Maður getur grætt milljarða á "mistökum"

bjarni_engill.jpgÉg skrifaði til gamans niður hluta af Kastljósviðtali sem Sigmar Guðmunds átti við Bjarna Ármanns fyrir stuttu. Allt annað að sjá þetta svona á prenti. Verður hálf hlálegt. Auðveldara að sjá í gegnum froðuna. Ég hef þetta algerlega orðrétt en innskot innan sviga eru hinsvegar mín.

 

Bjarni: „Það varð mikill vöxtur á löngu tímabili hér á landi og eitt af því sem ég lagði upp með var að launakjör héldust í hönd við þann árangur sem að fyrirtækin og menn voru að ná - og ég held að það sem fór úr böndunum sé tvennt: Annarsvegar það að fjárhæðirnar sem slíkar urðu of háar, (þær urðu ekki of háar fyrir slysni, þær voru hækkaðar af bankastjórunum) og hinsvegar að líklega var maður að ofmeta mikilvægi einstaklingsins í að ná þeim árangri sem náðist (sem var að setja bankann á hausinn) og þá er ég ekki að undanskilja sjálfan mig í því." (Semsé: „Mistök").

Bjarni: „Við gengum úr þeim viðmiðunum sem samfélagið hafði um launakjör. Tölurrnar urðu einfaldlega miklu stærri en nokkurn óraði fyrir." (Endurtek: Þær urðu ekki of háar. Þær voru hækkaðar af bankastjórunum. En semsé: „Mistök")

bjarni_med_fenginn.jpgBjarni: „Jú þetta kallast græðgi á góðri íslensku." (og væntanlega „mistök").

Bjarni: „Græðgi er einn af þeim kröftum sem drífur svona kerfi áfram, og hún er ekki alslæm í sjálfu sér, en auðvitað má hún ekki vera of mikils ráðandi, en sem er klárlega það sem gerðist."  (Semsé: „Mistök")

Sigmar vitnar í nýlega „sorry"blaðagrein Bjarna: „Þú ert að lýsa alveg hreint órúlegum sofandahætti, Svo ég noti nú bara þín eigin orð Bjarni: Þið voruð of sókndjarfir, þið bjugguð til launakerfi sem fór úr böndunum, þið ástunduð einhverskonar hjarðhegðun, ykkur skorti skilning til að lesa samfélagið, þið sköpuðuð of veikan grunn til að standast sviptingarnar, þið létuð glepjast af hraða og skammtímaárangri og misstuð sjónar á langtímahagsmunum og gildum samfélagsins. Í ljósi þessa er þá ekki galið að þið séuð að fá fleiri hundruð milljónir fyrir það að vera í raun svona vankaðir?"

Bjarni: „Það er alveg ein leið til að líta á þetta og alls ekki röng túlkun á því sem ég er að segja... það er alveg klárt að við fórum fram úr okkur sjálfum. Það má líka lýsa þessu sem sofandahætti."  (Nei, frekar sem „mistökum." Það kemur betur út).

bisness_771358.gifSigmar: „Er ekki ósanngjarnt að þið sem gátuð farið út úr kerfinu á réttum tíma að þið skuluð sitja með svona mikla peninga á milli handanna á meðan almenningur er að verða fyrir allri þessarri lífskjararýrnun á sama tíma? Þú ert búinn að vera með á árabilinu 2004 - 2007 heilar 900 milljónir í laun og þú ert líka að selja hlutabréf fyrir marga milljarða. Þú ert sjálfsagt búinn að ganga út úr bankanum með fleiri fleiri milljarða."

Bjarni: „Ég held að það sé alveg rétt lýsing að segja að það sé ósanngjarnt. Og það er kannski það sem ég er að gera í þessarri grein, er að horfa gagnrýnið á sjálfan mig í því ljósi sem hefur gerst þ.e.a.s. að kerfið hefur hrunið og það er verið að leggja hér álögur á fólk sem hefur ekkert til þess unnið."  (Smá tæknileg „mistök")

Sigmar: „Og hvernig ætla menn að bregðast við því? Það er ekki nóg að segja bara í einhverri Fréttablaðsgrein „Mér þykir þetta leitt"?

Bjarni: „Nei nei. Það er alveg hárrétt. Og auðvitað er ég, alveg frá því að þessir atburðir gerðust í haust, búinn að hugsa „hvað gerði maður rangt og hvar hugsaði maður hlutina vitlaust og hvað getur maður gert til að bæta fyrir það og hvernig getur maður komið á svona nýju gildismati ef svo má segja, þó ekki sé nema hjá sjálfum sér. Og mín niðurstaða var sú...að greiða Glitni til baka þær greiðslur sem ég hafði fengið eftir að ég lauk mínum starfskyldum hjá Glitni, 370 milljónir." (Jibbííí! Málið dautt).

Sigmar: „Og finnst þér þar með nóg að gert í ljósi þess að þú ert búinn að hafa miklu meiri tekjur af fyrirtækinu í formi sölu hlutabréfa?"

Bjarni: „Ja sko einhversstaðar...einhversstaðar verður maður að horfa á hlutina í samhengi og hvað maður hefur gert...uuuu...ég horfi á mál sem mér finnst vera mistök hjá mér, en ég er auðvitað ekki að segja að ef að ég hefði ekki gert þessi mistök þá hefði kerfið ekki hrunið. Það eru auðvitað fjölmargir þættir sem þar koma inní, bæði annarsstaðar frá sem og frá öðrum aðilum. (Já, það eru svona um 30 aðrar útrásarhetjur sem lögðu hönd á plóginn við að koma landinu til helvítis). En ef ég horfi á þessar tölur í samhengi við það sem þú nefnir og dregur upp að þá sýnist mér svona gróft að ef ég tek þau laun og þá bónusa og alla þá kauprétti sem ég hef fengið á því 10 ára tímabili sem ég starfaði hjá bankanum og skitnir_771360.pngfyrirrennurum hans og dreg frá þá skatta og skyldur sem ég hef greitt til samfélagsins á þeim tíma þá jafngildir þessi greiðsla (370 millur) um helmingi af þeim greiðslum sem ég hef fengið í minn hlut." (Skiptimynt miðað við það sem hann hefur sogið út úr bankanum).

Sigmar: „Helmingi af öllum þeim greiðslum sem þú hefur fengið sem stjórnandi bankans?"

Bjarni: „Já."

Bjarni: „Ég er reiður út í sjálfan mig fyrir að hafa trúað of mikið á það góða, (græðgina) þ.e.a.s. að markaðurinn gæti haft eftirlit með sjálfum sér og að markaðsaðilar sæju langtímahagsmunina í því en það var ekki raunin. Ég sá það ekki einusinni sjálfur."  (Með kíkinn fyrir blinda auganu. Semsé: „Mistök").

Bjarni: „Við ofmátum virkni markaða." (Það voru nú bara smá „mistök").       

Sigmar: „Eins og þú ert búinn að lýsa þessu: Þú ert áhættusækinn, þú ert sókndjarfur, þú ferð glannalega og þú lest stöðuna ekki rétt og svo koma einhverjir inn (Jón Ásgeir og Hannes Smára) sem eru hvað - VERRI en þú?! Ég er að reyna að draga upp þessa mynd af því að þú ert búinn að lýsa þínum ákvörðunum sem kolröngum sko, og svo koma einhverjir aðrir sem eru ennþá verri?"

Bjarni:  „Já það má alveg draga upp þá mynd, því að síðan fór kerfið í enn meiri vöxt og gjaldmiðillinn okkar lenti í miklum hremmingum og við soguðumst inní spíral sem við náðum ekki að vinda ofan af sem þjóð." (Kerfið fór ekki af sjálfu sér í enn meiri vöxt. Vaxtaræktarhetjur útrásarinnar stútfylltu það af sterum).

hannes_smarason_og_jon_sgeir.jpgSigmar:  „En þessir menn sem fóru ekki svona varlega Bjarni, þú fórst seinna í samstarf með þeim stuttu síðar í REI-málinu, þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hannesi Smárasyni."

Bjarni:  „Það er rétt." (Alveg óviljandi „mistök").

Sigmar:  „Þú virðist þá ekki hafa lært mikið af því að hafa verið varkárari aðilinn þarna nokkrum mánuðum fyrr?"

Bjarni:  „Nei það má svo sem alveg segja það. Og ég get svo sem ekkert litið á þetta REI-mál annað en sem stórkostleg Mistök, hvort sem er af minni hálfu eða annarra, - af minni hálfu í fyrsta lagi bara að þiggja það að koma inn í þetta mál. Í öðru lagi að vera þátttakandi í því og keyra þetta mál áfram á þeim hraða sem gert var." (Og afhverju var það keyrt áfram á svona miklum hraða? Vegna þess að þeir ætluðu að sölsa undir sig auðlindir þjóðarinnar).

Sigmar:  „Gerðir þú ekki meira heldur en að koma þarna inn? Varst þú ekki ákveðið hreyfiafl og drifkraftur í að keyra þetta allt í gegn?"

Bjarni:  „Jú. Ég taldi þetta vera rétta leið. Og það var líka röng ákvörðun að fara í samruna við Geysi Green Energy og draga þar semsagt draga semsagt FL að borðinu sem hluthafa.

Og þá er semsagt ekkert annað við því að gerast eða bregðast en að heldur en að horfa á þá stöðu og gera það sem hérna gerðist þar að segja sig frá málinu og hverfa á braut." (Voðalegt tafs er þetta þegar kemur að Geysi Green og FL Group).

Sigmar:  „En þú varst náttúrulega lengi að móast, þú vildir halda þessu til streitu, lengi, svo mánuðum skipti?"

Bjarni:  „Nei. Ég taldi semsagt rétt að gera þetta, en þegar að það var ekki vilji til þess af hálfu Orkveitunnar lengur að þá að sjálfsögðu bauðst ég til að draga mig í hlé..og var beðinn um að vera eitthvað áfram en fór bara frá málinu."

 

hannes-smara-og-bjarni-armanns.gifÞann 6. okt. 2007 var Fréttablaðs-viðtal við vinina Bjarna og Hannes Smárason. Bjarni var þá  stjórnarformaður REI og Hannes Smárason var forstjóri FL Group og stjórnarformaður Geysis Green Energy. Þeir vinir sögðu þar að sameining fyrirtækjanna hefði verið afar skynsamleg og „rosalega spennandi."

Auðvitað er „rosalega spennandi" að hirða íslensk orkufyrirtæki. Í kjölfarið ætluðu þeir sér að fara í kröftuga útrás og ná undir sig raforkufyrirtækjum og orkulindum annarra þjóða: „Við erum þegar með í pípunum fjárfestingar í fjórum heimsálfum og verulega metnaðarfull markmið til komandi ára..."

Viðhorf þeirra til Íslands lýsir sér vel í þessum orðum: „Þetta snýst um að fjárfesta í virkjunum víðsvegar um heim og kemur Íslandi ekki við, nema að því leyti sem snýr að þekkingunni og baklandinu hvað það snertir."

ossuraforsiduthjodlifs.jpgÞeir voru búnir að plata gamla góða Villa borgarstjóra alveg uppúr skónum, en sexmenningarnir í borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins stoppuðu þetta glæfraspil (landráð?) af á síðustu stundu og fengu miklar skammir í hattinn, sérstaklega frá Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra. Össuri fannst nefnilega alveg frábært að draga furðufyrirbærið FL Group inní REI og kallaði það „viðskiptalega snilld." Það þarf ekki að taka það fram að hann situr ennþá, að sjálfsögðu.

Bjarni Ármanns trompaðist þegar sexmenningunum tókst að stöðva glæpinn. Þann 1. nóv. 2007 sagði hann í viðtali við visir.is að hann teldi ákvörðun Borgarráðs ranga: "Ég er ekki í pólitík en mér virðist sem það sé verið að kasta verulegum fjármunum á glæ með þessari ákvörðun." Það er rétt að HANN varð af „verulegum fjármunum" en hann var ekkert að hugsa um það hvort að þjóðin væri með þessu að „kasta verulegum fjármunum á glæ." Í veftímaritinu Deiglunni sakaði hann sexmenningana um að hafa skaðað ímynd íslenskra orkufyrirtækja á alþjóðavettvangi. Í dag kallar hann hinsvegar þetta REI-mál allt „stórkostleg mistök."

Stórrán sem mistekst er auðvitað „stórkostleg mistök." Hefði ránið hinsvegar tekist væri það „rosalega spennandi" og „viðskiptaleg snilld."

 

Aftur að Kastljósi:

bjarni_clouseau.jpgSigmar:  „En nú ert þú búinn að fara yfir þessa sögu svolítið svona gróflega og það eru mistök og mistök og mistök og mistök á mistök ofan Bjarni, sko...ég meina, hversu góður viðskiptamaður ertu þegar þú ert búinn að rekja þetta allt?"

Bjarni:  „Það auðvitað svo sem bara sést þegar horft er yfir einhverja heildarmynd sko." (Hryllingsmynd).

Sigmar:  „Er þetta ekki falleinkunn?"

Bjarni:  „Ég vil ekki meina að þau 10 ár sem ég er að stjórna FBA og síðan Íslandsbanka FBA og svo Glitni hafi verið tóm katastrófa eða bara röð mistaka. Ég vil meina að þarna hafi verið byggt upp sterkt og gott fyrirtæki."

Sigmar:  „Sem að hrundi."

Bjarni:  „Já, sem að hrundi." (Mjög STERK og GÓÐ fyrirtæki hrynja alltaf einsog spilaborgir sé blakað við þeim).

Sigmar:  „Við endum alltaf þar."

bjarni ármanns eftir öll mistökin.jpgBjarni:  „Inní þessum hérna, inní þessari uppbyggingu voru punktar veikleika sem urðu okkur að falli. Það er alveg klárt. Og þessvegna er ég að koma fram og skýra frá þessu og þetta er í mínum huga einlægt uppgjör og og og þetta er ekki..."(Segðu það bara, þetta voru bara alltsaman smá „mistök").

Sigmar: „Þú ert að gefa sjálfum þér falleinkunn samt? Ég ætla bara að fá þig til að meta sjálfan þig. Er þetta ekki falleinkunn?"

Bjarni:  „Ja, fyrirtækið er komið í greiðslustöðvun þannig að það getur í sjálfu sér ekki verið neitt annað, þannig að sá ferill sem ég hef hvað þetta varðar er að hafa byggt upp fyrirtækið sem síðan, sem síðan féll og það er auðvitað það sem ég lifi með."

 

Þjóðin lifir með þessu líka, en munurinn er kannski sá að heimilin hafa ekki milljarða í vasanum, nema í formi skulda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Bjarni má nú eiga það að hann allavega viður kennir að þetta voru mistök. Það mættu fleiri gera. Ég á erfitt með að dæma menn fyrir græðgi þegar ég hef oft sjálfur fallið í þá gildru. En hinsvegar gat ég áttað mig á því að þegar nóg var komið þá þurfti ég ekkert meir á græðgini að halda.

Offari, 15.1.2009 kl. 12:55

2 Smámynd: Sverrir Stormsker

Allir menn eru gráðugir (bara mis mikið), og ég er þar engin undantekning og því vil ég ekki dæma Bjarna til húðstrýkingar á Lækjartorgi jafnvel þótt biblían tali um græðgi sem eina af dauðadyndunum 7.

Bjarni er ekkert verri en aðrir menn en hann var bara svo óheppinn að vinna í banka og gera svolítið mörg "mistök" sem urðu til þess að hann varð milljarðamæringur.

Hefði hann gert aðeins fleiri "mistök" þá væri hann núna með orkulindir Íslendinga í vasanum og Íslendingar ennþá fátækari.

Sverrir Stormsker, 15.1.2009 kl. 13:38

3 Smámynd: Ransu

Takk fyrir þetta.  Ég sá ekki viðtalið og met það að geta lesið það hér (og með skondnum athugasemdum

Hvað varðar græðgina að þá segir Bjarni  "Græðgi er einn af þeim kröftum sem drífur svona kerfi áfram, og hún er ekki alslæm í sjálfu sér..."

Það var auðvitað vitað mál að þegar bankarnir fóru í einkaeign að þá snérist þetta ekki lengur  um að þjónusta við almenning heldur hluteigendur bankanna.

En þvílík firra að líta á græðgi sem eðlilegan drifkraft í fyrirtækjarekstri.

Ég sem hélt að menn hefðu einfaldlega fallið fyrir freistingunum en ekki að þær væru viðtekið rekstrarform eða dyggð innan bankageirans.

Ég er bara hneikslaður!

Ransu, 15.1.2009 kl. 14:08

4 Smámynd: Ingólfur Þór Guðmundsson

Myndin af Össuri í Þjóðlífi, er alveg mögnuð !!!

Fyrst við erum allaveganna komin 30 ár aftur í tímann, ættum við þá kannski ekki bara að fara að hans ráðum, og láta vaða í fiskeldið.

og GRÆÐA MILLJARÐA !  hehe

Ingólfur Þór Guðmundsson, 15.1.2009 kl. 16:01

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Helgi Ólafsson, hinn stórminnugi stórmeistari í skák sagði í viðtali við Bylgjuna að hann mundi eftir sams konar játningu frá sama manni í sama þætti árið 2001 þar sem að hann lofaði að bæta vinnubrögðin.

Það væri áhugavert að komast yfir það viðtal.

http://vefmidlar.visir.is/vefUtvarp/?channelID=BYLGJAN&programID=61446dd0-f6af-40f1-8558-b443049df917&mediaSourceID=8c8841ec-4778-4be6-bdae-e2d97c425d84

Þú þarft að skrolla 1 klukkutíma og 20 mín til að heyra viðtalið við Helga.

Hrannar Baldursson, 15.1.2009 kl. 20:09

6 Smámynd: Jónas Jónasson

JA en Bjarni er svo góður maður, hann skilaði helmingnum af starfslokasamningnum sem var 370 millj. sammála með skiptiminntina en ath. eitt Sverrir, hann fór með mikið fé út úr landinu og kom með eitthvað aftur. Þannig að þessar 7-800 millj. urðu að 1500-2000 millj vegna þess að Ísl. krónan er  gersaml. hrunin þegar hann kemur aftur. Ein spurning: af hverju kom hann ekki með peninginn strax í okt? Vegna þess að græðgin hélt peningunum í gíslingu þar til hann hefur byrjað að ÓTTAST styrkingu krónunnar og hann hefur greinilega selt sér þá hugmynd að honum tækist að endur heimta traust ísl. á þessari aðgerð. Það ætti bara að berja þessa aumingja þangað til þeir skila þýfinu!!!! ALLA!

GRÆÐGI OG ÓTTI ERU ALLTAF SAMFERÐA! 

Jónas Jónasson, 15.1.2009 kl. 21:52

7 Smámynd: Sigfús Axfjörð Sigfússon

Greinargóð og skilmerkileg skrif, takk fyrir það!

Sigfús Axfjörð Sigfússon, 15.1.2009 kl. 23:28

8 Smámynd: Baldur Hermannsson

Væru Íslendingar ekki miklu betur settir með Meistara Stormsker í Kastljósi heldur en þá Bakkabræður, Sigmar, Fíflið og Dónann?

Baldur Hermannsson, 16.1.2009 kl. 00:08

9 Smámynd: Alfreð Símonarson

Við erumm öll gráðug en þar er svolítill mikill munur á að éta mjög marga konfektmola í jólaboði eða að mergsjúga marga milljarða úr stofnunn vitandi að kúnnar og eigendur hlutabréfanna beri beinann skaða af. Mistök = ofsagræðgi blóðsugunar. Einnig góður punktur sem Jónas segir hérna fyrir ofann, hann er að borga mjög ódýrar 370 millur til baka.

Alfreð Símonarson, 16.1.2009 kl. 00:47

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

athyglisverð lesning. Það er rétt.. allt annað að sjá þetta svona á ''prenti''. Takk fyrir þetta.

Jóna Á. Gísladóttir, 16.1.2009 kl. 00:58

11 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ransu. Rétt hjá þér. Græðgin var drifkrafturinn og dreif loks landið í þrot.

Ingólfur. Jú, vöðum beint í fiskeldið úr því manneldið er farið í vaskinn.

Hrannar. Áhugavert þetta viðtal við Helga Ólafs stórmeistara. Talar um að bankarnir hafi hætt að vera þjónustuaðilar og farið að vinna við það að plata fólk og fjármagna bólur. Lántaka Bjarna Ármanns í eigin banka er svo alveg sér kapituli. Alveg gaga.  Bjarni myndi eflaust kalla það "mistök" í dag, en að sjálfsögðu mokaði hann inn á þessum "mistökum" einsog fyrri daginn.

Sverrir Stormsker, 16.1.2009 kl. 11:28

12 Smámynd: Sverrir Stormsker

Jónas. Helgi Ólafs minnist einnig á að Bjarni eigi að sjálfsögðu að skila þessum milljörðum sem hann saug út úr bankanum. Það er augljóst mál. ALLAR þessar peningasugur eiga vitaskuld að skila sínum illa fengnu fúlgum.

Sigús. Þakka þér.

Baldur. Ég hef nú bara mjög gaman af Sigmari, "Fíflinu" og "Dónanum" í Kastljósi

Alfreð. Það má segja að Bjarni hafi fengið þessar 370 millur á vægast sagt mjög hagstæðum kjörum. Þetta er djók.

Jóna. Það er oft auðveldara að sjá í gegnum froðuna þegar hún er á prenti. Þá truflar ekki englasvipurinn á viðmælandanum athyglina.

Sverrir Stormsker, 16.1.2009 kl. 11:53

13 identicon

Hef mikið verið að lesa eftir þig og hef alltaf jafnt gaman af. Þá er góð og gid ástæða fyrir því að fólk vill setja meistari fyrir framan nafnið.

Þú kannski tekur mig sem lærisvein þinn einn góðan. "lærifaðir" (hljómar vel). Vona að það myndi ekki trufla kennslurnar að ég er trúarinnar maður.

 Takk fyrir skrifin.

Ottó Örn (IP-tala skráð) 16.1.2009 kl. 13:31

14 Smámynd: Sverrir Stormsker

Ottó. Alltaf gaman að eignast nýja "lærisveina." Þeir fara að nálgast 12

Sverrir Stormsker, 16.1.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband