Færsluflokkur: Bloggar
17.10.2008 | 10:28
Sofandi forseti og rotaðir fjölmiðlar
Þessi fræga mynd birtist fyrir stuttu í breska blaðinu Daily Mail og þar var fjallað um Jón Ásgeir og co undir fyrirsögninni: Djöflarnir að njóta síðustu daganna í helvíti."
Í greininni sagði að milljarðamæringurinn Jón Ásgeir, ljóshærða konan hans og vinir þeirra sem komu Íslandi á kaldan klaka, flissi og skemmti sér konunglega á eigin hóteli yfir rándýrum vínum, ósnortin af hrikalegu ástandinu í kringum þau. Gjaldþrota banki hans Glitnir skuldi breskum hlutabréfaeigendum milljónir punda, svo og fyrirtækjum og góðgerðarstofnunum. Meðan Ísland brenni og eignir séu frystar sé hr. Johannesson hinsvegar greinilega ekki á vonarvöl, um það vitni 85 punda flaska af hvítvíni á borðinu.
Hið skemmtilega Baugsblað DV (eru annars ekki öll blöð á landinu í dag í eigu Baugs?) kom að sjálfsögðu með leiðréttingu á þessari Daily Mail grein í gær og vitnaði í nýjasta Baugsblaðið Séð og heyrt en þar er viðtal við óþekktu ljóskuna á myndinni, Sybil Grétu Kristinsdóttur vinkonu Ingibjargar eiginkonu Jóns Náskers. Sybil segir að þetta hafi ekki verið neitt svall, fólk hafi drukkið vatn og hún ekið öllum heim á eftir."
Afhverju þurfti hún að keyra alla heim á eftir ef allir voru í vatni? Fólk er náttúrulega yfirleitt ekki í ökuhæfu ástandi eftir taumlausa vatnsdrykku. Auðvitað voru þau öll bara í vatni einsog sést á myndinni. Fólk fer yfirleitt á 101 barinn á kvöldin með félögunum til að þamba vatn. Segir sig sjálft. Og hvað er betra en vatn úr bjórflöskum og 17.000 króna hvítvínsflöskum? Þessu vatni hefði þurft að breyta í vín, en kannski var búið að breyta víninu í vatn og það hefur þá verið í fyrsta skipti.
Áður en þessi hugulsama og dagsanna leiðrétting birtist í Dagblaðinu þá hafði Jón Trausti ritstjóri skrifað mjög heiðarlegan og góðan leiðara í DV (10. okt.) undir fyrirsögninni Við brugðumst ykkur" þar sem hann segir m.a:
Þjóðfélagið hefði aldrei farið á fullri ferð fram af brúninni ef það hefði ekki verið gegnsýrt af blekkingu í áraraðir. Blekkingin kom frá stjórnmálamönnum, viðskiptamönnum og líka þeim sem áttu að verja þjóðfélagið gegn blekkingunni, fjölmiðlamönnum....Það eru ekki lygasjúkir stjórnmála- og viðskiptamenn sem eru rót vandræða okkar, heldur fjölmiðlarnir sem endurómuðu lygina gagnrýnislaust....Íslenskt efnahagslíf verður aldrei heilbrigt ef fjölmiðlarnir rækja ekki skyldur sínar. Þeir eru allt of mjúkhentir í samanburði við erlenda fjölmiðla. (Hvernig skyldi nú standa á því?!!). Skylda þeirra snýr að almenningi en ekki stjórnmálamönnum og viðskiptamönnum....DV brást þjóðinni, eins og aðrir fjölmiðlar....Þeir sem ljúga að fjölmiðlum ljúga líka að almenningi. Blekkinguna verður að uppræta, því hún er meinið sem varð þjóðinni að falli."
DV ætlar semsé að snúa frá villu síns vegar og gerir það með þessari blekkingarlausu frétt um vatnsdrykkju og iðrun útrásarsnillinganna. Einmitt. Að öðru leiti er ég alveg hjartanlega sammála Jóni Trausta, enda var ég einn af örfáum í þessu þjóðfélagi sem studdi fjölmiðlafrumvarpið opinberlega á sínum tíma sem Ólafur Ragnar, forsöngvari og klappstýra útrásardólganna, neitaði að skrifa undir. Heilaþveginni þjóðinni fannst best og eðlilegast að allir fjölmiðlar væru á einni og sömu höndinni, - lófaloðinni krumlu sem jafnframt héldi utan um flesta aðra markaði landsins og heilan banka í ofanálag. Ef einhver annar en Davíð hefði lagt frumvarpið fram þá hefði það kannski farið í gegn, en annars efast ég um það því forsetinn var svo gríðarlega önnum kafinn við að mæra og verðlauna Baugshetjurnar og útrásarvíkingana" einsog hann kallaði þá, og flakka með þeim um heimsbyggðina og kynna þá sem mennina sem myndu "auka hróður Íslands um ókomin ár." (Væri þjóðin ekki til í að kjósa yfir sig aðeins glámskyggnari forseta?) Ólafur Ragnar hefði sennilega alltaf neitað að skrifa undir frumvarp sem kæmi í veg fyrir að nábleik hönd Bónusgríssins hefði kverkatak á þjóðfélagsumræðunni.
(Ólafur Ragnar Grísson og Bónusgrísinn. Ólafur til hægri).
Nú er Bleika Höndin búinn að stinga Mogganum í vasann líka svo fólk hlýtur að vera afskaplega hamingjusamt og sátt. Og nú er forsetinn farinn að labba í skóla og fyrirtæki til að hugga fólkið sem útrásarfurstarnir og fjölmiðlaeigendurnir tóku svo kröftuglega í rassgatið að undan mun svíða næstu áratugina, - sömu mennirnir og hann studdi og styður dyggilega og þeir hann.
Bloggar | Breytt 19.10.2008 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
15.10.2008 | 10:29
Íslendingar fyrirlitnir og hataðir um allan heim
Vinur minn var í Köben fyrir stuttu og fór náttúrulega yfir Strikið. Þegar hann var að borga fyrir sig með korti í einni versluninni og afgreiðslukellingin sá frá hvaða landi hann var þá greip hún skæri og klippti kortið hans í strimla og þreif svo veskið hans af borðinu og tók íslensku seðlana upp úr því og tróð þeim í pappírstætara og svo klippti hún veskið vandvirknislega í þunnar í ræmur ekki ósvipaðar beikoni og öskraði hástöfum á hann að hann ætti að hypja sig aftur til helvítis, þeas til Íslands. Það var alveg sama þó hann reyndi að segja henni að hann væri alls óskyldur Bónusgrísum og Bjórúlfum og Bjarna Ármanns og Björk og öllum þessum Bé-um, hún hélt bara áfram að öskra á hann að hann skyldi drulla sér tafarlaust til helvítis. Þegar hún tók upp afsagaða haglabyssu þá skildi hann loksins svona nokkurnvegin hvað hún átti við og hraðaði sér út.
Hann sagðist vita um marga Íslendinga sem hefðu svipaða sögu að segja. Orðspor Íslendinga út um allan hinn stóra siðmenntaða heim er jafn ónýtt og íslenska krónan.
Það er orðið nokkuð algengt víða erlendis að það sé hrækt framan í Íslendinga vænum grænum slummum og jafnvel snýtt sér á þá og þeim hótað öllu illu, sérstaklega í Bretlandi, Hollandi og Danmörku. Sumstaðar er þeim vorkennt. Í Asíu er aðallega hlegið góðlátlega að þeim. Íslensk viðskiptasnilld" hefur t.d. verið all mikið til umfjöllunnar í tælenskum fjölmiðlum og þar er Íslendingum lýst sem broslegum flónum með minnimáttarkennd sem héldu að þeir gætu keypt upp allan heiminn með matadorpeningum. Það vill oft gleymast að það var náttúrulega ekki öll þjóðin sem stóð í þessu svínaríi heldur aðeins 20 - 30 óprúttnir fjárglæframenn með forsetann sem klappstýru.
Í gær kom fram í fréttum að tónleikaferð Sinfoníuhljómsveitar Íslands til Japans hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Og afhverju? Jú, Japanir sögðu að vegna frétta af Íslandi undanfarna daga væri hljómsveitinni ekki treystandi fjárhagslega." Þröstur Ólafsson framkvæmdastjóri sveitarinnar bætti svo við: En síðan held ég að aðalástæðan hafi nú verið sú að orðspor landsins er orðið svo lélegt...að þeir hafi bara ekki getað selt miða eða að minnsta kosti ekki eins marga og þeir þurftu. En það er alveg ljóst að orðspor okkar er komið niður í kjallara."
Vinkona mín í Bretlandi, sem er svo þrælóheppin að vera Íslendingur, er búin að fá dobíu af hótunum frá bálreiðum Bretum. Húsið hennar er þakið eggjum og grænmeti einsog Geir Ólafs eftir tónleika. Hún er búin að vera í stofufangelsi dögum saman og húsið hennar er vaktað dag og nótt af breskum þungvopnuðum lögregluþjónum. Þeir vilja eflaust líka buffa hana en gera það ekki starfs síns vegna. Það eina sem hún hefur til saka unnið er að vera frá sama landi og útrásar"víkingarnir" orðumprýddu.
Og nú í fyrradag var frænka mín Halla Vilhjálms, söng - og leikkona í London, borin út úr íbúð sinni og fleygt út á götu í fallegum boga. Ástæðan? Jú, hún er Íslendingur. Enga íslenska hálfvita hér takk fyrir. Þið og ykkar getnumrotna viðskiptasiðferði! Veriði úti djöfulsins ræsisrotturnar ykkar og látið ekki sjá ykkur hér framar! Skítseiði!"
Við eigum enga vini, eða einsog segir í textanum Traustur vinur: "Þegar af könnuninni ölið fer, fljótt þá vinurinn fer." Frændþjóðirnar Noregur, Svíþjóð og Rússland ætla jú að henda í okkur apana nokkrum bönunum en þeir eru ekki uppí rass á nokkrum ketti. Osama bin Laden hefur neitað okkur um aðstoð og meiraðsegja gæðablóðið George W. Bush, sem má ekkert aumt sjá (án þess að sparka í það), hann fyrirlítur og hatar okkur og vill akkúrat ekkert fyrir okkur gera, ekki einusinni sprengja okkur í loft upp. Hann vill ekkert af okkur vita þrátt fyrir að hann viti að hann hefði aldrei getað unnið Íraksstríðið án okkar hernaðaraðstoðar, (man ekki í svipinn hvað stelpan hét sem við sendum á vettvang). Hann vill ekkert lána okkur og ekkert gefa okkur, nema puttann, og við þurfum síst á enn einum puttanum að halda núna. Það kemst allsekki einn putti í viðbót uppí ósmurt taðgatið á okkur. Útrásar"víkingarnir" hafa séð til þess og eru þar með drjólann á bólakafi fyrir.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Gestur í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 á milli klukkan 16:00 og 18:00 í dag, miðvikudag, verður enginn annar en Íslandsvinurinn og kyntröllið Jón Baldvin Hannibalsson.
Við munum ræða nýjustu flatskjáina, þriðju kindaslóð farsíma, flottustu Range Roverana og ísmeygilegustu kellingarnar og í hvaða íslensku bönkum sé best að kaupa hlutabréf um þessar mundir og hvort það væri ekki gróðavænlegt að breyta Stjórnarráðinu í spilavíti og Seðlabankanum í fyrsta klassa hóruhús. Við munum svo hugsanlega bjalla í Bubba og fá ráðgjöf í fjárfestingum og fræðslu í verðmyndun verðtryggðra viðskipta.
Það er engin hætta á að Jón hlaupi út úr miðju viðtali enda hefur hann marga fjöruna sopið og einnig margt annað sterkara á börum og í þjóðhöfðingjaveislum út um allan hinn stóra heim umhverfis Ísland.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt 19.10.2008 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
12.10.2008 | 14:23
Loksins tekur Egill Helgason almennilegt viðtal
Endurtek: Loksins tekur Egill Helgason almennilegt viðtal. Spurningarnar sem hann pundaði á Jón Násker í Silfrinu í dag voru ákveðnar og beinskeyttar enda var hann marg manaður í að taka ekki á þessum sleipa pilti með latexhönskum. Spurningarnar voru stórar og þungar og svörin lítil og léttvæg að sama skapi. T.d. sé ég ekki alveg fyrir mér Jón í jakkafötunum á lyftara í Bónus, einsog hann lýsti framtíðarstarfi sínu. Ábyrgð hans og annarra útrásarstrumpa á hörmulegu ástandi landsins er nákvæmlega engin af orðum hans að dæma. Allt er að sjálfsögðu ennþá Davíð að kenna.
Egill, þessi hægláti snobbaði maður sem alltaf er með sömu elítuna í sínum þáttum, bætti einum í safnið, en sýndi jafnframt og sannaði að hann getur tekið öflug og "kjörkuð" viðtöl ef þjóðin öll er á móti viðmælandanum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
10.10.2008 | 08:26
Kaupþingshrunið var því miður ekki Davíð að kenna
Fyrir nokkrum dögum hrópuðu Glitnismenn að Davíð væri bankaræningi og hefði rænt Glitni. Í dag eru Glitnismenn að íhuga mál á hendur ríkinu afþví að Davíð rændi ekki bankann. Almenningur trúði Glitni. Davíð var vondi kallinn einsog endranær.
Dögum saman hefur almenningur verið harðákveðinn í að trúa því að það hafi verið "helvítið hann Davíð" sem hafi komið Kaupþingi til andskotans með "gaspri" sínu í Kastljósi, nú eða að það hafi verið "andskotinn hann Davíð" sem hafi komið Kaupþingi til helvítis. Nú er hinsvegar komið á daginn að það var dýralæknirinn Árni Mathiesen sem þarna var að verki. Hann ætti nú að vita manna best að orð geta verið "dýr."
Úr Mogganum 9. okt:
" Darling, fjármálaráðherra Bretlands mat það þannig eftir símtalið (við Árna Mathiesen) að ekki fengjust bætur vegna innistæðna á Icesave reikningum. Efnislega hafi hann skilið íslenska fjármálaráðherrann þannig að breskir sparifjáreigendur myndu tapa peningum sínum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það á grundvelli þessa samtals sem breski ráðherrann tjáði sig um þessi mál í gærmorgun og ákvað að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi, en ekki vegna þess sem Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í samtali við Kastljós Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld."
Þetta var semsagt ekki Davíð að kenna einsog allt annað í þessari veröld, því miður, heldur fjármálaráðherranum, annaðhvort þeim breska eða íslenska, nú eða báðum að Gordon Brown viðbættum, og ekki má gleyma snillingunum í Icesave og þeirra stórfelldu peningaflutningum til Íslands, en þessar upplýsingar munu að sjálfsögðu í engu breyta þeirri bjargföstu trú manna að þetta hafi engaðsíður alltsaman verið Davíð að kenna. Árni talaði óvart íslensku við breska ráðherrann sem gerði það að verkum að smá misskilningur komst í gang sem flýtti fyrir jarðarför Kaupþings. Þessi Davíðshistería fer að minna soldið á fjaðrafokið og móðursýkina í kringum steindauða hundinn Lúkas sem hefur alltaf verið við góða heilsu.
Það eru fyrst og fremst útrásarænstænarnir sem hafa sökkt klakanum með "dugnaði sínum og áræði" einsog Forsetinn orðaði það fyrir 2 árum þegar hann var að heiðra Jón Násker fyrir "vel heppnuð útrásarverkefni," - þó að stjórnmálamenn hafi þar að sjálfsögðu einnig lagt gjörva hönd á plóginn.
Auðvitað hefur Dabbi gert einhver mistök í gegnum tíðina, enda mannlegur einsog við hin, en við ættum eingöngu að kenna honum um það sem raunverulega er honum að kenna, einsog t.d. morðið á Kennedy og heimsstyrjöldina síðari, - en ekki ALLT.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
8.10.2008 | 06:35
Jón Násker og stórasta rán Íslandssögunnar
Það er búið að vera mikið um rán og gripdeildir að undanförnu. Gjafakvótakerfið heppnaðist fullkomlega sem stærsta rán Íslandssögunnar og fyrir nokkrum dögum upplýsti Jón Ásgeir að það hefði verið framið bankarán, hvorki meira né minna en stærsta bankarán Íslandssögunnar, jafnvel heimsins. Þetta er um margt sögulegt bankarán því forsvarsmenn bankans leituðu til bankaræningjans og samþykktu ránið með undirskrift.
Jón Násker sýnir sína löngu fingur
Þetta gerðist svona: Davíð gekk inní reyklaust bakherbergið og beindi byssu að gagnauga Þorsteins Más og sagði: Velkominn til Vítis, auli. Ég heiti Davíð og ég er bankaræningi. Glitnir er að fara til andskotans, þ.e.a.s. til mín. Ég ætla að hirða bankann af ykkur. Ég er með ríkisstjórnina hérna í rassvasanum og nú er lag að dúndra hraustlega í punginn á Jóni Ásgeiri drulludela. Skrifaðu undir eða þú færð eitthvað annað en flugu í höfuðið, motherfucker!"
Þorsteinn Már Baldvinsson
Fólk elskar samsæriskenningar. Allt sem miður fer í þessum heimi er að sjálfsögðu Davíð að kenna. Hann og Satan eru tvíburar. Jón Ásgeir, sem bráðum mun breyta nafni sínu í Jón Násker, vill meina að Davíð sé handrukkari ríkisins og einn mesti ræningi sögunnar, fyrir utan matvörukaupmenn. Ég vil hinsvegar meina að stærsta bankarán Íslandssögunnar sé rán bankanna á landsmönnum í formi glæpsamlega hárra vaxta. Bankalán = bankarán. Þetta Glitnis"rán" er smotterí í samanburði við það raunverulega rán og það mun standa yfir um ókomin ár.
Bankaræninginn ógurlegi
(24 Stundir, 4. október)
Gestur í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður Jón Gerald Sullumberger eða hvað hann heitir nú annars sá ágæti maður. Jón þessi Kerald Shullendvergur er nýbúinn að skella tveimur mögnuðum sannsögulegum bíómyndum um fjárhúsið Glitni inná youtube í dolby steríó og þrívídd (http://www.youtube.com/watch?v=ffaLd1dkq2U). Þegar maður horfir á þessar óhugnanlegu glæpamyndir þá dettur manni í hug skammstöfunin S.O.S., - Sukk Og Svínarí. Verður þessi syrpa í þremur hlutum einsog The Godfather eða ætlar hann að hætta á toppnum? Er Jón Násker búinn að kaupa kvikmyndaréttinn að ævisögu Jóns Gímalds eða var Jóhannes í Bóner fyrri til? Við þessum áleitnu spurningum þarf að fá skýr svör. Það er við hæfi að ræða þessar óhugnanlegu kvikmyndir og margt annað bisnesstengt við Jón Rekald Spielberger eða hvað hann heitir nú annars þessi ágæti maður.
Svo mun Geiri á Goldfinger kíkja við með vel sleiktar skonsur undir arminum og ræða fjárfestingarfyrirtæki sitt Straumur Hurðarás um öxl en það kompaní var einmitt að festa kaup á nokkrum gámum af flottum blöðrum frá Litháen og Léttlandi.
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.10.2008 | 09:05
Vonlaus fegrunaraðgerð
Jakob Frímann miðborgarstjóri á ekki létt verk fyrir höndum. Hann á að breyta ljótustu miðborg norðan Suðurpóls í ljótustu miðborg norðan Alpafjalla.
Og hvernig á þessi lýtaaðgerð að fara fram? Með því að brenna borgina til grunna? Nei, það væri vissulega góð byrjun, en það á semsé að taka spreibrúsa af listrænum unglingum. Það á að vera fyrsta skrefið. (Væri ekki nær að taka spreibrúsana af lögreglunni?)
Svo á að setja sæta plástra á opin svöðusár sem eru út um allt í miðbænum. Alltsaman tilgangslausar bráðabirgðaaðgerðir.
Íslensk húsagerðarlist
Vandinn er ekki fólginn í spreibrúsakrökkum heldur skipulags"sérfræðingum" borgarinnar og íslenskum arkitektum og almennu séríslensku smekkleysi. Hér ægir öllu saman: Litlir ljótir Hans-og-Grétu-kofar við hliðina á ennþá smekklausari og andlausari glerbyggingum. Hverjir aðrir en Íslendingar hefðu plantað stíllausum glerklumpi á milli Apóteksins og Hótel Borgar? Eða bankaklumpi í Lækjargötu á milli Iðnó og fjörgamals krúttlegs piparkökuhúss? Eða nútíma tannlæknabyggingu við sömu götu við hliðina á gamla hornhúsinu sem brann?
Lækjargata er líklega hlæjilegasta gata í Evrópu. Þar ægir saman öllum stílum í fullkominni dellu, en þetta á víst að heita Main Street Reykjavíkur, sú gata sem hér áðurfyrr skipti borginni í vestur og austur.
Það er engin heildarmynd á neinu, bara hryggðarmynd. Borgin er rugl. Meiraðsegja sjálft Óráðhúsið er einsog blanda af stórkallalegum hermannabragga og grísku hofi og rústar alveg heildarmynd hinnar snotru Tjarnargötu. Hofbragginn sem slíkur er ókey en rímar ekki við umhverfið, í raun alveg úr tengslum við umhverfið einsog fólkið sem þar er innandyra. Perlan er með því smartara hér í borg en hún myndi varla sóma sér vel niðrí Aðalstræti frekar en gamla Mogga"höllin."
Borgir mættu gjarnan vera í uppbyggingu og stíl einsog ljóð eftir Tómas Guðmundsson. Maður segir helst ekki:
Tilvera okkar er undarlegt ferðalag,
við erum gestir sem dá sig.
Einir koma og aðrir fara í dag
og ég er að skíta á mig.
After Before
Það verður að vera eitthvert vitrænt og listrænt samræmi í hlutunum og einhver heildar strúktúr sem gengur upp einsog krossgáta.
Þessi nýja fegrunaraðgerð miðborgarinnar er einsog að ráða mann til að ryksuga öskuhaugana. Hvað stoðar að meika herfu? Borgin er einsog greppitrýnið á Michael Jackson og við verðum bara að feisa" það. Hún er vonlaust tilfelli sem hvorki Kobbi né hans hægri hönd, guð almáttugur, getur fegrað úr þessu.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 17.maí síðastliðinn. Hefur borgin eitthvað fríkkað síðan þá?)
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn enginn annar en stórtenórinn Kristján Jóhannsson. Þó ég hafi sagt í málsháttabók minni: "Betri eru kynórar en tenórar," þá slagar Stjáni langt uppí rakan draum enda með bestu söngvurum sem Akureyri hefur alið. Hann er um þessar mundir að syngja óperuna Ommolettó í Nýja Bíói fyrir fullum kofa og ég ætla t.d. að spyrja hann út í það ævintýri og hvort hann væri til í að halda styrktartónleika fyrir íslensku "auðkýfingana" (ofurbótaþegana) sem nú eru að missa allt sitt, - og meira til í buxurnar. Er Dabbi saklaus englakrullóttur sprelligosi á einhjóli með lúður eða er hann kaldrifjaður bankaræningi sem vill vaða í Jón Ásgeir með vélsög og gleypa hann með húð og hári, einsog Jón sjálfur vill meina? Er Dabbi með stærra gin en Ljón Ásgeir? Þessu getur að sjálfsögðu enginn svarað nema Kristján Jóhannsson stórtenór og stórlax, innsti koppur í búri íslenskra yfirmafíósa.
Fyrri þætti má finna á síðu minni: www.stormsker.net
3 síðustu verða komnir inn annað kvöld.
Bloggar | Breytt 2.10.2008 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.9.2008 | 06:31
Sannkristnir fjöldamorðingjar í Hvíta Húsinu
Senn lætur Bush af embætti forseta Bandaríkjanna. Hann segist útvalinn af guði til að leiða mannkynið í ljósið, - og er þá líklega að tala um hið skæra ljós kjarnorkusprengjunnar. Gáfnaljósið Bush hefur ekki drepið nema um nokkra tugi þúsunda óbreyttra borgara í Írak, sem þykir frekar slappur árangur hjá svo trúuðum leiðtoga.
Ljós heimsins
Næsti forseti Bandaríkjanna verður John McCain sálugi sem er með annan fótinn í gröfinni. Þegar báðir fæturnir verða komnir þangað þá tekur varaforsetinn Sarah Palin við en hún er sannkristin mannvitsbrekka einsog Bússi.
Hún vill engin höft á byssueign. Segir að stríðið í Írak sé verk guðs. (Það er reyndar verk Bússa en hann er handbendi guðs). Hún hafnar gróðurhúsaáhrifunum. Er á móti hjónaböndum samkynhneigðra. Er fylgjandi dauðarefsingum. Er afar stolt af því að sonur sinn sé slátrari í Írak. Drepur dýr, sem skotveiðisjúklingur, sér til skemmtunnar. Er skilyrðislaust á móti fóstureyðingum. Vill bara drepa fædda einstaklinga, enda sannkristin manneskja. Segir að stríð við Rússa komi vel til greina. Hafnar þróunarkenningunni og vill að við förum 200 ár aftur í tímann og förum að kenna sköpunarsögu Biblíunnar sem vísindi í skólum. (Ætli hún sé Íslendingur?) Hún sagðist hafa notað Gamla testamentið sem leiðarvísi um það hvernig hún ætti að stjórna Alaska. (Er Palin galin?) Þetta kallast víst í USA að vera til hægri. Ég kalla þetta að vera með hausinn á bólakafi uppí borunni á sér.
(Vel að merkja: Þótt ótrúlegt megi virðast þá er allt sem hér er sagt um Palin satt og rétt. Engar lygar. Engar blogdylgjur og rugl!)
Þessi pistill birtist í 24 stundum, 20. september.
Gestur minn í síðasta þætti "Miðjunnar" á Útvarpi Sögu fm 99.4 var Jóhann Helgason. Í dag milli kl. 16:00 og 18:00 kemur hinn helmingurinn, semsé Magnús Þór Sigmundsson. Þau eru ófá góðu lögin sem steinliggja eftir Magga. Spurningarnar eru ekki færri sem brýnt er að fá svör við: Eru álfar kannski menn? Hvar er sveitin mín? Hvar er hóllinn minn? Hvar er húfan mín? Er Ísland land þitt eða mitt? Hvenær býstu við að Hómer Simpson verði forseti Bandaríkjanna?
Síðustu 2 þættir verða komnir inn á: www.stormsker.net í þessari viku.
Bloggar | Breytt 2.10.2008 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
17.9.2008 | 06:46
Dagbækur Matthíasar og Framsóknarflokkurinn
Dagbækur Matthíasar eru um margt mikil skemmtilesning þó það hafi eflaust ekki verið ætlun hans, enda fv. ritstjóri Moggans. Ein fyndnasta færslan er þegar framsóknarmaðurinn Helgi S. Guðmundsson fv. formaður bankaráðs Landsbankans kemur áhyggjufullur á fund þeirra Matta og Styrmis til að fá ráð hjá þeim við því hvernig hann eigi að hrista af sér þær fullyrðingar Sverris Hermannssonar sem ýmsir virtust taka trúanlegar, að hann væri hálfviti." Matti og Styrmir sögðu honum að það væri erfitt að hrista slíkt af sér." Þar töluðu reynsluríkir menn. Konan mín segir að ég sé ekki hálfviti, sagði Helgi."
Og Matti heldur áfram: Þess má geta til gamans að Helgi sagði okkur að hann hefði verið í Heimdalli á sínum tíma en farið úr honum vegna þess að honum leizt ekki á blikuna, taldi að þar væru of margir ofjarlar hans og hann mundi ekki komast neitt áfram þar í flokki!! Einn þessara ofjarla var víst Styrmir Gunnarsson sem hafði gegnt formennsku í Heimdalli! Helgi sneri sér þá að Framsóknarflokknum og þar hefur honum vel vegnað."
Dvergar fara í lítil föt. Matti er þarna að lýsa á raunsæan hátt hverskonar fólk það er sem gengur í Framsóknarflokkinn. Lagið "I´m a loser" með Bítlunum kemur ósjálfrátt uppí hugann, svo og bókin "Aulabandalagið" eftir John Kennedy Toole.
Þar eð ég var heimagangur hjá Matta þegar ég var polli þá vil ég nota hér tækifærið og færa honum og fjölskyldu hans mínar bestu kveðjur.
Dverga(úr)kast
Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 23. ágúst.
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu fm 99.4 milli kl. 16:00 og 18:00 verður gestur minn söngvarinn og lagasmiðurinn góðkunni Jóhann Helgason. Eftir Jóa liggja fjölmörg frábær lög, svosem Karen Karen Karen Karen Karen Karen, Ástarsorg, Ég gef þér allt mitt líf, Söknuður og fleiri. Nú hefur einhver vondur maður útí heimi rænt laginu Söknuður og þess er ákaft saknað. Ég ætla að forvitnast um þetta skuggalega mál svo og mörg önnur glæpamál, t.d. hvort honum finnist koma til greina að sameina Kaupþing og Búnaðarbankann, nú eða Glitni og Lýsingu, nú eða jafnvel Seðlabankann og Sparisjóð Vestfirðinga.
Fyrri þætti má nálgast á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.9.2008 | 07:18
Hjálpum útlendingum, ekki Íslendingum
Það hefur margt jákvætt verið í fréttum undanfarna daga. Paul Ramses var t.d. heimtur úr viðbjóðslegu ítölsku hóteli þar sem hann þurfti að borða pizzur og pastaóþverra og fara í sturtu þrisvar á dag. Hræðilegt.
Þegar hann lenti hér á klakanum þá kyssti hann að sjálfsögðu flugstöðina og flugvöllinn í bak og fyrir einsog aðrir páfar. Ég hélt fyrst að þetta væri opinber heimsókn einhvers heimsfrægs blökkumannaleiðtoga en svo kom uppúr dúrnum að þetta var Paul Ramsens eða Ramstein eða Rambó eða hvað hann heitir nú þessi frómi sannsögli flóttamaður. Hefði hann verið sendur til Kenya, paradísar skotveiðimannsins, þá hefði hann vitaskuld verið eltur uppi af safaríveiðimönnum á jeppum og plaffaður niður.
Fleira jákvætt: Jóhanna Kristjónsdóttir safnaði tugum milljóna handa fátæku fólki hinumegin á hnettinum. Ekkert hefði komið í kassann hefði hún reynt að safna aurum handa fátækum Íslendingum, nema náttúrulega ef þeir hefðu misst allt sitt í snjóflóði. Þá hefði opnast fyrir flóðgáttir seðla.
Sjálfur er ég búinn að vera að hjálpa Nígeríunegrum með ómældum fjárframlögum svo þeir geti leyst út einhvern milljarðaarf eða eitthvað þessháttar. Þarf endilega að fá Bubba með mér í þessa arðbæru fjárfestingu.
Fleira jákvætt: Íslenskir utangarðsmenn í Reykjavík hafa fundið sér huggulegan ruslagám í miðbænum sem svefnstað svo það mun því pottþétt ekki væsa um þessa ágætu starfsstétt í vetur.
(Þessi pistill birtist í 24 Stundum, 6. september)
Í þætti mínum "Miðjan" á Útvarpi Sögu FM 99.4 í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00, verður gestur minn enginn annar en tónlistarmaðurinn og sjóræninginn síkáti Gylfi Ægisson. Gylfi hefur átt mörg klassísk lög einsog t.d. Í sól og sumaryl, Minning um mann og Stolt siglir fleyið mitt, en hann hefur einnig átt kærustur í hverri höfn enda siglt um öll heimsins höf. Hann mun segja mér af svaðilförum sínum í rúminu og úti á rúmsjó þar sem hann hefur margoft þurft að berjast við allskyns skrímsl. Þær eru ófáar hámerarnar sem hann hefur glímt við og þeir eru ófáir mannætuhákarlarnir sem hann hefur snúið úr hálsliðnum.
Fyrri þætti má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt 11.9.2008 kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
27.8.2008 | 07:03
Feministur
Feministar hafa barist fyrir mörgu greindarlegu síðustu ár, t.d. því að börn á fæðingardeildum klæðist fötum í kynlausum litum; drengir skulu allsekki vera í bláum fötum og stúlkur allsekki í bleikum því þetta geti haft gríðarleg áhrif á afkomumöguleika stúlknanna í framtíðinni að sögn feminista. Augljóst.
Fleiri dæmi: Feministum finnst mjög niðurlægjandi að konur kallist ráðherrar." Konur tilheyri nefnilega ekki mannkyninu heldur kvenkyninu. Ég stakk uppá starfsheitinu ráðherfa" og þær hljóta að vera mjög ánægðar með það. Feministar kvörtuðu mikið yfir Smáralindarbæklingi en þar sást stúlka beygja sig eftir dóti. Stúlkur eiga ekki að beygja sig á myndum því þá er auðvitað verið að gefa til kynna að þær séu hórur.
Feministar fóru fram á að svæsin Toyota auglýsing yrði bönnuð en þar sást kona með pilsið svo langt upp um sig að það sást meiraðsegja í hnén á henni. Ógeðslegt. Feministar sögðu að það væri verið að hlutgera líkama kvenna. Einmitt. Toyota fór að tilmælum feminista og fjarlægði auglýsinguna, sem sýnir að það er til nokkuð sem heitir karlkellingar. Svoleiðis tuskur lúffa fyrir hverskyns rugli af ótta við að vera stimplaðar karlrembusvín. Ef fólki finnst öfgafeministar slæmir og allar þeirra hugmyndir, þá myndi ég nú segja að karlkellingarnar sem framfylgja kröfum þeirra væru 10 sinnum verri, - því slæm hugmynd er bara slæm hugmynd, en það að framkvæma slæma hugmynd af ótta við karlrembusvínsstimpilinn er alveg yfirmáta aulalegt. Öfgafeminismi er vondur í orði, en verri á borði.
Feministum hefur tekist að breyta sjálfri Biblíunni á þann hátt að ef Krissi segir t.d: Hey bræður, eru ekki allir í stuði?" þá er það í dag: Hey bræður og systur, eru ekki allir í stuði?," jafnvel þó engar systur hafi verið á svæðinu.
Orðið feministi" er karlkyns orð og því ber að breyta á stundinni í feminista," - hún femínistan. Must! Algjört Must!
Þessi pistill birtist í 24 stundum 9. ágúst, án djókmyndanna.
Minni á þátt minn "Miðjuna" á Útvarpi Sögu fm 99.4 í dag, miðvikudag, milli kl. 16:00 og 18:00. Gestur minn að þessu sinni verður enginn annar en söngvaskáldið hárprúða Bjartmar Guðlaugsson. Munum spjalla um allt milli himins og jarðar, t.d. afhverju mömmur geifli alltaf á sér munninn þegar þær maskara augun og hvort borgarstjórinn í Reykjavík megi láta sjá sig á kaffihúsum í borginni eða eingöngu á Goldfinger í Kópavogi og hvort það eigi að grafa göng milli Vestmannaeyja og Grímseyjar.
Fyrri "Miðjur" má finna á: www.stormsker.net
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)