Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
9.1.2009 | 02:54
Framsóknarflokkurinn er ekki í djúpum skít. Hann ER djúpur skítur
Meðan fólk flýr úr Framsóknarflokknum einsog rottur sökkvandi skip þá finna sumir hvöt hjá sér til að ganga í hann - ólíklegustu menn, og sumir meiraðsegja tiltölulega normal og skynsamir. Varla af hugsjónaástæðum og enn síður af mannúðarástæðum einsog þeim að þarna þurfi nauðsynlega að uppræta spillingu. Það labbar enginn inná almenningsklósett og hugsar:
"Jahá, þetta klósett er alveg bráðnauðsynlegt að þrífa. Verulega freistandi. Þetta er eitthvað fyrir mig að fást við. Það er ekki hægt að hafa þetta klósett svona drulluskítugt og illa þefjandi einsog ríkisstjórnina. Best að stinga sér á kaf ofaní viðbjóðinn og byrja að ræsta."
Svona skýringar virka ekki, jafnvel þótt móðir Theresa ætti í hlut. Fólk sem gengur í þetta pestarbæli sér sér einfaldlega leik á borði; að þarna hljóti nú að vera auðveldara að ná frama en í flokkum sem gera einhverjar örlitlar kröfur því þarna er jú allra lægsti samnefnarinn. Dvergur virkar stór í Putalandi.
Þetta er soldið einsog ef fiðluleikari sem hvergi hefur fengið séns er staddur um borð í togara árið 1912 og hann sér Titanic mara í hálfu kafi og strengjasveit spila á þilfarinu. Hann hugsar:
"Ókey, þetta skip mætti vera í aðeins betra ásigkomulagi en ég ætla nú samt að ganga í hljómsveitina og slá í gegn. Þetta er mitt eina tækifæri. Ég ætla að stökkva um borð og láta ljós mitt skína. Svona tækifæri býðst sko ekki á hverjum degi."
Auðvitað mun gæinn sökkva ennþá dýpra stuttu síðar, en hann er ekki að hugsa um það í hita framapotsins heldur eingöngu það að ná "árangri" á sem skemmstum tíma. Þetta er bankastjórahugsunin sem Bjarni Ármanns lýsti ágætlega í aflátsgrein fyrir stuttu; að græða sem mest á sem skemmstum tíma án vangaveltna um afleiðingarnar í stóru samhengi. Þetta eru skósprænar sem snúa kíkinum öfugt.
Á sama tíma og Framsóknarflokkurinn gefur fögur loforð um breytta stjórnarhætti og nýjar áherslur og úthreinsun á spillingu þá taka einhverjir 70 framsóknardúddar flokkinn yfir einsog ekkert sé með Sif Friðleifs tístandi af ánægju á bak við gluggatjöld. Það þurfti ekki fleiri til. Þessi flokkur er álíka mikið ekta og bollurnar á Pamellu Anderson og spillingin er jafn samgróin flokknum og girnisígræðslan á hausnum á Elton John.
Ef einhver hefur haldið að betri tímar væru í vændum fyrir Framsóknarflokkinn með innkomu klárs og fróms formannsefnis einsog Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þá er það alger misskilningur. Framsókn er og verður Framsókn á sama hátt og krabbameinskýli er og verður krabbameinskýli þó það sé gullhúðað. Framsóknarflokkurinn er stinkandi miltisbrandslík sem á að grafa djúpt í jörðu en ekki að reyna að vekja upp.
Meiraðsegja Jónínu Ben mun ekki takast að hreinsa skítinn úr Framsókn nú eða Framsókn úr skítnum (the same shit) þrátt fyrir góðan vilja og ennþá betri græjur.
Fjandsamleg yfirtaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
8.1.2009 | 16:27
Rétt hjá Imbu Sollu: Árni Mathiesen er æði
Imba hældi Árna Mathiesen sem fjármálaráðherra í hástert í Kastljósi í gær. Skiljanlega. Maðurinn er búinn að standa sig alveg óaðfinnanlega. Flott t.d. þegar hann lét bróðir sinn fá eignirnar á varnarsvæðinu á spottprís. Spilling? Nei. Ekki frekar en í bönkunum.
Svo var glæsilegt hvernig hann tæklaði Icesave dæmið við Darling. Það hefði allt getað farið í klúður en hann reddaði málunum gjörsamlega.
Árni og Björgvin G. Sigurðsson eru líklegast þeir sem fylgjast hvað best með því sem er að gerast í þjóffélaginu. Þeir eru alltaf með svör á reiðum höndum enda vel inní öllum málum. Aldrei undir nokkrum kringumstæðum myndu þeir segja:
"Ég veit það ekki." "Ég hef ekki heyrt um þetta." "Mér hefur ekki verið sagt frá þessu." "Mér þykir þú segja fréttir." "Ég held að málið sé í skoðun." "Var þetta í blöðunum?" "Ertu að segja mér að það sé eitthvað til sem heitir KPMG?" "Hvað áttu við með ábyrgð?" "Hvað sagðirðu að íslenski seðlabankastjórinn héti?" "Ég kannast ekki við þetta." "Bíddu, ertu að meina að þetta mál heyri undir mig?" "Ég man ekki eftir að hafa fæðst í gær." "Ef ég vissi hvað ég héti þá myndi ég segja þér það."
Það er ekkert skrítið að Imba Solla skuli vera ánægð með þessa kappa. Sjálf er hún gjörsamlega búin að brillera í stjórninni. Hún er virkilega fulltrúi fólksins í landinu þó að engin okkar hinna sé það.
Dr. Jekyll and Mr. Hyde
Bloggar | Breytt 9.1.2009 kl. 04:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Djöfull ætla þessir auraapar að leika þjóðina grátt. Bjórúlfur Thor sagði í Kastljósviðtali fyrir stuttu að hann myndi svo sannarlega axla ábyrgð en myndi hinsvegar ekki koma með neina peninga í uppbyggingu landsins. Á nútímaíslensku þýðir þetta einfaldlega: "I don´t give a shit. Fuck you!"
Bretar settu Landsbankann á hryðjuverkalista þegar þeir komust að því að það væri verið að flytja hundruði milljarða úr Icesave í Bretlandi úr landi. Þetta var náttúrulega ekkert annað en efnahagslegt hryðjuverk. Líklega eitt stærsta bankarán heimssögunnar.
Hvar eru þessir peningar? Hókus pókus - Horfnir. Og enginn spyr um þá. Þessir bankadelar eru slíkir galdrakarlar og seiðskrattar að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að nota orðið "nornaveiðar." Það þarf einmitt að persónugera vandann. Þeir sem segja annað eru annaðhvort fábjánar eða persónur og leikendur í spilinu. Allar þessar morðfúlgur fjár þurfa Íslendingar að borga næstu áratugina meðan ræningjarnir tróna á listum yfir ríkustu menn heims.
Hvað er þetta annað en alþjóðleg glæpastarfsemi? Ef ríkisstjórn Íslands væri ekki samansafn af glæpsamlega vönkuðum geðlurðum og hlandaulum þá væri hún fyrir löngu búin að setja Interpol í málið.
Það er ótækt að Bjórúlfur Thor og aðrir kennitöluflakkandi útrásargosar skulu fá að ganga um "blankir" á Íslandi en moldríkir í útlöndum á meðan þjóðinni blæðir út af þeirra völdum. Þeir eiga Hvergi að fá að ganga lausir meðan á "rannsókn" málsins stendur, - "rannsókn" sem því miður mun aldrei hefjast af neinni alvöru ef íslenskir gjörspilltir stjórnmálalúðar fá að ráða.
Elín borin út úr bankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.1.2009 kl. 04:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sölvi Tryggvason var rekinn af Stöð 2 og Sindri Sindrason fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Jóns Ásgeirs ráðinn í hans stað. Á hans fyrst degi í djobbinu var löng fjálgleg gljáborin umfjöllun um útrásarhetjuna og Glitnishluthafann Róbert Wessman. Svo kom löng frétt af pólförum (ekki bólförum) Þorsteins Más Baldvinssonar Glitnisgarps. Nú á sko aldeilis að taka til við að lappa uppá handónýta ímynd auðmannanna. Augljóst hvað er í gangi á þessum Baugsbæ. Til lítils að eiga fjölmiðlana ef maður notar þá ekki í sína þágu og vina sinna, jafnvel þó þeir séu reknir með tapi. Valdið, áróðurinn og heilaþvotturinn kostar sitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.1.2009 | 07:28
Eva Hauksdóttir í viðtali hjá mér á Sögu í dag
Gestur minn í þættinum "Miðjan" á Útvarpi Sögu FM 99,4 í dag, miðvikudag, kl. 16:00 - 18:00 verður hin ljúfa galdranorn og skáldkona og klári hugprúði aðgerðarsinni Eva Hauksdóttir sem lætur ekkert stoppa sig í baráttu sinni fyrir örlítið skárri heimi.
Sem norn hefur hún stungið títiprjónum á bólakaf í marga brúðuna og eitrað margt eplið og bruggað margan seiðinn og gengið undir margan stigann og séð margan kolsvartan köttinn hlaupa yfir götu og nóg er víst af spegla-og rúðuglerbrotum í búðinni hennar.
Margar áríðandi spurningar brenna á frostbitnum kjötvörum landsmanna varðandi mótmælin og annað, einsog t.d:
Næst ekki hugsanlega mestur árangur með því að þaga í ca hálft ár niðrá vinstri guðsgrænum Austurvellinum og mæna á Alþingishúsið með kröfuspjöld? "HELVÍTIS FOKKING FOKK" hefur nú alltaf gefist vel. Er ekki best að mótmælendur séu aðgerðarlausir einsog ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan?
Getur hún Eva breytt Geir Haarde úr froski í mann? Jafnvel froskmann? Getur hún breytt Ingibjörgu í trúverðugan pólitíkus? Getur hún breytt afturhaldsvandamálaflækjunni í kollinum á Steingrími J. í lausnir? Tók Ólafur Ragnar aðgerðaráætlunina "Sveltum Svínið" nærri sér? Hvað er hann þungur í dag eftir mótmælin? Getur maður fengið skriðdreka á góðum kjörum hjá Amnesty International? Er grímulaust ofbeldi stjórnvalda betra en grímuklædd mótmæli aktivista? Ef það yrði sett í gang aðgerð sem bæri yfirskriftina "Grillum Grísinn," hvor myndi þá fara á taugum, forsetinn eða Bónusfamelían? Eða er það kannski sama tó-pakkið? O.s.fr. Margs er að spyrja ef margt á að vita.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2009 | 03:40
Atvinnumistakamaðurinn Bjarni Ármanns
Öll gerum við mistök, en aðeins örfá okkar hafa atvinnu af því að gera mistök og græða á þeim fúlgur fjár. Bjarni Fjármanns er einn slíkur lukkunnar pamfíll. Hann hefur gert svo mörg stór og glæst mistök í fjármálum að hann þarf aldrei að vinna meir. Inspector Cloueau hefði ekki haft roð við honum enda var sá gæi bara í því að reyna að gæta laga og reglu og sleppti öllu peningaklúðri. (Hér á Íslandi er bara einn lögreglumaður sem veit hvað er að vera "múraður" í vissum skilningi og það er sá kinnbeinsbrotni).
Bjarni birti merkilega grein í Fréttablaðinu á mánudaginn þar sem hann fer yfir stórkostlegan feril sinn í fjármálum sem er þakinn svo glæsilegum mistökum að hann varð milljarðamæringur fyrir vikið á aðeins örfáum árum. Kíkjum aðeins á nokkrar setningar Bjarna úr þessari grein, (orð hans eru skáletruð):
Ég get verið sjálfum mér reiður fyrir að hafa tekið ákvarðanir í uppbyggingu kerfis sem ekki stóðst, en með þeim ákvörðunum verð ég að lifa." (Auðvelt að lifa góðu lífi með mistökum sem voru milljarða virði, beint í lommen. Þjóðin verður hinsvegar að skrimta með þessum mistökum).
Trú mín á krónuna." (Þjóðleg mistök sem borguðu sig þá).
Uppbygging launakerfis sem fór úr böndunum." (Mjög gróðavænleg mistök)
Hjarðhegðun sem leiddi til útlánaþenslu." (Samtryggingarmistök).
Í fjölmörgum atriðum hefur okkur því miður farist óhönduglega." (Fagleg mistök).
Í raun hlúðum við ekki að því hvernig við vildum að fjármálakerfið liti út í upphafi einkavæðingar." (Heppileg mistök fyrir útrásarvíkinga).
Þegar dreifðu eignarhaldi var kastað fyrir róða vorum við að búa til of sókndjarft kerfi." (Bráðnauðsynleg mistök fyrir útrásarbudduna).
Samhliða þessu héldum við ekki úti nógu ströngu eftirlitskerfi." (Afar heppileg mistök).
Okkur tókst heldur ekki að skapa nauðsynlegar hefðir í fjármálageiranum, þrátt fyrir viðleitni þar að lútandi." (Skiljanleg mistök).
Trú mín og margra annarra á að markaðurinn gæti smíðað sitt eigið regluverk og framfylgt því reyndist ekki byggð á nægjanlega traustum grunni." (Heillavænleg mistök).
Nú er ljóst að sú umgjörð sem smíðuð var um fjármálageirann dugði ekki." (Arðvænleg mistök).
Skorti þar bæði á skilning okkar sem störfuðum í fjármálageiranum á því að lesa samfélag okkar og gæta samhengis við það." (Ég-um-mig-frá-mér-til-mín-mistök).
Sömuleiðis skorti á skilning stjórnmálamanna á starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og þar með hvers konar ramma þau þurfa að búa við." (Samhjálparleg mistök).
Við sem leiddum mismunandi þætti íslenska fjármálakerfisins sköpuðum of veikan grunn til að standast (alþjóðlegu) sviptingarnar. Þar gerðum við mistök í því að byggja upp of stórt kerfi á of skömmum tíma, reiða okkur á lítinn gjaldmiðil og peningamálastefnu sem ekki gat gengið til lengdar í heimi alþjóðaviðskipta." (Banka-mannleg græðgismistök).
Við létum einnig glepjast af hraða og skammtímaárangri og misstum þar með sjónar á langtímahagsmunum og gildum samfélagsins." (Sömu græðgismistök).
Ég og aðrir þeir sem unnu að framgangi fjármálageirans hljótum að viðurkenna mistök okkar, læra af þeim og nýta lærdóminn til að byggja upp til framtíðar." (Sigurjón Þ. Árnason sem vann líka að framgangi fjármálageirans" er t.d. farinn að kenna fjáglæf...fjármál í Háskólanum. Það kallast víst að "nýta lærdóminn til að byggja upp til framtíðar").
Mikilvægt er að við náum að vinna okkur hratt út úr vandanum og byggja upp traust í samfélaginu á nýjan leik." (Svo að hægt sé að arðræna þjóðina aftur og kreista síðasta blóðdropann úr henni. Allavega fara útrásargreifarnir ekki að borga til baka milljarðana sem þeir fengu í laun fyrir öll mistökin").
Mistök fortíðar leiddu okkur á þann stað sem við erum á núna." (Í þriggja hæða lúxusvillu í útlöndum).
Eins mikilvægt og það er að rannsaka ítarlega hvað gerðist, skiptir ekki síður máli að hver og einn horfi í eigin barm og bregðist við því sem hann þar finnur." (Þjóðin á semsagt að gera sér grein fyrir mistökum sínum sem fólust helst í því að treysta mistækum útrásarbankamönnum sem ætluðu að láta það verða sín næstu og stærstu mistök" að ræna orkulindunum).
Þjóðin má ekki við fleiri skipulögðum "mistökum" auðmanna og stjórnmálamanna.
Kannski voru það mistök hjá Bjarna Fjármanns vini vorum að skrifa þessa grein.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.1.2009 | 18:17
Þorvaldur Gylfason kosinn maður ársins á Útvarpi Sögu
Undanfarin ár hafa Íslendingar verið álíka glámskyggnir og mennirnir sem þeir hafa valið sem Mann Ársins á útvarpsstöðvunum. Þeir kusu Ólaf Ragnar mann ársins á Sögu fyrir 5 árum fyrir að neita að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Það fannst kjósendum bráðnauðsynlegt og stórkostlegt afrek sem bæri að verðlauna alveg sérstaklega.
Svo kusu þeir gamla góða Villa fyrir að hafa náð að verða borgarstjóri. Það þarf náttúrulega alveg sérstaka hæfileika til að komast í það djobb, og eitt gott hnífasett. Aðeins um 10 manns gegna þessu djobbi árlega svo það hlýtur að þurfa mikinn garp til að ná að troða sér í þennan heita stól.
Í fyrra var svo Jóhannes í Bónus valinn maður ársins á Sögu fyrir vel heppnaða útrás og ólýsanlega viðskiptasnilld. Þetta var víst maðurinn sem kjósendur sammæltust um að hefði gert mest fyrir heimilin í landinu. Grínlaust.
Nú bregður hinsvegar svo við að það er kosinn heiðarlegur maður, - maður sem á þetta skilið, hagfræðingurinn góði Þorvaldur Gylfason. Þar fer gáfaður, víðsýnn og framsýnn maður sem er vel að þessu kominn, - þótt fyrr hefði verið. Á þennan mann hafa Íslendingar ekki nennt að hlusta undanfarin ár en eru núna fyrst farnir að opna eyrun þegar allt er hrunið. Væri óskandi að fá hann sem forsætis - eða fjármálaráðherra í næstu stjórn. Utanþingsstjórn vel að merkja.
Á ríkisdiskótekinu Rás 2 var Hörður Torfason valinn maður ársins fyrir að handvelja menn sem mega tala á Austurvelli. Fast á hæla honum kom afreksfólk einsog Jón Ásgeir forstjóri Baugs, Jóhannes í Bónus stjórnarmaður Baugs, Imba Solla talsmaður Baugs og Ólafur F. fyrrverandi borgarstjóri fyrir að hafa staðið vörð um flugvöllinn sem sker í sundur Reykjavík og fyrir að hafa eytt milljarði af peningum borgarbúa í tvo samantjaslaða vinnuskúra við Laugaveg. Þetta er fólkið sem hlustendum Rásar 2 finnst hafa skarað frammúr á nýliðnu ári. Það er nefnilega það.
Kannski hafa Íslendingar ekki lært svo mikið þrátt fyrir allt. Veit það ekki.
Ég óska allavega Þorvaldi Gylfasyni til hamingju með vel unnin störf undanfarna áratugi og megi vegur hans verða sem mestur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
1.1.2009 | 00:25
Nú árið er liðið, sem betur fer
Núna erum við að sprengja burt gamla árið en á þessu nýja munum við vonandi sprengja burt gamla hyskið. Sprengjugnýrinn hér fyrir utan lætur sem fuglasöngur í mínum eyrum.
Árið sem nú er að líða byrjaði illa með áramótaávarpi forsætisráðherra og forseta en endaði nokkuð vel með huggulegum mótmælum. Árið endaði semsagt nokkuð gleðilega og vonarstyrkjandi þrátt fyrir árámótaskaupið. Þótt árið sé liðið þá er fárið ekki liðið, en á nýju ári verður vonandi stjórnarliðið og spillingarliðið liðið.
Myndin sem ég læt hér fylgja er áramótakveðja mín til gamla Íslands. Megi gott og byggilegt Ísland upp rísa. Undir okkur sjálfum komið, ef við náum að parkera þýlyndinu.
"Gleðilegt" og "farsælt" komandi ár. Það má eitthvað mikið gerast ef að þessi ósk mín á eftir að rætast, - en vonandi gerist eitthvað Mikið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)