludansmey heldur myndi hann segja stoltur: Ég? Ég er strippari, nú eða: Ég er tippari, nú eða: Ég er punglingur.
Ég get þessvegna vel skilið að konur vilji ekki láta kalla sig herra, jafnvel þó þær hafi gert allt til að líkjast þeim; farið að ganga í buxum, ganga í jakkafötum, klippt hár sitt stutt og eiginlega gert allt nema að láta sér vaxa tippi. Það vantaði bara að þær vildu láta kalla sig herra, þannig að ég er í bland svolítið hissa á þessu.
Ef konum finnst svona niðurlægjandi að vera titlaðar ráðherrar og vilja kalla sig eitthvað annað, einsog t.d. ráðfreyjur, ráðstýrur, ráðynjur, ráðfrúr, ráðskonur, óráðskonur nú eða ráðherfur, þá bara gera þær það. Það er enginn sem bannar þeim það, ekki frekar en nokkur bannaði þeim að kalla sig þingkonur. Nú ef að breytingar þeirra ná fótfestu í tungumálinu þá er það gott og blessað. Tíminn er besti dómarinn. Þær þurfa ekki að hlaupa upp til handa og fóta og setja allt á annan endann með stjórnarskrárbreytingum og lagabreytingum og ráða og nefndaskipunum og einhverju svakalegu ekkisens pípi, og þær þurfa allsekki að reyna að þvinga karla til að breyta sínu starfsheiti sem er einfaldlega ráðherra. Varla vilja femínur ráða starfsheitum karla líka? Jú greinilega. Ætti að vinnast þeim létt úr því þær náðu að gelda "orð guðs" (gauðs).
Tungumálið á að fá að þróast áreynslulaust án þvinganna, reglugerða, valdboða, femínisma og fasisma. Einfalt mál.
Margrét Pála skólastjóri Braggabarna, eða hvað hann heitir nú þessi kynskipti leikskóli hennar, vildi allsekki bera karlkyns starfsheitið skólastjóri og tók upp á því að kalla sig skólastýru, sem er bara hið besta mál. Það þurfti ekkert húllumhæ í kringum það - það þurfti ekkert að kveikja á kertum eða slátra geit eða að breyta stjórnarskránni eða lögum eða einu eða neinu, - bara starfsheitinu. Og núna líður henni miklu betur og kemst í mun nánari snertingu við konuna í sér og lifir mun betra Móðurlífi og allir eru gasalega happy. Þetta eiga náttúrulega konur að gera sem fíla Kurt Russel afturábak.
Enginn hefði bannað Steinunni að kalla sig borgarstýru á sínum tíma ef hún hefði kært sig um. Ef kvenkyns leigubílstjóra hryllir við því að kallast leigubílstjóri og vill fyrir alla muni kalla sig leigubílstýru þá bara gerir hún það. Hún þarf ekkert að kalla til einhverja töframenn og sverðgleypa. Ef einhver karlkyns ljósmóðir er með niðurgang af áhyggjum yfir starfsheiti sínu þá þarf hann ekki annað en að kalla sig ljósfaðir eða ljósálf eða whatever og málið er dautt. Ef einhver kvenkyns asni vill ekki fyrir nokkurn mun láta titla sig asna í símaskránni heldur ösnu þá er það ekki vandamálið. No problem.
En hversvegna nær þessi tillaga Steinunnar aðeins yfir æðstu stöður, yfirstéttarstöður, tignarstöður svosem ráðherra og sendiherra en ekki venjuleg valdalaus almúgastörf svo sem strætóbílstjóra og skipamellur? Eru tengslin alltaf að minnka og minnka við raunveruleikann og við það fólk sem hún starfar í umboði fyrir? Varla þyrfti að eyða tíma þingsins og breyta stjórnarskránni og lögum ef kvenkyns strætóbílstjórar vildu kalla sig strætóbílstýrur.
Tungumálið finnur sér farveg án valdboðs. Alltaf best að leyfa vatninu að renna niður í móti.
Þessi þingsályktunartillaga Steinunnar og félaga kemur auðvitað nokkrum áratugum of seint einsog við var að búast, því starfsheitið ráðherra er nefnilega orðið gjörsamlega rótgróið í málinu sem kynlaust orð í hugum þokkalega heilbrigðs fólks sem hugsar ekki alla skapaða og óskapaða hluti útfrá femínískum kynjaþrætubókarfræðum, enda hefur engum kvenkyns ráðherra dottið í hug að amast yfir þessu heldur lagt því meiri áherslu á að sinna starfi sínu einsog maður kona.
Vigdís Finnbogadóttir fór t.d. ekki á taugum yfir því að vera titluð forseti en ekki forseta. Hún var reyndar stundum ávörpuð frú forseti sem var svolítið einkennilegt en hún fór ekki fram á að vera ávörpuð frú forseta, líklegast vegna þess að það hefur minnt of mikið á orðið klósettseta.
(Annars er orðið for-seti náskylt orðinu klósettseti í grunninn að því leiti að þar gæti verið um einhvern að ræða sem situr í for, - semsé í djúpum skít).
Ingibjörg Sólrún hefur heldur ekki kvartað mikið yfir því að kallast forMaður Samfylkingarinnar. Steinunn Valdís og aðrar öfgafemínur vilja líklegast kalla hana forynju Samfylkingarinnar og þá bara gera þær það. Ekki málið.
Steinunn Valdís er svolítið seinheppin í þessu vafstri sínu vegna þess að hún misskilur orðið ráðherra nánast fullkomlega. Ef við gefum okkur að konur (að femínistum undanskyldum) séu samþykkar því að þær tilheyri ekki bara kvenkyninu heldur mannkyninu og þoli jafnvel að láta kalla sig menn, þá er það nú svo að orðið ráðherra merkir ekki karl heldur einfaldlega yfirmaður / yfirkona, yfirvald, boss, þ.e.a.s. manneskja sem fer með vald ráðuneytis. Ekki mjög flókið. Því væri auðveldlega hægt að segja ef Steinunn væri yfirvald: "Hún Steinunn er minn herra," þ.e.a.s. hún fer með húsbóndavaldið. (Ekki húsbóndakonuvaldið). Ég trúi ekki að það þurfi einhvern Einstein til að skilja þetta.
Þegar talað er um herraþjóð þá er ekki átt við þjóð sem karlar einir tilheyra, heldur valdaþjóð, drottnandi, leiðandi yfirvaldsþjóð, aðal mambóið.
Svo má nefna að Herranótt (leikhátíð M.R) er ekki eingöngu ætluð körlum heldur báðum kynjum, semsé mönnum. (Skrítið að femínur skulu ekki vera búnar að breyta þessu í Frúanótt).
Ef að orðið herra þýddi eingöngu karl þá væri ekkert til sem héti herramaður. Eða hefur einhver heyrt orðið frúkona? Hinsvegar er ekkert því til fyrirstöðu að nota orðið herrakona í merkingunni valdakona þó það kunni að virðast skrítið við fyrstu sýn.
Steinunn getur því alveg sofið rótt og sleppt því að sólunda peningum skattborgara og mikilvægum tíma í að skipa nefndir og ráð og óráð til að finna nýtt gasalega fínt virðulegt starfsheiti ráðherra sem bæði kyn geti borið. Þetta orð er nefnilega til nú þegar og það er orðið: Ráðherra.
Ég segi einsog Pétur Jóhann Sigfússon í Næturvaktinni: Þarf að ræða þetta eitthvað frekar...?
Já, það virðist vera. Þetta virðist vera eitthvað svakalega flókið.
Þar sem ég veit að femínur neita að skilja þetta og munu halda áfram að berja hnetunni við steininn þá sting ég semsé hér með uppá orðinu ráðherfa. Miðað við allt dellumeikið í VitGrönnum og öðrum harðlínufemínum þá kæmi mér ekki á óvart að þetta orð verði framvegis notað yfir kvenráðherra: Ráðherfa.
Sem er eiginlega synd því að orðið ráðherra er alveg fyrirtaks starfsheiti sem bæði kynin ættu að geta borið með reisn, ef hún væri til staðar.
Virðum MÓÐURmálið.
Herramaðurinn kveður.
Dægurmál | Breytt 24.11.2007 kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (129)
15.11.2007 | 11:28
"Við búum í hræðilegri drengjaveröld!"
Las frekar kátbroslegt viðtal í DV í gær við Guðnýju Halldórsdóttur fórnarlambafemínista. Má til með að benda á þetta þar sem svo margir eru hættir að lesa þetta ágæta blað. Fyrirsögnin var feitletruð og hjartastöðvandi: BÚUM Í HRÆÐILEGRI DRENGJAVERÖLD. Ég missti úr nokkur slög því þarna var greinilega einhver glænýr hrottalegur sannleikur á ferðinni, einhver skelfileg nýuppgötvuð martröð. Ég þræddi mig í gegnum viðtalið og þar sagði hin þrautpínda og kúgaða kvikmyndagerðarkona orðrétt í tilefni þess að hún fékk "Íslensku bjartsýnisverðlaunin," en þau verðlaun eru veitt framúrskarandi jákvæðu fólki:
Við BÚUM Í HRÆÐILEGRI DRENGJAVERÖLD, það sá ég best um daginn þegar ég var að tala við kvikmyndanemendur í Menntaskólanum í Reykjavík, það var 31 drengur í valfagi í kvikmyndum og ekki ein einasta stúlka.
Einmitt. Æjæ. Helvítis karlaveldið alltaf með yfirgang og andlegt ofbeldi. Drengir eru nú ljótu djöfulsins óþverrarnir. Þeir eru svo mikil ómenni að það er engu lagi líkt, traðka yfir allt og alla og það sem verra er: þeir hafa af einhverjum ástæðum meiri áhuga á listsköpun en dömur. Hryllingur að heyra. Er ekki hægt að gera eitthvað femínískt og gáfulegt í þessu? Er ekki hægt að setja hinn greindarlega kynjakvóta á þetta hörmulega VALfag, kvikmyndagerðina? Fara fram á að stelpur séu lágmark 50% í þessu fagi?
Ef okkar góði fórnarlambafemínisti Guðný Halldórs er að kvarta yfir áhugaleysi kvenna á þessari listgrein þá er það svolítið einsog óp útí loftið því maður þvingar ekki fram áhuga á einu eða neinu hjá einum eða neinum, hvorki hjá körlum eða konum, en ef það vill svo til að karlar, hinir hræðilegu drengir einsog hún kallar helming mannkyns, hafa áhuga á þessari grein lista, þá hlýtur það bara að vera hið besta mál. Þar sem þetta er VALfag hversvegna orðar hún þá ekki staðhæfinguna í takt við raunveruleikann, án femíniskrar rökleysu, t.d. eitthvað á þessa leið:
Við búum í hræðilegri veröld þar sem stelpur hafa engan áhuga í kvikmyndagerð.
Og ef henni finnst konur vera ragar við þetta VALfag, hversvegna sagði hún þá ekki einfaldlega:
Við búum í hræðilegri kvenaulaveröld.
Forréttindafemínistinn og fórnarlambafemínistinn, - þessi manntegund, fyrirgefið, kventegund, á það til að túlka umhverfið allt og heiminn allan sem aðsúg að sér og árásir á sig og allar sínar heilögu sjálfmiðuðu kvenlægu skoðanir.
Það er ekki drengjum að kenna að þeir skulu hafa brennandi áhuga á kvikmyndagerð og séu í afgerandi meirihluta í þessu VALfagi MR og að stelpur séu þar 0%. Það er enginn að binda stelpurnar niður og kúga þær. En það er jú vissulega drengjum og karlmönnum "að kenna" að þeir skulu hafa gert yfir 97% allra kvikmynda í heiminum frá upphafi fyrir utan náttúrulega að finna upp kvikmyndavélina sjálfa og öll þau tæki og tól viðvíkjandi kvikmyndagerð sem Guðný er að nota, þessi ágæti fórnarlambafemínisti sem lifir í hræðilegri drengjaveröld.
Hinir hræðilegu drengir eru einfaldlega svolítið frjóir sumir hverjir og uppfinningasamir og forvitnir og ofvirkir og kjarkaðir og testósteronpakkaðir og hræðilega áhugasamir um gangverk listanna og tilverunnar og þessvegna er nú mannkynið kannski ekki lengur inní hellum. Guði eða einhverjum sé lof fyrir óþæga, hræðilega drengi, einsog tilaðmynda Halldór Laxness sem átti sinn þátt í að skella okkur Íslendingum inní 20stu öldina. Mætti ég biðja um fleiri slíka óforbetranlega hræðilega drengi.
Smá útúrdúr: Fyrir 10 árum eða svo var ég svo frægur að skrifa fyrstu mótmælagreinina gegn femínisma í íslenskt blað (og líklegast þá síðustu), nánar tiltekið í DV, þar sem ég gagnrýndi forréttindafemínista fyrir að vilja hafa jafnréttið sín megin og tiltók fjölmörg dæmi máli mínu til stuðnings. Þar hæddist ég tildæmis pínulítið að konum fyrir að vilja gera svo lítið úr sjálfum sér að hafa huglægar (líkamskraftlausar) íþróttagreinar einsog t.d. skák, bridge, snooker o.fl. íþróttagreinar deildarskiptar, semsé í karla og kvennadeildir. Fannst það hlálegt og finnst það enn hlálegt fyrir kvenna hönd. Lítilsvirðandi fyrir þær sjálfar. Hélt þær vildu keppa við karla á jafnréttisgrundvelli þegar líkamskröftunum sleppti. Hversvegna berjast ekki femínistar fyrir jafnrétti á Öllum sviðum? Líka á sviðum andlegra íþrótta? Augljóst. Kemur þeim illa. Afsaka sig eflaust með því að segja að konur séu svo fáar á þessum sviðum rökhugsunar. En afhverju eru þær svona fáar á þessum sviðum? Svar: Áhuginn leiðir gáfurnar og öfugt.
Ég nefndi t.d. þarna í þessari grein minni að Polgarsystur væru einu stelpurnar á topp 100 listanum yfir bestu skákmenn heims (nálægt 40 sæti og aðrar 8 á topp 500) þrátt fyrir áratuga skákkennslu kvenna í austantjaldslöndunum og so videre. En þetta er vonandi allt að koma einsog Hallgrímur Helga myndi eflaust dæsa glottandi. Ég fékk að sjálfsögðu engin rök á móti máli mínu en því meira af svívirðingum og dylgjum og óhróðri. Ég bjóst vitaskuld við því frá okkar ágætu fraukum þar sem þær tóku þessum upplýsingum að sjálfsögðu sem persónulegum árásum, en það kom mér pínupons á óvart að ekki einn einasti karl skyldi hafa staðið upp og varið skoðanir mínar og sínar, en margir hvísluðu því að mér í samkvæmum að þeir væru mér hjartanlega sammála, en ég mætti í guðs bænum ekki láta það fara lengra. Svona voru nú íslenskir karlar blauðir og bældir og langt inn í sér í þá tíð þrátt fyrir meðfætt lúbarið testósteronið og kannski eru þeir það ennþá. Hef ekki hugmynd um það og er nokk sama.
Hefur einhver kona barist fyrir því að hlutdeild kvenna í naglhreinsun eða byggingariðnaði eða öðrum líkamskraftlausum störfum verði aukin? Nei. Þær nenna þessu ekki. Ekki nógu fínt. Of erfitt og leiðinlegt þó þetta séu í raun kvenmannsverk ekki síður en karlmannsverk. Þær vilja stjórnunarstöður, Valdastöður, hafa jafnréttið sín megin, vilja kynjakvóta, jákvæða mismunun - en samt "jafnrétti."
Mismunun getur aldrei undir nokkrum kringumstæðum verið jákvæð og jafnrétti getur aldrei náðst með mismunun. Geta, menntun og hæfileikar eiga að vera í forgrunni, ekki ætterni eða klíka og síst af öllu kyn.
Úr því harðlínufemínistar eru svona hrifnir af kynjakvóta hversvegna er þá Mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar eingöngu skipuð konum - 5 konum og engum karli? Skandall. Það er vegna þess að femínistar eru ekki að berjast fyrir mannréttindum heldur kvenréttindum, forréttindum, sérréttindum. Þeir líta ekki á sig sem menn heldur fyrst og fremst konur. Þeim finnst þeir ekki tilheyra mannkyninu heldur kvenkyninu og líta á karlkynið sem óvini sína. Það eina sem femínistar eru að gera með öllum þessum óréttlætiskröfum sínum og leiðinda aðskilnaðarbrambolti er að eyðileggja fyrir kynsystrum sínum sem í miklum meirihluta eru ekki plagaðar af minnimáttarkennd, og þeir eru að láta hinn dæmigerða sanngjarna og réttlætissinnaða karlmann fá nístingskaldan hroll og eiturgrænar bólur þegar hann heyrir minnst á hið sakleysislega orð femínismi. Ég þykist vita að femínistar séu ekki í vinsældakosningum frekar en ég hef nokkurntíma verið en halda þeir virkilega að sigur réttlætis fáist með óréttlæti? Ég held ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég segi að orðið femínismi standi í dag í hugum fjöldans fyrir ranglæti, óbilgirni, dellu og forréttindi en ekki réttlæti, réttsýni og jafnrétti einsog til stóð í upphafi. Kannski hef ég rangt fyrir mér en ég efa það. (Sjá: skoðanakönnun hér til vinstri á síðunni).
Launamisrétti kynjana ber að sjálfsögðu að leiðrétta ekki seinna en Strax en það er með öllu óskiljanleg hversvegna konur vilja gera svo lítið úr sér og setja sig niður á svona lágt plan að heimta hinn tröllheimska kynjakvóta í stjórnun fyrirtækja, - jákvæða mismunun. Þær segja eflaust að þetta sé EINA leiðin, en þetta er fyrst og fremst LÉTTA leiðin, og létta leiðin er án nokkurs vafa ekki RÉTTA leiðin.
Við áttum fyrsta kvenforseta heimsins, við höfum átt konur sem borgarstjóra, konu sem forseta hæstaréttar og konu sem forstjóra í einu stærsta fyrirtæki landsins og við eigum konur sem ráðherra og af tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins þá er í öðrum flokknum kona sem formaður og hinum kona sem varaformaður, þær hafa semsé öll tækifæri á við karla, sem betur fer, og hafa nýtt sér þau sem vera ber, en ennþá eru konur, árið 2007, hágrenjandi útum allan bæ yfir "karlaveldinu" og hvað karlpungarnir séu hræðilega vondir við þær og kúgi þær hrikalega. Efast um að Svandís Svavars og slíkar kraftakonur nenni að hlusta á þvílíkt píp, jafnvel verandi í Vinstri grænum.
Ekki má gleyma að stjórnmálaforingjar undanfarinna ára og talentþefarar þeirra hafa verið manna duglegastir við að ýta á bossann á konum og reynt að peppa þær upp, þó ekki væri nema til að bæta ímynd flokks síns og sýna að flokkur þeirra sé líbó og töff, en þessi góða viðleitni og áreynsla þeirra hefur verið einsog og að ýta á eftir stöðnum uxa í steypuskóm því óákveðni og ragmennska greyið kvennanna hefur oft og tíðum verið með þvílíkum ólíkindum að foringjunum hafa hreinlega fallist hendur. En nokkrar áræðnar konur hafa tekið slaginn einsog t.d. íþróttakonan og testósterontröllið Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og er það vel.
En hvernig fór ekki fyrir Kvennalistanum. Honum var 100 sinnum boðið í ríkisstjórn en var endalaust með haltumérslepptumér hringlandahátt undir yfirskyni pólitískrar ábyrgðarsemi. Þorði ekki að hreyfa sig úr stað og drapst að lokum úr kjarkleysi, sundrung og heimsku. Gamla góða testósteronið að sjálfsögðu í frostmarki einsog fyrri daginn. Eina manneskjan sem hafði manndóm kvendóm í sér til að rífa sig uppúr þessu drullusvaði kvenlegs mannlegs gauðsháttar var Ingibjörg Sólrún og var húðskömmuð af flokksystrum sínum fyrir vikið næstu árin á eftir.
Aftur að Guðnýu Halldórsdóttur. Ef það kæmi uppúr dúrnum að venjulegir "hræðilegir drengir," einsog hún segir að veröld okkar sé uppfull af, hefðu ekki áhuga á að velja sér kvikmyndagerð sem VALfag í menntaskóla, og stelpur væru þar í afgerandi meirihluta, væri þá gáfulegt af mér að segja í viðtali: "VIÐ BÚUM Í HRÆÐILEGRI KVENNAVERÖLD." Hvað myndu feministar segja við slíkum orðum á þessum pólitísku rétttrúnaðartímum? Hvað myndu þeir gera? Ég yrði brenndur á báli. En það er í lagi að Guðný segi þetta vegna þess að hún segir þetta um karlpeninginn. Og hún er jú kona. Allir eiga að vera konur í dag. Ekki ég. Sorrý. Ég ætla að halda áfram að vera "hræðilegur drengur."
(Minni á skoðanakönnunina hér til vinstri)
Dægurmál | Breytt 16.11.2007 kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (112)
10.11.2007 | 13:22
Má bjóða þér Edduverðlaun?
Eitt af skringilegustu fyrirbrigðum íslenskrar menningar eru íslensku kvikmynda og sjónvarpsverðlaunin, semsé Edduverðlaunin, sem verða veitt n.k. sunnudag. Hér á landi er svo lítið framleitt af sjónvarpsefni og svo fáar myndir gerðar árlega að duglegt kvikmyndafólk má heita fáránlega óheppið ef það fær ekki verðlaun. Það eru t.d. tilnefndar þrjár myndir í flokknum bíómynd ársins og það voru kannski bara þrjár myndir framleiddar á árinu. Þetta er svolítið einsog að velja gáfaðasta mann ársins og það eru aðeins þrír sem koma til greina, - þeir Gísli, Eiríkur og Helgi. Mynd sem kosin er besta myndin þarf ekki að vera góð mynd. Hún þarf bara að vera íslensk.
(Íslensku Tónlistarverðlaunin eru ekki sambærileg þar sem fleiri hundruðir titla koma út á hverju ári, en sú hátíð er hinsvegar fötluð að því leiti að þar er plantað í dómarasæti Eiði Arnarsyni útgáfustjóra Senu, stærsta tónlistarútgáfufyrirtækis landsins, sem er svona álíka greindarlegt og hlutlaust og að fara að setja forstjóra Paramount í Oscarsverðlaunaakademíuna. Gerist ekki íslenskara og þroskaheftara).
Úr því enginn vill klappa íslenskum kvikmyndagerðarmönnum á bakið þá er svo sem allt í lagi mín vegna að þeir geri það sjálfir. Þetta er áræðanlega skemmtileg hátíð því þarna eru svo gott sem allir tilnefndir til verðlauna sem hafa með einhverjum hætti komið nálægt kameru á árinu: Leikarar, aukaleikarar, fréttaaukaleikarar, sjónvarpsfréttamenn, veðurfréttamenn, klipparar, nefháraklipparar, skriftur, símadömur, ræstitæknar, bókhaldssérfræðingar, húsverðir o.s.fr. og flestir fara út með verðlaun fyrir vel unnin störf. Ég segi ekki endilega vel unnin störf en allavega unnin störf, og allir fara glaðir út, allavega góðglaðir, og það er kannski ekki svo lítill hluti af leiknum.
Að sjálfsögðu eru veitt verðlaun fyrir besta leikna sjónvarpsefnið því það er nefnilega svo gríðarlega mikið um leikið sjónvarpsefni hér á landi, bókstaflega allt fljótandi í íslenskum þáttaröðum, menningarlegum menningarlegnum menningarleiknum sjónvarpsseríum og sápuóperum og framhaldsþáttum og guð má vita hverju. Lágmark ein stytta á mann - í hausinn. Ríkissjónvarpið hefur ekki nema um 3 milljarða í nauðungaráskriftargjaldaforskot á hinar stöðvarnar svo það er ekki nema von að flest leikið efni komi frá Stöð 2 og Skjá 1. (Sem betur fer ætlar Björgólfur Guðmundsson að styrkja Ríkissjónvarpið enn frekar til innlendrar dagskrárgerðar og það er þá líklega í eina skiptið sem borgari styrkir ríkið í samkeppnisrekstri við einkaaðila. Nú eigum við semsé á hættu að Spaugstofan lengist í 30 mínútur eða að Randver verði endurráðinn!!)
Í bíómyndabransanum eru kannski um 100 fastamenn sem koma með einum eða öðrum hætti nálægt öllum íslenskum myndum sem eru gerðar og þeir hljóta allir að vera búnir að fá verðlaun, og því sé ég ekki alveg tilganginn með því að halda þessum leik mikið lengur áfram þó hann sé ekki endilega verri en sá leikur sem verið er að veita verðlaun fyrir.
Fyrstu árin voru ekki veitt Edduverðlaun fyrir besta handrit, og það er kannski skiljanlegt þegar nánar er að gætt, en ég þori nokkurnveginn að lofa að Eddan hafi til skamms tíma verið eina kvikmyndahátíðin í heiminum sem sá ekki ástæðu til að veita verðlaun fyrir handrit. Hélt að allir vissu að gott handrit væri grunnur góðrar myndar, en þó að flestir hafi alltaf vitað þetta þá vissu íslenskir kvikmyndasérfræðingar þetta ekki fyrr en fyrir fáeinum árum og þessi nýi skilningur verður vonandi til þess að ennþá betri myndir verði gerðar hér í framtíðinni.
Það má auðvitað margt gott um þessa hátíð segja, t.d. hvetur hún menn til dáða, hmm, og þarna geta íslenskir leikarar fengið það á tilfinninguna að þeir kunni að leika, og sú tilfinning er örugglega betri en sú sem þeir hafa fyrir leiklist. Því auðvitað verður að segjast einsog er að þó að íslenskur ofleikur geti virkað þokkalega á sviði þá dettur hann yfirleitt dauður niður í bíómynd og getur á stundum framkallað svo heiftarlegan hausverk og svo skelfilega ógleði og ólýsanlegar iðrakvalir að allt það popp og allt það kók sem maður innbyrði sæll og glaður í upphafi sýningar stendur uppúr manni einsog strókur niðrá klósetti í hléi.
En vissulega eru til nokkrir mjög góðir leikarar hér á landi, einsog t.d Hilmir Snjór Guðnason sem hefur reddað margri myndinni og mörgum áhorfandunum frá bráðum bana, og ég segi Margri myndinni, því ég man ekki í svipinn eftir neinni íslenskri mynd undanfarin 60 ár sem hann hefur ekki leikið í, en hann getur náttúrulega ekki reddað misgóðum samleikurum sínum.
Þegar ég sé illa leikna mynd þá blóta ég yfirleitt leikstjóranum því endanleg útkoma verksins er náttúrulega á hans ábyrgð, en samt eiginlega vorkenni ég honum í bland, því hvernig á hann að fara að því að breyta svínum í veðhlaupahesta? Ég hef það nefnilega einhvernveginn á tilfinningunni að margt liggi betur fyrir Íslendingum en að leika og standi þeim nær, - t.d. að gera við sprungna hjólbarða, sjóða ýsur og sendast með pizzur, svo dæmi séu tekin.
Í bandarískum bíómyndum er algengt að sjá þriggja, fjögurra ára krakka leika betur og eðlilegar en fjörgamla íslenska leikara með próf úr öllum skólum, hvernig sem á því getur staðið. Í erlendum myndum hef ég meiraðsegja séð hunda og kétti og kengúrur leika betur en margan íslenskan sprenglærðan leikarann. Ég vil meina að leikarinn Skippy, sem var kengúra, hafi ekki verið verri leikari en t.d. Rúrik Haraldsson, með fullri virðingu fyrir honum og öllum hans gráðum. Hesturinn hennar Línu langsokks og apakötturinn hennar, Níels, eða hvað hann nú hét, útskrifuðust aldrei úr Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran svo vitað sé, en þessar skepnur sýndu engaðsíður mun meiri leiklistarleikni en flestir þeir Íslendingar sem í þeim skóla hafa ofreynt sig við ofleik. Mér þætti gaman að sjá íslenskan leikara standa hundinum Lassie og hrossinu Trigger snúning í hárfínum svipbrigðum og sálrænu næmi. Segir það ekki allt um innlenda leiklist að frægasti íslenski leikarinn skuli vera hvalur, - einhver Keikó eða Kakó eða Sækó eða hvað hann nú hét þessi leiðinda ofverndaði fjölfatlaði háhyrningur sem hafði það að aðal atvinnu að ríða hjólbörðum í Vestmannaeyjum. Dó svo úr þunglyndi við Noregsstrendur þegar sprakk á kærustunni hans og endaði sem dósamatur í Bónus.
Ég endurtek enn og aftur að það eru til góðir íslenskir leikarar en það má telja þá á hornum nauts. Þó það megi eflaust segja að lélegur leikur sé leikstjóranum að kenna þá virðumst við Íslendingar yfir höfuð bara einhvernveginn ekki hafa þetta í blóðinu, ekki frekar en takt. (Þegar Íslendingar klappa með í lagi þá klappa þeir alltaf á bassatrommuslögunum, semsé á 1. og 3. en aldrei á snerilslögunum 2. og 4. Það vantar niggarann í okkur). Við getum ekki einusinni snýtt okkur í bíómynd tilgerðarlaust og án þess að ofleika það og dramatísera úr hófi fram. Við erum alltaf að Leika svo Mikið, við höldum að við séum ekki að vinna fyrir kaupinu okkar nema við Leikum hverja einustu hreyfingu og hverja einustu setningu í botn með gríðarlegum tilþrifum. Íslenskir leikarar hljóta að hugsa sem svo að það geti nú allir verið eðlilegir en það geti ekki allir Leikið og nú skuli þeir sko sýna þjóðinni hvað þeir geti; þeir skuli sko svoleiðis Leika af þvílíku alefli að annar eins kraftur og dramatískur rembingur hafi ekki sést síðan Magnús Ver Magnússon skeit næstum því í buxurnar þegar hann var að lyfta 400 kílóa bjórkút á síðasta heimsmeistaramóti.
Flestir íslenskir leikarar eru alltof duglegir. Sjálfur held ég að það sé mun minni vandi að Leika af þessum séríslenska dugnaði en að vera nokkurnveginn eðlilegur og tilgerðarlaus. Því minni Leikur, því betra, en í áreynsluleysinu leikleysinu er náttúrulega fólginn góður leikur. Þeir eru ekki margir íslensku leikararnir sem ná að láta áhorfandann gleyma því að þeir séu að leika og ná að falla það vel inní persónuna að leikurinn virki áreynslulaus og með öllu tilgerðarlaus. Þeir eru ekki margir, en þeir eru til, og sem betur fer hefur þeim fjölgað með árunum. Bestir eru Íslendingar í að leika þroskahefta fáráðlinga, á sama hátt og dvergur er góður í því að vera lítill.
Ég held að það sé ekki erfitt að skilja að handritið skipti sköpum þó sérfræðingar Edduverðlaunanna hafi ekki botnað í því fyrstu árin. Maður vorkennir oft leikurum að þurfa að böggla útúr sér þessu óþjála tilgerðarlega bókmáli sem er skrifað ofaní þá trekk í trekk, sérstaklega hér áður fyrr. Sumt er skrifað af svo miklum skáldlegum belgingi og þvílíku ónæmi fyrir mannlegum normal tjáskiptum að meiraðsegja Robert de Niro gæti ekki komið þessu útúr sér skammlaust.
Það er því allsekki hægt að klína Öllum drullukökunum á leikarana eina sér; íslenskir handritshöfundar eiga sinn skerf því þeir hafa í gegnum tíðina einfaldlega ekki haft mjög næma tilfinningu fyrir eðlilegu talmáli, en mér sýnist það nú reyndar vera að breytast til hins betra í seinni tíð einsog svo margt í íslenskri kvikmyndagerð. Maður er meiraðsegja farinn að heyra hvað fólkið á tjaldinu er að segja.
Flestar ef ekki allar íslenskar bíómyndir fara á kvikmyndahátíðir erlendis og þar keppa þær og því er frekar erfitt að sjá pointið í því að tilnefna hverja einustu mynd hér á klakanum, - semsé báðar tvær. Ég held að allar sjónvarpsseríur sem voru gerðar á árinu séu tilnefndar nema Örlagabyttan með Sirrý. Menn hljóta að sjá að það er frekar aulalegt að þurfa bara að gera eitt stykki bíómynd til að eiga nær 50% líkur á tilnefningu. Viðar Eggertsson bendir á í athugasemd hér að neðan að á Íslandi séu frumsýndar árlega 70-90 leiksýningar atvinnumanna og að þær komi allar til álita þegar kemur að Íslensku leiklistarverðlaununum, Grímunni. Miðað við þessa staðreynd þá legg ég til að Eddan verði haldin á 5 ára fresti. Allt annað er hjákátlegt og eiginlega hálf aumkunarvert og broslegt í senn. Annars ráða menn náttúrulega hvernig þeir hafa þetta. Þessi Edduverðlaun voru víst hugsuð til að ýta aðeins undir egó kvikmyndagerðarmanna og kitla aðeins hégómagirnd þeirra og vissulega gera þau það en ég held þau kitli að sama skapi hláturtaugar margra kaldhæðinna Íslendinga. Það á ekki að veita þeim íþróttamanni verðlaun sem engan hefur keppt við og sá íþróttamaður hefur ekki unnið til neins sem ekkert hefur sigrað nema stimpilklukkuna.
Dægurmál | Breytt 11.11.2007 kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
6.11.2007 | 09:40
Bónus gefur ekki Krónu eftir
Það var ekki fyrr en á síðasta ári sem það var gert óheimilt að breyta verðum í verslunum á þeim tíma sem verðkönnun fór fram. Broslegt. Í dag verður ASÍ að hringja í verslanir og tilkynna þeim hátíðlega að þeir séu á leiðinni til þeirra að gera verðkönnun. Hlálegt. Það er svona svipað og ef löggan myndi alltaf hringja í grunaða menn og láta þá vita að hún væri á leiðinni að gera húsleit hjá þeim svo þeir gætu nú örugglega fengið tækifæri til að hvítþvo íbúðina. Það er samkomulag ASÍ og verslananna að svona skuli þetta vera, sem segir kannski allt um það hverjir það eru sem ráða ferðinni.
Ekki ætla ég að leggja neinn dóm á það hvort að ásakanirnar séu á rökum reistar um að Krónan og Bónus hafi haft með sér verðsamráð og/eða beitt blekkingum og allskyns auvirðilegum trikkum þegar verðkannanir ASÍ hafi verið gerðar, en ég ætla að birta hér nokkur brot úr afar einkennilegu Kastljósviðtali (31.okt) við þá Gylfa Arnbjörnsson framkvæmdastjóra ASÍ og Guðmund Marteinsson framkvæmdastjóra Bónus því ég held að fólk hafi ekki tekið eftir því hvað þeir voru skelfilega missaga og ósannfærandi, báðir tveir. Hef eftir þeim orðrétt:
Gylfi hjá ASÍ: Menn geta ekkert átt von á því að við séum að koma með verðkannanir, það fær enginn að vita af því fyrirfram, en þegar við mætum í verslunina samkvæmt verklagsreglunum, sem er reyndar mikill ágreiningur um, en samkvæmt verklagsreglunum þá látum við vita af því þegar við mætum að við séum að gera verðkönnun fyrir ASÍ og það er fyrst eftir að þær upplýsingar koma fram að einhver möguleiki er á því að fara að hagræða verðum í búðinni.
(Í alvöru? Og afhverju skyldi nú vera mikill ágreiningur um þessar verklagsreglur? Skyldi það vera vegna þess að eftirlitsaðilanum ASÍ skuli þykja það djöfullegt að þurfa að beygja sig undir vilja þeirra sem þeir eiga að hafa eftirlit með?)
Spyrill (undir lok viðtals): En er ekki ofsalega veikt og tannlaust af ykkur að koma bara á skrifstofutíma og hringja á undan...?
Gylfi: Við hringjum ekkert á undan...
Spyrill: Nú þið gefið ykkur fram þarna þegar þið mætið.
Gylfi: Það er fólgið í því að við hringjum á undan, við mætum á staðinn sko...
Spyrill: Þið mætið á staðinn og þeir vita af því. Það var verið að lýsa því í útvapinu að þegar þið komið á staðinn þá eru bara gefnar meldingar um það inn í búð að þið séuð að koma og þá í einhverjum tilvikum breytt um verð.
Gylfi: Ef að svo er þá er það klárlega brot á þeim verklagsreglum sem við höfum sameiginlega mótað með versluninni.
Spyrill: Má ekki líka alveg heimfæra það upp á það að framkvæmd ykkar á verðkönnunum er pínulítið veik gagnvart neytendum í landinu sem treysta á þær?
Gylfi: Uuu Já hún er veik að því leitinu ef það er sko ásetningur verslunarinnar að blekkja okkur sem neytendur og þá getum við aldrei búið til það kerfi sem kemur í veg fyrir það. Við höfum tildæmis alveg meðvitað ekki farið í verslanir sem eru með rafrænar hillumerkingar. Við getum ekki farið í þær vegna þess að við byrjum á því að melda okkur við verslunina að við séum mættir og þá er ekki nema að ýta bara einu sinni á tölvuna og þá breytast öll verð í búðinni og kassanum á augnabliki.
Spyrill spyr Guðmund í Bónus: Þetta er orðið hægt samkvæmt tækni og þið eruð að taka upp þessar rafrænu merkingar?
Guðmundur: Já allar okkar nýjustu búðir eru með, með hérna rafrænum verðmerkingum.
(Þá stoðar nú lítið fyrir ASÍ að fara í Bónus verslandir).
Spyrill: Er þetta hægt, er bara hægt að ýta á takka og breyta verðum?
Guðmundur: Já ef þú...ef þú...ég meina.. já það er ekkert mál.
Spyrill: Kemur það til greina að gera það eða gerið þið það í einhverjum tilfellum þegar...?
Guðmundur: Bónus breytir Aldrei verði á meðan að hérna verðkönnun er í gangi. Aldrei. Það er bara...það er algerlega skýrt.
Fyrr í viðtalinu hafði Gylfi í ASÍ sagt: Þetta eru auðvitað stórar búðir og oft á tíðum fjöldi manns í búðinni þannig að við getum ekkert haft yfirlit yfir það hverju er verið að breyta, en við tökum hilluverð. Það verður þá að breyta verðum í öllum hillum í búðinni til þess að þessi blekking gangi upp.
Spyrill spyr Guðmund í Bónus: Hversvegna ætti fólk að koma fram í dag og ljúga þessu? (Um 10 meint vitni að blekkingum og svínaríi).
Guðmundur: Ljúga...þú veist...sko þú ert að að hérna hérna að koma með hérna einhverjar ásakanir hérna á mig...sko..klárlega...það sem er...það sem er...það sem er búið að vera í fréttum hérna í kvöld eru grafalvarlegar ásakanir á hendur fyrirtækinu.
(Verulega sannfærandi svar við spurningunni!!)
Spyrill: Það er líka grafalvarlegt ef að sá sem að selur fólki mest af matvælum hefur rangt við í verðkönnunum. Það er grafalvarlegt líka.
Guðmundur: Nákvæmlega það sem ég er að segja að sjónvarpsáhorfendur núna heima í stofu hlusta hérna á það að ég...ég þræti fyrir málið. Eina sem ég get sagt, ég kveð Samkeppnisstofnun til að skoða þetta mál og það strax og fella sinn dóm í þessu máli. (Svo fór hann snögglega yfir í allt annað mál sem enginn var að spyrja hann um): Ég hef Aldrei, nota bene, hvorki hitt eða heyrt þessa hérna þessa starfsmenn hérna Krónunnar sem að hérna er verið að vitna í. Það er verið að tala um að við höfum verið að hittast á einhverjum kaffihúsum og eitthvað. Þetta er Alrangt. Eg ber einn ábyrgð á á hérna verðlagningu í Bónus. (o.s.fr)
Spyrill: Er eitthvað til í því að það sé hærra verð hjá ykkur síðdegis og um helgar þegar þið eruð nokkuð vissir um að það sé ekki verið að mæla verð?
Guðmundur: Nei, klárlega ekki, en ég viðurkenni það að Bónus hefur hækkað verð um helgar og það er bara partur af því hérna að vera í þessum bransa, hvort sem að verð lækkar eða hækkar.
Spyrill: Það er hærra verð hjá ykkur um helgar?
Guðm: Neinei, neinei, þú veist, neinei, það er ekki svoleiðis, en þa það sko, verð lækka um helgar og verð hafa hérna hafa hækkað um helgar.
Nokkrum dögum seinna, þann 5.nóv. sagði Guðmundur í viðtali á Útvarpi Sögu: Bónus hefur hækkað verð um helgar og það er ekkert að því. Við þurfum að borga laun o.s.fr...Það er alveg sama hvað maður gerir, það eru allir óánægðir.
Það er nefnilega það.
Nú hefur Bónus dregið sig útúr verðlagseftirliti ASÍ og segir Krónuna hafa svindlað í verðkönnunum. Það sama segir Krónan um Bónus. Hvor um sig er sannfærður um að hinn viðhafi svik og blekkingar og þeir ættu nú að vita hvernig kaupin gerast á eyrinni.
Ég skil ekkert í því hversvegna þeir hjá ASÍ eru að gera verðkannanir þegar það er minnsta mál í heimi að blekkja þá uppúr skónum og það vita þeir sjálfir og það vita að sjálfsögðu verslanirnar og það vita neytendur núna í dag. Ef eitthvað er þá veita þessar verðkannanir neytendum falskt öryggi og það er mun verra en ekkert öryggi, einfaldlega vegna þess að ef menn búa við falskt öryggi þá sofa þeir á verðinum og halda að allt sé í himnalagi, en ef þeir búa við ekkert öryggi þá halda þeir vöku sinni og eru viðbúnir hverskyns blekkingum og svínaríi. Segir sig sjálft. ASÍ er þjófavörn sem virkar ekki. Batteríslaus reykskynjari. Gerir ekki aðeins ekkert gagn heldur ógagn. Sem verðkannari er ASÍ algerlega vonlaust og vanhæft kompaní.
Það sakar ekki að hin steinsofandi Samkeppnisstofnun rumski og reyni að rannsaka þetta mál ofan í kjölinn eins og Guðmundur leggur til, en ég myndi nú leggja til í leiðinni að þessar bjánalegu reglur um að ASÍ þurfi að tilkynna hástöfum komu sína í verslanir verði aflagðar ekki seinna en strax!
Í þessum skrifuðu orðum kemur það fram í fréttum að Björgvin Sigurðsson, okkar verulega góði viðskiptaráðherra, ætli að efla Neytendastofu svo hún geti fylgst með matvælaverði á rafrænan hátt þannig að útilokað verði í framtíðinni að verslunarmenn geti haft í frammi hefðbundin svik og blekkingar og þurfi nauðbeygðir að láta af því leiðindablöffi sínu að hækka og lækka vöruverð 1000 sinnum á dag.
Gott að heyra. Makalaust að það þurfi viðskiptaráðherra til að slá á langa fingur íslenskra kaupmanna.
(Sjá skoðannakönnun hér til vinstri á síðunni).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.11.2007 | 01:46
Best er að vera einn í biðröð
Konur og menn eða konur og aðrir menn eða menn og aðrar konur hafa alveg gríðarlega þörf fyrir að tilheyra einhverjum hópi, hvort heldur það er íþróttafélag, stjórnmálaflokkur, trúarregla, listakreðsa, samtök, félög, félagasamtök, klúbbar eða eitthvað þaðanaf óskemmtilegra, og vilja alveg ólmir falla inní hópinn, vera eins og restin, - einsog það er nú eftirsóknarvert. Ég hef oft undrast hvað hjarðeðlið er ríkt í fólki. Menn festa sig á einhvern tiltekinn hóp einsog hrúðurkarlar, ekki endilega vegna sannfæringar og sjálfstæðis hugsjónamannsins, heldur miklu frekar vegna öryggisleysis múgmennisins.
Hjarðmennska og ragmennska eru tvær hliðar á sama peningi.
Í stjórnmálum er algengt að menn aðlagi sannleikann að flokksskoðuninni frekar en skoðanir sínar að sannleikanum. Eins er oft hálf spaugilegt að fylgjast með atkvæðagreiðslum á alþingi þegar huglæg og loðin mál eru til afgreiðslu, t.d. siðferðileg álitamál sem skiptar skoðanir ættu alla jafna að vera um innan flokka, t.d. hvort eigi að banna slátrun á skjöldóttum kanínum á sunnudögum eða eitthvað svoleiðis. Heill flokkur getur alfarið verið á móti slíku máli, allir sem einn í flokknum, og annar flokkur getur verið eindregið hlynntur því, allir sem einn í flokknum. Afskaplega idjótískt og gungulegt.
Stundum getur heill stjórnmálaflokkur verið alfarið sammála um það að gult sé fallegra en bleikt, - og þetta þýðir náttúrulega að menn eru ekki að greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu heldur eru menn einfaldlega sammála um að það borgi sig að vera sammála forystusauðnum og skera sig allsekki úr hjörðinni. Þetta gerist í öllum flokkum og er kallað praktík og framapot og að spila með liðinu og þykir bera vott um geipileg klókindi, en er þó lítið annað en hjarðmennska og ragmennska í allri sinni ömurð og ótti við að enda sem kótelettur og lærisneiðar í árlegri grillveislu flokkanna.
Þarsem ég veit hvað fólk leggur mikið uppúr því að vera sammála þá held ég að flestir geti nú verið sammála um það að strax í barnaskóla er tekið til við að framleiða róbotta og fáráðlinga. Þar er ekki beint verið að ýta undir skapandi hugsun og sjálfstæði persónuleikans. Okkar ríkisrekni guð er t.d. kenndur sem óvéfengjanleg sagnfræði og sannindi meðan hagnýtum staðreyndum um lífið er blásið út af borðinu. Ekkert er spáð í umframgáfur eða sérhæfileika til hugar eða handa heldur er öllum troðið í sömu kvörnina. Allir eiga að gera eins, vera eins, hugsa eins, skrifa eins, þegja eins og gleypa loft eins og skot. Svo eldast krakkarnir, - ég segi eldast, ekki þroskast, og verða að fyrirtaks leiðitömum múgmennum. Þeir örfáu sem koma óskaddaðir úr þessari hakkavél persónuleikans eru yfirleitt kallaðir frekjuhundar, antísósíal sérvitringar, glæpamenn, snillingar eða eitthvað ennþá hræðilegra.
Birtingarform hjarðmennskunnar eru margvísleg: Sumir þeirra sem hafa lært að segja já og amen allt sitt líf, planta sér einsog áður sagði stundum í stjórnmálaflokk og þaðan í sali alþingis til að þessi kunnátta þeirra komi að notum. Aðrar hópsálir líma sig á eitt fótboltafélag til að geta baulað í kór og búið til bylgjur á leikjum með hinum hópsálunum, og svo er þetta eina fótbóltafélag tilbeðið ævina á enda jafnvel þótt það tapi getu og drabbist niður og hætti með öllu að geta hitt boltann og klúðri hverjum leiknum á fætur öðrum í óendanlegu kunnáttuleysi. Svona ævilöng dýrkun þykir af einhverjum ástæðum bera vott um tryggð og traust, en ekki heimsku. Ekki veit ég afhverju. Hver heldur með glötuðu liði bara afþví hann hefur haldið með því frá fæðingu, annar en fæðingarhálfviti?
Margir líta svo á að Laxness hafi svikið hugsjónir sínar þegar hann gaf skít í kommúnismann, en það er ekki rétt. Hann gerði hinsvegar það sem fólki er mjög illa við: Hann þroskaðist. Maður á ekki að vera sauðtrúr hugsjónum sínum heldur fyrst og fremst sjálfum sér og maður ætti aðeins að hafa þá einu hugsjón að vera trúr sjálfum sér.
Fólki finnst ægilega gaman og nauðsynlegt að vera í kór með alla hluti; fara í banka á sama tíma, versla á sama tíma, helst í fjölsóttustu versluninni, mótmæla klámráðstefnum þegar andúðin er orðin ríkjandi, fara í bíó þegar það er troðið, fara í ísbúðir á sama tíma, bíða í biðröðum og fleira gaman. Meiraðsegja ellilífeyrisþegar sem eru löngu hættir að vinna og ættu að hafa nægan tíma, fara í búðir á sama tíma, - seinni part föstudags þegar allt er pakkað. Er ég virkilega sá eini sem finnst best að vera einn í biðröð? Og það er einsog engum þyki ís góður nema þegar sést í sólarglætu.
Menn vilja alltaf rotta sig saman, gera allt saman, gera allt eins, segja allt eins, haga sér eins, undir eins, ganga í tískufötum, helst í takt, vera með réttu hárgreiðsluna, réttu skoðanirnar, vera á eins bílum, (enda allir bílar orðnir svo eins að ekki sér lengur mun á Benz og Skoda), falla inní hópinn, falla í kramið, vera á tjaldstæðum innanum þúsundir eins manna, labba allir saman á Menningarnótt, vera saman í ferðafélagi og ganga í samfylkingu uppá Esju með samræmdu göngulagi, samtaka, vera sammála um að vera samferða í SAM bíó á sama tíma og samferðamennirnir, vera í samlæstri samlokaðri sambúð og búa samtryggðir samábyrgir og samþjappaðir í blokk - sambýli.
Sumir auð(ir)menn eru meiraðsegja reiðubúnir að borga 250 milljónir fyrir að fá að búa í blokk því það er búið að segja þeim að blokkin sem um ræðir sé ekki venjuleg bæjarblokk heldur alveg gasalega fín mið-bæjarblokk í skuggalega flottu hverfi. Alvöru millar myndu aldrei kaupa sér íbúð í venjulegri almúgablokk, hversu flott sem íbúðin væri. Nei, þeir kaupa sér nákvæmlega eins íbúð í millablokk því þeir vilja vera innanum aðra milla svo það fari ekki á milli mála að þeir séu millar þegar þeir segja fólki hvar þeir eigi heima. Þetta er jú svo fínt. Það væri ekki nema ef Jón Ásgeir myndi kaupa sér kjallarakompu í Yrsufellinu að millastrollan myndi fylgja á eftir og kaupa upp allar kjallaraholur í Breiðholtinu. Hjarðmennskan lifi!
Fólk fer útí lönd á sama tíma, til landa sem eru í tísku og helst fer það aftur og aftur á sama staðinn, sinn samastað, þangað til hann fer úr tísku, meiraðsegja á sama hótelið og hangir þar saman allan tímann í einni íslendingasamþjöppun, í samkrulli og samfloti með sínum sama fararstjóra, samfarastjóra, sem smalar þeim öllum saman í rútu og saman fara allir að skoða sömu hlutina og sama tóbakið með sömu augum.
Mér er svosem sama.
Íslendingar standa saman í úlpubiðröðum og á íþróttaleikvöngum og hingað og þangað en þeir virðast aldrei geta Staðið Saman þegar brýna nauðsyn ber til, einsog tildæmis þegar peningastofnanir, stórfyrirtæki og misvitrir stjórnmálamenn eru að taka þá í kakóið. Þá sundrast þeir og hlaupa einsog fætur toga með kleprana í buxunum hver í sína holu og fara að snakka um óréttlætið í sínum vel einangruðu vakúmpökkuðu eldhúsum.
Hjarðmennska og ragmennska eru nefnilega tvær hliðar á sama peningi.
Heimskingjarnir hópast saman,
hefur þar hver af öðrum gaman.
Eftir því sem þeir eru fleiri
eftir því verður heimskan meiri.
Dægurmál | Breytt 3.11.2007 kl. 07:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)